Hin opinbera herferð gegn Ögmundi

Sæll aftur G.Pétur. Ég svara hér með spurningu þinni á Facebook um hvort ég sé sammála ummælum Ögmundar Jónassonar um opinbera starfsmenn.

En þá að “ræðu” Ögmundar og viðbrögðunum við henni. Ég verð að segja að mér þætti fengur að því ef að BHM og BSRB brygðust jafnskjótt við og í þessu máli, þegar önnur og ekki síðri mál ber á góma. Eins og t.d. það sem raunverulega var verið að ræða í þetta skiptið á Alþingi, sem eru þær hundruðir milljóna króna sem að ESB ætlar sér að brúka hér innanlands til að blanda sér í ákvarðanatöku þjóðarinnar um hvort hún vill gerast aðili að þessum sömu samtökum eða ekki. Það efni hefði t.d. verið ærin ástæða til umfjöllunar og ályktana, en mér er til efs að ef um slíkt hefði verið ályktað af þessum sömu samtökum, að þær ályktanir hefðu verið bornar jafnskjótt út til alþýðu af fjölmiðlum og nú er raunin.

Nú vill svo til að þessa dagana blása kaldir vindar um fjölmiðla og bloggheima; úlfahjörðin hefur runnið á blóðið, nú á að ná í skottið á Ögmundi, sem skyndilega er orðinn handbendi Hádegismóa og helsti forgöngumaður þess að Hrunið fáist aldrei gert upp (!!). Sjálfur hefur þú, að mér sýnist, ekki færri en 9 fésbókarfærslur í dag, þar sem ýmsir aðilar veitast með einhverjum hætti að Ögmundi Jónassyni. Allt er leyfilegt í stríði og ástum. Mér virðist ákafi BHM og BSRB bera þess nokkuð merki að menn þar á bæ hafi látist smitast af veiðihugnum.

Þannig er alveg ljóst að í ályktun BHM er reynt að gera málstað Ömundar enn verri en ella, með heldur óþverralegum útúrsnúningi. Í ályktun “BHM” (var það ályktun stjórnar BHM? Framkvæmdastjórnar BHM? Hverjir samþykktu þennan texta eiginlega?) segir orðrétt: “BHM gerir alvarlegar athugasemdir við ummæli innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, í ræðustól Alþingis í gær (24/1). Þar lét ráðherra að því liggja að starfsmenn stjórnarráðsins væru háðir eldvatni, ferðalögum til Brussel, hóteldvöl og dagpeningum.” Ögmundur Jónasson sagði aldrei að starfsmenn stjórnarráðsins væru háðir eldvatni (brennivíni), það er hrein og bein fölsun að halda því fram, en þessi vinnubrögð styrkja það sem áður er sagt að veiðiákafinn hafi borið menn hér yfirliði.

Það var fyrirspyrjandi Ásmundur Daði Einarsson, sem færði “glerperlur og eldvatn” í tal og spurði, eðlilega, hvort ekki væri hætta á að að hið mikla fjármagn sem ESB hyggst nýta í “kynningarstarfsemi” hér á landi á næstu mánuðum muni skekki lýðræðislega umræðu í landinu?

Svar Ögmundar hófst á þessum orðum: “Fyrst vil ég taka fram að við höfum staðið gegn þessum styrkjum sem við teljum óeðlilega og þar vísa ég til innanríkisráðuneytisins sérstaklega en ég tala fyrir hönd þess til þess umhverfis sem ég þekki helst. Það er alveg rétt að það þarf að gæta jafnræðis í þessum kynningarmálum og reyndar er það fólgið í því að jafnræði ríki milli aðila innan lands en ekki að það komi utanaðkomandi aðili og heimti jafnræði á borð við okkur gagnvart þeim sem taka þátt í þessari umræðu hér. Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að stofnanakerfið ánetjist þessari umræðu, því að nú er talað um eldvatnið.

Þetta er eina tilvitnun Ögmundar í orðið “eldvatn”. Þú hlýtur að vera því sammála G.Pétur, sem réttsýnn maður, að það er engan vegin hægt að halda því fram af þessum orðum að Ögmundur Jónasson hafi látið að því liggja að starfsmenn stjórnarráðsins væru háðir brennivíni! Það hlýtur að vera, að fyrst BHM er svo annt um sóma sinn að það hlaupi upp með þessum hætti, að það biðji Ögmund Jónasson afsökunar á þessum áburði sínum.

Hvað var það annað sem að Ögmundur sagði? Hann velti því fyrir sér hvernig það má vera að “stofnanaveldið”, eins og hann kallaði það, hefur oftar enn ekki verið áköfustu talsmenn þess að ganga í ESB – á meðan almenningur hefur verið á móti. Og hann gefur sér að það sé vegna þess að þegar búið er að fljúga fólki (úr stofnanveldinu) fram og til baka frá Brussel og bera það á höndum sér og draga upp þá mynd sem ESB vill draga upp, að þá hafi það áhrif. Það er vissulega ákveðin upphefð í því að vera sá útvaldi sem fær að vera hluti af apparatinu, vera innvígður, hafa upplýsingar sem almenningur hefur ekki, og það getur auðvitað kitlað margan manninn. Það er ekki nýtt að fólk getur ánetjast því sem það upplifir sem upphefð. Orðrétt sagði Ögmundur: “Hvernig stendur á því að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins, það er mjög algeng regla, er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök eða stjórnsýslan, hlynnt (Forseti hringir.) en almenningur á móti? Það er vegna þess að það er búið að fara með flugvélafarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð (Forseti hringir.) út til Brussel þar sem menn halda við (Forseti hringir.) á kostnað ríkisins.

Ég held að þetta sé sá mergur málsins sem Ögmundur vildi færa fram. En ég held hins vegar að hann hafi kannski ekki vandað sig nóg, eða jafnvel fipast undir bjölluslætti forseta, í lokaorðum sínum. “Þetta fólk ánetjast (Forseti hringir.) Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, (Forseti hringir.) fleiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þetta sem er að gerast, það er þess vegna sem stofnanaveldið (Forseti hringir.) ánetjast Evrópusambandinu.” Og það má vel vera að Ögmundur sjái eftir þessu orðavali sínu, sem ekki var hið heppilegasta, undir það get ég tekið.

Hvað varðar síðan persónuleg viðbrögð Helgu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra BSRB, þá er það kafli út af fyrir sig að framkvæmdastjóri samtakanna tjái sig með þessum hætti. Ekki verður séð að hún hafi kallað saman framkvæmdastjórn eða stjórn BSRB vegna málsins, heldur hafi hún talað í eigin nafni.

Það sem mér þykir einnig eftirtektarvert er að bæði (stjórn?) BHM og Helga Jónsdóttir, sjá enga ástæðu til að ræða þá hluti sem til umræðu voru á Alþingi, sem voru til umræðu, hinir svokölluðu „Pre-Accession“-styrkir eða “aðlögunarstyrkir” né hugsanleg áhrif þeirra á ákvarðanatöku almennings hér á landi. Né finnst þeim ástæða til að ræða hvort hugsanleg vandamál geta verið samfara slíkum styrkjum og öðrum peningaútlátum til þeirra sem eru fulltrúar þessara samtaka í aðildarviðræðunum. Þess í stað grípa samtökin þau orð sem óheppileg eru, snúa jafnvel út úr þeim og nota tækifærið til að bera út helsta forystumann og málsvara sinna eigin samtaka, sem um leið hefur verið gegn samverkamaður BHM í áratugi. Með því er þessi “stjórn” BHM og Helga Jónsdóttir í nafni BSRB að taka þátt í þeirri aðför að Ögmundi Jónassyni, sem óneitanlega stendur sem hæst þessa dagana. Ögmundi Jónassyni getur vissulega orðið á í messunni eins og öðrum mönnum. En maður skyldi ætla að þessi samtök þekktu hann af öðru en vera hatursmaður BSRB og BHM eins og þau láta hann líta út fyrir að vera.

En út á þetta gengur herferðin núna G.Pétur - að fá að þjóðina til að trúa því að Ögmundur sé orðinn umskiptingur. Hann hatast nú við opinbera starfsmenn, hann vill ekkert frekar en að grafa allan sannleikann um Hrunið og fela hann þjóðinni. Hann vill helst af öllu ganga í björg í Hádegismóum. Þennan áróðurseld kynda menn nú sem ákafast og margir litlir leggja sín litlu sprek í þá galdrabrennu. Og mér sýnist þú því miður ekki vera undanskilinn, G.Pétur. Níu litlar færslur í dag gefa bálinu kraft. Verði þér að góðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Páll Hörður

þetta var langur lestur en skilaði litlu. Ég heyrði ræðu Ögmundar í beinni á vef Alþingis og ég velkist ekki í neinum vafa um hvað hann var að segja. Og allt rétt hjá þér um eldvatnið og tilvitnanir í það þótt að fyrirspyrjandi notaði bæði eldvatn og glerperlur sem tilvitnun í orð Ögmundar sjálfs. Orð sem voru honum sjálfum reyndar til mikillar minnkunar á sínum tíma.

Nú er enn höggið í sama knérunn. Eldvatn og glerperlur fyrir nokkrum mánuðum en nú eru opinberir starfsmenn að ánetjast Evrópusambandinu vegna dagpeninga og hótelferða. Þegar Ögmundur talar um Evrópusambandið þá er það einmitt í þessum anda. Og ég verð að viðurkenna að mér finnst Ögmundur hreint ekki með sjálfum sér þegar hann er að fjalla um Evrópusambandið. Menn skýrðu það í gamla daga með því að menn væru umskiptingar. Það er hann auðvitað ekki en ég heyri hann samt tala af meiri skynsemi og yfirvegun um flest önnur mál.

Titill pistils þíns er reyndar merkilegur. Ég er ekki í neinni opinberri herferð gegn Ögmundi. En ég læt í mér heyra ef mig langar til og það er ekki undir neinum komið nema sjálfum sér. Ég læt líka frekar í mér heyra ef stjórnmálamenn sem ég hef haft álit á valda mér vonbrigðum. Og það hefur Ögmundur svo sannarlega gert. Ég hélt satt best að segja að það væri meira spunnið í Ögmund en þessi ræða hans á Alþingi ber vitni um.

Þótt ég taki undir ýmislegt sem menn segja um þetta mál og Landsdómsmálið á Alþingi er það ekki neinn áróðurseldur. Því fer fjarri, því ef það er áróður þá er það áróður að vera óssammála Ögmundi Jónassyni. Hvernig gæti það verið? Ögmundur hefur kallað á þessa umræðu einn og óstuddur. Það eru engar galdrabrennur þótt margir séu ósammála Ögmundi, það er einfaldlega út í hött, og ég trúi því ekki að Ögmundur sé að kveinka sér undan umræðu, umræðu sem hall hlýtur að hafa átt von á.

Og Ögmund, sem hefur skipt um skoðun í Landsdómsmálinu, skora ég á að skoða það mál og líka aðild að Evrópusambandinu vel og vendilega og skipta aftur um skoðun.

G. Pétur Matthíasson (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 08:58

2 Smámynd: Páll Helgi Hannesson

Sæll G. Pétur. Það er svo sem ekki um það að fást ef lesningin hefur skilað þér litlu, það er með ýmsu hugarfari sem menn lesa texta. Ég er ekki sammála þér um að tal Ögmundar fyrir einhverjum mánuðum um glerperlur og eldvatn hafi orðið honum til minnkunnar. En það er skiljanlegt að þið, sem eruð áhugamenn um inngöngu í ESB, viljið halda umræðunni um þá fjármuni sem ESB ætlar sér að nota til "kynningarmála" hér á Íslandi í þeim farvegi.

Ég er alveg viss um að Ögmundur væri til í að sleppa öllu líkingatali um "glerperlur og eldvatn" og tala þess í stað um þær hundruðir milljóna króna sem ESB ætlar til "kynningar" hér á landi, um lýðræðislega umræðu í framhaldi af því, að uk fjármunanna sem ESB leggur í Evrópu-stofuna, hyggst ESB verja 213 milljón krónum til auglýsinga í viðbót við óþekktan fjölda kynningaferða fyrir áhrifafólk til Brussel í þeim yfirlýsta tilgangi að „eyða bæði ranghugmyndum og ótta í garð sambandsins".

Um titil bloggins, Hin opinbera herferð gegn Ögmundi, er að segja að hann er nú ekki til orðinn vegna þess hvað þú sjálfur G. Pétur, kannt að hafa skrifað eða ekki. Hann er vísun í þá uppblásnu umræðu sem að geysar eins og logi í akri, sérstaklega í kommentum á síðum eins og Eyjunni, og er síðan dyggilega dreift áfram á síðum eins og þinni. Að sjálfsögðu hefur allan rétt á þínum skoðunum og ég hvet þig endilega til að láta þær heyrast, en það er óþarfi að látast ekki taka eftir hversu fast er nú sótt að Ögmundi - og að mínu mati oft með mjög óbilgjörnum hætti og ósanngjörnum.  Nú er leitast við að draga upp mynd af Ögmundi, sem allir vita að er röng: "Hann hatast nú við opinbera starfsmenn, hann vill ekkert frekar en að grafa allan sannleikann um Hrunið og fela hann þjóðinni. Hann vill helst af öllu ganga í björg í Hádegismóum."

Þetta kalla ég áróður því menn vita vel með sjálfum sér að þessi mynd er ekki rétt. En fyrir mörgum helgar tilgangurinn meðalið. 

Páll Helgi Hannesson, 26.1.2012 kl. 10:36

3 Smámynd: Páll Helgi Hannesson

Sæll aftur G.Pétur. Og svo ég leiðrétti þig með a.m.k. eitt atriði, þá heiti ég Páll Helgi, en bróðir minn og gamall skólabróðir þinn, heitir Pétur Hörður. Það kann að hafa valdið þér ruglingi? En nóg í bili.

Páll Helgi Hannesson, 26.1.2012 kl. 10:52

4 identicon

Fyrirgefðu þetta með nafnið Páll Helgi. En það er margt skrítið með þetta áróðurstal. Ögmundur fær hörð viðbrögð af því að það var ekki að ástæðulausu, það verður ekki áróður fyrir vikið. Mikið vildi ég nú að Ögmundur íhugaði viðbrögðin, sem eru kannski mest frá fólki sem hefur haft á honum bæði mætur og trú.

Svo skil ég vel að andstæðingar ESB vilji alls ekki að Evrópusambandið kynni sjálft sig. Ég verð samt að segja að ég treysti þeim mun betur en t.d. Heimsýn.

G. Pétur Matthíasson (IP-tala skráð) 26.1.2012 kl. 20:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband