Enginn er eyland

Fyrsti maí er eins og hver annar dagur í verkalýðshreyfingunni – baráttudagur. Dagurinn er einnig tákn samstöðu verkalýðshreyfingarinnar jafnt innan lands sem landa á milli. Hann er tákn þess að verkalýðshreyfingin er á vaktinni.

Er verkalýðshreyfing hólpin?

Það er svo sannarlega þörfa að standa vaktina, því að ávinningar íslenskrar verkalýðshreyfingar, sem um leið eru ávinningur íslenskrar þjóðar, eru langt frá því að vera tryggðir um alla framtíð. Hér sé nauðsynlegt að líta til alþjóðlegrar þróunar – á tímum alþjóðavæðingar er ekki langt á milli Íslands og umheimsins.Ekki þarf að fara lengra en til Evrópu til að gera sér grein fyrir því hversu brothætt staðan er. Evrópusambandið lagði til 2004 umbyltingu á atvinnumarkaði með svokallaðri þjónustutilskipun, en með upprunalegri tillögunni var vegið að rótum velferðarsamfélagsins og að verkalýðshreyfingunni. Ef verkalýðshreyfingin ásamt fjölda félagasamtaka hefði ekki brugðist við af hörku hefði hægri flokkunum, sem nú eru í meirihluta í Evrópusambandinu, tekist að skapa glundroða á vinnumarkaði þar sem laun, kjör og réttindi verkafólks hefðu skrúfast niður á lægsta samnefnara sem hægt var að finna í álfunni. Hér lagði BSRB sitt litla lóð á vogarskálina með félögum sínum í Evrópu og það var einvörðungu fyrir einarða samstöðu verkalýðshreyfingarinnar allrar að árangur náðist.

Janusarhöfuð neytandans

En hvernig var þjónustutilskipunin í raun réttlætt? Hún var réttlætt með tilvísun í hagsmuni „neytandans“ – afleiðingin átti að vera lægra verð og meira úrval – fengið með aukinni samkeppni. En hvert er hitt andlit neytandans? Er það ekki launamaðurinn sem nú átti að etja í samkeppni við náunga sinn og uppskera lægri laun fyrir vikið?  Eru það ekki foreldrarnir sem vilja verja auknum tíma til að sinna uppeldi barnanna – en er sífellt stillt upp við vegg vegna aukinna krafna vinnuveitenda – og vegna tilbúinna og/eða raunverulegra þarfa til sem aðeins verður mætt með aukinni neyslu? Og þannig átti að herða enn á hringavitleysu „hagvaxtarins“  - sem aðeins er mældur í aukinni veltu, auknum umsvifum, fleiri krónum en oft, því miður, í færri gleðistundum.

Gildishlaðnar viðskiptahömlur

Þjónustutilskipunin er aðeins eitt dæmið um áherslurnar í atvinnustefnu Evrópusambandsins – sem aftur á sér hliðstæður í öðrum alþjóðlegum samningum eins og t.d. samningum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO. Lykilorðið er samkeppni – og mottóið er að þarfir fyrirtækjanna verði að koma á undan öðrum þörfum. Af því leiðir að mörg þau atriði sem almenningur telur að öðru jöfnu jákvæð eru litin hornauga í gegnum lituð gleraugu þröngra hagsmuna fyrirtækjanna. Kröfur um umhverfisvernd eru taldar samkeppnishamlandi, þátttaka starfsmanna í verkalýðsfélögum er  talin samkeppnishamlandi, kröfur um siðræna viðskiptahætti eru samkeppnishamlandi. Slík sjónarmið fá nafnið viðskiptahömlur og eru í besta falli talin til úreltra viðhorfa ef ekki beinlínis skaðleg. Kenningin um að öflug velferðarþjónusta studd réttlátum sköttum, sterk verkalýðsfélög og víðtæk réttindi almennings, séu andstæð hagsmunum fyrirtækja og skaði samkeppnisstöðu þeirra, er að sjálfsögðu röng. Um það vitna Norðurlöndin sem alþjóðlegar kannanir hafa ítrekað sýnt vera í allra fremstu röð hvað samkeppnishæfni varðar. Fordæmi Norðurlandanna er því mjög mikilvægt í alþjóðlegri verkalýðsbaráttu.

Innrás í landhelgi

En slík viðhorf eru að mörgu leyti eðlileg fyrirtækjum sem hafa það að grundvallarviðmiði um tilveru sína og velgengi að hámarka ágóða. Viljinn til að gera vel er kannski til staðar, en alltaf er stutt í röksemdafærsluna ; ef við förum ekki leiðina sem hefur í för með sér minnstu útgjöldin og mestan ágóðan, þá munu keppinautar okkar gera það – og þá höfum við orðið undir í samkeppninni. Í þessum ósjálfsráða gangi kapitalisks fyrirtækjarekstrar geti falist skapandi afl, en neikvæða hliðin er ávalt til staðar. Og þar eira fyrirtækin engu – ef þau komast upp með það. Hér þurfa fyrirtækin því á stuðningi og aðhaldi verkalýðshreyfingarinnar að halda, ekki er nóg að koma á umræðu um félagslega ábyrgð fyrirtækja – hér þarf virka eftirfylgni af hálfu verkalýðshreyfingarinnar.Hið kaldhæðna í þessu tali öllu um ágæti samkeppninnar er auðvitað að fyrirtækjum er meinilla við samkeppni, þeim líður best án hennar. Þau vilja sækja inn á svið almannaþjónustunnar – einkaframkvæmdir gefa arð en ríkið borgar, yfir samfélagslegar eignir vilja þau komast fyrir lítið og nú ber sífellt meira á að fyrirtækin ganga inn á svið stjórnsýslunnar. Þau vilja skipuleggja og reisa og eiga heilu bæjarfélögin, eiga og rukka fyrir aðgang að þjóðvegum landsins. Skóla og sjúkrahúsin vilja þau komast yfir og veita þeim aðgang sem geta borgað uppsett verð. Reyndar er íslensku útfærslunni á þessari innrás fyrirtækja í landhelgi  best lýst sem pilsfaldakapitalisma, ríkið á jú að halda þeim uppi. Og ofan á skólagjöld eða önnur þjónustugjöld sem þau áskilja sér rétt til að taka, vilja þau fá meira greitt en ríkið greiðir til sambærilegrar samfélagslegrar þjónustu. Dvalarheimilið að Sóltúni er dæmi um það. Einkavæðingin er því dýrari fyrir almenning, dýrari fyrir okkur í verkalýðsfélögunum.  

Spennitreyjunni kastað

Þessi þróun er alþjóðleg og er afsprengi þess að hugmyndafræði nýfrjálshyggju Thatchers, Reagans og sálufélaga hefur náð að skjóta rótum. Afleiðingin er aukin misskipting, efnahagsleg og félagsleg. Við þessu hefur verkalýðshreyfingin í Evrópu brugðist og standa nú verkalýðsfélög opinberra starfsmanna EPSU ásamt heildarsamtökum allra verkalýðsfélaga í Evrópu, ETUC, fyrir herferð sem miðar að því að sérstök löggjöf verði sett um almannaþjónustuna og að hún verði undanskilin þeim lögum og reglum sem sett hafa verið um fyrirtækjum á almennum markaði. Markmiðin með rekstri almannaþjónustu eru önnur en markmið fyrirtækja, annars vegar eru almannahagsmunir í bráð og lengd í fyrirrúmi, hins vegar að næsta ársfjórðungsyfirlit sýni sem mestan hagnað. Barátta EPSU nú gengur út á tvö meginatriði: Annars vegar að sett verði lög (tilskipun) um almannaþjónustuna sem losa hana úr spennitreyju laga sem upphaflega eru sett til þess að koma böndum á  fyrirtæki, svo eðlislæg árátta til að hámarka gróða sinn valdi ekki þjóðfélagslegum skaða. Hins vegar að þá gengur barátta EPSU út á að auka gæði almannaþjónustunnar.  Til þess að svo geti orðið þarf að auka sjálfstæði almannaþjónstunnar, ýta undir nýsköpun og frjóar hugmyndir og aukið samstarf milli stofnana og fyrirtækja hins opinbera. Tengslin við almenning þarf og bæta og vissulega getur bæði almannaþjónustan og einkarekstur haft gott af samstarfi. Það samstarf á hins vegar ekki að gerast eingöngu á forsendum einkageirans. Um þessi mál ályktaði síðasta þing BSRB. Markmiðin eru að gera almannaþjónustuna að eftirsóttum vinnustað sem er fyrirmynd annarra. Markmiðin eru að bæta samfélagsþjónustuna og bæta hag almennings og þar með fyrirtækja. Um kraftinn og nýsköpunina sem getur búið í opinberri þjónustu þarf ekki að hafa mörg orð; nægir að leiða hugann að uppbyggingu helstu stofnana íslensks þjóðfélags frá lýðveldissstofnun.

Baráttunni er því langt frá því lokið. Hún heldur áfram að snúast um krónur og aura, sumarhús og réttindi. En snýst einnig um framtíð lýðræðisins og um réttlæti og jöfnuð. Hún snýst um mannréttindi. Hún snýst um að við viljum vera íbúar í samfélagi en ekki skilgreind sem neytendur sem markaði. Þessi barátta er í eðli sínu alþjóðleg. Á tímum alþjóðavæðingar er enginn eyland.

Þessi grein birtist í SFR-tíðindum nú 1. mai.

-phh  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hversu mikið ætli sé um að verkafólk sé í stöðu verktaka frekar en launþega ?

"Ástæða þess að senda þurfti manninn til Póllands segir Þorsteinn vera þá að starfsmenn séu hér á eigin tryggingum og rannsókn á meinum mannsins hérlendis hefði verið honum mjög dýr."

Pétur Þorleifsson , 1.5.2007 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband