11.5.2007 | 12:10
Og hvað á að koma í staðinn?
Hvernig halda menn að yrði upplitið á stjórnmálamönnum, t.d. í Danmörku, ef íslenskir fréttamenn kæmu þangað í næstu kosningum með spurninguna: Segðu mér Anders Fogh Rasmussen, hvar ætlarðu að reisa næsta álver? Ha, ekki á dagskrá? Hvað á að koma í staðinn? Ég meina, fer ekki atvinnulíf í Danmörku á hausinn? Hvernig stendur annars á því að þið standið svona vel hvað er þetta annað sem þið byggið á?
Í hvert sinn sem VG hefur í kosningabaráttunni nefnt að þeir vilji stöðva stóriðju, þá hafa ósjálfráð viðbrögð fjölmiðlamanna verið þau að spyrja já, en hvað á að koma í staðinn? Sú spurning er ekki réttmæt nema að vissu marki. Hvað felur hún í sér? Að allt standi og falli með stóriðju. Að það sé hlutverk ríkisstjórnarinnar að handstýra uppbyggingu atvinnulífsins. Að VG sé ábyrgðarlaus gagnvart umbjóðendum sínum og gefi skít í atvinnumöguleika þeirra sem gætu væntanlega starfað í komandi álverum. Og ef fulltrúar VG nefna ekki jafn konkret dæmi um uppbyggingu ákveðinna fyrirtækja sem skapi jafnmörg störf og álver er talið gera, þá hafi þeim mistekist að svara spurningunni með fullnægjandi hætti!
Réttmætari spurning gagnvart kjósendum og VG hefði verið t.d. : Þið viljið stóriðjustopp þar sem það á að koma jafnvægi í atvinnulífinu, lækkun vaxta og bæta svigrúm fyrirtækja - hvernig uppbyggingu sjáið þið fyrir ykkur t.d. á Vestfjörðum?
Af hverju höfum við ekki heyrt Sjálfstæðisflokkinn eða Framsókn spurð að eftirfarandi: Sérfræðingar hafa bent á að áframhaldandi uppbygging álvera leiðir til eyðingar náttúrunnar, þennslu í efnahagslífinu, háum vöxtum og þrengir þar með að möguleikum annarra fyrirtækja til að halda sér í rekstri og skapa atvinnu. Þetta á ekki síst við smærri fyrirtæki á landsbyggðinni. Er það svona sem þið viljið stuðla að því að frelsi einstaklingsins til athafna fái að njóta sín? Er það með þessum hætti sem þið viljið skapa fjölbreytt atvinnulíf? Er þetta leiðin til að skapa sátt með þjóðinni um meðferð náttúrunnar? Er þetta leiðin til að svara kalli nútímans um verndun náttúrunnar? Er þetta leiðin til að halda byggðum landsins blómlegum?Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.