Stenst salan á hlut ríkisins í HS hf lög?

Fátt er meira rætt þessa dagana en hlutafélagavæðing OR og sala á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf, til Geysis Green Energy. Þar með hafi opnast leið fyrir erlend stórfyrirtæki og einkaaðila að náttúruauðlindum þjóðarinnar og einkarétti á nýtingu á þeim eftir atvikum. Hvernig gerðist þetta spyrja menn? Stenst þetta lög?

Ferlið hefur verið þannig að opinberar veitur í eigu sveitarfélaga hafa haft einkarétt á nýtingu náttúruauðlinda til hagsmuna fyrir almenning. Þeim er síðan breytt í hlutafélög og oft gefið leyfi til framsals einkaréttarins til hlutafélagsins. Þegar aðrir aðilar kaupa sig síðan inn í hlutafélagið virðist nú gengið út frá að þeir eignast einkaréttinn sem upphaflega var veittur á þeim forsendum að hann væri í höndum opinberra aðila í almannaþjónustu.

„Þetta er eðlilegt“, segja þeir sem alltaf vildu markaðsvæða grunnþjónustuna, „Hitaveita Suðurnesja hf er eins og hvert annað hlutafélag. Nýjir hluthafa kaupa hlut í því sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða, þó svo að í þessu tilfelli sé um að ræða náttúruauðlindir þjóðarinnar.“  „Þetta er óeðlilegt,“ segja þeir sem telja ekki rétt að náttúruauðlindir gangi kaupum og sölum. Allra síst fyrir þá sök að skammsýnir (eða framsýnir?) áhugamenn um hlutafélagaform í fyrri ríkisstjórnum, klæddu opinber orkufyrirtæki í þann búning undir formerkjum "liprari stjórnunarhátta" og náttúruauðlindirnar virðast hafa slæðst með í kaupunum, eins og fyrir tilviljun.

 

Það er ljóst að hugsunin var alltaf sú í gildandi lögum um hitaveitur að sveitarfélögin færu með einkaréttinn og í þeim tilfellum sem mátti framselja hann, var það háð skilyrðum. Um framsal einkaréttar á hitaveitu segir t.d. í orkulögum að hann megi aðeins framselja tímabundið. (Einkaleyfi það, sem um ræðir í 27. gr.,2) getur sveitarfélag, með samþykki ráðherra, framselt einstaklingum eða félögum að einhverju eða öllu leyti um ákveðið tímabil í senn með þeim skilyrðum og kvöðum, sem ástæður þykja til.) Því er spurt; til hvers langs tíma keypti Geysir Green Energy (GGE) sig inn í Hitaveitu Suðurnesja? Fylgdu einhverjar kvaðir sölunni? Er salan lögum samkvæmt?

Í lögum um HS hf frá 2001 var sérstaklega tekið fram að ríkissjóður mætti leggja hlut sinn inn í fyrirtækið; ekki var vikið orði að því að ríkissjóður mætti selja sinn hlut með þeim tilmælum einkavæðingarnefndar að allir mættu kaupa nema opinberir aðilar! Er salan til GGE samkvæmt anda laganna? Í lögum um HS er talað um að einkaleyfið sé veitt Hitaveitu Suðurnesja hf. „til starfrækslu hita- og rafveitu innan sveitarfélaga, sem aðild eiga að fyrirtækinu.“. Hvergi er ræddur möguleikinn á að einkaaðilar gætu öðlast þennan einkarétt með kaupum á hlutabréfum í HS hf. 

Er ekki augljóst að hér er verið að fara á svig við ætlun löggjafans, nema það hafi alltaf verið ætlunin eins og VG og aðrir hafa löngum varað við, að með hlutafélagavæðingu sé verið að setja hið opinbera fyrirtæki á markað? Hlutafélagalögin blífi og ekkert tillit verði tekið til heitstrenginga um annað? Er furða nema menn spyrji hvað verði um OR hf, ef sú gerð fær samþykki borgarstjórnar?

Það virðist alla vega ljóst að ríkisstjórn sem ákveður að selja hlut sinn í HS hf og gerir að skilyrði að hann verði aðeins seldur einkaaðilum, skákar í skálkaskjóli hlutafélagalaganna og ekki verður betur séð en hún fari á svig við gildandi lög, orkulög og sérlög um SH hf.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband