14.9.2007 | 17:46
Hvernig má tryggja almannahagsmuni og náttúrunnar?
Hvað þarf að gera ef að tryggja skal að almannahagsmunir og hagsmunir náttúrunnar njóti forgangs í kapphlaupinu um orkulindir þjóðarinnar?
A: Náttúruauðlindir í þjóðareign
1. Í fyrsta lagi þarf að setja lög um að náttúruauðlindir séu í þjóðareign. Nýtingarréttur á þeim verði háður auðlindagjaldi sem skiptist í tvennt. Annars vegar þarf sá sem ætlar að nýta sér auðlindina, að greiða þeim landeiganda sem á vatnið, heitt eða kalt, til raforkuframleiðslu eða annars, ákveðið afnotagjald. Það afnotagjald er hins vegar reiknað sem ákveðið hlutfall af heildarauðlindagjaldi fyrir leyfi þjóðarinnar til að nýta sér auðlindina. Auðlindagjaldið rennur í sameiginlega auðlindasjóð þjóðarinnar sem m.a. sér um varðveislu auðlindarinnar og náttúrunnar. Þannig verður gjald t.d. fyrir vatnsréttindi því tvenns konar. Fyrst er reiknað hversu mikils þau eru metin í fjármunum, sem er heildarauðlindagjaldið. Ákveðið hlutfall af því rennur til landeiganda, en bróurparturinn til þjóðarinnar.
2. Breyta þarf vatnalögum til samræmis, afnotaréttur tryggður en ekki eignarréttur. Vatnalög falli undir umhverfisráðherra en ekki iðnaðarráðherra.
3. Breyta þarf lögum um auðlindir í jörðu á sama hátt. Þegar veittur er afnotaréttur er tryggilega gengið frá endurskoðunar- og uppsagnarákvæðum ef leyfishafi stendur ekki við gerða samninga.
B. Almannaveitur í höndum almennings
Sett verði lög um að almannaþjónusta sem byggir á náttúruauðlindum heitu og köldu vatni, þ.e. rafveitur, hitaveitur og vatnsveitur séu í höndum hins opinbera. Því þarf að endurskoða lög um vatnsveitur, hitaveitur og sérlög um orkuveitur. Tvennt kemur m.a. til skoðunar: Annars vegar að opinberum veitufyrirtækjum verði breytt á nýjan leik, úr hlutafélögum í opinber fyrirtæki. Að einkarétturinn fylgi aðeins opinberum fyrirtækjum og að þau hafi ekki heimild til framsals á honum til einkaaðila. Það hafi sér stoð, m.a. í lögum um náttúruauðlindir í þjóðareign. Hér má einnig minna á yfirlýsingu 14 félagasamtaka, nánast allra verkalýðsfélaga, umhverfissamtaka, þjóðkirkjunnar og fleiri þar sem skilmerkilega eru settir fram áhersluatriði sem þessi samtök telja mikilvæg í umgengni við vatn. Í yfirlýsingunni Vatn fyrir alla segir m.a. að ekki beri að meðhöndla vatn sem hverja aðra verslunarvöru og að vatnsveitur skuli reknar á félagslegum grunni. (Sjá: http://www.bsrb.is//page.asp?id=688 )
Ef að rekstrarform opinberra fyrirtækja þykir of svifaseint þá er hægt að bæta úr því með að setja sérstök lög um opinber hlutafélög, sem eru öflugri og lýðræðislegri en þau lög sem nú eru í gildi um opinber hlutafélög. Slíkt hlutafélag hefur lögvarinn einkarétt til að reka opinbera almannaþjónustu og getur um leið tekið þátt í útrás í formi dótturfélaga. Reynsla og þekking er það sem menn hafa með sér í farteskinu til útlanda, ekki vatn í pípum eða rafmagn í leiðslum. Ef að það félag veitir ekki tekjum af einkaleyfisrekstri inn í útrásarfyrirtækið er ekkert því til fyrirstöðu að þetta tvennt fari saman. Ekki þarf að óttast ESA eða ESB þess vegna.
C. Opinber fyrirtæki í einkarekstri?
Ferlið hefur verið þannig að opinberar veitur hafa haft einkarétt á nýtingu náttúruauðlinda til hagsmuna fyrir almenning. Þeim er síðan breytt í hlutafélög og oft gefið leyfi til framsals einkaréttarins til hlutafélagsins. Þegar aðrir aðilar kaupa sig síðan inn í hlutafélagið eignast þeir einkaréttinn sem upphaflega var veittur á þeim forsendum að hann væri í höndum opinberra aðila í almannaþjónustu. Greitt er fyrir áratuga uppbyggingu reynslu og kunnáttu og framtíðararð með eingreiðslu.
Nú er ég ekki einn þeirra sem álíta að um leið og glittir í einhvern aur eða möguleika á að starfsemi hins opinbera geti verið arðsöm, að þá eigi hið opinbera með hið sama að afsala sér þeim tekjum, sem nýta má til uppbyggingar velferðarsamfélagsins, í hendur einkafyrirtækja og valinna gulldrengja. Ég tel eðlilegt að hið opinbera sem hefur byggt upp þekkinguna í orkugeiranum og hefur reynsluna, tækin og tólin, njóti þess, enda eru það eldri og yngri kynslóðir almennings, sem hafa greitt fyrir þessa þekkingu og uppbyggingu með sköttum sínum, sem munu þá njóta þess. En ef að hið opinbera fer í slíkan rekstur, sem kann að vera utan hefðbundins rekstrarsviðs þess, að þá á auðvitað að nýta þá kosti sem opinber rekstur hefur umfram einkarekstur og öll stjórnsýsla og framvinda á að vera opin og almenningi ljós. Ég er hér að tala um verkefni eins og djúpboranirnar, jarðhitaverkefni OR í gegnum Enex o.s.frv. Samstarf hins opinbera við einkafyrirtæki í slíkum verkefnum þarf að ræða, ábyrgð og ákvarðanataka að vera skýr og ljóst að ekki komi til hagsmunaárekstra á öðrum sviðum.
Þessa dagana er rætt um það sem lausn á yfirstandandi vanda að skilja að grunnþjónustu og samkeppnisþjónustu. Þá er verið að tala um raforkuna, rétt eins og það sé orðið náttúrulögmál að hún sé samkeppnisþjónusta, en ekki eins og hart hafi verið tekist á um málið í Evrópu og að reynslan sýni að markaðskerfi fyrir raforku gangi ekki upp. Vatnsveitur og hitaveitur eigi hins vegar að vera í höndum almennings. Hér hefur verið sýnt fram á að það er ekki tryggt nema að núgildandi lögum sé breytt, sem sjálfsagt er að gera.
Hvað raforkuna varðar og útrásarfyrirtæki opinberra aðila varðar þá er sagt að skilja eigi það frá opinberum rekstri og selja til einkaaðila. Rafveita er almannaþjónusta ekki síður en vatnsveita. Við búum síðan við þá staðreynd að sameiginlegt raforkukerfi landsmanna hefur verið notað til að selja orku til erlendra álvera. Ekki er ástæða til að selja þann hluta raforkukerfisins.
Dótturfélög OR (og annarra) ætla síðan í útrás með áhættufé almennings í formi hlutafélaga og í slagtogi með einkafyrirtækjum. Ekkert er því til fyrirstöðu að almenningur eigi áfram hlut í slíkum fyrirtækjum. En ef að hið opinbera fer í slíkan rekstur, sem kann að vera utan hefðbundins rekstrarsviðs þess, að þá á auðvitað að nýta þá kosti sem opinber rekstur hefur umfram einkarekstur og öll stjórnsýsla og framvinda á að vera opin og almenningi ljós. Ég er hér að tala um verkefni eins og djúpboranirnar, jarðhitaverkefni OR í gegnum Enex o.s.frv. Samstarf hins opinbera við einkafyrirtæki í slíkum verkefnum þarf að ræða, ábyrgð og ákvarðanataka að vera skýr og ljóst að ekki komi til hagsmunaárekstra á öðrum sviðum.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:54 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.