Vatnið í stjórnarskrána

Árið 2005 stóð BSRB að herferð gegn einkavæðingu vatns. Herferðin hafði gríðarleg áhrif á alla umræðu sem varð á Alþingi um setningu vatnalaga og áhrifa hennar gætir enn í dag. Ber þar að nefna sérstaklega yfirlýsinguna Vatn fyrir alla, sem er að finna hér á síðunni. Sem hluti af herferð BSRB stóðu samtökin ásamt fleirum að ráðstefnu um vatn haustið 2005. Ég birti því hér aftur, áhugasömum til fróðleiks, erindi sem ég flutti á ráðstefnunni, en þar er fjallað vítt og breytt um átökin um vatnið, hér heima og á alþjóðavísu.

"Skortur á hreinu vatni er eitt helsta vandamál mannskynsins í dag. Tölurnar eru þekktar.....
Í dag er áætlað að um rúmlega milljarður manna eða einn sjötti mannkyns, hafi takmarkaðan eða engan aðgang að hreinu drykkjarvatni og um tvo og hálfan milljarð skorti vatn til hreinlætis. Samkvæmt útreikningum sem gerðir voru í tengslum við Þúsaldar þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem ríkisstjórnir heimsins samþykktu árið 2000, er gert ráð fyrir að 1,6 milljarður manna muni bætast við þann fjölda til ársins 2015, jafnvel á svæðum sem eru rík af vatni eins og vesturlönd.

Skortur á vöru, að ekki sé talað um vöru sem er lífsnauðsynleg hverjum einasta manni í heiminum, þýðir að sú vara er verðmæt, ef við tölum eins og hagfræðingar. Samkvæmt þeim fræðum á að verða til markaður með slíka vöru og á markaði á framboð og eftirspurn að ráða verði. Þeir sem hafa efni á fá, hinir verða að sætta sig við að lifa án vörunnar.
Það þarf ekki lengri kúrs í klassískum hagfræðikenningum til að sjá að þær eiga ekki við um vatn. Ekki nema að menn séu tilbúnir að líta fram hjá þjáningu, lífi og dauða meðbræðra sinna. Vatn er ekki verslunarvara sem hver önnur.

Engu að síður var tíundi áratugur síðustu aldar, frá 1990 til aldamóta, áratugur einkavæðingar á vatni. Væntingarnar voru þær að skivirkni yrði meiri innan vatnsgeirans og að verð lækkaði, að fjárfestingar ykjust, sérstaklega í þriðja heiminum og að fleiri heimili yrðu tengd vatns – og skólplögnum, sérstaklega hin fátæku. Sú varð ekki raunin.

Útþensla alþjóðlegra vatnsfyrirtækja í einkaeigu á þessum áratug var studd af Alþjóðabankanum og öðrum alþjóðastofnunum, sem hluti af þeirri stefnu að umbreyta þróunarlöndum og löndum sem áður höfðu tilheyrt Austur-blokkinni svokölluðu, í markaðsvædd þjóðfélög. Opinberar vatnsveitur hafa hins vegar verið einkavæddar um allan heim.

Rannsóknir sýna að reynslan af einkavæðingu vatns hefur yfirleitt verið slæm. Skortur hefur verið á samkeppni, bæði sökum náttúrulegrar einokunar og vegna þess að stórfyrirtæki á þessum markaði eru mjög fá. Fyrirtæki hafa ekki fjárfest eins mikið og við var búist í nývirkjum og viðhaldi og verð hefur farið hækkandi í takt við auknar arðsemiskröfur fyrirtækja. Þegar þau markmið sem skilgreind hafa verið í samningum hafa ekki náðst, þá hafa samningar verið endurskoðaðir, fremur en að staðið hafi verið við þá. Sérleyfi, sem oftast eru veitt til 20 – 30 ára í senn hafa nánast reynst óafturkræf þó svo fyrirtæki hafi ekki staðið sig, sökum lagalegra og stjórnsýslulegra hindrana. Eftirlitsaðila hefur skort vald og hæfni til að stýra hegðun fyrirtækjanna. Og andstaða meðal almennings gegn einkavæðingunni hefur farið vaxandi, sérstaklega í þróunarlöndunum.

Um þessa hegðun má nefna fjölmörg skjalfest dæmi: Bæjaryfirvöld og íbúar Grenoble í Frakklandi endurheimtu vatnsveitu sína árið 2000 eftir 11 ára baráttu og málaferli. (Haft er eftir baráttufólki þar að meginlærdóm af þeirri baráttu sé hversu mikilvægur aðgangur að upplýsingum er og að geta lagt sjálfstætt mat á framgöngu einkafyrirtækisins.)
Verðið á vatni í Manilla á Filipseyjum hefur hækkað um 600% í höndum einkafyrirtækja frá árinu 2001 og hafa þau uppskorið litlar vinsældir íbúa. Svo má lengi telja.

Alþjóðleg vatnsfyrirtæki hafa því orðið fyrir andstreymi á síðustu árum og hafa brugðist við með því að hætta starfseminni þar sem verst hefur gengið. Suez, sem er stærst þessara alþjóðlegu vatnsfyrirtækja tilkynnti í janúar 2003 að það myndi draga sig út úr einum þriðja allra fjárfestinga sinna í þróunarríkjunum, og Veolia og Thames Water hafa einnig dregið sig út úr samningum. Allir þessir þrír risar nota hins vegar öll meðul, pólitísk og lögfræðileg til að ná tapinu aftur og krefjast skaðabóta fyrir væntan ávinning sem samningar áttu að gefa í framtíðinni.

Viðbrögð fyrirtækjanna hafa ekki síst orðið þau að krefjast sífellt meiri trygginga fyrir arðvænlegum rekstri og gegn áföllum. Þau vilja fá þær tryggingar frá þeim opinberu aðilum sem þau semja við, ígildi ríkisábyrgða á lán, og hefur Alþjóðabankinn tekið þátt í þeirri vinnu. Þau líta í auknum mæli til ríkja þar sem aðstæður eru betri og þegnarnir ríkari og þægari.

Engu að síður töluðu háttsettir embættismenn Alþjóðabankans á ráðstefnunni World Water Forum, sem haldið var í Haag árið tvöþúsund, um einkavæðingu vatns að hún væri sögulega óhjákvæmileg og notuðu frasa eins og að “ það væri enginn annar valkostur”. Alþjóðabankinn hefur þó nýlega viðurkennt að þeir hafi sennilega verið full glaðbeittir í að framfylgja þessari einkavæðingarstefnu sinni á vatni.

En Alþjóðabankinn, sem og aðrir þróunarbankar og styrkveitendur eru hins vegar tregir til að veita vatnsfyrirtækjum í opinberri eigu nokkurn stuðning, þrátt fyrir að opinber fyrirtæki beri ábyrgð á meira en 90% af vatnsveitum og skólplögnum í heiminum.

Þó svo að hér hafi verið rakið nokkuð hversu illa hagsmunir einkafyrirtækja og almennings virðast fara saman þegar kemur að vatni, þá þýðir það ekki að opinberar vatnsveitur, sem eru þrátt fyrir allt um 90% vatnsveitna í heiminum, hafi allsstaðar getað sinnt hlutverki sínu. Ef svo væri væru vandamálin tengd vatni ekki jafn alvarleg og útbreidd og raun ber vitni. Ekki má heldur gleyma að stór hluti vandans er að vatnsveitur skortir auðvitað með öllu víða í þróunarlöndum. Viða þar sem opinberar vatnsveitur sinna ekki hlutverki sínu sem skyldi eru ástæður fjölþættar: skortur er á lýðræðislegum stjórnarháttum, opinber þjónusta er afskipt og í fjársvelti og undir þetta er ýtt af alþjóðlegum fjármálastofnunum sem eru tilbúnar að leggja fram fé, sé farið að skilmálum þeirra um markaðslausnir á vandanum. Það eykur enn frekar á vanda hinna opinberu vatnsveitna. Og vandi vatnsveitnanna er vandi fólksins.

Því hefur það verið krafa PSI, Alþjóðasambands opinberra starfsmanna sem BSRB er aðili að, að leggja áherslu á hágæða almannaþjónustu sem lið í bættri velferð. Í þeirri alþjóðlegu herferð gegn fátækt sem nú stendur yfir í heiminum og kallast Global Call Against Poverty – þar sem þjóðir heims eru hvattar til að ná settum þúsaldarmarkmiðum ríkja Sameinuðu þjóðanna, hefur þessi krafa um bætta almannaþjónustu, verið sett á oddinn.

En hvað kemur okkur á Íslandi þetta svo sem við? (og hvernig tengist þetta sameiginlegri yfirlýsingu þeirra samtaka sem að þessum fundi standa?)

Er hætta á að á tímum þar sem vatn verður sífellt dýrmætara – og fyrir suma sífellt verðmætara, að erlend stórfyrirtæki hafi áhuga á að slá sér hér niður í landi þar sem pollur sprettur úr hverju spori ? – eða að það sé áhugi innanlands á að gera vatn að markaðsvöru? Að hér fari framboð og eftirspurn, tekjur eða skortur á þeim að ráða verði á vatni og aðgengi að því?

Hreint logiskt hlýtur svarið að vera já. Hér er ríkur markaður, góður infrastruktur og öryggir kaupendur ef við lítum til vatnsveitnanna. Hugsanlega má krækja í eitt eða tvö góð vatnsból til framtíðareignar? Og skortur á vatni annars staðar gerir það gróðavænlegt að flytja það út í stórum stíl.

Þá er spurningin hvernig tökum við á því, hvaða gildi viljum við leggja áherslu á og hverju fáum við ráðið? Er þá eðlilegt að líta til þeirra laga sem hér gilda um vatn og hvert ferðinni er heitið með þau. Ég mun rétt aðeins tæpa á þeirri ræðu, því hér fáum við á eftir Davíð Egilson forstjóra Umhverfisstofnunar sem væntanlega mun gefa okkur mun fyllri mynd af þeim frumskógi öllum.

En kemur þá fyrst til sögunnar alþjóðlegur samningur nokkur sem mönnum sést oft yfir þegar rætt er um vatn. GATS – General Agreement on Trade in Services – eða Almennt samkomulag um viðskipti með þjónustu. Á heimasíðu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, má lesa að megintilgangurinn með GATS-samningnum sé að opna innanlandsmarkaði fyrir alþjóðlegum þjónustuviðskiptum, brjóta niður einokun ríkisins og slaka á eða afnema ýmsar reglugerðir sem stjórnvöld hafa sett en WTO lítur á sem íþyngjandi fyrir atvinnulífið eða sem viðskiptahindranir. Samningurinn er flókinn og hefur dómstóll WTO endanlegt úrskurðarvald.

Ég ætla að nefna örfá atriði um samninginn en ákvæði hans hafa hér bein áhrif og ekki síður verður að taka tillit til hans í þeim lagabreytingum og breytingum á rekstarformi sem hér hafa átt sér stað í tengslum við vatnið.

Samningurinn er víðtækur og tekur til allrar þjónustu í nútíð og framtíð og hann snertir allar stjórnvaldsaðgerðir allra stjórnvalda.

Þær skuldbindingar sem hvert ríki undirgengst við undirritun samningsins sem og þegar það fellir einstaka geira þjónustu undir hann, eru nánast óafturkræfar. Þetta þýðir að ákvarðanir einstakra ríkisstjórna sem eru áhugasamar um útvíkkun GATS-samningsins, festa í sessi um ókomna framtíð þau gildi sem í samningnum eru falin.

Í GATS-samningnum felst að m.a. að ríkjum er bannað með lögum að takmarka umsvif fyrirtækja og að mismuna í nokkru iknnlendum fyrirtækjum á kostnað erlendra hafi ekki verið gerðir fyrirvarar.
Ef að engir fyrirvarar eru gerðir t.d. á sviði umhverfisþjónustu, þá má túlka samninginn þannig að hið opinbera megi ekki lengur veita fé í opinbera þjónustu ef erlendur aðili vill starfa á sama sviði.

Samningurinn gerir einnig kröfu til að reglugerðir séu “ekki meira iþyngjandi en nauðsynlegt er.” Hér hafa menn t.d. áhyggjur af því að vilji ríki halda upp ströngum gæðakröfum í sambandi við vatnsveitur eða mengunarvarnir, að þá megi véfengja þær reglur og kæra til dómstóls Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Þeir fyrirvarar sem kunna að hafa verið settir, liggja sífellt undir þrýstingi um að verða felldir brott í næstu samningalotu. Út á það ganga yfirstandandi samningaviðræður þar sem verið er að skiptast á kröfum og tilboðum. Endanlegt markmið GATS-samningins er því skýrt; - að markaðsvæða þjóðfélagið út í hörgul – og er þá opinber þjónusta tæplega undanskilin að mínu mati. Um það atriði er deilt – í samningnum segir (í grein 3.1) að þjónusta framkvæmd af hinu opinbera sé undanskilin GATS, en síðar segir í sömu grein að sé þjónusta hins opinbera “á viðskiptalegum grunni eða í samkeppni við einn eða fleiri aðila” þá falli hún undir samninginn.
Utanríkisráðuneytið hefur svarað BSRB á þann veg að starfi fyrirtæki í eigu opinberra á samkeppnismarkaði þá eigi skuldbindingar GATS við. Engu að síður taldi ráðuneytið í endurskoðuðu tilboði sínu nú tryggara að árétta “að skuldbindingaskráin eigi ekki við á sviði opinberrar þjónustu, sbr. gr. 3.1”. En greinin er jafnloðin eftir sem áður og því var bætt við setningu, sem kannski má kalla Sjálfstæðisyfirlýsingu lýðveldisins Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofninni og hljómar svo í hrárri þýðingu: “Að auki (..) áskilur Ísland sér rétt til að setja, viðhalda og útfæra að fullu innlend lög í því augnamiði að geta framfylgt stefnumálum stjórnvalda.”( Furthermore, pursuant to Article VI (Domestic regulation) of the GATS, Iceland reserves the right to establish, maintain and fully exercise its national legislation in order to meet national policy objectives.)
Þessir fyrirvarar eru settir fram núna í yfirstandandi samningaviðræðum, að ég vil meina ekki síst vegna ábendinga BSRB, en eru ekki í gildi samkvæmt núgildandi samningi. Reyndar er alveg óvíst hversu mikil vörn er í þessu fólgin. Þetta sýnir að stjórnvöld eru farin að átta sig á hversu ráðandi þessi samningur er og í raun hættulegur hann er lýðræðinu.

Ég vil meina að allar breytingar í átt til markaðsvæðingar á opinberum rekstri auki hættuna á þeirri túlkun að sá rekstur muni falla undir áhrifasvið GATS-samningsins. Hér má taka sem dæmi ný lög um vatnsveitur. Þau lög ýta undir eðlisbreytingu á því hvernig vatnsveitur hafa starfað á Íslandi og færa þann rekstur í átt til markaðsgilda og í raun frá þeirri hugsun að vatn sé fyrir alla. Ég veit ekki hvort allir hafi gert sér grein fyrir að í stað þess að sveitarfélög höfðu skyldu til að starfrækja vatnveitur og höfðu til þess einkarétt skv. eldri lögum að þá mega þau nú framselja þann rétt ótímabundið í hendur fyrirtækis og selja allar eigur vatnsveitunnar í hendur þess. Ég vil eigna þrýstingi BSRB að það skilyrði var sett að slík fyrirtæki verði að vera að meirihluta í eigu opinberra aðila. BSRB vildi ganga lengra og fella orðin “að meirihluta” út. Hér var því greinilegur vilji til að hleypa einkarekstri að og við vitum að aðili í hlutafélagi þarf ekki endilega að ráða yfir meirihluta hlutafjár til að geta stýrt því sem hann vill. Þá er vert að vekja athygli á að vatnsveitur hafa heyrt undir félagsmálaráðuneyti, en iðnaðarráðuneytið hefur verið að setja sérlög um orkufyrirtæki og þar með fellt vatnsveitur undir sig.
Frumvarpið um vatnalögin gerir ráð fyrir að umráðaréttur landeiganda á vatni breytist í kláran eignarétt og frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, þar með talið vatni, gerir ráð fyrir að eignarlandi fylgi eignarréttur á þeim auðlindum. Eigandi auðlindarinnar þarf ekki leyfi Orkustofnunar til rannsókna, en hafi hann rannsóknarleyfi fær hann forgangsrétt á nýtingarleyfi. Tímalengd nýtingarleyfis vatnsorku er allt að 60 ár en annarra auðlinda allt að 30 ár.
Þessar breytingar, sem og önnur lög er snerta vatn, virðast því ýta undir það sjónarmið að vatn sé einkaeign og að það sé markaðsvara. Því heyra mikilvægir hlutar þessa málflokks fremur undir Iðnaðarráðuneyti en Umhverfisráðuneyti eða Félagsmálaráðuneyti. Það virðist líka opna möguleika á að menn og fyrirtæki geti eignast jarðeignir og nýtt sér vatnið sem uppsprettu auðs.

BSRB hefur í umsögnum sínum um vatnsveitulögin, í erindi sínu til stjórnarskrárnefndar þar sem lagt var til að fest yrði í stjórnarskrá að litið verði á vatn sem mannréttindi og með því að eiga þátt í þessari ráðstefnu andæft þessu sjónarmiði og viljað efla samstöðu um þetta mikilvæga mál. Það er í ljósi þessarar þróunar og vegna þess að við viljum hafa áhrif á hvert stefnir, að þessi sameiginlega yfirlýsing fundarins er svo mikilvæg. Hún snýst um það hvaða sýn við höfum á vatn, hún snýst um það hvaða sýn við höfum á samfélagið. Viljum við að börnin okkar fæðist inn í samfélag þar sem frelsi ríkir svo lengi sem þau hafa efni á þvi – eða viljum við að þeim séu tryggð ákveðin mannréttindi og frelsi samkvæmt því?

Það mun hafa tekið sex ár að semja vatnalögin sem tóku gildi 1923. Ég segi því, flýtum okkur hægt, vöndum til verka og fylgjum ábendingum yfirlýsingarinnar, Vatn fyrir alla!
Takk fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband