Forsíðufrétt eða fréttatilkynning?

 "Hvergi fleiri konur. Þriðjungur starfsmanna álvers Alcoa Fjarðaáls eru konur. Það er met hjá Alcoa sem á 28 álver í fimm heimsálfum og jafnvel heimsmet líka.... o.s.frv."

Fyrir mér er þessi "forsíðufrétt" nett gengisfelling á "24 stundum" sem óháðu fréttablaði með metnað. Ef að blaðið er hins vegar auglýsingablað og selur auglýsingar í formi frétta - eins og sífellt verður algengara - þá á blaðið að sjálfsögðu að taka það fram og ekki þykast vera sjálfstæður fréttamiðill.

Tengslin eru of augljós til að ritstjóri 24 stunda hafi ekki tekið eftir þeim. Alcoa er búið að ausa milljónatugum í að byggja upp ímynd eða öllu heldur glansmynd af sjálfu sér - þeir eru "náttúruelskendur" sem leggja til fé í þjóðgarða, þeir eru fjölskylduvænt fyrirtæki sem leggur sérstaka alúð og virðingu við það kvenfólk sem það hvetur til að starfa við fyrirtækið. Allt þetta fauk út um gluggann á tveimur dögum í síðustu viku þegar fyrirtækið beitti fáheyrðum brottrekstraraðferðum gagnvart tveimur konum.

Og nú á að reyna að bæta skaðann með nýrri ímyndarherferð. Sem er út af fyrir sig skiljanlegt að fyrirtækið geri. Hins vegar er óskiljanlegt að fréttablað taki upp "frétt" sem þessa á forsíðu í ljósi atburða síðustu viku. Fréttagildið er augljóslega lítið - fjöldi kvenna hjá fyrirtækinu "gæti verið heimsmet"... En svo kemur að fyrirtækið hafi aðeins rekið 5 starfsmenn af fimmhundruð, hversu margir þeirra eru af Austurlandi, hversu margir konur, etc. Þessi texti er skiljanlegur sem fréttatilkynning frá Alcoa - ekki sem forsíðufrétt í fréttablaði sem vill láta taka sig alvarlega.

Ég er hræddur um að Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa, hafi gert vinkonu sinni og fyrrum samstarfskonu sinni af RÚV, þeim annars ágæta blaðamanni Björgu Evu Erlendsdóttur, bjarnargreiða, þegar hún bað hana að skrifa þessa frétt. Ef svo var. Ef að þær hafa ekki rætt saman við gerð þessarar fréttar bið ég Ernu að sjálfsögðu afsökunar fyrirfram. Spurningin er þá hvað það var sem fékk Björgu Evu til að skrifa fréttina.

En kannski hefur Alcoa séð fram á að þurfa að eyða enn fleiri milljónum í glansauglýsingar í kjölfar atburða síðustu viku en ætlað var og kannski eygja ritstjórar 24 stunda og eigendur þess möguleika á að fá bita af þeirri köku. Þá getur svona fréttaflutningur ekki skemmt fyrir.

Svona neðanmáls að segja, þá varpa uppsagnir kvennana ljósi á umræðu sem hefur verið í gangi varðandi rétt verkafólks. Alcoa heldur því fram að þeir hafi ekki brotið lög þegar konunum var án skriflegrar viðvörunar og án fyrirvara, nánast varpað á dyr. Önnur kvennanna fékk ekki einu að ræða við trúnaðarmann. Fulltrúi Afls segir með réttu að það sé óþolandi að fyrirtæki þurfi ekki að útskýra uppsagnir og hægt sé að segja fólki upp án skýringa.

Í vikunni voru forstöðumenn ríkisstofnana svo bornir fyrir því, í gegnum niðurstöðu könnunar, að þetta væri kerfið sem að þeir vilji koma á hjá opinberum starfsmönnum. Og SA og meira að segja núverandi forsætisráðherra hafa gert atlögur að réttindakerfi opinberra starfsmanna - þ.e. að það verði að veita starfsfólki viðvörun og það eigi rétt á að tjá sig, áður en því er varpað á dyr af yfirmanni sínum.

Ég held að það sé réttlætismál að samræma réttindi launamanna á almenna og opinbera markaðnum hvað þetta varðar - og að sjálfsögðu á að gera það þannig að launafólk á almennum markaði njóti sömu lágmarksréttinda og opinberir starfsmenn. Það er ekki einkamál yfirmanna hvort, hvernig og hvern þeir reka þennan daginn eða hinn.

 


mbl.is Hvergi fleiri konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband