23.10.2007 | 10:30
Aðgengi og neysla
Það hefur ekki farið fram hjá alþjóð að aftur er komið á kreik árlegt frumvarp um sölu áfengis í almennum matvöruverslunum, ættað frá ungmennadeild Sjálfstæðisflokksins þar sem núverandi heilbrigðismálaráðherra Guðlaugur Þór hefur í áravís verið fyrsti flutningsmaður. Eitthvað þótti það lítt við hæfi að heilbrigðisráðherra gengi með þessum hætti í berhögg við stefnu Lýðheilsustofnunar og var því Sigurður Kári fenginn til að halda glasinu á lofti.
Guðlaugur Þór hefur engu að síður tekið persónuleg áhugamál fram yfir skyldur sínar sem ráðherra og lýst stuðningi við frumvarpið og þar með sett undirmenn sína, eins og Þórólf Þórlindsson, forstjóra Lýðheilsstofnunar og undirmann ráðherra í klemmu. Það mátti glöggt sjá í Kastljósþætti Sjónvarpsins um daginn. Þar sagðist Þórólfur persónulega vera á móti frumvarpinu en þorði sem (nýráðinn) forstjóri Lýðheilsustofnunar greinilega ekki að ganga gegn því (og yfirlýstum vilja heilbrigðisráðherra) og lét þar af leiðandi stefnu stofnunarinnar liggja óbætta hjá garði.
Fyrir það hefur hann verið réttilega gagnrýndur og hvort sem það er fyrir tilverknað Þórólfs eða að öðrum orsökum, mætti fulltrúi Lýðheilsustofnunar í morgunútvarpið í morgun. Þar rakti Rafn M. Jónsson verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Lýðheilsustofnun stefnu stofnunarinnar í málinu og rökin fyrir henni. Lýðheilsustofnun er alfarið á móti sölu áfengis í matvörubúðum og taldi Rafn upp margar neikvæðar afleiðingar af auknu aðgengi að áfengi.
Þar kom fram m.a. að aukið aðgengi og lægra verð leiðir fyrst og fremst til aukinnar neyslu meðal ungmenna og þeirra sem höllum fæti standa. Um 200 þúsund manns deyja árlega innan Evrópusambandins vegna misnotkunar áfengis. Í ljósi þessa fara hægindarök eins og að það sé sjálfsagt og geta tekið rauðvínsflösku með um leið og maður kaupir ostinn að hljóma ansi sjálfhverf og kaldhæðin.
Engu að síður brást spyrjandi Rafns ekki og spurði hinnar klassísku spurningar þeirra sem vilja kalla stefnumótun yfirvalda í heilbrigðismálum forræðishyggju: Á ekki að treysta fullorðnu fólki að taka ábyrgð á eigin lífi? Svar Rafns og viðtalið í heild má heyra hér (http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4304628 ) en við það vil ég bæta einni lítilli hugleiðingu frá eigin brjósti.
Sjónvarpið hefur að undaförnu sýnt áhugaverða þætti frá BBC um mataræði fólks og fjallaði þar m.a. um tengsl neyslu og skammtastærðar. Sýnt var hvernig ungir krakkar gengu södd og ánægð frá matarborði eftir að hafa fengið hæfilegan skammt eins og ráðlagt var af sérfræðingi. Tveimur vikum síðar var sama barnahópi gefinn tvöfaldur skammtur á diskinn og reyndust þau þá hikstalaust borða milli 60 til 70% meira. Niðurstaðan var sem sagt sú að aukið aðgengi, þ.e. stærri skammtar leiða af sér óheilbrigða og óþarfa neyslu og þar af leiðandi offituvanda og meðfylgjandi sjúkdóma og kvilla. Þetta orsakasamhengi er þekkt og gildir fyrir fullorðna líka, þó svo að margir þeirra séu meðvitaðir um hættuna og reyni að forðast freistinguna. Spurningin er hvort ekki gildi nákvæmlega sömu lögmál um sambandið milli aukins aðgengis og neyslu áfengis?
Það ætti alla vega að vera kominn tími fyrir heilbrigðisráðherra þjóðarinnar að íhuga málin í þessu samhengi, fremur en að hanga eins og hundur á roði á gamalli stefnu Heimdellinga um blessun hömlulauss verslunarfrelsis og skaðsemi forræðishyggju stjórnvalda.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:36 | Facebook
Athugasemdir
Áfengi er skilgreint sem fíkniefni og meginreglan ætti að vera sú, að fíkniefni séu ekki seld í matvöruverslunum.
Kolgrima, 24.10.2007 kl. 00:40
Áfengi er hættulegasta og skaðlegasta vímuefnið. Fjölmargir geta höndlað með það í hófi, en hörmungasögurnar eru margar því nógu andsk... margir geta ekki stjórnað drykkjunni. Flest illvirki í samfélaginu eru framin undir áhrifum þessa vímuefnis. Það góða fólk sem kann að stjórna drykkju sinni, og er voða fínt með rauðvín og sérrý, ætti einmitt að vera skilningsríkt og sætta sig við takmarkað aðgengi að þessu hættulega efni. Ég vil út af fyrir sig ekki, sem alkóhólisti, vera að þröngva of mörgum boðum og bönnum á fólk sem ekki er alkóhólistar, en mér finnst einfaldlega ekkert að því að vínkaupendur þurfi að fara í sérbúðir til að nálgast þetta vímuefni. Mér finnst það lítil fórn í þágu samfélagsins.
Friðrik Þór Guðmundsson, 27.10.2007 kl. 14:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.