Ákvörðun ríkisstjórnar að einkavæða HS

Var það ákvörðun ríkisstjórnar eða athugasemdir Samkeppniseftirlits sem ollu því að Hitaveita Suðurnesja var einkavædd? Ég hef traustar heimildir fyrir því að það hafi verið einkavæðingarnefnd sem boðaði til eins fundar með Samkeppniseftirlitinu, sá fundur hafi verið óformlegur og að engin bréfaskifti hafi farið fram af hans sökum. Engar kröfur eða ákveðnar ábendingar komu fram á þeim fundi af hálfu Samkeppniseftirlitsins, sem hlutu að stýra ákvörðun einkavæðingarnefndar.

Engar aðrar en þær sem mátti gefa sér fyrirfram, þ.e. að Samkeppnisstofnun mun hafa sagt að ef að sala á hlut HS myndi leiða til óeðlilegra eignatengsla að þá myndi stofnunin að sjálfsögðu taka slíkt til skoðunar. Það er almennt hlutverk stofnunarinnar. Sú söguskýring er því röng, að það hafi ekki verið einbeitur vilji ríkisstjórnarinnar að einkavæða HS heldur hafi „fagleg“ eða „samkeppnis“- sjónarmið ráðið för - að fengnu mati Samkeppniseftirlitsins.

Það skiptir máli að hlutum sé haldið rétt til haga. Það er ljóst að með því að skilyrða sölu á 15% hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja, þannig að einvörðungu einkaaðilar fengu að kaupa, braut ríkisstjórnin blað í sögunni. Einkaðilum, innlendum sem erlendum, var hleypt inn í grunnþjónustuna og inn í náttúruauðlindir þjóðarinnar. Hér er um grundvallarmál að ræða og viðbrögð þjóðarinnar voru hörð. Þetta er ekki það sem fólkið vill, þetta er ekki það sem Össur vill, þetta er ekki það sem Morgunblaðið vill, þetta er ekki það sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins vilja. Almannaþjónustan á að vera í höndum hins opinbera.

Því er nú reynt að breiða yfir mistök ríkisstjórnarinnar.  Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í einkavæðingarnefnd heldur því fram á Alþingi að skilyrðin á sölunni á hlut ríkisins í HS hafi verið tilkomin vegna samkeppnissjónarmiða, þ.e. með hliðsjón af eignarhlutum opinberu fyrirtækjanna. Þess vegna dúkkar sama skýring upp í annars ágætri samantekt Pétur Blöndal í Mbl þar sem stendur:  „Það var ekki fyrst og fremst vegna einkavæðingarsjónarmiða, eins og haldið hefur verið fram, enda var búið að breyta Hitaveitunni í hlutafélag og sameigendurnir, sveitarfélögin, höfðu forkaupsrétt. Ástæðan var hinsvegar sú að stjórnvöld höfðu ráðfært sig við Samkeppniseftirlitið og það lagst gegn því af samkeppnisástæðum að stóru orkufyrirtækin, Landsvirkjun og OR, tækju þátt.“

Þessi söguskýring er ekki rétt. Fundurinn með Samkeppniseftirlitinu var vart nema til málamynda og virðist hafa átt að gegna því hlutverki sem hér er sýnt fram á að hann gerði, - að vera nokkurs konar skálkaskjól fyrir umdeildri ákvörðun ríkisstjórnarinnar - ef á þyrfti að halda. Ákvörðunar sem ekki er enn séð fyrir endan á. Samkeppniseftirlitið sendi ekki frá sér neitt álit um söluna. Það var ákvörðun einkavæðingarnefndar (les ríkisstjórnarinnar) sem réði.

 

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband