Einingarlistinn í Danmörku krefst þjóðaratkvæðagreiðslu um fjármálamiðstýringu ESB

Einingarlistinn (Enhedslisten) krefst þess nú að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla í Danmörku um “fjármálapakkann” sem 26 ríki ESB hafa sameinast um. Einingarlistinn, sem er flokka lengst til vinstri á danska þinginu, styður minnihlutastjórn Helle Thorning-Schmidt. Deilur hafa verið um það í Danmörku hvort samþykkt fjármálapakkans kalli á breytingar á stjórnarskrá í Danmörku og þar með á þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni ESB eru, eins og kunnugt er, það sem leiðtogar ESB óttast öðru fremur, enda er á þeim litið á slíkar lýðræðisæfingar sem ónauðsynlegar og til trafala. Nicolai Wammen, evrópuráðherra sósialdemókrata segir nú að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ólíklegri í stöðunni en áður, Ástæða þess mun vera að Manuel Barrosso forseta framkvæmdastjórnar ESB hefur staðhæft að Danmörk muni ekki verða beitt sektum, öðrum íþyngingum né urfi landið að taka á sig nýjar skyldur, samþykki landið fjármálapakkann.

Farið á bak við kjósendur

Nicolaj Villumsen, talsmaður Einingarlistans segir hins vegar að það væri verið að fara á bak við kjósendur í Danmörku ef breyta ætti efnahagsstefnunni í landinu án þess að þeir fái að kjósa um málið. Segir hann að Helle Thorning-Schmidt hafi lofað kjósendum því að gefa efnahag landsins hressilega innspýtingu nú í upphafi kjörtímabilsins til að koma hjólum atvinnulifsins af stað á nýjan leik. Niðurskurðarhugmyndir ESB koma í veg fyrir slíkar efnahagsaðgerðir. Telur Nikolaj fráleitt að hætta við eitt helsta kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna, “bara af því að tveir leiðtogar borgaralegra ríkisstjórna í Þýskalandi og Frakklandi vilja eitthvað annað.”

Óttast vald kjósenda

Málið þykir vandræðalegt, ekki síst fyrir Sósialíska þjóðaflokkinn, SF, helsta keppinaut Einingarlistans á vinstri vængnum, sem hefur setið undir ásökunum um að hafa fórnað flestum stefnumálum sínum til að komast í ríkisstjórn. Beið flokkurinn afhroð í nýafstöðnum þingkosningum og tapaði 7 þingsætum á meðan að Einingarlistinn var helsti sigurvegari kosninganna og bætti við sig átta þingsætum. Ríkisstjórnarflokkarnir tveir eru þó studdir af öllum hægri flokkunum í þessu máli á danska þinginu, nema Danska þjóðarflokknum, og þykja því hafa vissan meirihluta verði málið afgreitt innan veggja Kristjánsborgar. Danska ríkisstjórnin óttast hins vegar, rétt eins og ríksistjórnarkollegar þeirra innan ESB, að leyfa almenningi að segja sína skoðun á “fjármálapakkanum”, en með honum er stigið stórt skref til aukins miðstjórnarvalds í höndum embættismanna framkvæmdastjórnar ESB – á kostnað lýðræðislegs valds almennings í aðildarríkjunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband