4.10.2007 | 11:38
Setjum hlutina í samhengi
Hvað má gera fyrir þá 20 milljarða króna sem Orkuveita Reykjavíkur ætlar að leggja sem kjölfestufjárfestir í dótturfyrirtæki sitt, Reykjavík Energy Invest, úr sameiginlegum sjóðum okkar Reykvíkinga? Þeirri spurningu velti ég fyrir mér hér á blogginu í byrjun september og var þá hugsað til launakjara umönnunarstétta og lífeyris eldri borgara. Skoðum þetta reikningsdæmi:
Hjá Leikskólum Reykjavíkur starfa 611. Þar af eru leikskólakennarar 518 og 70% þeirra eru í 70-100% starfi. Leikskólastjórnendur eru 93 og allir í fullu starfi. Til einföldunar skulum við gefa okkur að þetta séu 500 manns sem fengju hækkun í krónutölu af 20 milljarða framlagi. Gefum okkur að launatengd gjöld séu 40% ofan á greidd laun.
Þá má hækka tekjur allra um 2.380.952 krónur á mánuði í heilt ár.
Eða það mætti hækka tekjur allra þessara leikskólakennara um 238.095 kr. á mánuði næstu 10 árin!Ætla má að þó ekki færi nema hluti af þessum gríðarlegu fjármunum til leikskólakennara sæi strax fyrir endann á mönnunarvandamálum, betur menntað fólk leitaði að vinnu í leikskólunum, ummönnun barnanna okkar yrði jafnvel enn betri, börnin kæmust á leikskóla og foreldrar í vinnuna. Er ekki einhver reiknimeistari tilbúinn að reikna arðinn af þeirri fjárfestingu?
Lítum þá á ellilífeyrinn. Áætlað hefur verið að það kosti 500 m.kr. á ári að hækka grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega um 1000 kr. á mánuði. Lauslega áætlað er fjöldi ellilífeyrisþega um 27.500 manns, svo kostnaður vegna hækkunar til þeirra er 330.m.kr.
Þannig mætti hækka grunnlífeyri ellilífeyrisþega úr 24.831 krónu, sem hann er nú og upp í rúmlega 85 þúsund krónur á mánuði og er þá ekki tekið tillit til tekjuskatta af þeirri hækkun upphæðar. Þannig fengju allir ellilífeyrisþegar yfir 60 þúsund króna hækkun lífeyris á mánuði fyrir skatta. Beinir skattar á þessa tekjuaukningu eru 21.700 kr, svo hækkun lífeyris á mánuði eftir skatta er 37.867 kr.
Ef tekið er tillitit til skatttekna ríkisins af þessari aðgerð má sjá að hækka má ellilífeyri um 97 þúsund krónur á mánuði fyrir þessa 20 milljarða. Þannig yrði ellilífeyrir ekki 24.831 kr. heldur tæpar 122.000 krónur á mánuði. Hækkun á ráðstöfunartekjum ellilífeyrisþega yrði yfir 60.000 kr á mánuði.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta er óhugnanlegur samanburður - en setjum sem svo, að OR haldi sig í orkubissness, ekki í rækjueldi, landvinningum eða svoleiðis, þá mætti byrja á því að lækka rafmagnið til einstaklinga og jafnvel reykvískra fyrirtækja. Það væri kjarabót fyrir almenning og stuðningur við atvinnulífið í höfuðborginni - spítalana, skólana, leikskólana.
Það er ekkert að því að eitthvað sé ódýrt hér á landi!
Það er ekki sjálfgefið að þeim sem borga rafmagnsreikninga hugnist að í gegnum þá séu þeir að borga fyrir eitthvað allt annað, s.s. ellilífeyri. Öðru máli gegndi ef OR lækkaði rekstrarkostnað, til dæmis leikskólanna, með lækkuðu rafmagni.
Mér er fyrirmunað að skilja af hverju fyrirtæki í eigu borgarinnar stendur í þessu. Hélt að munurinn á einkafyrirtækjum og opinberum fyrirtækjum fælust meðal annars í því að einkafyrirtæki gera það sem þeim sýnist en opinber fyrirtæki það sem til er af þeim er ætlast.
Kolgrima, 4.10.2007 kl. 13:51
Svo finnst mér að fyrst að stóriðjan fær ódýrt rafmagn, sé það blátt áfram eðlilegt að gróðurhúsaræktin fái það líka! Það gæti lækkað verðið á íslensku grænmeti (og rósum!) eða allavega bætt kjör gróðurhúsabænda. Þeir eru ekki ofsælir af sínum kjörum.
Kolgrima, 4.10.2007 kl. 14:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.