Sótraftar og sanngirni

 

Sæll félagi Einar og þakka þér fyrir ágæta grein á Smugunni. (http://smugan.is/2012/01/svokalladur-sotraftur/)

 

Sitjandi hér í Danaveldi gefur nokkra fjarlægð á atburðarásina heima á Íslandi. Og stundum vekur sú atburðarás mér nokkra furðu, sem vert brjóta heilann ögn um. Eins og nú, þegar Ögmundur Jónasson er skyndilega úthrópaður sem svikari (við hvað er svo önnur spurning) og helsta hlaupatík Sjálfstæðisflokksins! Svo virðist að öll hans góðu verk og skýra pólitíska afstaða í gegnum áratugina sé sumum hinna öru penna með öllu gleymd og einhverjum finnst rétt að þjóna lund sinni með því að telja að afstöðubreyting Ögmundar í Haarde-málinu, hafi afhjúpað þann ístöðulausa pólitíska auðnuleysinga sem þau hafa alltaf grunað Ögmund um að vera! Og þegar litið er til þeirrar pólitísku forystu sem Ögmundur Jónasson hefur veitt bæði innan verkalýðshreyfingarinnar, í almennri þjóðmálaumræðu sem og á Alþingi, þar sem hann hefur staðið einarðlega fyrir vinstri sjónarmiðum jöfnuðar og mannréttinda og hlíft sér hvergi, þá vekur sú heift og óbilgirni sem margir skríbentar hafa sýnt í skrifum sínum, upp nokkrar spurningar.

 

Að stela glæpnum

Hverjir eru það sem gagnrýna Ögmund helst og af hvaða ástæðum? Ástæðan er fyrst og fremst sú, að gagnrýnendur Ögmundar virðast telja að hann ætli nú að stela glæpnum af þjóðinni. Hann ætli sem sagt að gera sitt til þess að þeim eina pólitíska blóraböggli sem þjóðin fékk í sinn hlut, eftir að Samfylkingin hafði losað sýna eigin menn ofan af snaganum, verði skotið í skjól. Og að þjóðin verði því rænd þeirri friðþægingu sem fengist með því að “einhverjum” yrði refsað fyrir Hrunið. Það sé ekki nóg að taka gróðapungana í bönkunum sem breyttust í glæpona – þeir verði vonandi pikkaðir upp af lögreglunni með tíð og tíma, - en það hafi ekki verið þeir sem breyttu kerfinu þannig að boðið var upp í Hrunadansinn.

 

Fyrir þann glæp verði einhver að svara, þann glæp vantar eitthvert andlit. Nú er það svo að í hugum flestra skjóta önnur nöfn upp kollinum, í því sambandi, á undan nafninu Geir Haarde. Nöfn eins og Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Halldór Ásgrímsson, Valgerður og Finnur, og svo má auðvitað ekki gleyma Samfylkingunni, Ingibjörgu Sólrúnu og félögum, - en um það sé ekki að fást – þegar allt kemur til alls sé betra að hafa einhvern til að draga fyrir dómara en engan.

 

Önnur sök Ögmundar

Önnur sök Ögmundar er sögð vera sú, að með því að koma í veg fyrir málflutning fyrir Landsdómi, fari engin krufning fram á orsökum glæpsins. Hvernig stóð á því að Hrunið gat orðið? Þarf ekki að svara því hvernig stóð á því að bankarnir voru einkavæddir, að þeir voru afhentir mönnum sem voru sérvaldir af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, að einkavæðingarnefnd fór hamförum, að græðgisvæðingin var innleidd sem hið eftirsóknarverða? Að yfir eftirlitsstofnanir voru settir menn sem trúðu því að markaðurinn þrifist best án eftirlits? Að hin opinbera almannaþjónusta var töluð niður í áratugi, fjársvelt og talin betur komin í höndunum á einkaaðilum? Hvert var hlutverk Alþingis, stjórnsýslunnar? Hvert var hlutverk – og ábyrgð- kjósenda?

 

Kapallinn verður að geta gengið upp

Að sjálfsögðu þarf að svara þeim spurningum. Það hefur að hluta til verið reynt með rannsóknarskýrslum Alþingis. En hér þyrfti að koma til enn meiri vinna og víðtækari – hafi þjóðin á annað borð áhuga á að fá svör við þessum spurningum. Og það er einmitt ein af röksemdum Ögmundar – hvort sem menn eru sáttir við hana eða ekki, - að spurningarnar sem bíða svara Landsdóms séu fyrirfram gefnar og of afmarkaðar til þess að veita svörin sem þjóðin þarf á að halda. Og hætt er við, að þegar þeir sem hæst láta nú og hafa ekki þolinmæði til að bíða eftir einhverri “sannleiksnefnd” - að örendi þeirra verði þrotið þegar Landsdómur hefur þæft um það í mánuði hvað sé átt við með “andvaraleysi” eða “ábyrgð” og hvort sú ábyrgð sé Geirs eins eða annarra líka. Og Landsdómurinn getur augljóslega ekki dæmt einhvern annan fyrir hugsanlegan glæp, en þann sem stefnt er fyrir réttinn. Það verður því aldrei fjallað um ábyrgð Davíðs Oddsonar eða Hannesar Hólmsteins fyrir Landsdómi svo dæmi sé tekið. Kapallinn mun aldrei ganga upp ef búið er að tína flest mannspilin úr bunkanum.

 

Hin sleipa lögfræðisápa

Og ætli menn telji því ekki, þegar upp er staðið og Landsdómur hefur kveðið upp sinn úrskurð, að það hefði verið betra að fara af stað með einhvert það ferli, sannleiksnefnd eða annað, sem gefur svör við hinum nauðsynlegu spurningum sem ekki verður spurt fyrir Landsdómi. Því að sjálfsögðu er ekki víst hvort Landsdómur finnur Geir Haarde sekan; hvort sem er um “andvaraleysi”, eða að hann hafi brugðist “ábyrgð”. Var það ólöglegt að setja lög sem leiddu til hrunsins og fara svo eftir þeim lögum? Það kemur til með að standa og falla á einhverri lögfræðisápu – og henni sleipri.

 

Það sem þjóðin veit

Þjóðin þarf ekki Landsdóm til að segja sér það sem hún veit. Hún veit að það var Sjálfstæðisflokkur, dyggilega studdur af Framsóknarflokki sem innleiddi hér það kerfi nýfrjálshyggjunnar sem var sú umgjörð sem olli Hruninu á Íslandi og þeirri kreppu sem að Evrópa og hinn vestræni heimur býr nú við. Hún veit líka hverjir voru leikendur og leikstjórar þegar það farsastykki var sett á fjalirnar á Íslandi, að háskólaprófessorum og Hæstaréttardómurum ógleymdum. Og hún veit líka að þeir hægri kratar í Samfylkingunni sem þar hafa setið í forsæti, voru síður en svo fráhverfir mörgum af þeim grundvallarbreytingum sem komið var á. Þeirra átrúnaðargoð var lengstum Tony Blair, en meira af opinberri þjónustu var einkavædd í hans tíð, en í tíð Margrétar Thatcher. Og þjóðin veit það sem meira er, hún veit hverjir kusu þessa hrunflokka ítrekað til valda, - og virðist svo sem ætla að færa þeim völdin á nýjan leik, ef marka má skoðanakannanir.

 

Að hengja bakara fyrir smið

Það er því að hengja bakara fyrir smið og nota til þess ósanngjarnan málflutning, ef saka á Ögmund um að vilja ræna þjóðinni tækifærinu til að gera upp við Hrunið. Fyrir það fyrsta hefur hann lagt höfuðið á höggstokkinn, ef svo má að orði komast, til þess að vara við því að málaferli fyrir Landsdómi muni ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að orsakir Hrunsins verði skoðaðar að fullu. Þvert á móti sé hætta á að það próf sem á að segja til um hver beri ábyrgð á því hruni, muni gefa ranga, eða amk ófullnægjandi niðurstöðu. Það sem meira er, hætta sé á að sú niðurstaða verði látin standa sem “Niðurstaðan”; “Geir Haarde bar ábyrgð á Hruninu” – eða “Geir Haarde bar ekki ábyrgð á Hruninu”. Hvoru tveggja sé augljóslega ófullnægjandi niðurstaða. Því sé rétt að fara aðra leið svo komast megi að sanngjarnari og meira upplýsandi niðurstöðu.

 

Skjótum sendiboðann

Í annan stað er það grár leikur að ásaka Ögmund Jónasson um að vilja fela orsakir Hrunsins fyrir þjóðinni. Því ef að það er einhver sem hefur verið óþreytandi á undanförnum áratugum að vara við hvert stefndi, þá hefur það verið Ögmundur Jónasson. Og það hefur langt því frá verið þakklátt starf fyrir öllum. Um það geta Davíð Odddsson, Geir Haarde, Halldór Ásgrímsson, Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir, Ingibjörg Sólrún og margir fleiri vitnað!

 

Að fylgja eigin sannfæringu...

Og að ásaka Ögmund Jónasson fyrir að ganga erinda Sjálfstæðisflokksins í þessu máli, er í besta falli kjánalegt, í versta falli illgjörn tilraun til að koma höggi á pólitískan andstæðing. Það vita það allir sem vilja vita, að Ögmundur Jónasson gengur ekki og hefur aldrei gengið erinda Sjálfstæðisflokkins. Að ímynda sér það er augljós firra fyrir öllum þeim sem þekkja til hvaða mann Ögmundur hefur að geyma. Er líklegt að hinn þrautreyndi stjórnmálamaður, Ögmundur, hafi gert sig svo berskjaldaðan fyrir gagnrýni, eins og raunin er, af einhverjum pólitískum aulaskap eða til þess eins að ganga erinda Sjálfstæðisflokkins, Bjarna Ben. eða til þess að koma sér fyrir í Hádegismóum? Ég held ekki. Ég held hins vegar að Ögmundur sé stjórnmálamaður þeirrar gerðar að hann fylgi sannfæringu sinni og sé tilbúinn að viðurkenna mistök sem hann telji að sér hafi orðið á. Það gerir hann augljóslega í þessu tilfelli, jafnvel þó það sé umdeilt og að hann liggi vel við höggi gagnrýnenda í kjölfarið. Ekki síst þar sem að svo gæti virst sem að skoðanir hans og Sjálfstæðisflokksins fari saman í málinu.

 

... það sama og fylgja Sjálfstæðisflokknum?

En vilji menn gagnrýna Ögmund fyrir þessa skoðun sína, þá verða menn að hafa þá skynsemi til að bera að þeir viðurkenni hið augljósa. Að skoðun Ögmundar og skoðun Sjálfstæðisflokksins á því af hverju ekki eigi að draga Geir Haarde fyrir Landsdóms eiga sér gjörólíkar forsendur.

Ögmundur vill varna því að málið verði til þess að orsakir Hrunsins verði allar raktar til Geirs Haarde og að víðtækari skoðun á Hruninu ljúki þar með;

Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki skoða orsakir hrunsins, hann vill ekki að fyrrverandi formaður flokksins sé eina andlit “glæpsins” – það var aldrei neinn “glæpur” framinn af fulltrúum Sjálfstæðisflokkins – í besta falli einhverjir óreiðupésar (flokknum óviðkomandi) sem réðu ekki við að höndla það frelsi sem Davíð færði þeim. Skoðanir Ögmundar og Sjálfstæðisflokksins fara því auðvitað ekki saman; því síður er þá rétt að draga þá ályktun að Ögmundur sé að ganga erinda Sjálfstæðisflokkins í málinu.

 

Hverjir eru óánægðir?

Hverjir eru það þá sem gagnrýnt hafa og jafnvel veist að Ögmundi Jónassyni, og Guðfríði Lilju og Jóni Bjarnasyni, fyrir að hafa þá skoðun að það sé aðrar leiðir betri til að gera upp Hrunið og finna þá sem ábyrgir voru fyrir því, en að draga Geir Haarde einan fyrir Landsdóm. Ég held að þeim hópi megi í grófum dráttum skipta í tvennt:

 

 

Annars vegar ósköp vanalegu fólki sem les ekki, skilur ekki, eða er einfaldlega ekki sammála, röksemdafærslu Ögmundar og finnst að það sé verið að hafa af þjóðinni tækifærið til að “loka málinu” - loka umræðunni um Hrunið. Nú eða að það sé verið að girða fyrir sérhverja möguleika á réttlátri umræðu. Að það sé verið að hafa af þjóðinni þá fróun að einhverjum a.m.k. verði veitt sú ráðning sem hann á skilið – það sé skömminni skárra en að allir gangi lausir og engin beri ábyrgð! En þá verður að hafa í huga að það er alls ekki markmið Ögmundar að allir gangi um án ábyrgðar, þvert á móti er það markmið hans að öllum steinum verði velt við! Að það verði ekki gengið út frá því að Hrunið sé einhverjum einum að kenna. Því það er auðvitað óþolandi með öllu að hirðin hans Davíðs og Halldórs og Sólrúnar, fái að sitja í sínum feitum embættum óáreitt og enginn beri nokkra ábyrgð – nema kannski Ögmundur Jónasson! Og þó svo þjóðina þyrsti skiljanlega í réttlæti, þá verður því varla fullnægt með árásum á hann.

 

Pólitískir hælbítar eða riddarar sannleikans?

Svo eru það hinir sem eru að skrifa í pólitískum tilgangi. Sumir skrifa, held ég, af því þau þekkja ekki manninn Ögmund eða konuna Guðfríði – og margur heldur að aðrir séu eins og hann sjálfur. Ég held því að því ásakanir um “pólitískan sóðaskap” séu litaðar af einhverjum raunveruleika sem hinn sami er hluti af, nema þá að hann sjái ekki upp fyrir þúfurnar á hinum pólitíska vígvelli og nái ekki samhenginu. Að ásaka Atla Gíslason, Guðfríði Lilju Grétarsdóttir, Jón Bjarnason, Lilju Mósesdóttir og Ögmund Jónasson fyrir að “bera nú ábyrgð á því að Hrunið verður ekki gert upp” og óska þess að þau megi hafa “skömm fyrir um aldur og ævi” ber pólitískri blindu og pólitískum sóðaskap viðkomandi, Þórs Saari, ævarandi vitni. Nema að hann telji að með þeim fáheyrðu ummælum sé hann að vinna sér í mjúkinn hjá þeim Jóhönnu og Steingrími og vonist til að geta fyllt stól Ögmundar að honum gengnum.

 

Og svo eru það auðvitað “samherjarnir” sem eiga að þekkja bæði Ögmund og Guðfríði nokkuð náið. Það kemur ekki þá í veg fyrir að sumir tali gegn betri vitund og þá oftar en ekki í þeim lágkúrulega tilgangi að vonast eftir það megi verða til að efla þeirra eigin frama. Eða eigum við að trúa því að bak við kröfu Álfheiðar Ingadóttur um að Ögmundur víki sem ráðherra, liggi aðeins hreinn og tær vilji viðkomandi um að “réttlætið” nái fram að ganga? Að það séu prinsippin sem böggi hana mest? Því miður er ekki hægt að lesa athugasemdir margra Alþingismanna í þessu máli hvað varðar Ögmund Jónasson, án þess að horfa á þær í samhengi við átökin innan ríkisstjórnarinnar og baráttuna um ráðherrastólana.

Vöndum orðin

Þó svo ákvörðun Ögmundar Jónassonar um að styðja frávísunartillögu Bjarna Ben þess efnis að kæru á hendur Geirs Haarde verði vísað frá Landsdómi, hafi komið mörgum á óvart, þá gefur hún að mínu mati ekki tilefni til þeirra pólitísku svívirðinga og dylgna sem á Ögmundi hafa dunið. Menn kunna að vera ósammála og hafa sín rök fyrir því. Það er í góðu lagi svo lengi sem menn eru málefnalegir. Það vita hins vegar allir, sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi, fyrir hvaða málstað Ögmundur Jónasson stendur. Það er með ólíkindum að sá stjórnmálamaður sem harðast hefur barist gegn merkisberum nýfrjálshyggjunnar og þeirri óheillaþróun sem var óhjákvæmilegur fylgifiskur hennar og leiddi þjóðina síðan fram af brún hengiflugsins – að hann skuli nú vera úthrópaður sem hlaupatík Sjálfstæðisflokksins og sá sem vilji fela orsakir Hrunsins fyrir þjóðinni! Þeir sem þannig tala gera það af bráðræði – nema það sé gegn betri vitund. En óbilgirni er ekki til sóma.

 

 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband