Svik Samfylkingarinnar í vatnsmálinu

Katrín Júlíusdóttir fjármála-og efnahagsráðherra og fyrrum iðnaðarráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið 16. apríl sl. og gefur í skyn að hún og “jafnaðarmenn” hafi undið ofan af einkavæðingaráformum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á vatni landsmanna. Það var að sjálfsögðu það sem kjósendur Samfylkingar og VG reiknuðu fastlega með að yrði eitt af fyrstu verkum nýrrar vinstri stjórnar. Greinin er hins vegar ósvífin tilraun af hálfu Katrínar til að þyrla ryki í augu almennings og eigna sér heiður af verkum sem hvorki hún né Samfylkingin hafa unnið. Í dag er allt grunnvatn og þar með drykkjarvatn landsmanna í einkaeigu landeiganda og hefur Katrín þó haft stöðu, tíma og þingmeirihluta til að breyta því. Það verður ekki dregin önnur ályktun en að þessari stöðu hafi hún annað hvort ekki viljað eða þorað að breyta.

Ryki kastað
Katrín hefur stutta lofgrein sína um eigin afrek með að lýsa því að “ófögur staða í auðlindamálum” hefði blasað við “jafnaðarmönnum” (les Samfylkingu?) eftir valdatíð Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks: “Heitt og kalt grunnvatn í iðrum jarðar hafði verið sett í einkaeign árið 1998, yfirborðsvatnið okkar hafði verið einkavætt með alræmdum nýjum vatnalögum árið 2006...”

Hér kastar Katrín Júlíusdóttir meðvitað ryki í augu lesenda/kjósenda með stílbrögðum: Óhæfuverk Framsóknar og Sjálfstæðismanna eru að sjálfsögðu bitur sannleikur. Það er hins vegar rökrétt að lesandi álykti þegar hér er komið sögu í greininni, að Katrín/Samfylkingin hljóti að hafa gert eitthvað í málinu; lagfært “hina ófögru stöðu”, -greinin er jú skrifuð sem afrekaskrá Katrínar og Samfylkingarinnar. En glöggir lesendur taka eftir að hún botnar aldrei málið í greinni. Hin ófagra staða var að grunnvatnið /drykkjarvatnið hafði verið sett í einkaeign landeiganda 1998. Hin ófagra staða er að svo er enn og hvorki Katrín né Samfylking hafa breytt þar nokkru um. Þrátt fyrir samfellda setu Samfylkingar í ríkisstjórn síðan í maí 2007 og að Katrín hafi gegnt embætti iðnaðarráðherra frá maí 2009 til september 2012. Hvað vatnalög Valgerðar Sverrisdóttur frá 2006 áhrærir, þá hafði geysilegur þrýstingur úti í þjóðfélaginu sem og frá stjórnarandstöðu á Alþingi, neytt ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar til að setja þau lög á ís, Valgerðarlögin gengu m.ö.o. aldrei í gildi. Það gerðist áður en Samfylkingin gekk í ríkisstjórn (með Sjálfstæðisflokki). Þessi framsetning er því einungis tilraun til að villa um fyrir lesendum og Katrín treystir greinilega á að þeir lesi svona kosningagreinar hratt og flausturslega og ekki til enda.

Yfirborðsvatn Katrínar
Sjónhverfingar Katrínar gagnvart lesendum ná hins vegar nýjum víddum þegar hún fer að ræða um “yfirborðsvatnið okkar...” sem “...hafi verið einkavætt með alræmdum vatnalögum...”. Hér gefur hún ótvírætt í skyn að styrrinn hafi staðið um “yfirborðsvatnið”, að það sé einhvers konar sögulega viðurkennt hugtak og þungamiðja átakanna um vatnið. Hér treystir Katrín á að lesendur séu ekki nægilega vel upplýstir um sögu vatnalaga á Íslandi um leið og hún gerir tilraun til að breiða yfir þau pólitísku mistök sem hún gerði í vatnamálinu. Nema að það hafi kannski verið stefna Samfylkingarinnar allan tíma að halda uppi þeim tilbúna aðskilnaði milli “yfirborðsvatns” og
“grunnvatns”, sem Finnur Ingólfsson fyrrv. iðnaðarráðherra gerði tilraun til að koma á, með lögunum um auðlindir í jörðu 1998. Hugtakið “yfirborðsvatn” hefur nefnilega aldrei verið til sem megininntak vatnalaga, fyrr en með þeim vatnalögum sem Katrín sjálf lagði fram og fékk
samþykkt 28. september 2011.

Tvenn lög um grunnvatn á sama tíma.
Þetta kallar á nokkrar útskýringar og sögulega upprifjun. Vatnalögin frá 1923 tóku til alls vatns, yfirborðsvatns og grunnvatns. Þau gengu út frá að landeigendur hafi afnotarétt af vatni, ekki eignarrétt á því. Enginn “átti” því vatn. Réttara er þó að segja, þegar litið er til þess anda sem í heild umlukti vatnalöggjöfina og aðra löggjöf sem tryggði sérhverjum þegni aðgang að lífsnauðsynlegu vatni, að allir hafi átt vatnið. Að fyrir lög Finns Ingólfssonar um auðlindir í jörðu 1998, hafi allt vatn í raun verið í þjóðareign. Sú túlkun er mun nærtækari en sú einkaeignartúlkun á afnotarétti sem margir lögfræðingar hafa aðhyllst. Má leiða að því getum, að sýn lögfræðinganna eigi rót að mestu í afskiptum þeirra af smáum nágrannaerjum um hvor eigi meiri rétt og þeim málarekstri og dómaframkvæmd sem af slíkum deilum spretta. Sá reynsluheimur nálgast að öðru jöfnu aldrei stóru spurninguna um hvort vatn er í þjóðareign eður ei og fer sínu fram hvort sem vatn er í þjóðareign eða ekki.

Næst gerist það að Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, ryðst inn á völlinn
með lagasetningu um auðlindir í jörðu árið 1998, þar sem hann gefur landeigendum allar þær náttúruauðlindir og öll þau verðmæti sem kunna að finnast undir yfirborði jarða þeirra, allt að jarðarmiðju. Grunnvatninu er skotið þar inn sem einni grein, án nokkurra tilrauna til að skýra tilveru
þess þar, hvorki með hliðsjón af vatni almennt eða gildandi vatnalögum frá 1923. Í raun var þá skyndilega komin upp sú staða að tvenns konar lög giltu um grunnvatn. Með lögunum frá 1998, einkavæddi Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stóran hluta af náttúruauðlindum Íslands, en spurningin
er hvort ekki hefði mátt reyna að hnekkja þeim síðar með tilvísun í að í gildi voru önnur lög í landinu sem tóku til sama efnis.

Hatrömm andstaða við einkavæðingu Valgerðar
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra leggur svo fram ný vatnalög, með þeirri réttlætingu að nauðsyn sé að samræma löggjöf á þessu sviði; það átti að sjálfsögðu að samræma í átt til eignarréttar. Það er hins vegar rétt að undirstrika að um var að ræða ein vatnalög sem taka til alls vatns, yfirborðsvatns og grunnvatns. Átti nú að láta sömu löggjöf gilda um vatn á yfirborði jarðar sem grunnvatnið, hvoru tveggja skyldi vera í skýrt skilgreindri einkaeign landeigenda.

Umsvifalaust hófst hart andóf út í þjóðfélaginu þar sem verkalýðsfélög, umhverfissamtök, þjóðkirkjan og mótmæltu eindregið. Bárust mótmælin inn á Aþingi, þar sem VG, stutt af Samfylkingu, mótmælti lögunum í einni lengstu umræðu um einstakt mál sem átt hefur sér stað á Alþingi. Niðurstaðan varð sú að vatnalög Valgerðar voru samþykkt 16. mars 2006, en gildistöku þeirra var frestað. Á meðan giltu vatnalögin frá 1923. Frá þessum tíma hafa vatnalögin alltaf verið á dagskrá, en gildistöku vatnalaga Valgerðar var ítrekað frestað, síðast 15. júní 2010 og áttu þau þá að taka gildi að óbreyttu 1. október 2011.

Krafan um ein vatnlög og afnotarétt
Allan þennan tíma, og ekki síst eftir að vinstri flokkarnir tóku við, ólu andstæðingar einkavæðingar á vatni með sér þá von að til yrðu ný heildstæð lög um vatn. Þau lög áttu fyrst og fremst að gera eitt; að breyta lögunum frá 1998 um auðlindir í jörðu þannig að ákvæðin þar um grunnvatn yrðu gerð
ógild. Grunnvatninu yrði komið þess í stað fyrir í nýjum vatnalögum og um það giltu sömu ákvæði og annað vatn, afnotaréttur en ekki eignarréttur.
Kröfur andstæðinga einkavæðingar á vatni voru grundvallaðar á tveimur meginpunktum; í fyrsta lagi bæri að líta á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki mætti fara með eins og hverja aðra verslunarvöru. Í öðru lagi væri fráleitt að tvenn lög með ólíkum eignar og
réttindaákvæðum giltu um vatn, eftir því hvort það finndist ofan eða neðanjarðar. Til að kippa þessu í liðinn þurfti í raun ekki annað en eina litla breytingartillögu við gildandi lög, menn voru í stórum dráttum sáttir þó vatnalögin frá 1923 stæðu óbreytt að öðru leyti. Hefði það verið gert, tækju vatnalögin á ný með skýrum hætti til alls vatns, auk þess sem mun auðsóttara hefði verið að koma í gegn breytingum á stjórnarskrá þess efnis að allt vatn skyldi vera í þjóðareign. Kröfur þess efnis höfðu reyndar borist stjórnarskrárnefnd í apríl 2005 frá BSRB og í mars 2006 frá fulltrúum
þeirra 14 félagasamtaka sem undirrituðu yfirlýsinguna Vatn fyrir alla. Studdust þessar kröfur m.a. við samþykktir Sameinuðu þjóðanna að líta bæri á aðgang að vatni sem grunndvallarmannréttindi.

Þjóðin afvegaleidd
Þegar Katrín Júlíusdóttir fékk síðan vatnalagafrumvarp sitt samþykkt í september 2011, var sterklega gefið í skyn að nú væri vatnið í höfn, einkavæðing vatns hefði verið afnumin. Lögin frá 1923 væru aftur gengin í gildi, aðeins “betrumbætt”. Aftur gilti að landeigendur hefðu afnotarétt að
vatni, ekki eignarrétt. Um þetta sagði m.a. í frétt RÚV: “Ný vatnalög voru samþykkt á Alþingi í gær og eru þau sögð snúa við þróun í átt að einkarétti á auðlindinni.” Vandlega var hins vegar þagað um að allt grunnvatnið, þaðan sem allt drykkjarvatn okkar kemur, var enn í einkaeigu landeiganda og að hvergi hafði verið haggað við lögunum frá 1998 um auðlindir í jörðu. Það var reyndar afsakað með óbeinum hætti; ekki hefði gefist tími til að vinna “heildstætt” vatnafrumvarp, stjórnvöld hefðu verið nauðbeygð til að samþykkja lög Katrínar því annars hefðu vatnalög Valgerðar gengið í gildi
þann 1. október 2011.

Yfirvarp og ágreiningur
Þessi meinti tímaskortur var að sjálfsögðu yfirvarp. Hann var yfirvarp því Samfylkingin hafði jú setið í ríkisstjórn frá maí 2007, og þó svo flokkurinn hefði kannski ekki komist langt í málinu með Sjálfstæðisflokkinn, að þá hafði hún jú setið að völdum með sálufélaga sínum í málinu, VG, frá febrúar 2009. Hæg hefðu heimatökin átt að vera.

Og mikið rétt, til urðu svokallaðar Vatnalaganefndir og skilaði sú seinni nýjum heildstæðum vatnalögum til iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, þann 1. desember 2009. Í frumvarpi nefndarinnar, en í henni áttu sæti Lúðvík Bergvinsson lögmaður sem jafnframt var formaður, Aagot V. Óskarsdóttir lögfræðingur, Kolbrún Halldórsdóttir fyrrverandi alþingismaður og umhverfisráðherra, Kristinn Einarsson yfirverkefnisstjóri hjá Orkustofnun og Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, var tekið á vernd og nýtingu vatns, sem og rétti almennings og landeiganda. Niðurstaðan var í stuttu máli sú lögin taka yfir allt vatn, yfirborðsvatn sem grunnvatn og um það vatn allt skyldi gilda afnota- og umráðaréttur – ekki eignarréttur. Skyldu menn nú ætla að björninn hefði verið unninn og lögin samþykkt hið snarasta? Það var aldeilis ekki – af einhverjum dularfullum ástæðum – trúlega réði skæklatog milli ráðuneyta þar miklu, var frumvarpinu stungið ofan í skúffu og það aldrei nefnt oftar, hvað það að það hefði verið lagt fram á Alþingi! Frumvarpið var “heildstætt vatnalagafrumvarp” og tók því með all ítarlegum hætti á vatnsverndarmálum og stjórnun þeirra. Gert var ráð fyrir að lögin heyrðu undir iðnaðarráðherra, en þann 25.11. 2010 lagði umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fram frumvarp um Stjórn vatnamála og var ekki laust við að þau lög sköruðust við lagafrumvarp Lúðvíks. Í öllu falli var seinna frumvarpinu hent og flaut þá barnið út með baðvatninu.

Katrín ítrekaði aðskilnað vatns
Katrín lagði svo fram frumvarp til vatnalaga í ríkisstjórninni strax í febrúarbyrjun 2011 og brá þá svo við að hvergi er minnst á nauðsyn þess að breyta lögum um grunnvatn eða leggja fram heildstæð lög um vatn. Þvert á móti. Í lögunum voru þau nýmæli að í stað þess að fjalla um “vatn” (allt vatn) eins og lögin frá 1923 gerðu, var komið hugtakið “yfirborðsvatn” sem megininntak. Þar með var aðskilnaðurinn milli grunnvatns og annars vatns ítrekaður og undirstrikaður. Gengu höfundar laganna þar mjög langt í þeirri túlkun sinni að vatnalögin frá 1923 fjölluðu á engan hátt um grunnvatnið. Það var þó meira gert til þess að reyna að réttlæta þá ætlan að grunnvatnið skyldi
liggja óhreyft í einkaeigu, en að þeirri skoðun væri hægt að finna stað í vatnalögunum frá 1923. Reyndar þarf þessi tilraun til að passa upp á eignarrétt landeiganda ekki að koma mjög á óvart, þar sem Katrín hafði ráðið til verks sérstakan áhugamann og varðgæslumann einkaréttarins, lögfræðinginn Karl Axelsson, þann sama og var aðalhöfundur vatnalaga Valgerðar Sverrisdóttur.

Ögmundur einn á vaktinni
Upphaflega stóð til að reka þetta lagafrumvarp hratt í gegnum ríkisstjórnina í febrúarbyrjun 2011 og fengu ráðherrar örfáa daga til að gera athugasemdir við “yfirborðs”-frumvarpið. Sem betur fer var Ögmundur Jónasson á vaktinni eins og oft áður. Hann gerði strax kröfu til þess að lögum um auðlindir í jörðu yrði breytt, að grunnvatn yrði sett inn í vatnalögin og um það giltu sömu ákvæði um afnotarétt eins og annað vatn. Við þessum kröfum var ekki orðið. Gerði Ögmundur þá að skilyrði fyrir samþykki sínu við vatnalög Katrínar að það yrði gefið loforð um upptöku auðlindalaganna. Gerði Ögmundur tillögu að orðalagi þessa loforðs, sem yrði hluti af skýringum við lögin þar sem stóð:
Stefnt er að endurskoðun á lögum nr. 57 frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu með það fyrir augum að tryggja almannarétt varðandi grunnvatn með eigi lakari hætti en í þessu frumvarpi. Líta ber á vatn sem mannréttindi sem heyri öllu samfélaginu til og byggi öll lög sem snúa að vatni á þeirri nálgun.” Þetta skýra og afdráttarlausa orðalag gat iðnaðarráðherrann Katrín Júlíusdóttir ekki sætt sig við. Þess í stað lagði hún til mun loðnara orðalag, sem gaf lögfræðingum mun meira svigrúm til að verja eignarréttinn: “Unnið er að yfirferð annarrar löggjafar á þessu sviði, svo sem laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með það fyrir augum að samræma réttarreglur á þessu sviði í þeim anda sem lagt er til með frumvarpi þessu.”
(Hvers vegna skyldi ég vita þetta? Svo vill til að Ögmundur kallaði mig sér til aðstoðar í þessu máli, enda vorum við nánir samstarfsmenn um árabil hjá BSRB sem í tíð Ögmundar lét sig mjög varða auðlindamál og þá ekki síst vatnið. Var m.a. efnt til mikillar herferðar um vatnið og þess krafist að það skyldi vera í almannaeign. Þetta skýrir hvers vegna ég þekki þessa texta sem ég vísa til. Saman rýndum við í frumvarpstexta og greinargerðir. Ég tel mig ekki bundinn af trúnaði um þessa texta og þessi samskipti enda hvers vegna ætti svo að vera? Mér finnst mikilvægt að þessi hörmungarsaga verði öll rækilega skráð - því af henni verður að draga lærdóma. Við erum að tala um fjöregg þjóðarinnar og því miður um ríkisstjórn sem hefur brugðist því hlutverki sínu að gæta þess. )

Afnotaréttur jafngildir eignarrétti!
Þetta orðalag var svo samþykkt sem hluti af skýringum við vatnalögin og á grundvelli þess var svo skilgreint hlutverk “grunnvatnsnefndar” sem Katrín skipaði skömmu síðar til að gera tillögur. Formaður nefndarinnar var Ástráður Haraldsson hrl., formaður, en auk hans sátu Kristín Haraldsdóttir, forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar við Háskólann í Reykjavík, og Ingvi
Már Pálsson, lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu í hópnum. Þeir Ástráður og Ingvi voru meðhöfundar að vatnalögunum, svo varla hefur Katrín verið að sækjast eftir við róttækum breytingum á hugsun eða efnistökum með ráðningu þeirra.

Meginniðurstöður grunnvatnsnefndarinnar eru tvær; annars vegar hin “augljósa”, að rétt sé að
grunnvatn eigi heima með öðru vatni í lögum. Hins vegar kemst hópurinn að þeirri niðurstöðu að þó svo kalla megi eignarheimildir landeiganda “afnotarétt” þá rýri það í engu eignarrétt þann sem þeir voru taldir hafa samkvæmt lögunum um auðlindir í jörðu frá 1998! Þessum tillögum skilaði
grunnvatnsnefndin eftir u.þ.b. átta mánaða vinnu, í maí 2012. Þá átti Katrín eftir að sitja 8 mánuði í embætti iðnaðarráðherra, en virðist ekkert hafa aðhafst frekar í málinu.

Steingrímur sammála Valgerði?
Ríkisstjórnin gerði svo ekkert með málið, fyrr en á síðustu dögum Alþingis í mars 2013 þegar Steingrímur J. Sigfússon lagði fram tillögu um breytingar á vatnalögum frá 1923 og á lögunum um auðlindir í jörðu frá 1998. Var þar lagt til að grunnvatn skuli fært undir vatnalögin. Á það frumvarp var ekki lögð meiri áhersla en svo að það dagaði uppi án þess að hljóta samþykki. Sem kannski var þó ekki það versta sem gat gerst, sökum þess hvernig frumvarpið var gert úr garði. Þar er í öllu byggt á niðurstöðu “grunnvatnsnefndar” og í skýringum með frumvarpinu er ítrekað að þrátt fyrir “nafnabreytingu” úr eignarrétti yfir í afnotarétt, þá skuli breytingin skilin svo að um enga efnisbreytingu sé að ræða! Grunnvatnið sé de facto, eftir sem áður, í einkaeign landeiganda! Grunnvatnsnefndin bætir eiginlega um betur: Í greinargerð með frumvarpi Steingríms má lesa: “Í skýrslu starfshópsins (grunnvatnsnefndar) kemur jafnframt fram að deila megi um hvort með setningu laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, hafi í raun orðið breytingar á eignarréttarlegri stöðu grunnvatns. Færa megi rök fyrir því að hún hafi ekki breyst við setningu auðlindalaga.” Hér er formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, sá hinn sami og kallaði auðlindafrumvarp Finns Ingólfssonar “ómerkilegt snifsi” 1998, að leggja fram frumvarp sem
efnislega tekur undir allan þann rökstuðning sem Valgerður Sverrisdóttir notaði á sínum tíma þegar hún lagði fram sín vatnalög: Að breytingin sem lögð var til 2006 á vatnalögum frá 1923 hafi aðeins verið orðalagsbreyting. Að afnotaréttur sé í reynd eignarréttur og að vatnalögin 2006 hafi eingöngu
verið til að skýra þessa staðreynd.

Vinstri flokkarnir í hring, Valgerður vann!
Með þessari málsmeðferð allri eru Samfylking og VG, vinstri flokkarnir sem svo hatrammlega börðust gegn einkavæðingarfrumvarpi Valgerðar Sverrisdóttur, komnir í heilan hring. Með því að ætla að samþykkja yfirfærslu á grunnvatni inn í vatnalög, þar sem afnotaréttur á grunnvatni er útskýrður sem de facto einkaeignarréttur, þá er þess skammt að bíða að upp komi kröfur á nýjan leik
um að sá skilningur eigi líka að gilda um “afnotarétt” manna á “yfirborðsvatni”. Bingó! Valgerður, Halldór og Finnur unnu!

Auðvelt að ræna þjóðina rétti sínum

Það sem að þessi atburðarás sýnir þó merkilegt nokk, að það er reginmunur á þessum tveimur hugtökum, afnotarétti og eignarrétti. Samkvæmt upprunalegu vatnalögunum frá 1923 áttu landeigendur ekki vatnið, þeir höfðu af því afnotarétt. Og fyrst landeigendur áttu ekki landið má spyrja hver hafi átt það þá? Nærtækast er að álykta að vatnið hafi defacto verið í þjóðareign. Þegar Finnur Ingólfsson setur síðan í lög með einu pennastriki, að grunnvatnið sé í einkaeign, sveipar hann þennan hluta vatnsins lagahjúp eignarréttar, án þess þó að gera neinar breytingar á gömlu vatnalögunum sem kváðu í raun á um að allt vatn, grunnvatn meðtalið, væri allra “eign”. Það er þessi lagahjúpur einkaeignar sem Samfylkinguna hefur skort þor og kjark að rífa í sundur. Samfylkingin gat því með auðveldum hætti “fært aftur” til fyrra horfs þann hluta vatnsins sem alltaf hafði verið “í þjóðareign” og landeigendur höfðu haft afnotarétt á. Þegar kom hins vegar að því að færa grunnvatnið úr einkaeign yfir í afnotarétt, þá gekk dæmið ekki lengur upp, nema því aðeins að skilgreina afnotarétt sem eignarrétt. Það virðist sem sagt eiga að vera hægðarleikur að breyta afnotarétti í eignarrétt, eins og Valgerður vildi gera, en ekki er hægt að fara sömu leið til baka og breyta eignarrétti í afnotarétt. Það er sem sagt mun auðveldara að ræna þjóðina rétti sínu en einkaaðila.

Vatnsbragð Samfylkingarinnar
Það er því lýðskrum af versta tagi þegar Katrín Júlíusdóttir lætur í veðri vaka að hún hafi snúið ofan af einkavæðingu Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks á vatninu. Reyndar er það spurning hvort þetta sé samræmd framsetning hjá frambjóðendum Samfylkingarinnar, því Sigríður Ingibjörg Ingadóttir notaði nákvæmlega sömu taktík á frambjóðendafundi í Sjónvarpinu nýverið þar sem hún sagði efnislega það sama: Munið hvernig þetta var þegar við tókum við – Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru búnir að einkavæða vatnið... en síðan var þessi þarfa áminning með engu botnuð. Það er bara látið liggja að því að Samfylkingin hafi bjargað málunum!

Á að stjórnarskrárbinda einkaeign á vatni?
Það er hins vegar full þörf á að botna þessi mál. Það verður ekki gert með að láta sömu lögfræðingana innan og utan ráðuneyta leggja á ráðin. Það verður ekki gert með að stjórnmálamenn komist upp með að segja eitt í gær og gera annað á morgun – eða gera hreinlega ekki neitt. Það verður ekki gert með að hlusta bara á “nýtingarsjónarmið” fulltrúa orkugeirans – sem gegnsýra
vatnlög Katrínar. Það verður ekki gert með því að láta fulltrúa sjónarmiða Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, hægri sinnaðra Samfylkingarmanna í stjórnlagaráði komast upp með að gera ólög Finns Ingólfssonar um auðlindir í jörðu að lagagrunni þjóðarinnar í nýrri stjórnarskrá. Hver skyldi hafa komið þeirri tillögu í gegn á þeim bæ að aðeins “...auðlindir, sem ekki eru í
einkaeign
, skuli vera í eigu þjóðarinnar...”? Halda menn kannski að færri hefðu tekið undir málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef spurning hefði verið: “Eiga náttúruauðlindir að vera í eigu þjóðarinnar”?

Engin gætir hagsmuna almennings...
Það er hins vegar úr vöndu að ráða. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki skipt um skoðun í málinu svo vitað sé. Samfylkingin og VG hafa ekki náð að koma vatninu í örugga höfn og virðast reyndar stefna með það beina leið út á ólgusjó einkavæðingar á nýjan leik. Enginn af nýju flokkunum hefur tekið málið upp á sína arma – enn sem komið er. Það er því aðeins fólkið í landinu
sem getur tekið af skarið, jafnvel þó reynt sé að afvegaleiða almenning með ýmsum hætti.

... nema almenningur sjálfur. Látið í ykkur heyra!
Grunnvatnið er allt í einkaeign landeiganda og um það ástand standa öflugir varðhundar á vakt. Þeir gelta hins vegar ekki hátt þessa dagana, því þeir vilja ekki draga athyglina að málinu. Þeir vita eins og er að þjóðin vill að vatnið, rétt eins og aðrar náttúruauðlindir, sé og verði í eigu þjóðarinnar. Það er því undir þér komið, kæri lesandi, að gera þitt til að vekja athygli á málinu og koma því á dagskrá fyrir Alþingiskosningar. Við viljum ekki að almannahagsmunir verði fyrir borð bornir!



« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Öflug grein Páll. Vandi þjóðarinnar og ríkisstjórnarinnar var hrikalegur, meðal annars sá að annar stjórnarflokkanna trúði því að allan vanda yrði hægt að leysa með því að sækja um aðild að ESB. Örlítil en afar jákvæð breyting á kvótakerfinu undir forystu Jóns Bjarnasonar varðandi rækju og skötusel mætti einbeittri og samhæfðri andstöðu VSÍ-ASÍ,  fjármálastofnanna, sérfræðinga & fjölmiðla.  Talað var um "að stöðugleikasáttmálinn væri rofinn". Nú þegja þeir saman. Flestir vita að sérhagsmunaöflin eiga sína sauðtryggu fulltrúa og ekki alla í sama flokk, þó þau leggi auðsjáanlega meira upp úr stórum flokkum.

Sigurður Þórðarson, 26.4.2013 kl. 12:33

2 Smámynd: Páll Helgi Hannesson

Það er rétt Sigurður að sérhagsmunaöflin eiga sína fulltrúa víða. Því hefur t.d. verið haldið fram að það eimi enn sterkt af framsókn innan veggja iðnaðarráðuneytis og það er alveg ljóst að embættismenn í kerfinu geta haft mikil áhrif á hin ólíklegustu mál. Lögfræðingar sem fá það hlutverk að véla um frumvörp hafa oft sín eigin hagsmunaáhugamál með í för. Karl Axelsson lögfræðingur, hefur t.d. verið innanbúðarmaður í RSE (http://www.rse.is/web/?page_id=222) en "markmið RSE er að auka skilning á mikilvægi frjálsra viðskipta og eignaréttinda fyrir lýðræðislegt og framsækið þjóðfélag..." En á endanum, eins og í þessu máli, þá eru það ráðherrar sem bera ábyrgðina og þess vegna set ég meginhlutann af ábyrgðinni á þessu klúðri með vatnið á herðar Katrínar Júlíusdóttur og Samfylkingarinnar. Það er hins vegar ljóst að VG er hinn aðilinn að ríkisstjórninni og samstaða innan þess flokks í ríkisstjórn hefði eflaust farið langt með að fleyta vatninu í réttan farveg.

Páll Helgi Hannesson, 26.4.2013 kl. 12:55

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ráðgefandi sérfræðingar og áhugamenn um hvernig hægt sé að koma auðlindum úr þjóðar- í einkaeign, sumir á launaskrá Háskóla Íslands aðrir eingöngu "free lance".  Málamiðlun sem slík getur ekki verið endanlegt takmark hugsjónafólks heldur niðurstaðan sem hún leiðir til. Kannski var það einmitt samstaðan með formanni VG (jafn mælskur og hann er), sem fleytti flokknum næstum því á sker?  

Og af því að þú minnist á embættismenn í kerfinu, þá hef ég mikið hugleitt fyrir hverja gagnslausar eftirlitsstofnanir ríkisins séu. Er betra að vera með bílbelti t.d. úr dagblaðapappír? Nei það er augljóslega verra. Er þá einhverjum greiði gerður með eftirliti til málamynda?  Já, starfsmönnunum sjálfum og hugsanlega þeim flokkum sem ráða þá til vinnu. Hef ekki fundið aðra betri skýringu.

Sigurður Þórðarson, 26.4.2013 kl. 15:27

4 Smámynd: Páll Helgi Hannesson

Þegar ég tel að Katrín Júlíusdóttir og Samfylkingin beri meginábyrgð á klúðrinu með vatnið, þá á ég að sjálfsögðu við að ekki tókst að snúa við nema að hluta þeirri óheillaþróun sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn hrundu af stað. Það eru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sem eru aðalskúrkarnir í málinu.

Páll Helgi Hannesson, 27.4.2013 kl. 11:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband