Af fræðimönnum um þjóðareign

Er fiskurinn í sjónum sameign eða einkaeign, er vatnið sameign eða einkaeign? Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að heyra álit “fræðimannana” sem RÚV kynnti sem slíka til að varpa ljósi á málið. En teljast þeir sem starfa fyrir stofnun sem hefur “að markmiði að efla skilning á mikilvægi eignaréttar” hlutlausir þegar kemur að þessari spurningu? 

Morgunvaktin hefur sumpart staðið sig vel upp á síðkastið, þó ég vilji meina að meiri gagnrýni hafi mátt gæta í umfjöllun – en ég tengi hér saman umræðu um vatnsréttindi við Þjórsá og svo auðlindaumfjöllunina í morgun. Það sem mér þótti hins vegar stórundarlegt í umfjöllun morgunsins var tilkoma “fræðimannanna” sem til voru kvaddir til að varpa ljósi á deilumálið.

Fræðimenn hafa líka velt því fyrir sér hvaða þýðingu það hafi að setja ákvæði eins og þetta í stjórnarskrána. Rannsóknarmiðstöð í samfélags- og efnahagsmálum (RSE) er nú að leggja lokahönd á bók um þetta efni. Sveinn Helgason hitti Birgi Tjörva Pétursson forstöðumann miðstöðvarinnar og spurði hann fyrst hvort það gæti verið “mögulegt að ákveðin eign gæti verið í eigu þjóðar.”  Þannig hljómaði kynning umsjónarmanns Morgunvaktarinnar og var ekki annað að heyra fyrir ókunnuga en hér væri um óhlutdræga fræðimenn að ræða – annars hefðu umsjónarmaður og spyrill væntanlega látið áheyrendur vita ef ástæða væri að ætla að fræðimennirnir hefðu fyrirfram gefnar skoðanir á málinu. Ekkert bólaði á slíkum fyrirvörum hjá RÚV og verður það að flokkast undir óvönduð vinnubrögð 

Því hverjir eru hér á ferð og hvert er markmið RSE? Á heimasíðu þeirra stendur: RSE er sjálfstæð og óháð rannsóknarmiðstöð, sem hefur það að markmiði að efla skilning á mikilvægi eignaréttar og frjálsra viðskipta fyrir framsækið lýðræðislegt samfélag.”  Bíðum nú við – snerist hin pólitíska spurning ekki um það hvort til væri eitthvað sem héti sameign þjóðarinnar? Við hvaða svari bjóst fréttamaður af Birgi Tjörva sem veitir forstöðu stofnun sem hefur það að markmiði að efla skilning á mikilvægi einkaréttarins? Nei, Birgir Tjörvi gat af hlutlægum skilningi sínum “ekki séð að það væri niðurstaða fræðimanna, þeirra sem skrifa í þetta ritgerðasafn hjá okkur og það eru margvíslegar ástæður fyrir þvi...” Ætli ástæðurnar séu þegar grannt er skoðað svo margar? Segir markmiðsetning RSE ekki allt sem segja þarf?

Um það hversu sjálfstæð og óháð rannsóknarmiðstöðin er má kannski fræðast nánar af heimasíðu þeirra sjálfra. Fulltrúaráð RSE er skipað fulltrúum nokkurra stærstu fyrirtækja landsins, m.a. banka og útgerðarauðvaldsins: Ágúst Guðmundsson, Ásdís Halla Bragadóttir, Bjarni Ármannsson, Brynjólfur Bjarnason, Guðmundur Kristjánsson, Heiðar Már Guðjónsson, Ingimundur Sigurpálsson, Jóhann J. Ólafsson, Magnús Gunnarsson, Orri Hauksson, Sigurgeir B. Kristgeirsson, Rannveig Rist, Þorkell Sigurlaugsson.

Rannsóknarráð er skipað fólki sem margt hvert hefur fyrir löngu gert uppskátt um sýn sina á sameiginlegar eigur þjóðarinnar: Ragnar Árnason, Birgir Þór Runólfsson, Jónas Haralz, Hafliði Pétur Gíslason, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, Karl Axelsson, Sigurður Líndal, Tryggvi Þór Herbertsson, Þór Whitehead, Þórólfur Þórlindsson.

Má ekki gera þær kröfur til RÚV að hún kynni ekki þennan hóp til sögunnar sem hlutlausa fræðimenn heldur taki fram úr hvaða ranni þeir koma? Hugtakið gæti til dæmis verið “hægri sinnuð hugmyndaveita” eða “rannsóknarmiðstöð hægri sinnaðra fræðimanna styrkt af stórauðvaldi landsins” sem starfar eftir því yfirlýsta rannsóknarmarkmiði “að efla skilning á mikilvægi eignaréttar og frjálsra viðskipta fyrir framsækið lýðræðislegt samfélag.”

Þá má því við bæta að Guðrún Gauksdóttir dósent hefur einnig tjáð sig í RÚV um málið nýverið. Svo vill til að hún á erindi í umræddri bók RSE, auk prófessoranna Ragnars Árnasonar og Sigurðar Líndal, en þeir eru, eins og einn höfundurinn til, Sigurgeir B. Kristgeirsson hagfræðingur, meðlimir i rannsóknarráði RSE.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband