18.9.2007 | 18:01
Formsatriði fullnægt?
Hér hefur verið velt vöngum yfir hvað þurfi að gera eigi að koma í veg fyrir að einkafyrirtæki, innlend eða erlend fari með einokun á sölu á grunnþjónustu til almennings, drykkjarvatni, heitu vatni og rafmagni og/eða að náttúruauðlindum sé úthlutað til þeirra á silfurfati. Hér er sú þula endurtekin stuttlega, en í meginmáli farið yfir af hverju varasamt er að láta vatnsveitur, hitaveitur og rafmagnsveitur vera á hlutafélagaformi.
Til að svo megi verða verður að gera eftirfarandi: Setja lög um náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar. Reiknað auðlindagjald renni að stærstum hluta til þjóðarinnar í sérstakan sjóð en sómasamlegur hluti þess renni til landeiganda fyrir afnot af vatni, heitu, köldu eða til rafmagnsframleiðslu. Tryggja að ríki eða sveitarfélög fari ein með einkarétt á heitu og köldu vatni og rafmagni sem selt er og dreift til almennings. Það þýðir að breyta verður lögum um hitaveitur, vatnsveitur og rafmagnsveitur. Afnema verður hlutafélagaform vatnsveitna og hitaveitna og þær verði reknar sem opinber fyrirtæki. Undið verði ofan af raforkulögum frá 2003 og kostir lárétts samruna fái að njóta sín. Óháð eftirlit verður hins vegar stóreflt og viðmiðunarkröfur með hliðsjón af almenningshagsmunum og náttúruvernd gerðar skýrari. Fylgja þarf settum lögum um náttúrvernd og tryggt að náttúran og almannahagsmunir njóti forgangs.
Það er til önnur mun lakari leið, sem kann engu að síður virðast álitlegur kostur við fyrstu sýn. Hlutafélagaformið verður látið standa með skilyrðum og því sagt sem svo: Ef hlutafélagaformið á að standa, þannig að einkaaðilar geti keypt sig inn í hin opinberu veitufyrirtæki, þá verði hinni hlutafélagavæddu veitustofnun aðeins veitt tímabundið sérleyfi til rekstrar. Þjóðin (ríkið/sveitarfélögin) lætur aldrei frá sér eignarréttinn á náttúruauðlindinni.
Formsatriðum er þá fullnægt, eða hvað?
Af hverju er þessi leið ekki í góðu lagi, svona með hliðsjón af sölu hluta í SH hf? Hægt er að stafhæfa að þessi leið sé ekki góð vegna þess að reynslan sýnir það.
Í fyrsta lagi hafa veitur í eigu hins opinbera annan tilgang en séu þær í eigu einkaaðila. Annars vegar eru þær reknar með almannahagsmuni fyrir augum, hins vegar til að skila hluthöfum sínum ágóða. Jafnvel þó svo að í upphafi séu sett skilyrði um að einkafyrirtæki verði að gæta almenningshagsmuna, þá sýnir reynslan að þau leggja ekki út í kostnað nema að tryggt sé að þau fái greitt fyrir þannig að krónan þeirra skili lágmarksávöxtun. Þetta þýðir að þeir tekjuminnstu lenda út undan, þeir sem búa á jaðarsvæðum lenda út undan. Og eftir að einkafyrirtækið hefur komið sér fyrir í innviðum hins opinbera fyrirtækis, þá fer það að gera kröfur um endurskoðun samninga. Það geti ekki haldið úti þjónustu fyrir þessa aðila, það sé því of dýrt. Og hver fær þá að hlaupa undir bagga og bera kostnaðinn af dýrasta hluta veitukerfisins? Ríkið og sveitarfélög að sjálfsögðu. Eftir situr þá einkafyrirtækið sem alls ekki sinnir almannahagsmunum, heldur fleytir rjómann ofan af.
Í öðru lagi liggur fyrir að þó svo hlutafélagi yrði veitt tímabundið sérleyfi, þá yrði gerð krafa um leyfi svo áratugum nemur. Þar sem nýja fyrirtækið er byggt á grunni hins opinbera fyrirtækis og yfirtekur starfsmenn, uppsafnaða reynslu og þekkingu, viðskiptasambönd, tæki og tól og fasta fjármuni að þá er ekki lengur öðru fyrirtæki til að dreifa á starfssvæðinu. Tímabundið sérleyfi yrði því aðeins nafnið eitt, í reynd er fyrirtækið komið með nánast óafturkræft einkaleyfi.
En áhugamenn um einkavæðingu hafa haft tilhneigingu til að líta fram hjá svona smáatriðum og segja að tímabundið sérleyfi yrði ekki veitt nema með ströngum skilmálum um afturköllun leyfis, standist kröfur ríkisins/sveitarfélagsins til fyrirtækisins um almannaþjónustu ekki. Og hver ætlar að setja svo skýrar kröfur um þau efni að dýrir lögfræðingar geti ekki um þau deilt? Og hvaða eftirlitsstofnun mun verða það öflug og sjálfstæð að hún muni afnema einkaleyfi Orkuveitu Reykjavíkur Geysis Goldmann Inc á sölu á heitu og köldu vatni af því að verðið er orðið hærra en í upphafi var ætlað eða að einhverjir sem ekki eru borgunarmenn séu aftengdir kerfinu? Og eins og áðan var bent á, hver á að hlaupa í skarðið? Fyrirtækið mun hafa á að skipa öllum fyrri starfsmönnum OR og ekki liggur annað fyrirtæki á lager sveitarfélagsins tilbúið að taka við?
Ef menn væru hins vegar harðákveðnir að ná aftur í hið opinbera fyrirtæki úr höndum hins ótæka einkafyrirtækis, þá má búast við að það gerði kröfur um skaðabætur fyrir tap á væntanlegum ágóða sem það hugðist ná inn á eftirstandandi samningstímabili. Mörg dæmi eru um slík málaferli og halda einkafyrirtæki þeim úti í áravís fyrir alþjóðlegum viðskiptadómstólum ef því er að skipta.
Hlutafélagavæðing og markaðsvæðing opinberra veitufyrirtækja er því ekki raunhæfur kostur fyrir almenning. En einkavæðing og yfirtaka opinberra veitufyrirtækja er hins mjög áhugaverður fjárfestingarkostur fjáraflamanna. Þeir hafa neytendur sem komast hvergi, þeir hafa tryggingaraðila í formi hins opinbera ef þeir skyldu klúðra málinu. Sem á eiginlega ekki að vera hægt á Íslandi þar sem almenningur hefur þegar greitt fyrir og byggt upp frábærar veitur sem allir njóta. Eina sem fjármálamennirnir þurfa að passa sig á er að ganga ekki fram af þjóðinni í að rukka inn gróðann. Reynslan hefur hins vegar sýnt að íslenskir neytendur eru seinþreyttir til vandræða og ef það heyrist kurr úr horni, má alltaf fjölga sértilboðum þangað til að kerfið er orðið gjörsamlega ógagnsætt. Við höfum þegar reynslu af slíku.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.9.2007 kl. 09:06 | Facebook
Athugasemdir
Það verður að leggja allt kapp á að vatn og raforka hér á landi haldist í eigu hins opinbera. Ef til vill væri best að hafa aðeins eitt raforkufyrirtæki sem sæi um raforkusölu til allra landsmanna sem fengju þá raforkuna á sama verði. Hlýtur að vera áhugamál þeirra sem á annað borð eru hlynntir einhvers konar byggðastefnu.
Það er illt til þess að hugsa að okkar dýrmætustu auðlindir lentu í höndunum á einkafyrirtækjum. Ég held hreinlega að fólk almennt geri sér ekki grein fyrir hættunni á því að það geti gerst.
Kolgrima, 18.9.2007 kl. 18:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.