Var Samkeppniseftirlitið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni?

Er það Samkeppniseftirlitinu að kenna að Hitaveita Suðurnesja er nú einkavædd að hluta og einkafyrirtæki komin með eignarhlut í náttúruauðlindunum? Er það misskilningur að ríkisstjórnin hafi viljað einkavæða HS? Í langri fréttaskýringu Péturs Blöndal í Mbl í gær er þessu haldið fram; „stjórnvöld höfðu ráðfært sig við Samkeppniseftirlitið og það lagst gegn því af samkeppnisástæðum að stóru orkufyrirtækin, Landsvirkjun og OR, tækju þátt“  - sem hugsanlegur kaupendur að hlut ríkisins í HS. Því hafi einkavæðingarnefnd sett þau skilyrði að aðeins mætti selja til einkaaðila og þar með var einkavæðing HS tryggð.

 Segir það hins vegar ekki sína sögu um tilgang ríkisstjórnarinnar að hún lét einkavæðingarnefnd sjá um söluna?? Á hinn bóginn virðist líka geta verið að Samkeppniseftirlitið hafi viljað gera sig gildandi og því gert athugasemdir við hugsanleg „tengsl á milli keppinauta á orkumarkaði“ sem gætu myndast.  Og að einkavæðingarnefnd hafi ekki þurft frekari hvatningar við og notað athugasemdina sem ástæðu til að einkavæða HS og selja náttúruauðlindirnar á markað?

Er það ekki nákvæmlega þarna sem Samkeppniseftirlitinu hefur yfirsést? Megnið af starfsemi OR og HS er nefnilega ekki á samkeppnismarkaði. Hitaveitan er háð einkarétti og er ekki á markaði. Sama gildir um vatnsveituna. Sama gildir um dreifingu á rafmagni. Það er aðeins hvað varðar þátt þessara fyrirtækja á sviði framleiðslu og sölu á rafmagni, sem hægt er að tala um samkeppnismarkað. Sem er hins vegar ákaflega lítið virkur og gildir sama um það á Íslandi eða í Evrópu.

Var því Samkeppniseftirlitið ekki í raun að skilgreina alla almannaþjónustu þessara fyrirtækja sem „samkeppnismarkað“, þar sem það sundurgreindi ekki með nákvæmari hætti athugasemdir sínar varðandi söluna á HS? Hefði það ekki þurft að vanda sig meira, þar sem við blasti að ef að opinber fyrirtæki máttu ekki kaupa hlut í HS að þá yrði fyrirtækið selt til einkaaðila? Og þar með hitaveitan, vatnsveitan og dreifing rafmagns! Eða lét Samkeppniseftirlitið sér það kannski bara vel líka að almannaþjónustan yrði einkavædd? Blasti ekki við stofnuninni að samkeppnishlutinn snertir aðeins einn af þremur meginrekstrarþáttum orkufyrirtækjanna á meðan að afleiðingar athugasemdarinnar varðar þau í heild sinni? Er Samkeppniseftirlitið kannski á þeirri skoðun að allt skuli samkeppni háð? Það er að minnsta kosti ljóst að við það eykst áhrifavald stofnunarinnar.

Eða var það kannski ríkisstjórnin/einkavæðingarnefnd sem lét sér duga léttvæga og lítið undirbúna athugasemd Samkeppnisstofnunar sem réttlætingu á því verki sem hún alltaf ætlaði sér – að einkavæða almannaþjónustuna?


mbl.is „Samkeppniseftirlitið hefur ekki sýnt af sér seinagang"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband