13.9.2007 | 11:44
Hver ber ábyrgð á og áhættuna af djúpborunarverkefninu?
Ég velti því fyrir mér í síðustu færslu hvort djúpboranaverkefnið hefði farið í útboð innan EES. Nú hef ég það fyrir satt frá æðstu stöðum, "straight from the horses mouth" eins og sagt er ef menn vilja sletta, að svo hafi verið. Eitt tilboð mun hafa borist. Þá hefur því formsatriði verið fullnægt og er það vel.
Eftir standa hins vegar veigameiri spurningar um ákvarðanatöku og ábyrgðir. Ætla orkuveiturnar þrjár, Alcoa og aðrir meðreiðarsveinar að stofna sameiginlegt fyrirtæki um djúpboranirnar? Þar sem Landsvirkjun sér um framkvæmdina og gerir samninga f.h. hinna að því virðist, tekur það fyrirtæki á sig skellinn ef illa fer? Það er viðurkennt að hér eru um sérstaklega áhættumikið fyrirtæki að ræða, þ.e. líkurnar á að það mistakist og fjármunir fari í súginn eru mjög miklar. Hvernig er samningum milli þessara opinberu fyrirtækja og einkafyrirtækja eiginlega háttað? Það kunna að vera við þessum spurningum einföld svör og er þá væntanlega einfalt að fá þau fram.
Og þá stendur spurningin: Stóð stjórn Landsvirkjun og Orkuveitunnar að þessum samningum eða voru það bara forstjórarnir? Hefði kannski verið eðlilegt að alþingi og borgarstjórn hefðu fjallað um málið? Nú mun iðnaðarráðherra, í sínu fyrra lífi sem óbreyttur þingmaður, hafa borið fram þingsályktunartillögu fyrir einhverjum misserum um djúpboranir og er því sannanlega áhugamaður fyrir sinn eiginn hatt um slíkar framkvæmdir. Þarna er því gamall draumur hans hugsanlega að rætast, en spurningin er eftir sem áður; hver veitti Landsvirkjun og OR heimild til þessa áhættureksturs?
Nú er ég ekki einn þeirra sem álíta að um leið og glittir í einhvern aur eða möguleika á að starfsemi hins opinbera geti verið arðsöm, að þá eigi hið opinbera með hið sama að afsala sér þeim tekjum, sem nýta má til uppbyggingar velferðarsamfélagsins, í hendur einkafyrirtækja og valinna gulldrengja. Ég tel eðlilegt að hið opinbera sem hefur byggt upp þekkinguna í orkugeiranum og hefur reynsluna, tækin og tólin, njóti þess, enda eru það eldri og yngri kynslóðir almennings, sem hafa greitt fyrir þessa þekkingu og uppbyggingu með sköttum sínum, sem munu þá njóta þess.
En ef að hið opinbera fer í slíkan rekstur, sem kann að vera utan hefðbundins rekstrarsviðs þess, að þá á auðvitað að nýta þá kosti sem opinber rekstur hefur umfram einkarekstur og öll stjórnsýsla og framvinda á að vera opin og almenningi ljós. Ég er hér að tala um verkefni eins og djúpboranirnar, jarðhitaverkefni OR í gegnum Enex o.s.frv. Samstarf hins opinbera við einkafyrirtæki í slíkum verkefnum þarf að ræða, ábyrgð og ákvarðanataka að vera skýr og ljóst að ekki komi til hagsmunaárekstra á öðrum sviðum.
Og þá hljóta landsmenn að spyrja sig að því hversu eðlilegt það er að Landsvirkjun og Alcoa spyrði saman fjárhagslega hagsmuni sína með þessum hætti? Það kann að vera að forráðamenn LV og Alcoa séu orðnir meira en málkunnugir og telji sig hafa sameiginlega hagsmuni hvað varðar sölu og kaup á rafmagni og lukkulegan rekstur á álverinu, en þá er spurningin hvort að það sé á þann vinskap og sameiginlega hagsmunasýn bætandi. Þarf hugsanlega að herða eftirlit með stjórnun fyrirtækisins með almannahagsmuni í huga?
Þegar kemur hins vegar að rekstri almenningsveitna, hvort sem er hitaveitna, vatnsveitna eða rafmagsveitna, þá sýna raunveruleg dæmi utan úr heimi, að þær eru best komnar í höndum opinberra aðila. Og þá er verið að horfa til raunverulegra hluta eins og rekstrarkostnaðar, afhendingaröryggis og kostnaðar fyrir notendur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Facebook
Athugasemdir
Mér hafa alltaf fundist einkennileg útboð, þar sem aðeins einn aðili skilar inn tilboði. Mér finnst það til marks um einhvern galla á útboðinu.
En mig langar til að slengja fram einni hugleiðingu til að bæta í flóruna hjá þér Páll. Nú liggur það fyrir að miðað við lög um losun gróðurhúsalofttegunda sé að koma að því að allir aðilar sem losa meira en 30.000 tonn koltvísýrings verði að eiga eða kaupa/leigja losunarheimildir. Stóriðjur liggja á bilinu 400-700 þúsund tonn. Jarðvarmaveitur/virkjanir losa umtalsvert, en hve mikið veit ég ekki fyrir víst. Mig grunar þó að svona stóreflis djúpboranaáform hljóti að kalla á mælingar á væntanlegri losun. Hver skyldi hún eiga að verða?
Kannski Bjarni Ármannsson og Hannes Smárason geti svarað þessu.
Friðrik Þór Guðmundsson (IP-tala skráð) 13.9.2007 kl. 12:42
Alcoa virðist ekki hætta miklu til því hér segir að það leggi til 100 milljónir, en hér 300. Alcoa notar þetta til að skreyta sig með alþjóðlega svona svipað eins og það vill skreyta sig með Vatnajökulsþjóðgarði frekar en Kárahnjúkavirkjun.
Held að íslendingar ættu bara að gera þessar tilraunir sjálfir og setja stopp á frekari stóriðju a.m.k. á meðan.
Pétur Þorleifsson , 16.9.2007 kl. 15:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.