Kostir Framsóknar

Leyfi mér að bæta hér sem innleggi í umræðuna, bloggi mínu frá í gær, enda er þar fjallað um kosti Framsóknar og annarra flokka í stöðunni með hæfilega ydduðum hætti. Hér er þó ekki um beint komment á umrædda grein Einars Sveinbjörnssonar í Mbl að ræða. (sjá http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1269697)

Er ríkisstjórnarseta með Sjálfstæðisflokki valkostur fyrir VG?

Eftir kosningarnar 12. maí hefur Sjálfstæðisflokkurinn alla þræði í hendi sér. Með Framsókn undir handleggnum, getur hann boðið Samfylkingu eða VG í samningaviðræður, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn situr með öll trompin. Í þeirri stöðu mun Sjálfstæðisflokkurinn ekkert gefa eftir af sínum prinsippmálum. Ef að Samfylking eða VG eru ekki tilbúin að borða úr lófa hans mun hann sitja áfram með Framsókn sér við hlið. Einkavæðingin mun halda áfram, vatnalögin munu ganga í gildi, misréttið halda áfram að aukast.

 Kostir Framsóknar

Hér á Framsókn að vísu möguleika á útspili, þar sem flokkurinn hefur litlu að tapa – en menn vita þó á þeim bæ að lengi getur vont versnað. Með því að segja sig úr ríkisstjórninn skapa þeir sér stöðu sem gefur þeim möguleika á þremur leikfléttum: Í fyrsta lagi að halda heim, sleikja sárin og byrja uppbyggingarstarf sem getur verið erfitt flokki sem þarf í raun að finna hugmyndafræðilegan grundvöll sinn að nýju og veit ekki hvert skal stefna. Í öðru lagi opnar flokkurinn þar með á myndun vinstri stjórnar og getur slegið tvær flugur í einu höggi: Haldið áfram göngu sinni sem miðlægur valdaflokkur, (fremur en útslitin og forsmáð gengilbeina í boði Sjálfsstæðiflokksins) og um leið kúvent pólitískri stefnu sinni til vinstri. Hér er um allra síðasta sjens Framsóknar að hafna hægri arfleifð Halldórs Ásgrímssonar og hverfa aftur á mið samvinnuhugsjóna og félagslegra viðhorfa. Slík fataskipti á hugmyndafræði sinni eru nefnilega ögn meira sannfærandi ef  þeim gæfist tækifæri á að fylgja þeim breytingum eftir í verki í nýrri vinstri stjórn – fremur en að mæta aftur í næstu kosningar eftir fjögurra ára útlegð – og reyna þá að telja fólki trú um að þeir séu nýrri og betri flokkur. Ég gæti trúað því að ýmsir flokksfélagar teldu þennan kost ákjósanlegan. Þriðji kostur Framsóknar er langsóttari en hann er sá að með því að segja sig úr ríkisstjórninni nú, gætu þeir komið til álita sem valkostur fyrir Sjálfstæðisflokkinn ef samningaviðræður við Samfylkingu og VG ganga ekki upp. Þá er Framsókn þó með betri samningsstöðu en þeir eru í dag innan ríkisstjórnar.

Fjórði kosturinn er svo sá sem Vinstri græn  hafa boðið upp á, þ.e. að stjórn Samfylkingar og VG, starfi í skjóli hlutleysis Framsóknar. Fljótt á litið virðist þetta kannski ekki aðlaðandi kostur fyrir Framsókn sem spyr eflaust af hverju Framsókn ætti ekki telja sig eiga að bera meira í býtum fyrir að leiða flokkana tvo til hásætis. En við nánari íhugun gæti þetta verið ágætur leikur fyrir Framsóknarmenn, þeir væru enn í hringiðu stjórnmálanna og hefðu eflaust tækifæri á að hafa áhrif stefnu ríkisstjórnarinnar með því að draga stuðning sinn til baka. Á sama tíma gæfist þeim næði til að byggja upp flokkinn.

Framsóknarmenn er hins vegar pirraðir þessa dagana og láta það ekki síst bitna í orði kveðnu á forystumönnum VG. Það er t.d. eins og þeir hafi alls ekki heyrt það sem Ögmundur sagði; hann sagði vinstri stjórn með VG, Samfylkingu og Framsókn fyrsta kost. Síðan mætti einnig íhuga þann kost að Framsókn veitti vinstri stjórn stuðning...

Samfylking – Sjálfstæðisflokkur. Eau naturell ?

Eðlilegasti samstarfsaðili Sjálfstæðisflokksins í dag er eflaust Samfylkingin, enda er hugmyndafræðilegur grunnur Samfylkingarinnar nægilega óljós og á reiki til að forysta hennar geti nokkuð auðveldlega réttlætt slíka samvinnu til hægri með röksemdum um að hún sé að draga Sjálfstæðisflokkinn til vinstri – samfélaginu til góðs. Formönnum beggja flokkanna er tamt að tala um að „í flokknum séu margar vistarverur“ – þegar þeir eru að breiða yfir hugmyndafræðilegan ágreining sem er að finna innan beggja flokka – þó sérstaklega innan Samfylkingar. Þar eru innan borðs margir heiðarlegir vinstri menn sem áreiðanlega fengu óbragð í munninn af tilhugsunni einni að ganga til sængur með Sjálfstæðisflokknum. En á sama tíma er þar gnótt hægri krata af verri gerðinni. Hugur Samfylkingarinnar til vinstri stjórnar virðist að minnsta kosti ansi blendinn. Því miður. Össur Skarphéðinsson veitti Geir Haarde fullt umboð til ríkisstjórnarmyndunar á RÚV í gær og krýndi hann sigurvegara kosninganna. Síðan lék hann sér að því að snúa út úr orðum Ögmundar Jónassonar, þegar hann sagðist vilja vinstri stjórn, en benti um leið á að sér hugnaðist ekki ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Þessi orð rangtúlkaði Össur sem að VG vildi aðeins í stjórn með Sjálfstæðisflokki! Hvert er Össur að fara? Af hverju tók hann ekki undir stuðning Ögmundar við vinstri stjórn?  Hefur félagi Össur e.t.v. engan áhuga á þeim valkosti þegar allt kemur til alls? Ingibjörg Sólrún hefur í kosningabaráttunni aðeins veitt hugmyndinni um vinstri stjórn málamyndastuðning – helst er að heyra að það sé til að efna formlega óljóst loforð frá í vetur um að Kaffibandalagið myndi ræða saman „fyrst“. Hvað svo?

VG vill vinstri stjórn

Kostir Vinstri grænna í stöðunni ættu að vera skýrir. Krafan kjósanda flokksins er um vinstri stjórn og á þeim nótum hefur forystan talað. Á hinn bóginn kann þó einhverjum innan flokksins að hugnast að starfa með Sjálfstæðisflokki og sjá það sem illskárri kost en að láta Sjálfstæðisflokki eftir stjórn með annað hvort Framsókn ellegar Samfylkingu.

Hin banvæna freisting VG

Stjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna ber hins vegar dauðann í för með sér fyrir Vinstri græn og má aldrei verða! Fyrir það fyrsta er Sjálfstæðisflokkur í kjörstöðu og verður ekki hnikað í neinu af þeim málum sem flokkurinn vill ná fram. Samningar við Sjálfstæðisflokk munu þýða að VG verður að slá af í öllum helstu málum sem flokkurinn hefur barist fyrir og kjósendur hans hafa veitt honum stuðning til að koma í framkvæmd. Hvernig ætlar VG t.d. að díla við Sjálfstæðismenn um Vatnalögin? Mun VG láta þau renna í gegn? Hvað með einkavæðingaráform í mennta- og heilbrigðismálum? Á að slá af andstöðu við þau? Hvað með RÚV? Hvað með utanríkismálin? Hvað með stóriðjustefnuna? Hvað með kvennabaráttuna?Niðurstaðan af slíku samningamakki mun verða að VG mun tapa ærunni, trúverðugleika sínum og það sem alvarlegast er, færa öll viðmið í íslenskri pólitík til hægri. Ef að VG slær af í umhverfismálum, einkavæðingarmálum eða utanríkismálum þá er það óafturkræfur skaði. Þá þýðir ekki fyrir VG að koma til kosninga eftir fjögur ár og telja kjósendum trú um að þeir séu útvörðurinn fyrir samfélagsgildum, umhverfisvernd og jafnrétti. Þeir munu hafa fært Samfylkingunni þann heiðurssess og með munu fylgja  meirihlutinn af núverandi kjósendum Vinstri grænna. Samfylking mun færa sig til vinstri til að rýma fyrir fyrrum kjósendum VG og til að skapa sér bertra svigrúm til að skjóta á VG.  Þá mun kannski á endanum rætast draumur Samfylkingar um einn stóran jafnaðarmannaflokk. Rúsínan í pylsuendann verður síðan sú að Samfylkingin mun bæta þriðju svikaákærunni á VG. Þó svo að ásakanir Samfylkingarinnar um meint svik VG við stofnun „stóra jafnaðarmannaflokksins“ og um að VG hafi sprengt R-lista samstarfið sé óþolandi bull og út í hött,  þá er hætt við að menn telji „svikin við vinstri stjórnina 2007“ verst og veita hinum ásökununum sannleiksblæ.  hluti VG sem ekki telur sig eiga erindi í Samfylkinguna mun síðan verða munaðarlaus á pólitískum vergangi þar til verðugur arftaki VG hefur verið stofnaður.

Af hverju ætti VG að leiða Sjáfstæðisflokkinn til valda?

Því verður ekki trúað að óreyndu að forystumenn VG muni fara þá leið. Af hverju ætti það að gerast þegar hrikalegar afleiðingarnar fyrir flokkinn og stefnuna blasa við? Hugsanleg persónuleg óbeit á framsóknarmönnum er hlægileg ástæða í þessu samhengi. Ef að Steingrímur J. telur það frágangsmál að fá afsökunarbeiðni frá Jóni Sigurðssyni vegna rætinna en ómerkilegra auglýsinga frá Framsókn sem beindust að hans persónu, þá verður því ekki trúað að Steingrímur muni ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn fyrr en hann hefur þvingað Sjálfstæðisflokkinn til að biðjast afsökunar á Íraksstríðinu! Það er ljóst að vinstri stjórn verður ekki mynduð án Framsóknar eða með hlutleysisstuðningi hennar og því mjög sérstakt að mínu mati, hvernig sumir forystumenn VG og Samfylkingar hafa látið þann flokk taka á sig alla ábyrgð af stefnu ráðandi aðilans í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokksins. Varla eru menn hræddir við að styggja Sjálfstæðisflokkinn? Af hverju ætti þaðað vera?  Ef menn vilja hins vegar raunsæir þá ætti það að blasa við að laskaður Framsóknarflokkur er léttari í taumi, en Sjálfstæðisflokkur útbelgdur af kosningasigri.Að halda því fram að Sjálfstæðisflokkur og VG séu sigurvegar kosninganna og þess vegna eigi þeir að fara saman í ríkisstjórn, er það sama og að kasta út í hafsauga allri pólitískri hugsun! Sjálfstæðisflokkurinn stendur í pólitík fyrir viðhorf sem að flestu leyti eru öndverð sjónarmiðum kjósenda Vinstri grænna. Þeir kusu ekki VG til að tryggja áframhaldandi yfirráð Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórninni. Það er því ljóst að leiði forysta VG flokkinn til samstarfs við Sjálfstæðisflokk væru margir sem litu á það sem svik. Svik við málstað VG, svik við kjósendur VG. Það væru svik forystunnar við eigin hugsjónir. Það er því krafa kjósenda flokksins og félaga í VG til forystunnar hafi hún eitthvað slíkt í huga, sem ekki verður trúað að óreyndu, að hún upplýsi um það svo að sömu kjósendur og félagar fái færi á að tjá sig um þá stefnu áður en skaðinn er skeður.


mbl.is Framhald núverandi stjórnarsamstarfs feigðarflan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kolgrima

Viltu koma á msn? er á kolgriman@hotmail.com

Kolgrima, 16.5.2007 kl. 01:39

2 Smámynd: Kolgrima

Þú mátt svo taka þetta út!

Kolgrima, 16.5.2007 kl. 01:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband