Össur slæst í hóp VG

Sem vinstri maður er ég að áhugasamur um nýja stjórn að loknum kosningum. Ég vil fá vinstri stjórn og held að slík stjórn verði heilsteyptust sem tveggja flokka stjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Skoðanakannanir sýna að enn vantar vinstri flokkana stuðning rúmlega fimm prósenta kjósanda svo það megi takast. Mín skoðun er sú, að þeir kjósendur flytji sig aðeins um set ef þessir tveir flokkar sýni í verki viljann til samstarfs þá 12 daga sem eru fram að kosningum. Ég vil sjá að þessir tveir flokkar leggi saman stefnumið sín í öllum helstu málaflokkum og dragi fram hvað þeir eiga sameiginlegt. Þetta vil ég sjá gert fyrir opnum tjöldum og stutt af forystumönnum beggja flokka. Þannig verða lagðar meginlínur nýrrar ríkisstjórnar. Með þeim hætti einum ná þeir að skapa trúverðugan valkost um breytta stjórnarhætti sem höfðar til fleiri en þeirra 44% sem í dag vilja helst kjósa þessa flokka.

Ég veit að innan Vinstri grænna nýtur þessi hugmynd fylgis. Á göngu minni í dag niður Laugarveginn, þar sem ég slóst í för með þúsundum stuðningsmanna réttlátara þjóðfélags, hitti ég nokkra kunningja mína sem jafnframt eru valinkunnir forystumenn Samfylkingarinnar. Ekki var að heyra að nokkuð vantaði á stuðning þeirra við hugmyndina um slíkt aukið samstarf við VG fram að kosningum – og eftir. En þeir eru að sönnu ekki einráðir í Samfylkingunni.

Því gladdi það mig mjög, þar sem ég sat í boði VG á NASA og hlustaði á feiknagóða ræðu Einars Más Guðmundssonar, að sjá að félagi Össur Skarphéðinsson hafði slegist í hóp fundargesta. Honum var að sjálfsögðu tekið fagnandi. Össur afþakkaði að vísu með brosi á vör að taka þátt í hópsöng frambjóðenda, en fyrir mér var hann með þessu að gefa ákveðin skilaboð. Ég vona að þeir félagar okkar á vinstri vængnum sem styðja  Samfylkinguna, hlusti á félaga Össur að þessu sinni.

 „Sameinuð stöndum við – að öðrum kosti blasir við áframhaldandi ríkisstjórnarseta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er mér reyndar til efs að það náist í gegnum báða þessa flokka að "samtengjast" fyrir kosningar og að þeir þá gangi "bundnir" til kosninga. En það gerðu þeir þó ef Palli og ég fengjum að ráða! Sendu, Palli, Ögmund á SF-fund til að endurgjalda heimsókn Össurar...

Lilló (IP-tala skráð) 2.5.2007 kl. 13:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband