Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
25.4.2013 | 09:54
Svik Samfylkingarinnar í vatnsmálinu
Katrín Júlíusdóttir fjármála-og efnahagsráðherra og fyrrum iðnaðarráðherra skrifaði grein í Fréttablaðið 16. apríl sl. og gefur í skyn að hún og jafnaðarmenn hafi undið ofan af einkavæðingaráformum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á vatni landsmanna. Það var að sjálfsögðu það sem kjósendur Samfylkingar og VG reiknuðu fastlega með að yrði eitt af fyrstu verkum nýrrar vinstri stjórnar. Greinin er hins vegar ósvífin tilraun af hálfu Katrínar til að þyrla ryki í augu almennings og eigna sér heiður af verkum sem hvorki hún né Samfylkingin hafa unnið. Í dag er allt grunnvatn og þar með drykkjarvatn landsmanna í einkaeigu landeiganda og hefur Katrín þó haft stöðu, tíma og þingmeirihluta til að breyta því. Það verður ekki dregin önnur ályktun en að þessari stöðu hafi hún annað hvort ekki viljað eða þorað að breyta.
Ryki kastað
Katrín hefur stutta lofgrein sína um eigin afrek með að lýsa því að ófögur staða í auðlindamálum hefði blasað við jafnaðarmönnum (les Samfylkingu?) eftir valdatíð Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks: Heitt og kalt grunnvatn í iðrum jarðar hafði verið sett í einkaeign árið 1998, yfirborðsvatnið okkar hafði verið einkavætt með alræmdum nýjum vatnalögum árið 2006...
Hér kastar Katrín Júlíusdóttir meðvitað ryki í augu lesenda/kjósenda með stílbrögðum: Óhæfuverk Framsóknar og Sjálfstæðismanna eru að sjálfsögðu bitur sannleikur. Það er hins vegar rökrétt að lesandi álykti þegar hér er komið sögu í greininni, að Katrín/Samfylkingin hljóti að hafa gert eitthvað í málinu; lagfært hina ófögru stöðu, -greinin er jú skrifuð sem afrekaskrá Katrínar og Samfylkingarinnar. En glöggir lesendur taka eftir að hún botnar aldrei málið í greinni. Hin ófagra staða var að grunnvatnið /drykkjarvatnið hafði verið sett í einkaeign landeiganda 1998. Hin ófagra staða er að svo er enn og hvorki Katrín né Samfylking hafa breytt þar nokkru um. Þrátt fyrir samfellda setu Samfylkingar í ríkisstjórn síðan í maí 2007 og að Katrín hafi gegnt embætti iðnaðarráðherra frá maí 2009 til september 2012. Hvað vatnalög Valgerðar Sverrisdóttur frá 2006 áhrærir, þá hafði geysilegur þrýstingur úti í þjóðfélaginu sem og frá stjórnarandstöðu á Alþingi, neytt ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar til að setja þau lög á ís, Valgerðarlögin gengu m.ö.o. aldrei í gildi. Það gerðist áður en Samfylkingin gekk í ríkisstjórn (með Sjálfstæðisflokki). Þessi framsetning er því einungis tilraun til að villa um fyrir lesendum og Katrín treystir greinilega á að þeir lesi svona kosningagreinar hratt og flausturslega og ekki til enda.
Yfirborðsvatn Katrínar
Sjónhverfingar Katrínar gagnvart lesendum ná hins vegar nýjum víddum þegar hún fer að ræða um yfirborðsvatnið okkar... sem ...hafi verið einkavætt með alræmdum vatnalögum.... Hér gefur hún ótvírætt í skyn að styrrinn hafi staðið um yfirborðsvatnið, að það sé einhvers konar sögulega viðurkennt hugtak og þungamiðja átakanna um vatnið. Hér treystir Katrín á að lesendur séu ekki nægilega vel upplýstir um sögu vatnalaga á Íslandi um leið og hún gerir tilraun til að breiða yfir þau pólitísku mistök sem hún gerði í vatnamálinu. Nema að það hafi kannski verið stefna Samfylkingarinnar allan tíma að halda uppi þeim tilbúna aðskilnaði milli yfirborðsvatns og
grunnvatns, sem Finnur Ingólfsson fyrrv. iðnaðarráðherra gerði tilraun til að koma á, með lögunum um auðlindir í jörðu 1998. Hugtakið yfirborðsvatn hefur nefnilega aldrei verið til sem megininntak vatnalaga, fyrr en með þeim vatnalögum sem Katrín sjálf lagði fram og fékk
samþykkt 28. september 2011.
Tvenn lög um grunnvatn á sama tíma.
Þetta kallar á nokkrar útskýringar og sögulega upprifjun. Vatnalögin frá 1923 tóku til alls vatns, yfirborðsvatns og grunnvatns. Þau gengu út frá að landeigendur hafi afnotarétt af vatni, ekki eignarrétt á því. Enginn átti því vatn. Réttara er þó að segja, þegar litið er til þess anda sem í heild umlukti vatnalöggjöfina og aðra löggjöf sem tryggði sérhverjum þegni aðgang að lífsnauðsynlegu vatni, að allir hafi átt vatnið. Að fyrir lög Finns Ingólfssonar um auðlindir í jörðu 1998, hafi allt vatn í raun verið í þjóðareign. Sú túlkun er mun nærtækari en sú einkaeignartúlkun á afnotarétti sem margir lögfræðingar hafa aðhyllst. Má leiða að því getum, að sýn lögfræðinganna eigi rót að mestu í afskiptum þeirra af smáum nágrannaerjum um hvor eigi meiri rétt og þeim málarekstri og dómaframkvæmd sem af slíkum deilum spretta. Sá reynsluheimur nálgast að öðru jöfnu aldrei stóru spurninguna um hvort vatn er í þjóðareign eður ei og fer sínu fram hvort sem vatn er í þjóðareign eða ekki.
Næst gerist það að Finnur Ingólfsson iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, ryðst inn á völlinn
með lagasetningu um auðlindir í jörðu árið 1998, þar sem hann gefur landeigendum allar þær náttúruauðlindir og öll þau verðmæti sem kunna að finnast undir yfirborði jarða þeirra, allt að jarðarmiðju. Grunnvatninu er skotið þar inn sem einni grein, án nokkurra tilrauna til að skýra tilveru
þess þar, hvorki með hliðsjón af vatni almennt eða gildandi vatnalögum frá 1923. Í raun var þá skyndilega komin upp sú staða að tvenns konar lög giltu um grunnvatn. Með lögunum frá 1998, einkavæddi Framsókn og Sjálfstæðisflokkur stóran hluta af náttúruauðlindum Íslands, en spurningin
er hvort ekki hefði mátt reyna að hnekkja þeim síðar með tilvísun í að í gildi voru önnur lög í landinu sem tóku til sama efnis.
Hatrömm andstaða við einkavæðingu Valgerðar
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra leggur svo fram ný vatnalög, með þeirri réttlætingu að nauðsyn sé að samræma löggjöf á þessu sviði; það átti að sjálfsögðu að samræma í átt til eignarréttar. Það er hins vegar rétt að undirstrika að um var að ræða ein vatnalög sem taka til alls vatns, yfirborðsvatns og grunnvatns. Átti nú að láta sömu löggjöf gilda um vatn á yfirborði jarðar sem grunnvatnið, hvoru tveggja skyldi vera í skýrt skilgreindri einkaeign landeigenda.
Umsvifalaust hófst hart andóf út í þjóðfélaginu þar sem verkalýðsfélög, umhverfissamtök, þjóðkirkjan og mótmæltu eindregið. Bárust mótmælin inn á Aþingi, þar sem VG, stutt af Samfylkingu, mótmælti lögunum í einni lengstu umræðu um einstakt mál sem átt hefur sér stað á Alþingi. Niðurstaðan varð sú að vatnalög Valgerðar voru samþykkt 16. mars 2006, en gildistöku þeirra var frestað. Á meðan giltu vatnalögin frá 1923. Frá þessum tíma hafa vatnalögin alltaf verið á dagskrá, en gildistöku vatnalaga Valgerðar var ítrekað frestað, síðast 15. júní 2010 og áttu þau þá að taka gildi að óbreyttu 1. október 2011.
Krafan um ein vatnlög og afnotarétt
Allan þennan tíma, og ekki síst eftir að vinstri flokkarnir tóku við, ólu andstæðingar einkavæðingar á vatni með sér þá von að til yrðu ný heildstæð lög um vatn. Þau lög áttu fyrst og fremst að gera eitt; að breyta lögunum frá 1998 um auðlindir í jörðu þannig að ákvæðin þar um grunnvatn yrðu gerð
ógild. Grunnvatninu yrði komið þess í stað fyrir í nýjum vatnalögum og um það giltu sömu ákvæði og annað vatn, afnotaréttur en ekki eignarréttur.
Kröfur andstæðinga einkavæðingar á vatni voru grundvallaðar á tveimur meginpunktum; í fyrsta lagi bæri að líta á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki mætti fara með eins og hverja aðra verslunarvöru. Í öðru lagi væri fráleitt að tvenn lög með ólíkum eignar og
réttindaákvæðum giltu um vatn, eftir því hvort það finndist ofan eða neðanjarðar. Til að kippa þessu í liðinn þurfti í raun ekki annað en eina litla breytingartillögu við gildandi lög, menn voru í stórum dráttum sáttir þó vatnalögin frá 1923 stæðu óbreytt að öðru leyti. Hefði það verið gert, tækju vatnalögin á ný með skýrum hætti til alls vatns, auk þess sem mun auðsóttara hefði verið að koma í gegn breytingum á stjórnarskrá þess efnis að allt vatn skyldi vera í þjóðareign. Kröfur þess efnis höfðu reyndar borist stjórnarskrárnefnd í apríl 2005 frá BSRB og í mars 2006 frá fulltrúum
þeirra 14 félagasamtaka sem undirrituðu yfirlýsinguna Vatn fyrir alla. Studdust þessar kröfur m.a. við samþykktir Sameinuðu þjóðanna að líta bæri á aðgang að vatni sem grunndvallarmannréttindi.
Þjóðin afvegaleidd
Þegar Katrín Júlíusdóttir fékk síðan vatnalagafrumvarp sitt samþykkt í september 2011, var sterklega gefið í skyn að nú væri vatnið í höfn, einkavæðing vatns hefði verið afnumin. Lögin frá 1923 væru aftur gengin í gildi, aðeins betrumbætt. Aftur gilti að landeigendur hefðu afnotarétt að
vatni, ekki eignarrétt. Um þetta sagði m.a. í frétt RÚV: Ný vatnalög voru samþykkt á Alþingi í gær og eru þau sögð snúa við þróun í átt að einkarétti á auðlindinni. Vandlega var hins vegar þagað um að allt grunnvatnið, þaðan sem allt drykkjarvatn okkar kemur, var enn í einkaeigu landeiganda og að hvergi hafði verið haggað við lögunum frá 1998 um auðlindir í jörðu. Það var reyndar afsakað með óbeinum hætti; ekki hefði gefist tími til að vinna heildstætt vatnafrumvarp, stjórnvöld hefðu verið nauðbeygð til að samþykkja lög Katrínar því annars hefðu vatnalög Valgerðar gengið í gildi
þann 1. október 2011.
Yfirvarp og ágreiningur
Þessi meinti tímaskortur var að sjálfsögðu yfirvarp. Hann var yfirvarp því Samfylkingin hafði jú setið í ríkisstjórn frá maí 2007, og þó svo flokkurinn hefði kannski ekki komist langt í málinu með Sjálfstæðisflokkinn, að þá hafði hún jú setið að völdum með sálufélaga sínum í málinu, VG, frá febrúar 2009. Hæg hefðu heimatökin átt að vera.
Og mikið rétt, til urðu svokallaðar Vatnalaganefndir og skilaði sú seinni nýjum heildstæðum vatnalögum til iðnaðarráðherra, Katrínar Júlíusdóttur, þann 1. desember 2009. Í frumvarpi nefndarinnar, en í henni áttu sæti Lúðvík Bergvinsson lögmaður sem jafnframt var formaður, Aagot V. Óskarsdóttir lögfræðingur, Kolbrún Halldórsdóttir fyrrverandi alþingismaður og umhverfisráðherra, Kristinn Einarsson yfirverkefnisstjóri hjá Orkustofnun og Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor, var tekið á vernd og nýtingu vatns, sem og rétti almennings og landeiganda. Niðurstaðan var í stuttu máli sú lögin taka yfir allt vatn, yfirborðsvatn sem grunnvatn og um það vatn allt skyldi gilda afnota- og umráðaréttur ekki eignarréttur. Skyldu menn nú ætla að björninn hefði verið unninn og lögin samþykkt hið snarasta? Það var aldeilis ekki af einhverjum dularfullum ástæðum trúlega réði skæklatog milli ráðuneyta þar miklu, var frumvarpinu stungið ofan í skúffu og það aldrei nefnt oftar, hvað það að það hefði verið lagt fram á Alþingi! Frumvarpið var heildstætt vatnalagafrumvarp og tók því með all ítarlegum hætti á vatnsverndarmálum og stjórnun þeirra. Gert var ráð fyrir að lögin heyrðu undir iðnaðarráðherra, en þann 25.11. 2010 lagði umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, fram frumvarp um Stjórn vatnamála og var ekki laust við að þau lög sköruðust við lagafrumvarp Lúðvíks. Í öllu falli var seinna frumvarpinu hent og flaut þá barnið út með baðvatninu.
Katrín ítrekaði aðskilnað vatns
Katrín lagði svo fram frumvarp til vatnalaga í ríkisstjórninni strax í febrúarbyrjun 2011 og brá þá svo við að hvergi er minnst á nauðsyn þess að breyta lögum um grunnvatn eða leggja fram heildstæð lög um vatn. Þvert á móti. Í lögunum voru þau nýmæli að í stað þess að fjalla um vatn (allt vatn) eins og lögin frá 1923 gerðu, var komið hugtakið yfirborðsvatn sem megininntak. Þar með var aðskilnaðurinn milli grunnvatns og annars vatns ítrekaður og undirstrikaður. Gengu höfundar laganna þar mjög langt í þeirri túlkun sinni að vatnalögin frá 1923 fjölluðu á engan hátt um grunnvatnið. Það var þó meira gert til þess að reyna að réttlæta þá ætlan að grunnvatnið skyldi
liggja óhreyft í einkaeigu, en að þeirri skoðun væri hægt að finna stað í vatnalögunum frá 1923. Reyndar þarf þessi tilraun til að passa upp á eignarrétt landeiganda ekki að koma mjög á óvart, þar sem Katrín hafði ráðið til verks sérstakan áhugamann og varðgæslumann einkaréttarins, lögfræðinginn Karl Axelsson, þann sama og var aðalhöfundur vatnalaga Valgerðar Sverrisdóttur.
Ögmundur einn á vaktinni
Upphaflega stóð til að reka þetta lagafrumvarp hratt í gegnum ríkisstjórnina í febrúarbyrjun 2011 og fengu ráðherrar örfáa daga til að gera athugasemdir við yfirborðs-frumvarpið. Sem betur fer var Ögmundur Jónasson á vaktinni eins og oft áður. Hann gerði strax kröfu til þess að lögum um auðlindir í jörðu yrði breytt, að grunnvatn yrði sett inn í vatnalögin og um það giltu sömu ákvæði um afnotarétt eins og annað vatn. Við þessum kröfum var ekki orðið. Gerði Ögmundur þá að skilyrði fyrir samþykki sínu við vatnalög Katrínar að það yrði gefið loforð um upptöku auðlindalaganna. Gerði Ögmundur tillögu að orðalagi þessa loforðs, sem yrði hluti af skýringum við lögin þar sem stóð:
Stefnt er að endurskoðun á lögum nr. 57 frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu með það fyrir augum að tryggja almannarétt varðandi grunnvatn með eigi lakari hætti en í þessu frumvarpi. Líta ber á vatn sem mannréttindi sem heyri öllu samfélaginu til og byggi öll lög sem snúa að vatni á þeirri nálgun. Þetta skýra og afdráttarlausa orðalag gat iðnaðarráðherrann Katrín Júlíusdóttir ekki sætt sig við. Þess í stað lagði hún til mun loðnara orðalag, sem gaf lögfræðingum mun meira svigrúm til að verja eignarréttinn: Unnið er að yfirferð annarrar löggjafar á þessu sviði, svo sem laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, með það fyrir augum að samræma réttarreglur á þessu sviði í þeim anda sem lagt er til með frumvarpi þessu.
(Hvers vegna skyldi ég vita þetta? Svo vill til að Ögmundur kallaði mig sér til aðstoðar í þessu máli, enda vorum við nánir samstarfsmenn um árabil hjá BSRB sem í tíð Ögmundar lét sig mjög varða auðlindamál og þá ekki síst vatnið. Var m.a. efnt til mikillar herferðar um vatnið og þess krafist að það skyldi vera í almannaeign. Þetta skýrir hvers vegna ég þekki þessa texta sem ég vísa til. Saman rýndum við í frumvarpstexta og greinargerðir. Ég tel mig ekki bundinn af trúnaði um þessa texta og þessi samskipti enda hvers vegna ætti svo að vera? Mér finnst mikilvægt að þessi hörmungarsaga verði öll rækilega skráð - því af henni verður að draga lærdóma. Við erum að tala um fjöregg þjóðarinnar og því miður um ríkisstjórn sem hefur brugðist því hlutverki sínu að gæta þess. )
Afnotaréttur jafngildir eignarrétti!
Þetta orðalag var svo samþykkt sem hluti af skýringum við vatnalögin og á grundvelli þess var svo skilgreint hlutverk grunnvatnsnefndar sem Katrín skipaði skömmu síðar til að gera tillögur. Formaður nefndarinnar var Ástráður Haraldsson hrl., formaður, en auk hans sátu Kristín Haraldsdóttir, forstöðumaður Auðlindaréttarstofnunar við Háskólann í Reykjavík, og Ingvi
Már Pálsson, lögfræðingur í iðnaðarráðuneytinu í hópnum. Þeir Ástráður og Ingvi voru meðhöfundar að vatnalögunum, svo varla hefur Katrín verið að sækjast eftir við róttækum breytingum á hugsun eða efnistökum með ráðningu þeirra.
Meginniðurstöður grunnvatnsnefndarinnar eru tvær; annars vegar hin augljósa, að rétt sé að
grunnvatn eigi heima með öðru vatni í lögum. Hins vegar kemst hópurinn að þeirri niðurstöðu að þó svo kalla megi eignarheimildir landeiganda afnotarétt þá rýri það í engu eignarrétt þann sem þeir voru taldir hafa samkvæmt lögunum um auðlindir í jörðu frá 1998! Þessum tillögum skilaði
grunnvatnsnefndin eftir u.þ.b. átta mánaða vinnu, í maí 2012. Þá átti Katrín eftir að sitja 8 mánuði í embætti iðnaðarráðherra, en virðist ekkert hafa aðhafst frekar í málinu.
Steingrímur sammála Valgerði?
Ríkisstjórnin gerði svo ekkert með málið, fyrr en á síðustu dögum Alþingis í mars 2013 þegar Steingrímur J. Sigfússon lagði fram tillögu um breytingar á vatnalögum frá 1923 og á lögunum um auðlindir í jörðu frá 1998. Var þar lagt til að grunnvatn skuli fært undir vatnalögin. Á það frumvarp var ekki lögð meiri áhersla en svo að það dagaði uppi án þess að hljóta samþykki. Sem kannski var þó ekki það versta sem gat gerst, sökum þess hvernig frumvarpið var gert úr garði. Þar er í öllu byggt á niðurstöðu grunnvatnsnefndar og í skýringum með frumvarpinu er ítrekað að þrátt fyrir nafnabreytingu úr eignarrétti yfir í afnotarétt, þá skuli breytingin skilin svo að um enga efnisbreytingu sé að ræða! Grunnvatnið sé de facto, eftir sem áður, í einkaeign landeiganda! Grunnvatnsnefndin bætir eiginlega um betur: Í greinargerð með frumvarpi Steingríms má lesa: Í skýrslu starfshópsins (grunnvatnsnefndar) kemur jafnframt fram að deila megi um hvort með setningu laganna um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, hafi í raun orðið breytingar á eignarréttarlegri stöðu grunnvatns. Færa megi rök fyrir því að hún hafi ekki breyst við setningu auðlindalaga. Hér er formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, sá hinn sami og kallaði auðlindafrumvarp Finns Ingólfssonar ómerkilegt snifsi 1998, að leggja fram frumvarp sem
efnislega tekur undir allan þann rökstuðning sem Valgerður Sverrisdóttir notaði á sínum tíma þegar hún lagði fram sín vatnalög: Að breytingin sem lögð var til 2006 á vatnalögum frá 1923 hafi aðeins verið orðalagsbreyting. Að afnotaréttur sé í reynd eignarréttur og að vatnalögin 2006 hafi eingöngu
verið til að skýra þessa staðreynd.
Vinstri flokkarnir í hring, Valgerður vann!
Með þessari málsmeðferð allri eru Samfylking og VG, vinstri flokkarnir sem svo hatrammlega börðust gegn einkavæðingarfrumvarpi Valgerðar Sverrisdóttur, komnir í heilan hring. Með því að ætla að samþykkja yfirfærslu á grunnvatni inn í vatnalög, þar sem afnotaréttur á grunnvatni er útskýrður sem de facto einkaeignarréttur, þá er þess skammt að bíða að upp komi kröfur á nýjan leik
um að sá skilningur eigi líka að gilda um afnotarétt manna á yfirborðsvatni. Bingó! Valgerður, Halldór og Finnur unnu!
Auðvelt að ræna þjóðina rétti sínum
Það sem að þessi atburðarás sýnir þó merkilegt nokk, að það er reginmunur á þessum tveimur hugtökum, afnotarétti og eignarrétti. Samkvæmt upprunalegu vatnalögunum frá 1923 áttu landeigendur ekki vatnið, þeir höfðu af því afnotarétt. Og fyrst landeigendur áttu ekki landið má spyrja hver hafi átt það þá? Nærtækast er að álykta að vatnið hafi defacto verið í þjóðareign. Þegar Finnur Ingólfsson setur síðan í lög með einu pennastriki, að grunnvatnið sé í einkaeign, sveipar hann þennan hluta vatnsins lagahjúp eignarréttar, án þess þó að gera neinar breytingar á gömlu vatnalögunum sem kváðu í raun á um að allt vatn, grunnvatn meðtalið, væri allra eign. Það er þessi lagahjúpur einkaeignar sem Samfylkinguna hefur skort þor og kjark að rífa í sundur. Samfylkingin gat því með auðveldum hætti fært aftur til fyrra horfs þann hluta vatnsins sem alltaf hafði verið í þjóðareign og landeigendur höfðu haft afnotarétt á. Þegar kom hins vegar að því að færa grunnvatnið úr einkaeign yfir í afnotarétt, þá gekk dæmið ekki lengur upp, nema því aðeins að skilgreina afnotarétt sem eignarrétt. Það virðist sem sagt eiga að vera hægðarleikur að breyta afnotarétti í eignarrétt, eins og Valgerður vildi gera, en ekki er hægt að fara sömu leið til baka og breyta eignarrétti í afnotarétt. Það er sem sagt mun auðveldara að ræna þjóðina rétti sínu en einkaaðila.
Vatnsbragð Samfylkingarinnar
Það er því lýðskrum af versta tagi þegar Katrín Júlíusdóttir lætur í veðri vaka að hún hafi snúið ofan af einkavæðingu Framsóknar-og Sjálfstæðisflokks á vatninu. Reyndar er það spurning hvort þetta sé samræmd framsetning hjá frambjóðendum Samfylkingarinnar, því Sigríður Ingibjörg Ingadóttir notaði nákvæmlega sömu taktík á frambjóðendafundi í Sjónvarpinu nýverið þar sem hún sagði efnislega það sama: Munið hvernig þetta var þegar við tókum við Framsókn og Sjálfstæðisflokkur voru búnir að einkavæða vatnið... en síðan var þessi þarfa áminning með engu botnuð. Það er bara látið liggja að því að Samfylkingin hafi bjargað málunum!
Á að stjórnarskrárbinda einkaeign á vatni?
Það er hins vegar full þörf á að botna þessi mál. Það verður ekki gert með að láta sömu lögfræðingana innan og utan ráðuneyta leggja á ráðin. Það verður ekki gert með að stjórnmálamenn komist upp með að segja eitt í gær og gera annað á morgun eða gera hreinlega ekki neitt. Það verður ekki gert með að hlusta bara á nýtingarsjónarmið fulltrúa orkugeirans sem gegnsýra
vatnlög Katrínar. Það verður ekki gert með því að láta fulltrúa sjónarmiða Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, hægri sinnaðra Samfylkingarmanna í stjórnlagaráði komast upp með að gera ólög Finns Ingólfssonar um auðlindir í jörðu að lagagrunni þjóðarinnar í nýrri stjórnarskrá. Hver skyldi hafa komið þeirri tillögu í gegn á þeim bæ að aðeins ...auðlindir, sem ekki eru í
einkaeign, skuli vera í eigu þjóðarinnar...? Halda menn kannski að færri hefðu tekið undir málið í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef spurning hefði verið: Eiga náttúruauðlindir að vera í eigu þjóðarinnar?
Engin gætir hagsmuna almennings...
Það er hins vegar úr vöndu að ráða. Framsókn og Sjálfstæðisflokkur hafa ekki skipt um skoðun í málinu svo vitað sé. Samfylkingin og VG hafa ekki náð að koma vatninu í örugga höfn og virðast reyndar stefna með það beina leið út á ólgusjó einkavæðingar á nýjan leik. Enginn af nýju flokkunum hefur tekið málið upp á sína arma enn sem komið er. Það er því aðeins fólkið í landinu
sem getur tekið af skarið, jafnvel þó reynt sé að afvegaleiða almenning með ýmsum hætti.
... nema almenningur sjálfur. Látið í ykkur heyra!
Grunnvatnið er allt í einkaeign landeiganda og um það ástand standa öflugir varðhundar á vakt. Þeir gelta hins vegar ekki hátt þessa dagana, því þeir vilja ekki draga athyglina að málinu. Þeir vita eins og er að þjóðin vill að vatnið, rétt eins og aðrar náttúruauðlindir, sé og verði í eigu þjóðarinnar. Það er því undir þér komið, kæri lesandi, að gera þitt til að vekja athygli á málinu og koma því á dagskrá fyrir Alþingiskosningar. Við viljum ekki að almannahagsmunir verði fyrir borð bornir!
16.11.2012 | 13:16
Af hverju erum við í stjórnmálasambandi við Ísrael?
30.10.2012 | 19:51
Hver bað þessa kóna að taka að sér landsstjórnina?
25.1.2012 | 22:16
Hin opinbera herferð gegn Ögmundi
En þá að ræðu Ögmundar og viðbrögðunum við henni. Ég verð að segja að mér þætti fengur að því ef að BHM og BSRB brygðust jafnskjótt við og í þessu máli, þegar önnur og ekki síðri mál ber á góma. Eins og t.d. það sem raunverulega var verið að ræða í þetta skiptið á Alþingi, sem eru þær hundruðir milljóna króna sem að ESB ætlar sér að brúka hér innanlands til að blanda sér í ákvarðanatöku þjóðarinnar um hvort hún vill gerast aðili að þessum sömu samtökum eða ekki. Það efni hefði t.d. verið ærin ástæða til umfjöllunar og ályktana, en mér er til efs að ef um slíkt hefði verið ályktað af þessum sömu samtökum, að þær ályktanir hefðu verið bornar jafnskjótt út til alþýðu af fjölmiðlum og nú er raunin.
Nú vill svo til að þessa dagana blása kaldir vindar um fjölmiðla og bloggheima; úlfahjörðin hefur runnið á blóðið, nú á að ná í skottið á Ögmundi, sem skyndilega er orðinn handbendi Hádegismóa og helsti forgöngumaður þess að Hrunið fáist aldrei gert upp (!!). Sjálfur hefur þú, að mér sýnist, ekki færri en 9 fésbókarfærslur í dag, þar sem ýmsir aðilar veitast með einhverjum hætti að Ögmundi Jónassyni. Allt er leyfilegt í stríði og ástum. Mér virðist ákafi BHM og BSRB bera þess nokkuð merki að menn þar á bæ hafi látist smitast af veiðihugnum.
Þannig er alveg ljóst að í ályktun BHM er reynt að gera málstað Ömundar enn verri en ella, með heldur óþverralegum útúrsnúningi. Í ályktun BHM (var það ályktun stjórnar BHM? Framkvæmdastjórnar BHM? Hverjir samþykktu þennan texta eiginlega?) segir orðrétt: BHM gerir alvarlegar athugasemdir við ummæli innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, í ræðustól Alþingis í gær (24/1). Þar lét ráðherra að því liggja að starfsmenn stjórnarráðsins væru háðir eldvatni, ferðalögum til Brussel, hóteldvöl og dagpeningum. Ögmundur Jónasson sagði aldrei að starfsmenn stjórnarráðsins væru háðir eldvatni (brennivíni), það er hrein og bein fölsun að halda því fram, en þessi vinnubrögð styrkja það sem áður er sagt að veiðiákafinn hafi borið menn hér yfirliði.
Það var fyrirspyrjandi Ásmundur Daði Einarsson, sem færði glerperlur og eldvatn í tal og spurði, eðlilega, hvort ekki væri hætta á að að hið mikla fjármagn sem ESB hyggst nýta í kynningarstarfsemi hér á landi á næstu mánuðum muni skekki lýðræðislega umræðu í landinu?
Svar Ögmundar hófst á þessum orðum: Fyrst vil ég taka fram að við höfum staðið gegn þessum styrkjum sem við teljum óeðlilega og þar vísa ég til innanríkisráðuneytisins sérstaklega en ég tala fyrir hönd þess til þess umhverfis sem ég þekki helst. Það er alveg rétt að það þarf að gæta jafnræðis í þessum kynningarmálum og reyndar er það fólgið í því að jafnræði ríki milli aðila innan lands en ekki að það komi utanaðkomandi aðili og heimti jafnræði á borð við okkur gagnvart þeim sem taka þátt í þessari umræðu hér. Það sem ég hef mestar áhyggjur af er að stofnanakerfið ánetjist þessari umræðu, því að nú er talað um eldvatnið.
Þetta er eina tilvitnun Ögmundar í orðið eldvatn. Þú hlýtur að vera því sammála G.Pétur, sem réttsýnn maður, að það er engan vegin hægt að halda því fram af þessum orðum að Ögmundur Jónasson hafi látið að því liggja að starfsmenn stjórnarráðsins væru háðir brennivíni! Það hlýtur að vera, að fyrst BHM er svo annt um sóma sinn að það hlaupi upp með þessum hætti, að það biðji Ögmund Jónasson afsökunar á þessum áburði sínum.
Hvað var það annað sem að Ögmundur sagði? Hann velti því fyrir sér hvernig það má vera að stofnanaveldið, eins og hann kallaði það, hefur oftar enn ekki verið áköfustu talsmenn þess að ganga í ESB á meðan almenningur hefur verið á móti. Og hann gefur sér að það sé vegna þess að þegar búið er að fljúga fólki (úr stofnanveldinu) fram og til baka frá Brussel og bera það á höndum sér og draga upp þá mynd sem ESB vill draga upp, að þá hafi það áhrif. Það er vissulega ákveðin upphefð í því að vera sá útvaldi sem fær að vera hluti af apparatinu, vera innvígður, hafa upplýsingar sem almenningur hefur ekki, og það getur auðvitað kitlað margan manninn. Það er ekki nýtt að fólk getur ánetjast því sem það upplifir sem upphefð. Orðrétt sagði Ögmundur: Hvernig stendur á því að alltaf þegar bornir eru upp samningar innan Evrópusambandsins, það er mjög algeng regla, er stofnanaveldið, hvort sem það er verkalýðshreyfing, atvinnurekendasamtök eða stjórnsýslan, hlynnt (Forseti hringir.) en almenningur á móti? Það er vegna þess að það er búið að fara með flugvélafarma viku eftir viku, mánuð eftir mánuð (Forseti hringir.) út til Brussel þar sem menn halda við (Forseti hringir.) á kostnað ríkisins.
Ég held að þetta sé sá mergur málsins sem Ögmundur vildi færa fram. En ég held hins vegar að hann hafi kannski ekki vandað sig nóg, eða jafnvel fipast undir bjölluslætti forseta, í lokaorðum sínum. Þetta fólk ánetjast (Forseti hringir.) Evrópusambandinu og vill ólmt halda áfram og fá að fara í fleiri ferðir, (Forseti hringir.) fleiri hótelferðir, meiri dagpeninga. Það er þetta sem er að gerast, það er þess vegna sem stofnanaveldið (Forseti hringir.) ánetjast Evrópusambandinu. Og það má vel vera að Ögmundur sjái eftir þessu orðavali sínu, sem ekki var hið heppilegasta, undir það get ég tekið.
Hvað varðar síðan persónuleg viðbrögð Helgu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra BSRB, þá er það kafli út af fyrir sig að framkvæmdastjóri samtakanna tjái sig með þessum hætti. Ekki verður séð að hún hafi kallað saman framkvæmdastjórn eða stjórn BSRB vegna málsins, heldur hafi hún talað í eigin nafni.
Það sem mér þykir einnig eftirtektarvert er að bæði (stjórn?) BHM og Helga Jónsdóttir, sjá enga ástæðu til að ræða þá hluti sem til umræðu voru á Alþingi, sem voru til umræðu, hinir svokölluðu Pre-Accession-styrkir eða aðlögunarstyrkir né hugsanleg áhrif þeirra á ákvarðanatöku almennings hér á landi. Né finnst þeim ástæða til að ræða hvort hugsanleg vandamál geta verið samfara slíkum styrkjum og öðrum peningaútlátum til þeirra sem eru fulltrúar þessara samtaka í aðildarviðræðunum. Þess í stað grípa samtökin þau orð sem óheppileg eru, snúa jafnvel út úr þeim og nota tækifærið til að bera út helsta forystumann og málsvara sinna eigin samtaka, sem um leið hefur verið gegn samverkamaður BHM í áratugi. Með því er þessi stjórn BHM og Helga Jónsdóttir í nafni BSRB að taka þátt í þeirri aðför að Ögmundi Jónassyni, sem óneitanlega stendur sem hæst þessa dagana. Ögmundi Jónassyni getur vissulega orðið á í messunni eins og öðrum mönnum. En maður skyldi ætla að þessi samtök þekktu hann af öðru en vera hatursmaður BSRB og BHM eins og þau láta hann líta út fyrir að vera.
En út á þetta gengur herferðin núna G.Pétur - að fá að þjóðina til að trúa því að Ögmundur sé orðinn umskiptingur. Hann hatast nú við opinbera starfsmenn, hann vill ekkert frekar en að grafa allan sannleikann um Hrunið og fela hann þjóðinni. Hann vill helst af öllu ganga í björg í Hádegismóum. Þennan áróðurseld kynda menn nú sem ákafast og margir litlir leggja sín litlu sprek í þá galdrabrennu. Og mér sýnist þú því miður ekki vera undanskilinn, G.Pétur. Níu litlar færslur í dag gefa bálinu kraft. Verði þér að góðu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.1.2012 kl. 08:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.1.2012 | 15:21
Sótraftar og sanngirni
Sæll félagi Einar og þakka þér fyrir ágæta grein á Smugunni. (http://smugan.is/2012/01/svokalladur-sotraftur/)
Sitjandi hér í Danaveldi gefur nokkra fjarlægð á atburðarásina heima á Íslandi. Og stundum vekur sú atburðarás mér nokkra furðu, sem vert brjóta heilann ögn um. Eins og nú, þegar Ögmundur Jónasson er skyndilega úthrópaður sem svikari (við hvað er svo önnur spurning) og helsta hlaupatík Sjálfstæðisflokksins! Svo virðist að öll hans góðu verk og skýra pólitíska afstaða í gegnum áratugina sé sumum hinna öru penna með öllu gleymd og einhverjum finnst rétt að þjóna lund sinni með því að telja að afstöðubreyting Ögmundar í Haarde-málinu, hafi afhjúpað þann ístöðulausa pólitíska auðnuleysinga sem þau hafa alltaf grunað Ögmund um að vera! Og þegar litið er til þeirrar pólitísku forystu sem Ögmundur Jónasson hefur veitt bæði innan verkalýðshreyfingarinnar, í almennri þjóðmálaumræðu sem og á Alþingi, þar sem hann hefur staðið einarðlega fyrir vinstri sjónarmiðum jöfnuðar og mannréttinda og hlíft sér hvergi, þá vekur sú heift og óbilgirni sem margir skríbentar hafa sýnt í skrifum sínum, upp nokkrar spurningar.
Að stela glæpnum
Hverjir eru það sem gagnrýna Ögmund helst og af hvaða ástæðum? Ástæðan er fyrst og fremst sú, að gagnrýnendur Ögmundar virðast telja að hann ætli nú að stela glæpnum af þjóðinni. Hann ætli sem sagt að gera sitt til þess að þeim eina pólitíska blóraböggli sem þjóðin fékk í sinn hlut, eftir að Samfylkingin hafði losað sýna eigin menn ofan af snaganum, verði skotið í skjól. Og að þjóðin verði því rænd þeirri friðþægingu sem fengist með því að einhverjum yrði refsað fyrir Hrunið. Það sé ekki nóg að taka gróðapungana í bönkunum sem breyttust í glæpona þeir verði vonandi pikkaðir upp af lögreglunni með tíð og tíma, - en það hafi ekki verið þeir sem breyttu kerfinu þannig að boðið var upp í Hrunadansinn.
Fyrir þann glæp verði einhver að svara, þann glæp vantar eitthvert andlit. Nú er það svo að í hugum flestra skjóta önnur nöfn upp kollinum, í því sambandi, á undan nafninu Geir Haarde. Nöfn eins og Davíð Oddsson, Hannes Hólmsteinn, Halldór Ásgrímsson, Valgerður og Finnur, og svo má auðvitað ekki gleyma Samfylkingunni, Ingibjörgu Sólrúnu og félögum, - en um það sé ekki að fást þegar allt kemur til alls sé betra að hafa einhvern til að draga fyrir dómara en engan.
Önnur sök Ögmundar
Önnur sök Ögmundar er sögð vera sú, að með því að koma í veg fyrir málflutning fyrir Landsdómi, fari engin krufning fram á orsökum glæpsins. Hvernig stóð á því að Hrunið gat orðið? Þarf ekki að svara því hvernig stóð á því að bankarnir voru einkavæddir, að þeir voru afhentir mönnum sem voru sérvaldir af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, að einkavæðingarnefnd fór hamförum, að græðgisvæðingin var innleidd sem hið eftirsóknarverða? Að yfir eftirlitsstofnanir voru settir menn sem trúðu því að markaðurinn þrifist best án eftirlits? Að hin opinbera almannaþjónusta var töluð niður í áratugi, fjársvelt og talin betur komin í höndunum á einkaaðilum? Hvert var hlutverk Alþingis, stjórnsýslunnar? Hvert var hlutverk og ábyrgð- kjósenda?
Kapallinn verður að geta gengið upp
Að sjálfsögðu þarf að svara þeim spurningum. Það hefur að hluta til verið reynt með rannsóknarskýrslum Alþingis. En hér þyrfti að koma til enn meiri vinna og víðtækari hafi þjóðin á annað borð áhuga á að fá svör við þessum spurningum. Og það er einmitt ein af röksemdum Ögmundar hvort sem menn eru sáttir við hana eða ekki, - að spurningarnar sem bíða svara Landsdóms séu fyrirfram gefnar og of afmarkaðar til þess að veita svörin sem þjóðin þarf á að halda. Og hætt er við, að þegar þeir sem hæst láta nú og hafa ekki þolinmæði til að bíða eftir einhverri sannleiksnefnd - að örendi þeirra verði þrotið þegar Landsdómur hefur þæft um það í mánuði hvað sé átt við með andvaraleysi eða ábyrgð og hvort sú ábyrgð sé Geirs eins eða annarra líka. Og Landsdómurinn getur augljóslega ekki dæmt einhvern annan fyrir hugsanlegan glæp, en þann sem stefnt er fyrir réttinn. Það verður því aldrei fjallað um ábyrgð Davíðs Oddsonar eða Hannesar Hólmsteins fyrir Landsdómi svo dæmi sé tekið. Kapallinn mun aldrei ganga upp ef búið er að tína flest mannspilin úr bunkanum.
Hin sleipa lögfræðisápa
Og ætli menn telji því ekki, þegar upp er staðið og Landsdómur hefur kveðið upp sinn úrskurð, að það hefði verið betra að fara af stað með einhvert það ferli, sannleiksnefnd eða annað, sem gefur svör við hinum nauðsynlegu spurningum sem ekki verður spurt fyrir Landsdómi. Því að sjálfsögðu er ekki víst hvort Landsdómur finnur Geir Haarde sekan; hvort sem er um andvaraleysi, eða að hann hafi brugðist ábyrgð. Var það ólöglegt að setja lög sem leiddu til hrunsins og fara svo eftir þeim lögum? Það kemur til með að standa og falla á einhverri lögfræðisápu og henni sleipri.
Það sem þjóðin veit
Þjóðin þarf ekki Landsdóm til að segja sér það sem hún veit. Hún veit að það var Sjálfstæðisflokkur, dyggilega studdur af Framsóknarflokki sem innleiddi hér það kerfi nýfrjálshyggjunnar sem var sú umgjörð sem olli Hruninu á Íslandi og þeirri kreppu sem að Evrópa og hinn vestræni heimur býr nú við. Hún veit líka hverjir voru leikendur og leikstjórar þegar það farsastykki var sett á fjalirnar á Íslandi, að háskólaprófessorum og Hæstaréttardómurum ógleymdum. Og hún veit líka að þeir hægri kratar í Samfylkingunni sem þar hafa setið í forsæti, voru síður en svo fráhverfir mörgum af þeim grundvallarbreytingum sem komið var á. Þeirra átrúnaðargoð var lengstum Tony Blair, en meira af opinberri þjónustu var einkavædd í hans tíð, en í tíð Margrétar Thatcher. Og þjóðin veit það sem meira er, hún veit hverjir kusu þessa hrunflokka ítrekað til valda, - og virðist svo sem ætla að færa þeim völdin á nýjan leik, ef marka má skoðanakannanir.
Að hengja bakara fyrir smið
Það er því að hengja bakara fyrir smið og nota til þess ósanngjarnan málflutning, ef saka á Ögmund um að vilja ræna þjóðinni tækifærinu til að gera upp við Hrunið. Fyrir það fyrsta hefur hann lagt höfuðið á höggstokkinn, ef svo má að orði komast, til þess að vara við því að málaferli fyrir Landsdómi muni ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að orsakir Hrunsins verði skoðaðar að fullu. Þvert á móti sé hætta á að það próf sem á að segja til um hver beri ábyrgð á því hruni, muni gefa ranga, eða amk ófullnægjandi niðurstöðu. Það sem meira er, hætta sé á að sú niðurstaða verði látin standa sem Niðurstaðan; Geir Haarde bar ábyrgð á Hruninu eða Geir Haarde bar ekki ábyrgð á Hruninu. Hvoru tveggja sé augljóslega ófullnægjandi niðurstaða. Því sé rétt að fara aðra leið svo komast megi að sanngjarnari og meira upplýsandi niðurstöðu.
Skjótum sendiboðann
Í annan stað er það grár leikur að ásaka Ögmund Jónasson um að vilja fela orsakir Hrunsins fyrir þjóðinni. Því ef að það er einhver sem hefur verið óþreytandi á undanförnum áratugum að vara við hvert stefndi, þá hefur það verið Ögmundur Jónasson. Og það hefur langt því frá verið þakklátt starf fyrir öllum. Um það geta Davíð Odddsson, Geir Haarde, Halldór Ásgrímsson, Finnur Ingólfsson, Valgerður Sverrisdóttir, Ingibjörg Sólrún og margir fleiri vitnað!
Að fylgja eigin sannfæringu...
Og að ásaka Ögmund Jónasson fyrir að ganga erinda Sjálfstæðisflokksins í þessu máli, er í besta falli kjánalegt, í versta falli illgjörn tilraun til að koma höggi á pólitískan andstæðing. Það vita það allir sem vilja vita, að Ögmundur Jónasson gengur ekki og hefur aldrei gengið erinda Sjálfstæðisflokkins. Að ímynda sér það er augljós firra fyrir öllum þeim sem þekkja til hvaða mann Ögmundur hefur að geyma. Er líklegt að hinn þrautreyndi stjórnmálamaður, Ögmundur, hafi gert sig svo berskjaldaðan fyrir gagnrýni, eins og raunin er, af einhverjum pólitískum aulaskap eða til þess eins að ganga erinda Sjálfstæðisflokkins, Bjarna Ben. eða til þess að koma sér fyrir í Hádegismóum? Ég held ekki. Ég held hins vegar að Ögmundur sé stjórnmálamaður þeirrar gerðar að hann fylgi sannfæringu sinni og sé tilbúinn að viðurkenna mistök sem hann telji að sér hafi orðið á. Það gerir hann augljóslega í þessu tilfelli, jafnvel þó það sé umdeilt og að hann liggi vel við höggi gagnrýnenda í kjölfarið. Ekki síst þar sem að svo gæti virst sem að skoðanir hans og Sjálfstæðisflokksins fari saman í málinu.
... það sama og fylgja Sjálfstæðisflokknum?
En vilji menn gagnrýna Ögmund fyrir þessa skoðun sína, þá verða menn að hafa þá skynsemi til að bera að þeir viðurkenni hið augljósa. Að skoðun Ögmundar og skoðun Sjálfstæðisflokksins á því af hverju ekki eigi að draga Geir Haarde fyrir Landsdóms eiga sér gjörólíkar forsendur.
Ögmundur vill varna því að málið verði til þess að orsakir Hrunsins verði allar raktar til Geirs Haarde og að víðtækari skoðun á Hruninu ljúki þar með;
Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki skoða orsakir hrunsins, hann vill ekki að fyrrverandi formaður flokksins sé eina andlit glæpsins það var aldrei neinn glæpur framinn af fulltrúum Sjálfstæðisflokkins í besta falli einhverjir óreiðupésar (flokknum óviðkomandi) sem réðu ekki við að höndla það frelsi sem Davíð færði þeim. Skoðanir Ögmundar og Sjálfstæðisflokksins fara því auðvitað ekki saman; því síður er þá rétt að draga þá ályktun að Ögmundur sé að ganga erinda Sjálfstæðisflokkins í málinu.
Hverjir eru óánægðir?
Hverjir eru það þá sem gagnrýnt hafa og jafnvel veist að Ögmundi Jónassyni, og Guðfríði Lilju og Jóni Bjarnasyni, fyrir að hafa þá skoðun að það sé aðrar leiðir betri til að gera upp Hrunið og finna þá sem ábyrgir voru fyrir því, en að draga Geir Haarde einan fyrir Landsdóm. Ég held að þeim hópi megi í grófum dráttum skipta í tvennt:
Annars vegar ósköp vanalegu fólki sem les ekki, skilur ekki, eða er einfaldlega ekki sammála, röksemdafærslu Ögmundar og finnst að það sé verið að hafa af þjóðinni tækifærið til að loka málinu - loka umræðunni um Hrunið. Nú eða að það sé verið að girða fyrir sérhverja möguleika á réttlátri umræðu. Að það sé verið að hafa af þjóðinni þá fróun að einhverjum a.m.k. verði veitt sú ráðning sem hann á skilið það sé skömminni skárra en að allir gangi lausir og engin beri ábyrgð! En þá verður að hafa í huga að það er alls ekki markmið Ögmundar að allir gangi um án ábyrgðar, þvert á móti er það markmið hans að öllum steinum verði velt við! Að það verði ekki gengið út frá því að Hrunið sé einhverjum einum að kenna. Því það er auðvitað óþolandi með öllu að hirðin hans Davíðs og Halldórs og Sólrúnar, fái að sitja í sínum feitum embættum óáreitt og enginn beri nokkra ábyrgð nema kannski Ögmundur Jónasson! Og þó svo þjóðina þyrsti skiljanlega í réttlæti, þá verður því varla fullnægt með árásum á hann.
Pólitískir hælbítar eða riddarar sannleikans?
Svo eru það hinir sem eru að skrifa í pólitískum tilgangi. Sumir skrifa, held ég, af því þau þekkja ekki manninn Ögmund eða konuna Guðfríði og margur heldur að aðrir séu eins og hann sjálfur. Ég held því að því ásakanir um pólitískan sóðaskap séu litaðar af einhverjum raunveruleika sem hinn sami er hluti af, nema þá að hann sjái ekki upp fyrir þúfurnar á hinum pólitíska vígvelli og nái ekki samhenginu. Að ásaka Atla Gíslason, Guðfríði Lilju Grétarsdóttir, Jón Bjarnason, Lilju Mósesdóttir og Ögmund Jónasson fyrir að bera nú ábyrgð á því að Hrunið verður ekki gert upp og óska þess að þau megi hafa skömm fyrir um aldur og ævi ber pólitískri blindu og pólitískum sóðaskap viðkomandi, Þórs Saari, ævarandi vitni. Nema að hann telji að með þeim fáheyrðu ummælum sé hann að vinna sér í mjúkinn hjá þeim Jóhönnu og Steingrími og vonist til að geta fyllt stól Ögmundar að honum gengnum.
Og svo eru það auðvitað samherjarnir sem eiga að þekkja bæði Ögmund og Guðfríði nokkuð náið. Það kemur ekki þá í veg fyrir að sumir tali gegn betri vitund og þá oftar en ekki í þeim lágkúrulega tilgangi að vonast eftir það megi verða til að efla þeirra eigin frama. Eða eigum við að trúa því að bak við kröfu Álfheiðar Ingadóttur um að Ögmundur víki sem ráðherra, liggi aðeins hreinn og tær vilji viðkomandi um að réttlætið nái fram að ganga? Að það séu prinsippin sem böggi hana mest? Því miður er ekki hægt að lesa athugasemdir margra Alþingismanna í þessu máli hvað varðar Ögmund Jónasson, án þess að horfa á þær í samhengi við átökin innan ríkisstjórnarinnar og baráttuna um ráðherrastólana.
Vöndum orðin
Þó svo ákvörðun Ögmundar Jónassonar um að styðja frávísunartillögu Bjarna Ben þess efnis að kæru á hendur Geirs Haarde verði vísað frá Landsdómi, hafi komið mörgum á óvart, þá gefur hún að mínu mati ekki tilefni til þeirra pólitísku svívirðinga og dylgna sem á Ögmundi hafa dunið. Menn kunna að vera ósammála og hafa sín rök fyrir því. Það er í góðu lagi svo lengi sem menn eru málefnalegir. Það vita hins vegar allir, sem fylgst hafa með íslenskum stjórnmálum undanfarna áratugi, fyrir hvaða málstað Ögmundur Jónasson stendur. Það er með ólíkindum að sá stjórnmálamaður sem harðast hefur barist gegn merkisberum nýfrjálshyggjunnar og þeirri óheillaþróun sem var óhjákvæmilegur fylgifiskur hennar og leiddi þjóðina síðan fram af brún hengiflugsins að hann skuli nú vera úthrópaður sem hlaupatík Sjálfstæðisflokksins og sá sem vilji fela orsakir Hrunsins fyrir þjóðinni! Þeir sem þannig tala gera það af bráðræði nema það sé gegn betri vitund. En óbilgirni er ekki til sóma.
17.12.2011 | 22:13
Einingarlistinn í Danmörku krefst þjóðaratkvæðagreiðslu um fjármálamiðstýringu ESB
Einingarlistinn (Enhedslisten) krefst þess nú að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla í Danmörku um fjármálapakkann sem 26 ríki ESB hafa sameinast um. Einingarlistinn, sem er flokka lengst til vinstri á danska þinginu, styður minnihlutastjórn Helle Thorning-Schmidt. Deilur hafa verið um það í Danmörku hvort samþykkt fjármálapakkans kalli á breytingar á stjórnarskrá í Danmörku og þar með á þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni ESB eru, eins og kunnugt er, það sem leiðtogar ESB óttast öðru fremur, enda er á þeim litið á slíkar lýðræðisæfingar sem ónauðsynlegar og til trafala. Nicolai Wammen, evrópuráðherra sósialdemókrata segir nú að þjóðaratkvæðagreiðsla sé ólíklegri í stöðunni en áður, Ástæða þess mun vera að Manuel Barrosso forseta framkvæmdastjórnar ESB hefur staðhæft að Danmörk muni ekki verða beitt sektum, öðrum íþyngingum né urfi landið að taka á sig nýjar skyldur, samþykki landið fjármálapakkann.
Farið á bak við kjósendur
Nicolaj Villumsen, talsmaður Einingarlistans segir hins vegar að það væri verið að fara á bak við kjósendur í Danmörku ef breyta ætti efnahagsstefnunni í landinu án þess að þeir fái að kjósa um málið. Segir hann að Helle Thorning-Schmidt hafi lofað kjósendum því að gefa efnahag landsins hressilega innspýtingu nú í upphafi kjörtímabilsins til að koma hjólum atvinnulifsins af stað á nýjan leik. Niðurskurðarhugmyndir ESB koma í veg fyrir slíkar efnahagsaðgerðir. Telur Nikolaj fráleitt að hætta við eitt helsta kosningaloforð ríkisstjórnarflokkanna, bara af því að tveir leiðtogar borgaralegra ríkisstjórna í Þýskalandi og Frakklandi vilja eitthvað annað.
Óttast vald kjósenda
Málið þykir vandræðalegt, ekki síst fyrir Sósialíska þjóðaflokkinn, SF, helsta keppinaut Einingarlistans á vinstri vængnum, sem hefur setið undir ásökunum um að hafa fórnað flestum stefnumálum sínum til að komast í ríkisstjórn. Beið flokkurinn afhroð í nýafstöðnum þingkosningum og tapaði 7 þingsætum á meðan að Einingarlistinn var helsti sigurvegari kosninganna og bætti við sig átta þingsætum. Ríkisstjórnarflokkarnir tveir eru þó studdir af öllum hægri flokkunum í þessu máli á danska þinginu, nema Danska þjóðarflokknum, og þykja því hafa vissan meirihluta verði málið afgreitt innan veggja Kristjánsborgar. Danska ríkisstjórnin óttast hins vegar, rétt eins og ríksistjórnarkollegar þeirra innan ESB, að leyfa almenningi að segja sína skoðun á fjármálapakkanum, en með honum er stigið stórt skref til aukins miðstjórnarvalds í höndum embættismanna framkvæmdastjórnar ESB á kostnað lýðræðislegs valds almennings í aðildarríkjunum.
14.11.2011 | 10:20
Hvað með heilbrigða skynsemi?
Jessica Biel segir heilbrigða húð vera lykilatriði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.8.2010 | 15:13
Kokhraustir GGE menn, með stuðningi ríkisins?
Hverjir eru það sem eru svo kokhraustir að standa að þessari makalausu yfirlýsingu? Enginn er skráður fyrir henni en bent á framkvæmdastjóra GGE til upplýsinga. Sá á að baki glæstan feril hjá Glitni, bæði hér á landi og í Noregi. Hvað skildu annars hafa græðst og tapast miklir peningar hjá Glitni og hverjir fengu að borga það tap? Er það sú saga sem veitir framkvæmdastjóranum trúarhitann, hafi hann þá skrifað textann?
Er það stjórn GGE sem ákveður að skrifa þessa yfirlýsingu og hver á þá hverjir eiga GGE í dag? Atorka átti 41% en er farinn á hausinn. Þá er eftir Glacier Renewable Energy Fund (sem á 40% í GGE) en sá sjóður kemur úr þrotabúi Glitnis, en er nú rekinn af Íslandsbanka. Þegar erlendir kröfuhafar bankans eignuðust 95% í Íslandsbanka, hélt ríkið eftir 5% hlut. Og eins og stendur á heimasíðu bankans í dag:"Ríkið mun eiga 5% af hlutafé bankans og hafa einn fulltrúa í stjórn. Stjórnvöld munu setja fjármálakerfinu reglur og halda uppi virku eftirliti með starfseminni. Ríkisvaldið hefur og ákveðið að hafa tiltekið fjármagn tiltækt til þess að styðja við bankana ef á þarf að halda."
Er þessi digra yfirlýsing GGE gerð með vitund og vilja fulltrúa ríkissins í Íslandsbanka?
Og meðal annarra orða, hver er fulltrúi ríkisins í stjórn Íslandsbanka? Friðrik Sophusson er formaður stjórnar, en á heimasíðu bankans er enginn í sjö manna stjórn merktur sem fulltrúi ríkisins.
Hins vegar segir þar: "Í stjórn Íslandsbanka sitja sjö aðilar skipaðir af eignarhaldsfélaginu ISB Holding ehf. og Bankasýslu ríkisins."
Er ríkið þá meðábyrgt í að skipa alla sjö fulltrúana en á engan fulltrúa sjálft, eða hvernig ber að skilja þetta? Af hverju er fulltrúi ríkisins í stjórn Íslandsbanka ekki tilgreindur sem slíkur á heimasíðu bankans?
Eigendur GGE:
Atorka (RER) | 41% |
Glacier Renewable Energy Fund (Managed by Islandsbanki) | 40% |
Mannvit Engineering (VGK Invest) | 7% |
|
Umboðslaus rannsóknarnefnd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.7.2010 | 02:25
Moldviðri Unnar
Unnur Kristjánsdóttir, formaður nefndar um erlenda fjárfestingu er augljóslega að afvegaleiða lesendur og hylja eigin spor, þegar hún gerir ónákvæmt orðalag Ögmundar - eða ónákvæma endursögn fréttastofu RÚV, um "að erlendum aðilum" sé óheimilt að fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði að gagnrýnisefni í sérstakri "leiðréttingu" við frétt RÚV. Þar þyrlar hún upp miklu moldviðri með það að markmiði að gera Ögmund ómarktækan og nær samtímis að leiða athyglina frá kjarna málsins og þeirri ábyrgð sem hún ber á því að "erlendur aðili", fyrirtæki UTAN EES fær í mótsögn við lögin, leyfi nefndarinnar til að kaupa Hitaveitu Suðurnesja.
íslensku lögin eru alveg skýr í því að þau heimila ekki fyrirtækjum utan EES, eins og kanadíska fyrirtækinu Magma, að fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði. Þau hafa að geyma ákvæði sem að eiga sérstaklega að koma í veg fyrir að fyrirtæki utan EES noti bakdyrnar, með stofnun skúffufyrirtækja, til að komast inn á hinn innri markað ESB. Það voru þessar bakdyr sem meirihluti nefndarinnar um erlenda fjárfestingu undir formennsku Unnar, opnaði með svo hæpinni túlkun á lögunum að ólíklegt má teljast að meirhlutinn hefði treyst sér að komast að þeirri niðurstöðu ef hann hefði ekki talið sig njóta til þess pólitísk stuðnings. Eða hvaða hagsmunum var hann annars að þjóna?
Unnur veit því vel upp á sig skömmina í þessum efnum, en er engu að síður svo óskammfeilin að hún ákveður að taka ónákvæmt orðalag um "erlenda aðila" bókstaflega og leiðir síðan út frá því að Ögmundur fari með rangt mál og er alveg standi hissa á "rangfærslum" Ögmundar! Það er rétt að "erlendir aðilar" í merkingunni "erlendir aðilar innann EES" mega fjárfesta í íslenskum orkuiðnaði, en hitt er líka rétt að "erlendir aðilar" í merkingunni "erlendir aðilar utan EES" mega það ekki. Það átti Ögmundur við og það mátti Unni svo sem að vera ljóst.
Málið snýst því um það hvort skúffufyrirtæki Magma í Svíþjóð sé eingöngu stofnað í þeim tilgangi að reyna að fara á svig við reglur innri markaðar EES eða hvort það sé raunverulegt sænskt rekstrarfyrirtæki og að það hafi sem slíkt rétt til að fjárfestinga í íslenskum orkuiðnaði. Það vita það allir að "sænska fyrirtækið" er stofnað í þeim tilgangi einum að reyna að skapa hinu kanadíska Magma fótfestu innan EES. Rekstur þess er enginn utan þess að sjá um reksturinn á HS sem Magma í Kanada hafði ekki leyfi til að stunda. Hafi "erlendur aðili utan EES" ekki leyfi til fjárfestinga innan EES og sérstaklega er tekið fram að ekki megi fara í kringum það bann með stofnun skúffufyrirtækis innan EES, þá getur rekstur skúffufyrirtækisins fyrir hönd móðurfélagsins aldrei verið annað en ólöglegur. Að halda því fram að Magma í Svíþjóð sé "alvöru fyrirtæki" af því það reki Hitaveitu Suðurnesja er því auðvitað ekkert annað en óskammfeilinn útúrsnúningur.
Meirihluti nefndarinnar undir formennsku Unnar stimplaði skúffufyrirtækið hins vegar sem fullgildan aðila að EES og heimilaði því að kaupa HS. Það er hins vegar alveg ljóst að ef slík skemmri skírn til inngöngu í EES væri heimil, þá væri innri markaður ESB í raun opinn öllum heiminum. Slík er ekki raunin.
Annars rekur Ögmundur Jónasson málið með skýrum hætti á nýjasta bloggi sínu og svarar þar ásökunum Unnar.
Sjá:
http://www.ogmundur.is/annad/nr/5402/
Undrast ummæli Ögmundar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.6.2010 | 09:55
Vatnið í stjórnarskrána
Árið 2005 stóð BSRB að herferð gegn einkavæðingu vatns. Herferðin hafði gríðarleg áhrif á alla umræðu sem varð á Alþingi um setningu vatnalaga og áhrifa hennar gætir enn í dag. Ber þar að nefna sérstaklega yfirlýsinguna Vatn fyrir alla, sem er að finna hér á síðunni. Sem hluti af herferð BSRB stóðu samtökin ásamt fleirum að ráðstefnu um vatn haustið 2005. Ég birti því hér aftur, áhugasömum til fróðleiks, erindi sem ég flutti á ráðstefnunni, en þar er fjallað vítt og breytt um átökin um vatnið, hér heima og á alþjóðavísu.
"Skortur á hreinu vatni er eitt helsta vandamál mannskynsins í dag. Tölurnar eru þekktar.....
Í dag er áætlað að um rúmlega milljarður manna eða einn sjötti mannkyns, hafi takmarkaðan eða engan aðgang að hreinu drykkjarvatni og um tvo og hálfan milljarð skorti vatn til hreinlætis. Samkvæmt útreikningum sem gerðir voru í tengslum við Þúsaldar þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem ríkisstjórnir heimsins samþykktu árið 2000, er gert ráð fyrir að 1,6 milljarður manna muni bætast við þann fjölda til ársins 2015, jafnvel á svæðum sem eru rík af vatni eins og vesturlönd.
Skortur á vöru, að ekki sé talað um vöru sem er lífsnauðsynleg hverjum einasta manni í heiminum, þýðir að sú vara er verðmæt, ef við tölum eins og hagfræðingar. Samkvæmt þeim fræðum á að verða til markaður með slíka vöru og á markaði á framboð og eftirspurn að ráða verði. Þeir sem hafa efni á fá, hinir verða að sætta sig við að lifa án vörunnar.
Það þarf ekki lengri kúrs í klassískum hagfræðikenningum til að sjá að þær eiga ekki við um vatn. Ekki nema að menn séu tilbúnir að líta fram hjá þjáningu, lífi og dauða meðbræðra sinna. Vatn er ekki verslunarvara sem hver önnur.
Engu að síður var tíundi áratugur síðustu aldar, frá 1990 til aldamóta, áratugur einkavæðingar á vatni. Væntingarnar voru þær að skivirkni yrði meiri innan vatnsgeirans og að verð lækkaði, að fjárfestingar ykjust, sérstaklega í þriðja heiminum og að fleiri heimili yrðu tengd vatns og skólplögnum, sérstaklega hin fátæku. Sú varð ekki raunin.
Útþensla alþjóðlegra vatnsfyrirtækja í einkaeigu á þessum áratug var studd af Alþjóðabankanum og öðrum alþjóðastofnunum, sem hluti af þeirri stefnu að umbreyta þróunarlöndum og löndum sem áður höfðu tilheyrt Austur-blokkinni svokölluðu, í markaðsvædd þjóðfélög. Opinberar vatnsveitur hafa hins vegar verið einkavæddar um allan heim.
Rannsóknir sýna að reynslan af einkavæðingu vatns hefur yfirleitt verið slæm. Skortur hefur verið á samkeppni, bæði sökum náttúrulegrar einokunar og vegna þess að stórfyrirtæki á þessum markaði eru mjög fá. Fyrirtæki hafa ekki fjárfest eins mikið og við var búist í nývirkjum og viðhaldi og verð hefur farið hækkandi í takt við auknar arðsemiskröfur fyrirtækja. Þegar þau markmið sem skilgreind hafa verið í samningum hafa ekki náðst, þá hafa samningar verið endurskoðaðir, fremur en að staðið hafi verið við þá. Sérleyfi, sem oftast eru veitt til 20 30 ára í senn hafa nánast reynst óafturkræf þó svo fyrirtæki hafi ekki staðið sig, sökum lagalegra og stjórnsýslulegra hindrana. Eftirlitsaðila hefur skort vald og hæfni til að stýra hegðun fyrirtækjanna. Og andstaða meðal almennings gegn einkavæðingunni hefur farið vaxandi, sérstaklega í þróunarlöndunum.
Um þessa hegðun má nefna fjölmörg skjalfest dæmi: Bæjaryfirvöld og íbúar Grenoble í Frakklandi endurheimtu vatnsveitu sína árið 2000 eftir 11 ára baráttu og málaferli. (Haft er eftir baráttufólki þar að meginlærdóm af þeirri baráttu sé hversu mikilvægur aðgangur að upplýsingum er og að geta lagt sjálfstætt mat á framgöngu einkafyrirtækisins.)
Verðið á vatni í Manilla á Filipseyjum hefur hækkað um 600% í höndum einkafyrirtækja frá árinu 2001 og hafa þau uppskorið litlar vinsældir íbúa. Svo má lengi telja.
Alþjóðleg vatnsfyrirtæki hafa því orðið fyrir andstreymi á síðustu árum og hafa brugðist við með því að hætta starfseminni þar sem verst hefur gengið. Suez, sem er stærst þessara alþjóðlegu vatnsfyrirtækja tilkynnti í janúar 2003 að það myndi draga sig út úr einum þriðja allra fjárfestinga sinna í þróunarríkjunum, og Veolia og Thames Water hafa einnig dregið sig út úr samningum. Allir þessir þrír risar nota hins vegar öll meðul, pólitísk og lögfræðileg til að ná tapinu aftur og krefjast skaðabóta fyrir væntan ávinning sem samningar áttu að gefa í framtíðinni.
Viðbrögð fyrirtækjanna hafa ekki síst orðið þau að krefjast sífellt meiri trygginga fyrir arðvænlegum rekstri og gegn áföllum. Þau vilja fá þær tryggingar frá þeim opinberu aðilum sem þau semja við, ígildi ríkisábyrgða á lán, og hefur Alþjóðabankinn tekið þátt í þeirri vinnu. Þau líta í auknum mæli til ríkja þar sem aðstæður eru betri og þegnarnir ríkari og þægari.
Engu að síður töluðu háttsettir embættismenn Alþjóðabankans á ráðstefnunni World Water Forum, sem haldið var í Haag árið tvöþúsund, um einkavæðingu vatns að hún væri sögulega óhjákvæmileg og notuðu frasa eins og að það væri enginn annar valkostur. Alþjóðabankinn hefur þó nýlega viðurkennt að þeir hafi sennilega verið full glaðbeittir í að framfylgja þessari einkavæðingarstefnu sinni á vatni.
En Alþjóðabankinn, sem og aðrir þróunarbankar og styrkveitendur eru hins vegar tregir til að veita vatnsfyrirtækjum í opinberri eigu nokkurn stuðning, þrátt fyrir að opinber fyrirtæki beri ábyrgð á meira en 90% af vatnsveitum og skólplögnum í heiminum.
Þó svo að hér hafi verið rakið nokkuð hversu illa hagsmunir einkafyrirtækja og almennings virðast fara saman þegar kemur að vatni, þá þýðir það ekki að opinberar vatnsveitur, sem eru þrátt fyrir allt um 90% vatnsveitna í heiminum, hafi allsstaðar getað sinnt hlutverki sínu. Ef svo væri væru vandamálin tengd vatni ekki jafn alvarleg og útbreidd og raun ber vitni. Ekki má heldur gleyma að stór hluti vandans er að vatnsveitur skortir auðvitað með öllu víða í þróunarlöndum. Viða þar sem opinberar vatnsveitur sinna ekki hlutverki sínu sem skyldi eru ástæður fjölþættar: skortur er á lýðræðislegum stjórnarháttum, opinber þjónusta er afskipt og í fjársvelti og undir þetta er ýtt af alþjóðlegum fjármálastofnunum sem eru tilbúnar að leggja fram fé, sé farið að skilmálum þeirra um markaðslausnir á vandanum. Það eykur enn frekar á vanda hinna opinberu vatnsveitna. Og vandi vatnsveitnanna er vandi fólksins.
Því hefur það verið krafa PSI, Alþjóðasambands opinberra starfsmanna sem BSRB er aðili að, að leggja áherslu á hágæða almannaþjónustu sem lið í bættri velferð. Í þeirri alþjóðlegu herferð gegn fátækt sem nú stendur yfir í heiminum og kallast Global Call Against Poverty þar sem þjóðir heims eru hvattar til að ná settum þúsaldarmarkmiðum ríkja Sameinuðu þjóðanna, hefur þessi krafa um bætta almannaþjónustu, verið sett á oddinn.
En hvað kemur okkur á Íslandi þetta svo sem við? (og hvernig tengist þetta sameiginlegri yfirlýsingu þeirra samtaka sem að þessum fundi standa?)
Er hætta á að á tímum þar sem vatn verður sífellt dýrmætara og fyrir suma sífellt verðmætara, að erlend stórfyrirtæki hafi áhuga á að slá sér hér niður í landi þar sem pollur sprettur úr hverju spori ? eða að það sé áhugi innanlands á að gera vatn að markaðsvöru? Að hér fari framboð og eftirspurn, tekjur eða skortur á þeim að ráða verði á vatni og aðgengi að því?
Hreint logiskt hlýtur svarið að vera já. Hér er ríkur markaður, góður infrastruktur og öryggir kaupendur ef við lítum til vatnsveitnanna. Hugsanlega má krækja í eitt eða tvö góð vatnsból til framtíðareignar? Og skortur á vatni annars staðar gerir það gróðavænlegt að flytja það út í stórum stíl.
Þá er spurningin hvernig tökum við á því, hvaða gildi viljum við leggja áherslu á og hverju fáum við ráðið? Er þá eðlilegt að líta til þeirra laga sem hér gilda um vatn og hvert ferðinni er heitið með þau. Ég mun rétt aðeins tæpa á þeirri ræðu, því hér fáum við á eftir Davíð Egilson forstjóra Umhverfisstofnunar sem væntanlega mun gefa okkur mun fyllri mynd af þeim frumskógi öllum.
En kemur þá fyrst til sögunnar alþjóðlegur samningur nokkur sem mönnum sést oft yfir þegar rætt er um vatn. GATS General Agreement on Trade in Services eða Almennt samkomulag um viðskipti með þjónustu. Á heimasíðu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, má lesa að megintilgangurinn með GATS-samningnum sé að opna innanlandsmarkaði fyrir alþjóðlegum þjónustuviðskiptum, brjóta niður einokun ríkisins og slaka á eða afnema ýmsar reglugerðir sem stjórnvöld hafa sett en WTO lítur á sem íþyngjandi fyrir atvinnulífið eða sem viðskiptahindranir. Samningurinn er flókinn og hefur dómstóll WTO endanlegt úrskurðarvald.
Ég ætla að nefna örfá atriði um samninginn en ákvæði hans hafa hér bein áhrif og ekki síður verður að taka tillit til hans í þeim lagabreytingum og breytingum á rekstarformi sem hér hafa átt sér stað í tengslum við vatnið.
Samningurinn er víðtækur og tekur til allrar þjónustu í nútíð og framtíð og hann snertir allar stjórnvaldsaðgerðir allra stjórnvalda.
Þær skuldbindingar sem hvert ríki undirgengst við undirritun samningsins sem og þegar það fellir einstaka geira þjónustu undir hann, eru nánast óafturkræfar. Þetta þýðir að ákvarðanir einstakra ríkisstjórna sem eru áhugasamar um útvíkkun GATS-samningsins, festa í sessi um ókomna framtíð þau gildi sem í samningnum eru falin.
Í GATS-samningnum felst að m.a. að ríkjum er bannað með lögum að takmarka umsvif fyrirtækja og að mismuna í nokkru iknnlendum fyrirtækjum á kostnað erlendra hafi ekki verið gerðir fyrirvarar.
Ef að engir fyrirvarar eru gerðir t.d. á sviði umhverfisþjónustu, þá má túlka samninginn þannig að hið opinbera megi ekki lengur veita fé í opinbera þjónustu ef erlendur aðili vill starfa á sama sviði.
Samningurinn gerir einnig kröfu til að reglugerðir séu ekki meira iþyngjandi en nauðsynlegt er. Hér hafa menn t.d. áhyggjur af því að vilji ríki halda upp ströngum gæðakröfum í sambandi við vatnsveitur eða mengunarvarnir, að þá megi véfengja þær reglur og kæra til dómstóls Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Þeir fyrirvarar sem kunna að hafa verið settir, liggja sífellt undir þrýstingi um að verða felldir brott í næstu samningalotu. Út á það ganga yfirstandandi samningaviðræður þar sem verið er að skiptast á kröfum og tilboðum. Endanlegt markmið GATS-samningins er því skýrt; - að markaðsvæða þjóðfélagið út í hörgul og er þá opinber þjónusta tæplega undanskilin að mínu mati. Um það atriði er deilt í samningnum segir (í grein 3.1) að þjónusta framkvæmd af hinu opinbera sé undanskilin GATS, en síðar segir í sömu grein að sé þjónusta hins opinbera á viðskiptalegum grunni eða í samkeppni við einn eða fleiri aðila þá falli hún undir samninginn.
Utanríkisráðuneytið hefur svarað BSRB á þann veg að starfi fyrirtæki í eigu opinberra á samkeppnismarkaði þá eigi skuldbindingar GATS við. Engu að síður taldi ráðuneytið í endurskoðuðu tilboði sínu nú tryggara að árétta að skuldbindingaskráin eigi ekki við á sviði opinberrar þjónustu, sbr. gr. 3.1. En greinin er jafnloðin eftir sem áður og því var bætt við setningu, sem kannski má kalla Sjálfstæðisyfirlýsingu lýðveldisins Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofninni og hljómar svo í hrárri þýðingu: Að auki (..) áskilur Ísland sér rétt til að setja, viðhalda og útfæra að fullu innlend lög í því augnamiði að geta framfylgt stefnumálum stjórnvalda.( Furthermore, pursuant to Article VI (Domestic regulation) of the GATS, Iceland reserves the right to establish, maintain and fully exercise its national legislation in order to meet national policy objectives.)
Þessir fyrirvarar eru settir fram núna í yfirstandandi samningaviðræðum, að ég vil meina ekki síst vegna ábendinga BSRB, en eru ekki í gildi samkvæmt núgildandi samningi. Reyndar er alveg óvíst hversu mikil vörn er í þessu fólgin. Þetta sýnir að stjórnvöld eru farin að átta sig á hversu ráðandi þessi samningur er og í raun hættulegur hann er lýðræðinu.
Ég vil meina að allar breytingar í átt til markaðsvæðingar á opinberum rekstri auki hættuna á þeirri túlkun að sá rekstur muni falla undir áhrifasvið GATS-samningsins. Hér má taka sem dæmi ný lög um vatnsveitur. Þau lög ýta undir eðlisbreytingu á því hvernig vatnsveitur hafa starfað á Íslandi og færa þann rekstur í átt til markaðsgilda og í raun frá þeirri hugsun að vatn sé fyrir alla. Ég veit ekki hvort allir hafi gert sér grein fyrir að í stað þess að sveitarfélög höfðu skyldu til að starfrækja vatnveitur og höfðu til þess einkarétt skv. eldri lögum að þá mega þau nú framselja þann rétt ótímabundið í hendur fyrirtækis og selja allar eigur vatnsveitunnar í hendur þess. Ég vil eigna þrýstingi BSRB að það skilyrði var sett að slík fyrirtæki verði að vera að meirihluta í eigu opinberra aðila. BSRB vildi ganga lengra og fella orðin að meirihluta út. Hér var því greinilegur vilji til að hleypa einkarekstri að og við vitum að aðili í hlutafélagi þarf ekki endilega að ráða yfir meirihluta hlutafjár til að geta stýrt því sem hann vill. Þá er vert að vekja athygli á að vatnsveitur hafa heyrt undir félagsmálaráðuneyti, en iðnaðarráðuneytið hefur verið að setja sérlög um orkufyrirtæki og þar með fellt vatnsveitur undir sig.
Frumvarpið um vatnalögin gerir ráð fyrir að umráðaréttur landeiganda á vatni breytist í kláran eignarétt og frumvarp um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, þar með talið vatni, gerir ráð fyrir að eignarlandi fylgi eignarréttur á þeim auðlindum. Eigandi auðlindarinnar þarf ekki leyfi Orkustofnunar til rannsókna, en hafi hann rannsóknarleyfi fær hann forgangsrétt á nýtingarleyfi. Tímalengd nýtingarleyfis vatnsorku er allt að 60 ár en annarra auðlinda allt að 30 ár.
Þessar breytingar, sem og önnur lög er snerta vatn, virðast því ýta undir það sjónarmið að vatn sé einkaeign og að það sé markaðsvara. Því heyra mikilvægir hlutar þessa málflokks fremur undir Iðnaðarráðuneyti en Umhverfisráðuneyti eða Félagsmálaráðuneyti. Það virðist líka opna möguleika á að menn og fyrirtæki geti eignast jarðeignir og nýtt sér vatnið sem uppsprettu auðs.
BSRB hefur í umsögnum sínum um vatnsveitulögin, í erindi sínu til stjórnarskrárnefndar þar sem lagt var til að fest yrði í stjórnarskrá að litið verði á vatn sem mannréttindi og með því að eiga þátt í þessari ráðstefnu andæft þessu sjónarmiði og viljað efla samstöðu um þetta mikilvæga mál. Það er í ljósi þessarar þróunar og vegna þess að við viljum hafa áhrif á hvert stefnir, að þessi sameiginlega yfirlýsing fundarins er svo mikilvæg. Hún snýst um það hvaða sýn við höfum á vatn, hún snýst um það hvaða sýn við höfum á samfélagið. Viljum við að börnin okkar fæðist inn í samfélag þar sem frelsi ríkir svo lengi sem þau hafa efni á þvi eða viljum við að þeim séu tryggð ákveðin mannréttindi og frelsi samkvæmt því?
Það mun hafa tekið sex ár að semja vatnalögin sem tóku gildi 1923. Ég segi því, flýtum okkur hægt, vöndum til verka og fylgjum ábendingum yfirlýsingarinnar, Vatn fyrir alla!
Takk fyrir.