Hraðar hendur

Það gengur hratt fyrir sig samrunferlið hjá samkeppnisaðilunum hér á landi – og mun hraðar en í Evrópu!  

Hafa ber í huga hugmyndafræðina sem Sjálfstæðismenn (og Framsóknarmenn) hafa brúkað um að þessum fyrirtækjum sé nauðsyn á að hafa „grunn“ heima fyrir til að geta sótt út í heim. Þ.e. að þau hafi hér aðgang að orkulindum og væntanlega vatnveitum, hitaveitum og eftir atvikum raforku, til þess að geta „fast land undir fótum“ út í hinum stóra hála heimi samkeppninnar.

Kenningin er að þessi grunnur sé þeim nauðsynlegur til að þróa rannsóknir og tækni... væntanlega eigum við  sem sagt að vera nokkurs konar tilraunadýr fyrir útrásina og sparibaukur sem þeir geta gengið í hér heima til að fjármagna hana.

En hver er staðan núna? Unnið er að því að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag. Borgarfyrirtækið er búið að slá öllum útrásarverkefnum sínum saman undir einn hatt í hlutafélaginu Reykjavík Energy Invest, þar á meðal hlut þess í Enex hf, sem það á með Geysi Green Energy ef mig misminnir ekki. Og nú renna saman hlutir okkar Reykvíkinga í OR via REI og gulldrengjanna í Goldman Sachs og FL-group sem og Glitnis.

Þannig er búið að hræra vendilega í einn graut saman hagsmunum sameignarfélagsins í eigu okkar og einkaframtaksins. Og líklegt er að um leið og meirihlutinn í borginni er búinn að samþykkja hlutafélagavæðingu OR þá mun samruninn halda áfram og áður en nokkur maður veit erum við farinn að borga rafmagns, hita og vatnsreikninga til Hannesar, Ólafs Jóhanns, Bjarna Ármannssonar og félaga. Og það mun gerast áður en að félagi Össur verður búinn að setja óskapnaðnum nokkrar hömlur, áður en nokkur umræða hefur í raun farið fram um hver eigi að eiga náttúruauðlindirnar sem nú eru t.d. í höndum OR og okkar Reykvíkinga.

Sé Samfylkingunni því alvara með að vernda náttúruauðlindirnar og halda þeim í þjóðareign og setja á auðlindagjald, þá þarf greinilega að grípa í taumana ekki seinna en strax. Annars verður farið með þá gömlu vísu að þessir aðilar hafi verið orðnir eigendur að náttúruauðlindum áður en lög kváðu á um annað og ekki hægt að breyta því nema að greiða þeim skaðabætur fyrir!

Skaðabætur fyrir að þeim hafi tekist að sigla fram fyrir lýðræðislega ákvarðanatöku alþingis með liðsinni Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í borgarstjórn. Mun það verða raunin? Varla fór Samfylkingin í ríkisstjórn til að láta einkaframtakið hirða orkuveiturnar og náttúruauðlindirnar?


mbl.is Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Invest að sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Hefur Mogginn tekið áður svona eindregna afstöðu ?

Einhvers staðar heyrði ég að 91 eyris veiðigjald af hverju þorskkílói, sem útgerðin borgaði, hafi verið afnumið.  Ætli auðlindagjald af orku komi til með að verða nokkuð að ráði ?

Pétur Þorleifsson , 4.10.2007 kl. 11:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband