4.3.2007 | 12:56
Fór fulltrúi Landsvirkjunar með hálfsannleik og hótanir?
Þá fer fyrsta bloggið í loftið og best að skella sér út í djúpu laugina!
Þegar tekist er á um deilumál sem skipta þjóðinni í hópa, skyldi maður ætla að opinberir aðilar, jafnvel þó þeir eigi hagsmuna að gæta, reyni að halda sig við sannleikann í opinberum málflutningi. Því er þó ekki alltaf að heilsa og var ekki að heyra annað en að talsmaður Landsvirkjunar færi bæði með hálfsannleik og hótanir í morgunspjalli á RÚV í sl. föstudagsmorgun. Og var sá ískyggilegi málflutningur þó borinn fram á þann hátt að hlustandinn gæti haldið að þar færi hógvær, hæverskur og grandvar maður að upplýsa þjóðina um staðreyndir máls. Talsmaður Landsvirkjunar var Þorsteinn Hilmarsson, spyrillinn Sveinn Helgason fréttamaður og umræðuefnið þær þrjár virkjanir sem Landsvirkjun vill reisa í neðri hluta Þjórsár.
Skoðum aðeins málið. Hvað vill Landsvirkjun í þessu máli? Hún vill virkja og í samtalinu (http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4304461/4) er áberandi hvað talsmanni Landsvirkjunar er í mun að stýra umræðunni inn á þá braut að málið snúist ekki um hvort Landsvirkjun muni virkja þarna, heldur hvaða bætur skuli greiðast fyrir raskið sem muni verða af virkjanaframkvæmdum. Málið snúist bara um samninga í þeim efnum. Talsmaður Landsvirkjunar lætur að öðru leyti eins og Landsvirkjun hafi þarna öll spil á hendi og réttur hennar til virkjana sé óumdeildur.
Þorsteinn sagði m.a.: "Það er hins vegar þannig að 95% vatnsréttinda á svæðinu komust í eigu ríkisins með því að ríkið gerði samninga við Einar Benediktsson og hans félag á öndverðri 20. öld - þannig að menn eru ekki að semja um vatnsréttindi almennt heldur um landnot og rask eða breyttar aðstæður sem virkjanir valda þeim sem eiga landið." Enn fremur sagði Þorsteinn: "Í samningunum sem Einar Benediktsson og landeigendur gerðu á sínum tíma eru í mjög mörgum tilfellum ákvæði um landnot og hvernig með skuli farið að bæta það...þannig að menn sjá fyrir sér að leita samninga og síðan matsmenn og gerðadóm til að skera úr um hvernig bætur verða..."
Hér er nauðsynlegt að gera nokkrar athugasemdir:
Í fyrsta lagi léttvægari atriði: Þessi sagnfræðin er röng - Einar Ben kaupir umrætt afréttarland af Gnúpverjahreppi 1916, og framselur síðan kaupsamning sinn til fossafélagsins Titan árið 1917. Einar deyr 1940 og Titan hættir starfsemi 1951 og ríkið tekur yfir kaupsamninginn af skilanefnd Titan hf 16. janúar 1952. Ríkið leggur síðan þessa "eign" inn sem hlut ríkisins í Landsvirkjun við stofnun fyrirtækisins. Þannig að sagnfræði Þorsteins er röng og villandi. Sem talsmaður Landsvirkjunar hlýtur hann að vita betur.
Það sem er rétt hjá Þorsteini að það er ríkið sem fer með vatnréttindi á þessu svæði. Það sem hins vegar mikilvægt er að ekki verður séð að Landsvirkjun fari með nein vatnsréttindi á þessu svæði eins og jafnvel má ætla af tali hans, sbr. orð hans: "...þannig að menn eru ekki að semja um vatnsréttindi almennt..." Hér er ríkið og Landsvirkjun alls ekki það sama og hætt er við að Landsvirkjun þurfi vissulega að semja um vatnsréttindi, nema annað komi til síðar.
Þannig liggur nefnilega í málinu að óbyggðanefnd úrskurðaði þetta umrædda land þjóðlendu með úrskurðum 21. mars 2002 og 10. des. 2004. Í stuttu máli komst nefndin að þeirri niðurstöðu að Gnúpverjahreppur hafi aldrei átt umrætt land og því hafi sala hreppsins til Einars Benediktssonar og allar sölur eftir það verið ólöglegar. Landsvæðið var úrskurðað þjóðlenda. Það er því á forsjá ríkisins/forsætisráðuneytisins, en eignartilkalli Landsvirkjunar var hafnað.
Líður og bíður þar til kemur að sölu Reykjavíkurborgar í Landsvirkjun og uppgjöri á meintum eignarhlut hvers og eins. Þá dúkkar þetta mál upp á ný, enda ljóst að ríkið hafði ekki með löglegum hætti lagt þetta land og samhliða vatnsréttindi inn sem eignarhlut í Landsvirkjun. Ríkisstjórnin leggur því fyrir alþingi 2006-2007 frumvarp "um heimild til að afsala til Landsvirkjunar vatnsréttindum og landi vegna Búrfellsvirkjunar", þskj. 472 - 415 mál. (sjá: http://www.althingi.is/altext/133/s/0472.html .) Þar er lagt til að ríkið gefi viðkomandi þjóðlendu til Landvirkjunar! (Sem er ekki slæm búbót fyrir Landsvirkjun ef síðar stendur til að selja fyrirtækið til einkaaðila - en það er annað mál.)
Fulltrúi Landsvirkjunar talaði hins vegar í útvarpinu eins frumvarpið hefði verið samþykkt og Landsvirkjun ætti þessi réttindi - en svo er alls ekki. Frumvarpið liggur nú inni hjá Allsherjarnefnd eftir að hafa farið í gegnum fyrstu umræðu nú í lok janúar.
Landsvirkjun á því ekki umrætt land né hefur fyrirtækið vatnsréttindi á þessu svæði eins og málið er statt í dag. Þeir hafa sem sagt ekkert um þetta svæði að segja, umfram aðrar þjóðlendur, ef ekki á að beita eignarnámsheimildum sem bæði Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa útilokað. Samkvæmt samningi frá 11. ágúst 1982 milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar, þar sem orkusvæði Landsvirkjunar var fært út yfir allt landið, er byggt inn það prinsipp að Landsvirkjun þarf að ná samkomulagi við ríkissjóð vegna vatnsréttinda sem eru í umráðum ríkisins "hvort sem um væri að ræða lögbýli í eigu ríkisins, önnur eignarlönd eða vatnsréttindi á almenningum og afréttarlöndum". Nú hefur lögum verið breytt þannig að orkusvæði Landsvirkjun nær ekki lengur til alls landsins, en eftir stendur að Landsvirkjun og ríkið eru ekki eitt og hið sama með tilliti til vatnsréttinda. Og ég geri ekki ráð fyrir að Landvirkjun og ríkið hafi gert samkomulag um afsal eða kaup á vatnsréttindum, þegar fyrir Alþingi liggur tilllaga um að ríkið gefi Landsvirkjun landið með gögnum og gæðum. Hvað heimildir Landsvirkjunar varðar að öðru leyti til að reisa virkjanir í Þjórsá, segir á heimasíðu fyrirtækisins að (N)iðurstaða í mati á umhverfisáhrifum heimilar Landsvirkjun að byggja hvort heldur er eina virkjun ofan Urriðafoss eða tvær smærri, þ.e. Hvamms- og Holtavirkjun, og hefur Landsvirkjun ákveðið að nýta fallið þar með byggingu tveggja aflstöðva fremur en einnar.Umhverfismati var skilað í apríl 2003 og hlýtur það að hafa verið alllangan tíma í vinnslu. Nú er ég ekki lögfróður maður, en geri ráð fyrir því að gengið hafi verið í umrætt umhverfismat á þeim forsendum sem þá voru taldar gilda, þ.e. að Landsvirkjun ætti umrætt land og vatnsréttindi og allt landið væri orkusvæði þess. Það kemur hins vegar upp úr dúrnum að þær forsendur voru ekki gildar og ný raforkulög tóku gildi í apríl 2003 og þar með hætti Landsvirkjun að hafa allt landið sem orkusvæði sitt, enda gert ráð fyrir samkeppni. Það hlýtur að setja spurningamerki við gildi þeirra heimilda sem umhverfismatið var talið gefa Landsvirkjun?
Í öðru lagi er óhætt að minna á að nýju vatnalögin eru ekki enn gengin í gildi - eigandi lands á ekki vatnið - hann hefur afnotarétt af því skv. gildandi lögum frá 1923.
En ef ríkið vill láta Landsvirkjun fá þetta land eða leyfa að Landsvirkjun nýti vatnsréttindin til virkjana í neðri hluta Þjórsár, þá er stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar vissulega enn við lýði.
Að lokum aðeins um hótanir fulltrúa Landsvirkjunar gagnvart bændum við Þjórsá.
Þorsteinn var spurður hvað gerist ef menn vilja ekki semja við LV um bætur? Fulltrúi ríkisstofnunarinnar svaraði því til að hvað varði vatnsréttindi séu almenn ákvæði í vatnalögum um að ef landeigandi eigi svo mikið sem 95% af vatnsréttindum (sem hann lætur hér skína í að séu í eigu eða á forræði LV!) eigi hann rétt á að leysa til sín vatnsréttindi annarra sem eiga afganginn af vatnréttindum, ef þeir vilja ekki taka þátt í því sem til stendur. Og hann bætti við: "Þannig að vissulega standa okkar vonir til þess að við komust að niðurstöðu í samningum."
Það sem Þorsteinn er hér að segja mjúkri röddu er að LV/ríkið, - sem hann meðvitað gerir ekki greinamun á, eigi 95% vatnsréttinda og bændur sem ekki vilji semja við Landsvirkjun séu í vonlausri stöðu. Landsvirkjun hafi í raun rétt til að líta framhjá hagsmunum þeirra. Um þetta sé að finna almenn ákvæði í vatnalögum.
Þessa hótun byggir Þorsteinn aftur á hálfsannleik. Engin slík almenn ákvæði er að finna í nýju vatnalögunum, enda eru þau ekki gengin í gildi.
Ef litið er á gildandi vatnalög frá 1923 kemur gr. 53* helst til álita sem "þau almennu ákvæði" sem Þorsteinn vitnar í. Þar er hins vegar alveg skýrt að komi til slíks ágreinings geti ráðherra heimilað að þeir sem eiga meirihluta vatnsorkunnar (n.b. ekki vatnsréttinda) leysi til sín tilkall minnihlutans. Það er engin sjálfvirkni hér í gangi eins og talsmaður LV gefur mjög sterkt til kynna. Ráðherra getur heimilað...
Það hlýtur að vera þjóðinni áhyggjuefni að eitt öflugasta ríkisfyrirtæki landsins skuli hagræða sannleikanum með þessum hætti í þágu eigin hagsmunagæslu. Á spýtunni hangir líka framtíð sveita í Árnes- og Rangárvallasýslum, stækkun álversins í Straumsvík með meðfylgjandi aukningu á gróðurhúsaloftegundum, stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar og baráttan um verndun umhverfisins. Á öllum þessum sviðum hefur Landsvirkjun beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta.
---
*Úr gildandi vatnalögum frá 1923:
53. gr. 1. Nú eiga menn í félagi tilkall til orku úr sama fallvatni, enda taki 52. gr. eigi til þess, og verða þeir ekki ásáttir, hvernig það skuli notað til orkuvinnslu, og getur þá ráðherra heimilað, að þeir, sem tilkall eiga til meira en helmings vatnsorkunnar, talinnar eftir vatnsmagni og fallhæð, leysi til sín tilkall minni hlutans. Þetta er þó því skilyrði bundið, að hagnýting fallvatnsins í heild sinni sé að mun hallkvæmari en hagnýting hluta innleysenda út af fyrir sig, og að ekki sé skertur réttur þriðja manns, er hann kann að hafa fengið yfir vatnsréttindunum áður en lausnar var krafist.
2. Sá hluti vatnsorkuréttar, er maður leysir til sín samkvæmt 1. lið, skal metinn sem hluti alls réttarins. Þó skal taka til greina, hvort sá hluti virkjunarkostnaðar, sem sérstaklega varðar innleysta vatnsorkuréttinn, er tiltölulega mikill eða lítill.
3. Ágreiningi um atriði þau, er í grein þessari getur, skal ráða til lykta með mati.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:29 | Facebook
Athugasemdir
En hvernig skyldi fara með vatnsréttindin við Kárahnjúka ? Geta nýju vatnalögin, sem eiga að taka gildi í nóvember, haft einhver áhrif þar á ? Kárahnjúkavirkjun er sú fyrsta hér á landi eingöngu ætluð stóriðju.
Pétur Þorleifsson , 5.3.2007 kl. 13:48
Blessaður Pétur og fyrirgefðu hvað ég er seinn til svars.
Er enn að feta mig áfram hér á þessum boggslóðum. En hvað varðar vatnsréttindi við Kárahnjúka og þá 96 milljarða kröfu sem fram hefur verið sett af landeigendum að þá hljóta menn að staldra við og spyrja spurninga. Í fyrsta lagi held ég að það verði gerð krafa til þess, frekar en hefur verið gerð hingað til, að allt ferli við virkjanaframkvæmdir verði gert skýrara og gegnsærra. Það skipti kannski ekki öllu máli í hvaða röð hlutirnir voru unnir á meðan að þetta var allt í höndum Landsvirkjunar og gengið var út frá því að verið væri að virkja í almannaþágu. Þetta hefur breyst og nú eru almannahagsmunir settir til hliðar þegar forsendur til virkjana eru metnar. Nú á raforkuframleiðsla og dreifing að eiga sér stað á samkeppnismarkaði sem er að sjálfsögðu firra þegar litið er til áætlaðs ávinning og þess raunveruleika sem við blasir. Markaðsfyrirkomulag á ekki við um raforku ekki ef ætlunin er að þjóna hagsmunum almennings og samfélagsins. Vissulega geta fyrirtæki grætt á rekstrinum og það hefur reynslan í Evrópu sýnt að óeðlilega mikið fé hefur verið tekið út úr þessum fyrirtækjum, raforkuverð hefur hækkað en viðhald og uppbygging dregist saman. Og hér á Íslandi er staðan á raforkumarkaði að sjálfsögðu allt önnur en í Evrópu að því leytinu til að þar er mjög erfitt að koma upp orkuverum. Þau brenna kolefnum eða ganga fyrir kjarnorku, en vatnsorka er tæplega fáanleg. Hér á landi er hins vegar nokkurs konar gullgrafaraæði meðal orkufyrirtækja það ætla allir að ná sér í sinn hluta af kökunni til að tryggja sér stöðu í framtíðinni á markaðnum. Ef það þýðir að það þurfi að semja við orkukaupa/álver strax, þá verður svo að vera. Málin þola ekki bið ef að við náum ekki í virkjanarétt þá gerir samkeppnisaðilinn það! Þessar aðstæður eru í raun ekki mjög hagstæðar raforkufyrirtækjunum, ef litið er til samningsstöðu þeirra við orkufrekan iðnað, en álverin sitja í raun með pálmann í höndunum, þvert ofaní það sem staðan ætti að vera. Ísland er eitt fárra landa heims, þar sem saman fer nálægð við markaði beggja vegna Atlandshafs, menntað vinnuafl, mjög hagkvæmt skattalegt umhverfi, lítil umhverfismeðvitund almennings (sem fer þó sífellt vaxandi) auk þess sem boðið er upp á raforku. Það er engin ástæða til að niðurgreiða hana, en ?samkeppni? íslenskra orkufyrirtækja veikir samningsstöðu þeirra að þessu leyti. Við þessar aðstæður er kannski eðlilegt að eigendur vatnréttinda fari á stjá og heimti að fá hluta af þeim gróða sem vatnsaflið mun veita. Sumir sjá kröfur landeiganda austur við Kárahnjúka upp á 96 milljarða etv sem jákvæða þróun þ.e. að slíkar kröfur muni kannski setja bremur á virkjanaákefð orkufyrirtækjanna. Það má eflaust rökræða það, en sjálfur held ég að þetta sé óeðlileg framvinda og að kröfugerðin ráðist í reynd meira af væntanlegum vatnalögum sem gera landeigendur að einkaeigendum vatns á landareigninni en af raforkulögunum sem slíkum. Ég held því m.a. af þessum ástæðum að það sé brýnt að hin nýju vatnalög verði afnumin. En um leið verði orkufyrirtæki sem ætla að virkja, að vera búin að semja um allan pakkann áður en hafist verður handa. Nú eru virkjanir byggðar og svo farið að ræða um vatnsréttindi. Ég tel eðlilegt að landeigendur hafi vatnsréttindi eins og lögin frá 1923 tilgreina, en að vatnið sé almenningseign. Hvað síðan varðar umbun til handa landeiganda vegna vatnréttinda hans sem nýtt eru til virkjana, að þá sé litið á það sem leigu sem sé í hóflegu hlutfalli miðað við þarfir hans sem einstaklings og landareiganda. Ef virkjunin er stór og það skapast slík hefð að orkuframleiðandi greiði eitthverja fasta prósentu af framleiðsluvirði orkunnar fyrir vatnsréttindin sem leiði til ógnarhárra upphæða, að þá renni kúfurinn af slíkum greiðslum í sjóði almennings. Læt þetta duga í bili! kv PállPáll Helgi Hannesson, 6.3.2007 kl. 14:19
Ætli Kárahnjúkavirkjun og "nauðasamningarnir" (eins og borgarfulltrúar Samfylkingarinnar kalla þá nú) við Alcoa byggist ekki á því að lítið er greitt fyrir landið undir virkjunina eða vatnsréttindi, eins og áður. Annars er fróðlegt að lesa lýsingu talsmanns LV á framkvæmdinni hérna neðst.
Pétur Þorleifsson , 7.3.2007 kl. 08:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.