Vonirnar og VG

Það voru vissulega miklar vonir bundnar við að nýr tónn yrði sleginn í íslenskum stjórnmálum með síðbúinni innkomu VG á leiksviðið. Að VG tæki nú að sér að leiða til betri vegar hina tvístígandi Samfylkingu sem nýkomin var úr slæmum félagsskap og að úr yrði vinstri stjórn sem stæði undir nafni. Að stefnan yrði tekin á að verja velferðarsamfélagið og að gengið yrði þannig fra hnútunum að allar forsendur væru fyrir hendi að hægt yrði að hefja uppbyggingu hinnar opinberu almannaþjónustu strax að ólgusiglingu lokinni. Að opinber almannaþjónusta yrði efld og unnið að nýsköpun innan hennar á hennar eigin forsendum. Að undið yrði ofan af einkavæðingarhugsun Sjálfstæðisflokks og Framsóknar,að lært yrði af reynslunni og að það væri því sjálfsagt og jákvætt að bankar yrðu aftur færðir undir hið opinbera. Að hugmyndum um einkavæðingu vatns yrði endanlega hafnað og byggt yrði á hugmyndum um að vatn væri eign þjóðarinnar. Sem og aðrar auðlindir. Að það yrði hætt við allt tal um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Að siðferði stjórnmálanna efldist og að umræðan þar, sem og í stjórnkerfinu, yrði bæði opin og gagnrýnin. Í sem stystu máli að þá myndi VG leiða þjóðina út úr þeim vanda sem ofinn var úr blindri trú á yfirburði markaðarins.

Til þess virtist VG hafa flesta burði. Flokkurinn hafði ekki tekið þátt í dansinum í kringum gullkálfinn heldur þvert á móti barist með málefnalegum hætti og tillöguflutningi gegn þeirri vá sem íslenskt þjóðfélag hefur nú lent í. Gallar frjálshyggjuþjóðfélagsins hafa sjaldan eða aldrei verið almenningi ljósari og hljómgrunnur fyrir málstað VG því betri nú en í annan tíma. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking voru í sárum eftir að forysta þeirra og pólitík hafði brugðist og fólkið á götunni i baráttuhug eftir að hafa hrakið ríkisstjórn þeirra frá völdum.

Málalisti vonbrigða

Því miður hefur þessi von enn ekki ræst. Ríkisstjórnina hefur átakanlega skort skýra pólitíska sýn og hinn pólitíski kompás virðist hafa verið lagður til hliðar í hamagangi "björgunaraðgerðanna". Menn leyfðu skammsýnni krísustjórnun að taka völdin og hefur í þeim efnum ekki verið stór sjáanlegur munur á stjórnarháttum núverandi ríkisstjórnar og fyrrverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Á meðan hafa önnur málefni setið á hakanum.

Bara svo nokkur handahófskennd dæmi séu tekin af stórum málum sem smáum:
-Hvernig stendur á því að helsti höfundur vatnalaga Valgerðar Sverrisdóttur um einkavæðingu vatns, Karl Axelsson hrl er látinn leiða nefnd sem skilar tillögum um hvað gera skal við vatnið, bæði hið heita og kalda? Og hvað ætlar vinstri stjórnin að gera við tillögur þeirrar nefndar, einkavæða vatnið de facto eins og nefndin leggur til og fella lagaheimildir til þess undir lög um auðlindir í jörðu, sem eru ein verstu lög hinna síðari tíma?
-Hvað er að gerast með orkumálin? Af hverju er erlendum fyrirtækjum hleypt í auðlindirnar, sem nota auk þess afar vafasamar krókaleiðir beint fyrir framan nefið á fólki? Af hverju er ekki búið ad betrumbæta þá gölluðu löggjöf sem nú er i gildi?
-Hvernig stendur á því að fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem hefur haft beina hagsmuni af einkavæðingu almannaþjónustunnar og lagt fram ítrekaðar þingsályktunartillögur í þeim efnum, er gerður að yfirmanni rannsóknarstofnunar við HÍ sem á að gera tillögur um framtíð almannaþjónustunnar?
-Og hvernig stendur á því að VG í ríkisstjórn skrifar upp á svokallaðan "stöðugleikasáttmála", sem diktaður var upp undir forystu SA og ASÍ með það fyrir augum að koma Íslandi í ESB, (eins og lesa má um í skjölum ASÍ), að efla stóriðju, að einkavæða bankana á ný og sjá til þess að afleiðingarnar af hruninu verði frekar í formi niðurskurðar á velferðarkerfinu en hækkandi skatta?
-Og hvernig má það vera að VG sem stjórnmálaflokkur hafi látið það gott heita að skrifa undir fyrstu drög að IceSave samkomulaginu í andstöðu við marga þingmenn og án þess að bera það undir flokksmenn og aðra landsmenn og að forystan hafi svo leyft sér að bera út þá sem voru því verklagi andvígir?
-Getur verið að sömu pukurvinnubrögð sé uppi nú þegar AGS veitir okkur loks náð og samþykkir að afhenda löngu umsamin lán? Spyrja má um hvaða kröfur ASG hafi gert til að svo mætti verða? Ef að líkum lætur er þar að finna kröfur um frekari markaðsvæðingu á sem flestum sviðum. Gætu þannig verið gerðar kröfur um að Íbúðalánasjóði verði ekki komið til bjargar af hinu opinbera, heldur verði að opna hann fyrir markaðsöflunum? Getur verið að Steingrímur J. skrifi upp á slíka hluti í reykfylltu bakherbergi, án gagngerrar og opinnar umræðu í flokknum og samfélaginu almennt?
-Og er ekki dagljóst að ef skrifað er upp á slíka almenna pólitíska skuldbindingu í samningi við ASG að það hefur bein og heftandi áhrif á getu okkar til að ná ásættanlegum samningum við ESB, ekki síst hvað varðar almannaþjónustuna?

Þörf að efla VG?

Ég tel víst að það sé ekki aðeins meirihluti VG sem er óánægður með þessa þróun, heldur sé meirihluti þjóðarinnar óánægður. Ein skýring gæti verið sú að flokksforysta VG hafi misst sjónar á hver markmið vinstri stjórnar ættu að vera. Önnur skýring er auðvitað sú að Steingrím og samráðherra hans úr eigin flokki hafi skort styrk til að koma þessum pólitísku áherslum, sem flestar eru í samræmi við samþykktir landsfunda VG, í gegnum ríkisstjórnarflokk Samfylkingar.
Hvort sem er, þá þarf að stórefla hinar hefðbundnu áherslur VG innan ríkisstjórnarinnar. Til þess þarf Steingrímur greinilega aðstoð og í þeim efnum blasir einfaldasta lausnin við sem er að taka Ögmund Jónasson inn í ríkisstjórn og gera það af fullum heilindum og góðum hug. Hann er fremsti fulltrúi þess meirihluta VG sem er óánægður með ofangreindar áherslur ríkisstjórnarflokks VG. Um leið þarf að fara fram gegnheil umræða innan VG um stöðu flokksins og stefnu þar sem hinir almennu félagar hafa orðið og geta komið skoðunum sínum á framfæri.

Með því slær Steingrímur fleiri en eina flugu í höggi; hann styrkir stöðu VG gagnvart Samfylkingunni innan ríkisstjórnar og hann styrkir stöðu VG almennt í samfélaginu, enda nýtur Ögmundur mikils traust hjá almenningi. Steingrímur sýnir þannig að hann lætur málefnastöðu ráða umfram þá persónulegu mæðu sem honum kann að finnast að opin andstaða Ögmundar og fleiri við stefnuna í IceSave og almenn vinnubrögð flokksforystunnar, hafi skapað sér. Hann yrði því maður að meiri og styrkir eigin stöðu. Hann lægir vonandi um leið þær óánægjuöldur sem risið hafa í flokknum, enda er fátt mikilvægara en að hafa samhentan flokk á bak við sig. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur í þeim efnum.

Það dugar VG ekki að berja sér á brjóst og benda á að flokkurinn sé sá eini sem ekki beri ábyrgð skv. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Flokksforystunni væri nær að lesa skýrsluna með sjálfsgagnrýni í huga. Þar er að finna ýmsar ábendingar um vinnubrögð sem hægt væri að læra af.
Vonirnar mega ekki bara geta af ser vonbrigði.

Greinin birtist a Smugunni 24.05.2010 http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/3370


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband