19.9.2007 | 16:07
Laugardagsþátturinn - In memoriam
Þá er genginn einn albesti þátturinn á öldum ljósvakans - Laugardagsþáttur RÚV. Þar fengu ýmis brennandi samtímamál góða umfjöllun og ítarlega. Mál sem ættu að vera mun fyrirferðarmeiri í fjölmiðlum, ef allt væri með felldu, en fá því miður litla sem enga umfjöllun. Þar hefur einn besti en um leið hógværasti fréttamaður RÚV, Þorvaldur Friðriksson, farið í broddi fylkingar. Blaðamannafélag Íslands hlýtur að taka framlag hans sterklega til skoðunar næst þegar kemur að úthlutun blaðamannaverðlauna. Ákvörðun Sigrúnar Stefánsdóttur um að leggja þáttinn niður er með öllu óskiljanleg og væri fróðlegt að heyra hana gera grein fyrir þeirri ákvörðun.
Að vísu kemur ágætis útvarpsmaður í skarðið, Hjálmar Sveinsson með þátt sinn Krossgötur og er vonandi að honum takist að fylla í fótspor Þorvalds og félaga. En það er skrítið að ekki skuli vera til pláss í dagskrá RÚV fyrir báða þessa þætti. Dagskrá RÚV hefði verið betri fyrir vikið.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:38 | Facebook
Athugasemdir
Bíddu nú við - er búið að leggja laugardagsþáttinn niður? Ég var að koma úr fríi, svona er þetta, maður má ekki bregða sér til útlanda, þá er eitthvað svona gert. Hversu oft hef ég ekki dásamað þennan þátt sem ásamt Speglinum hefur glitrað eins og demantur í sorphaugi íslenskra ljósvakamiðla (það slær svo sem líka ljóma af ýmsu öðru í Ríkisútvarpinu (altsvo hljóðvarpinu)). Nú verður Hjálmar að standa sig, en eins og þú segir, mátti ekki bara bæta honum við?
Einar Ólafsson, 20.9.2007 kl. 12:54
Páll, það var ekki ákvörðun Sigrúnar Stefánsdóttur, heldur Óðins Jónssonar, fréttastjóra. Þátturinn var á hans vegum. Ég sakna þáttarins líka.
María Kristjánsdóttir, 2.10.2007 kl. 12:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.