Ákvörðun ríkisstjórnar að einkavæða HS

Var það ákvörðun ríkisstjórnar eða athugasemdir Samkeppniseftirlits sem ollu því að Hitaveita Suðurnesja var einkavædd? Ég hef traustar heimildir fyrir því að það hafi verið einkavæðingarnefnd sem boðaði til eins fundar með Samkeppniseftirlitinu, sá fundur hafi verið óformlegur og að engin bréfaskifti hafi farið fram af hans sökum. Engar kröfur eða ákveðnar ábendingar komu fram á þeim fundi af hálfu Samkeppniseftirlitsins, sem hlutu að stýra ákvörðun einkavæðingarnefndar.

Engar aðrar en þær sem mátti gefa sér fyrirfram, þ.e. að Samkeppnisstofnun mun hafa sagt að ef að sala á hlut HS myndi leiða til óeðlilegra eignatengsla að þá myndi stofnunin að sjálfsögðu taka slíkt til skoðunar. Það er almennt hlutverk stofnunarinnar. Sú söguskýring er því röng, að það hafi ekki verið einbeitur vilji ríkisstjórnarinnar að einkavæða HS heldur hafi „fagleg“ eða „samkeppnis“- sjónarmið ráðið för - að fengnu mati Samkeppniseftirlitsins.

Það skiptir máli að hlutum sé haldið rétt til haga. Það er ljóst að með því að skilyrða sölu á 15% hlut sínum í Hitaveitu Suðurnesja, þannig að einvörðungu einkaaðilar fengu að kaupa, braut ríkisstjórnin blað í sögunni. Einkaðilum, innlendum sem erlendum, var hleypt inn í grunnþjónustuna og inn í náttúruauðlindir þjóðarinnar. Hér er um grundvallarmál að ræða og viðbrögð þjóðarinnar voru hörð. Þetta er ekki það sem fólkið vill, þetta er ekki það sem Össur vill, þetta er ekki það sem Morgunblaðið vill, þetta er ekki það sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokkins vilja. Almannaþjónustan á að vera í höndum hins opinbera.

Því er nú reynt að breiða yfir mistök ríkisstjórnarinnar.  Illugi Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í einkavæðingarnefnd heldur því fram á Alþingi að skilyrðin á sölunni á hlut ríkisins í HS hafi verið tilkomin vegna samkeppnissjónarmiða, þ.e. með hliðsjón af eignarhlutum opinberu fyrirtækjanna. Þess vegna dúkkar sama skýring upp í annars ágætri samantekt Pétur Blöndal í Mbl þar sem stendur:  „Það var ekki fyrst og fremst vegna einkavæðingarsjónarmiða, eins og haldið hefur verið fram, enda var búið að breyta Hitaveitunni í hlutafélag og sameigendurnir, sveitarfélögin, höfðu forkaupsrétt. Ástæðan var hinsvegar sú að stjórnvöld höfðu ráðfært sig við Samkeppniseftirlitið og það lagst gegn því af samkeppnisástæðum að stóru orkufyrirtækin, Landsvirkjun og OR, tækju þátt.“

Þessi söguskýring er ekki rétt. Fundurinn með Samkeppniseftirlitinu var vart nema til málamynda og virðist hafa átt að gegna því hlutverki sem hér er sýnt fram á að hann gerði, - að vera nokkurs konar skálkaskjól fyrir umdeildri ákvörðun ríkisstjórnarinnar - ef á þyrfti að halda. Ákvörðunar sem ekki er enn séð fyrir endan á. Samkeppniseftirlitið sendi ekki frá sér neitt álit um söluna. Það var ákvörðun einkavæðingarnefndar (les ríkisstjórnarinnar) sem réði.

 

 

Var Samkeppniseftirlitið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni?

Er það Samkeppniseftirlitinu að kenna að Hitaveita Suðurnesja er nú einkavædd að hluta og einkafyrirtæki komin með eignarhlut í náttúruauðlindunum? Er það misskilningur að ríkisstjórnin hafi viljað einkavæða HS? Í langri fréttaskýringu Péturs Blöndal í Mbl í gær er þessu haldið fram; „stjórnvöld höfðu ráðfært sig við Samkeppniseftirlitið og það lagst gegn því af samkeppnisástæðum að stóru orkufyrirtækin, Landsvirkjun og OR, tækju þátt“  - sem hugsanlegur kaupendur að hlut ríkisins í HS. Því hafi einkavæðingarnefnd sett þau skilyrði að aðeins mætti selja til einkaaðila og þar með var einkavæðing HS tryggð.

 Segir það hins vegar ekki sína sögu um tilgang ríkisstjórnarinnar að hún lét einkavæðingarnefnd sjá um söluna?? Á hinn bóginn virðist líka geta verið að Samkeppniseftirlitið hafi viljað gera sig gildandi og því gert athugasemdir við hugsanleg „tengsl á milli keppinauta á orkumarkaði“ sem gætu myndast.  Og að einkavæðingarnefnd hafi ekki þurft frekari hvatningar við og notað athugasemdina sem ástæðu til að einkavæða HS og selja náttúruauðlindirnar á markað?

Er það ekki nákvæmlega þarna sem Samkeppniseftirlitinu hefur yfirsést? Megnið af starfsemi OR og HS er nefnilega ekki á samkeppnismarkaði. Hitaveitan er háð einkarétti og er ekki á markaði. Sama gildir um vatnsveituna. Sama gildir um dreifingu á rafmagni. Það er aðeins hvað varðar þátt þessara fyrirtækja á sviði framleiðslu og sölu á rafmagni, sem hægt er að tala um samkeppnismarkað. Sem er hins vegar ákaflega lítið virkur og gildir sama um það á Íslandi eða í Evrópu.

Var því Samkeppniseftirlitið ekki í raun að skilgreina alla almannaþjónustu þessara fyrirtækja sem „samkeppnismarkað“, þar sem það sundurgreindi ekki með nákvæmari hætti athugasemdir sínar varðandi söluna á HS? Hefði það ekki þurft að vanda sig meira, þar sem við blasti að ef að opinber fyrirtæki máttu ekki kaupa hlut í HS að þá yrði fyrirtækið selt til einkaaðila? Og þar með hitaveitan, vatnsveitan og dreifing rafmagns! Eða lét Samkeppniseftirlitið sér það kannski bara vel líka að almannaþjónustan yrði einkavædd? Blasti ekki við stofnuninni að samkeppnishlutinn snertir aðeins einn af þremur meginrekstrarþáttum orkufyrirtækjanna á meðan að afleiðingar athugasemdarinnar varðar þau í heild sinni? Er Samkeppniseftirlitið kannski á þeirri skoðun að allt skuli samkeppni háð? Það er að minnsta kosti ljóst að við það eykst áhrifavald stofnunarinnar.

Eða var það kannski ríkisstjórnin/einkavæðingarnefnd sem lét sér duga léttvæga og lítið undirbúna athugasemd Samkeppnisstofnunar sem réttlætingu á því verki sem hún alltaf ætlaði sér – að einkavæða almannaþjónustuna?


mbl.is „Samkeppniseftirlitið hefur ekki sýnt af sér seinagang"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsíðufrétt eða fréttatilkynning?

 "Hvergi fleiri konur. Þriðjungur starfsmanna álvers Alcoa Fjarðaáls eru konur. Það er met hjá Alcoa sem á 28 álver í fimm heimsálfum og jafnvel heimsmet líka.... o.s.frv."

Fyrir mér er þessi "forsíðufrétt" nett gengisfelling á "24 stundum" sem óháðu fréttablaði með metnað. Ef að blaðið er hins vegar auglýsingablað og selur auglýsingar í formi frétta - eins og sífellt verður algengara - þá á blaðið að sjálfsögðu að taka það fram og ekki þykast vera sjálfstæður fréttamiðill.

Tengslin eru of augljós til að ritstjóri 24 stunda hafi ekki tekið eftir þeim. Alcoa er búið að ausa milljónatugum í að byggja upp ímynd eða öllu heldur glansmynd af sjálfu sér - þeir eru "náttúruelskendur" sem leggja til fé í þjóðgarða, þeir eru fjölskylduvænt fyrirtæki sem leggur sérstaka alúð og virðingu við það kvenfólk sem það hvetur til að starfa við fyrirtækið. Allt þetta fauk út um gluggann á tveimur dögum í síðustu viku þegar fyrirtækið beitti fáheyrðum brottrekstraraðferðum gagnvart tveimur konum.

Og nú á að reyna að bæta skaðann með nýrri ímyndarherferð. Sem er út af fyrir sig skiljanlegt að fyrirtækið geri. Hins vegar er óskiljanlegt að fréttablað taki upp "frétt" sem þessa á forsíðu í ljósi atburða síðustu viku. Fréttagildið er augljóslega lítið - fjöldi kvenna hjá fyrirtækinu "gæti verið heimsmet"... En svo kemur að fyrirtækið hafi aðeins rekið 5 starfsmenn af fimmhundruð, hversu margir þeirra eru af Austurlandi, hversu margir konur, etc. Þessi texti er skiljanlegur sem fréttatilkynning frá Alcoa - ekki sem forsíðufrétt í fréttablaði sem vill láta taka sig alvarlega.

Ég er hræddur um að Erna Indriðadóttir, upplýsingafulltrúi Alcoa, hafi gert vinkonu sinni og fyrrum samstarfskonu sinni af RÚV, þeim annars ágæta blaðamanni Björgu Evu Erlendsdóttur, bjarnargreiða, þegar hún bað hana að skrifa þessa frétt. Ef svo var. Ef að þær hafa ekki rætt saman við gerð þessarar fréttar bið ég Ernu að sjálfsögðu afsökunar fyrirfram. Spurningin er þá hvað það var sem fékk Björgu Evu til að skrifa fréttina.

En kannski hefur Alcoa séð fram á að þurfa að eyða enn fleiri milljónum í glansauglýsingar í kjölfar atburða síðustu viku en ætlað var og kannski eygja ritstjórar 24 stunda og eigendur þess möguleika á að fá bita af þeirri köku. Þá getur svona fréttaflutningur ekki skemmt fyrir.

Svona neðanmáls að segja, þá varpa uppsagnir kvennana ljósi á umræðu sem hefur verið í gangi varðandi rétt verkafólks. Alcoa heldur því fram að þeir hafi ekki brotið lög þegar konunum var án skriflegrar viðvörunar og án fyrirvara, nánast varpað á dyr. Önnur kvennanna fékk ekki einu að ræða við trúnaðarmann. Fulltrúi Afls segir með réttu að það sé óþolandi að fyrirtæki þurfi ekki að útskýra uppsagnir og hægt sé að segja fólki upp án skýringa.

Í vikunni voru forstöðumenn ríkisstofnana svo bornir fyrir því, í gegnum niðurstöðu könnunar, að þetta væri kerfið sem að þeir vilji koma á hjá opinberum starfsmönnum. Og SA og meira að segja núverandi forsætisráðherra hafa gert atlögur að réttindakerfi opinberra starfsmanna - þ.e. að það verði að veita starfsfólki viðvörun og það eigi rétt á að tjá sig, áður en því er varpað á dyr af yfirmanni sínum.

Ég held að það sé réttlætismál að samræma réttindi launamanna á almenna og opinbera markaðnum hvað þetta varðar - og að sjálfsögðu á að gera það þannig að launafólk á almennum markaði njóti sömu lágmarksréttinda og opinberir starfsmenn. Það er ekki einkamál yfirmanna hvort, hvernig og hvern þeir reka þennan daginn eða hinn.

 


mbl.is Hvergi fleiri konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BSRB vill að samningi REI og GGE verði rift

Ályktun stjórnar BSRB er fagnaðarefni þar sem þar er hnikkt á mörgum helstu atriðinum sem upp hafa komið í tenglsum við OR-málið og valdið hafa áhyggjum og hneykslun meðal almennings. Því er hún birt hér:

Ályktun stjórnar BSRB vegna málefna Orkuveitu Reykjavíkur, REI/GGE og Hitaveitu Suðurnesja

Stjórn BSRB vill að gefnu tilefni minna á mikilvægi þess að fylgt sé góðum stjórnsýsluháttum hjá opinberum fyrirtækjum og stofnunum þar sem gegnsæi, jafnræði og góð upplýsingagjöf er höfð í heiðri. Það er eðlileg lýðræðisleg krafa að allir kjörnir fulltrúar séu jafnan vel upplýstir um ráðagerðir sem eiga að leiða til gagngerra breytinga á stöðu og starfsemi opinberra stofnana og fyrirtækja. Óeðlilegt er með öllu að einstaka embættismenn og stjórnmálamenn fari á svig við gildandi stjórnsýslureglur og lýðræðisleg vinnubrögð og stilli þannig öðrum upp frammi fyrir orðnum hlut eins og sakir eru uppi um nú varðandi Orkuveitu Reykjavíkur.

Þær meiriháttar breytingar sem tengjast málefnum hennar hefðu að sjálfsögðu átt að fá opna og ítarlega umfjöllun, ekki aðeins innan stjórnar OR heldur og innan borgarstjórnar Reykjavíkur og á vettvangi annarra sveitarfélaga sem hlut eiga að máli. Án þess verða ákvarðanirnar hvorki taldar réttmætar né löglegar. Þá á almenningur skýlausan rétt og kröfu til lýðræðislegra og opinna vinnubragða af hendi kjörinna fulltrúa og embættismanna sem treyst hefur verið til þess að halda utan um samfélagslegar eignir borgaranna og gæta hagsmuna þeirra.

Stjórn BSRB lýsir andstöðu við einkavæðingu almannaþjónustu sem hér er í bígerð, hvort sem er með óbeinum hætti innan OR með gerð einkaleyfissamnings til 20 ára til handa Reykjavik Energy Invest/Geysir Green Energy (REI/GGE) eða með sölu til einkaaðila á hlut ríkis og sveitarfélaga í veitufyrirtækjum sem sinnt hafa grundvallarþjónustu á sviði rafmagns, vatnsveitu og hitaveitu. Stjórn BSRB lýsir ennfremur fullri andstöðu við það sem nú blasir við að gerist - að sala á hlutabréfum í hlutafélagavæddum opinberum orkufyrirtækjum færi náttúruauðlindir í hendur einkafyrirtækja. Minnir BSRB á að sveitarfélögum var veittur einkaréttur til vatnsveitna, hitaveitna og rafveitna til að sinna grundvallarhagsmunum samfélagsins og hafa í því hlutverki fengið umráð yfir náttúruauðlindum.

Krefst stjórn BSRB þess að gerðar verði breytingar á lögum til að koma í veg fyrir slíka einkavæðingu almannaþjónustu og afhendingu sameiginlegra náttúruauðlinda til einkaaðila. Þá krefst stjórn BSRB þess að hætt verði við áform um hlutafélagavæðingu OR, sem býður þessari hættu heim. Ennfremur skorar stjórn BSRB á borgarstjórn og stjórn OR að samningar um sameiningu REI og GGE verði ógiltir sem allra fyrst enda ákvarðanaferlið allt sem til þeirra leiddi í andstöðu við góða stjórnsýsluhætti og reglur. Aðgerðaleysi má ekki verða til að festa í sessi umdeildar ráðstafanir á eignum OR og afdrifaríkar ákvarðanir um rekstrarform sem snerta bæði OR og Hitaveitu Suðurnesja.

Þá varar stjórn BSRB við að sú framvinda mála, sem orðið hefur innan OR og þær hræringar sem af henni hafa leitt á sviði stjórnmála, verði til þess að skyndiákvörðun verði tekin gegn útrásarmöguleikum dótturfyrirtækja í eigu OR. Bendir stjórn BSRB á að Sameinuðu þjóðirnar hvetja nú til samstarfs opinberra veitufyrirtækja, aðallega á sviði vatnsveitna, til að ná megi settum þúsaldarmarkmiðum SÞ sem flest ríki heims og Ísland þar á meðal hafa skuldbundið sig til að vinna að.  Reynslan hefur sýnt að útrás einkafyrirtækja inn á svið samfélagsþjónustunnar hefur almennt haft neikvæðar afleiðingar í för með sér og þ.á m. verið mjög áberandi þegar neysluvatn og veitustarfsemi er annars vegar.

Stjórn BSRB hvetur því til að opnir og gegnsæir stjórnunarhættir verði efldir innan OR, sem og annarra opinberra fyrirtækja, að settum reglum verði fylgt, að fulltrúar starfsmanna fái setu í stjórnum og að efnt verði til almennrar umræðu um eðli og tilgang útrásar íslenskra orkufyrirtækja.  Allt yrðu þetta jákvæð skref í átt til enn betri samfélagslega rekinnar almannaþjónustu.


Aðgengi og neysla

Það hefur ekki farið fram hjá alþjóð að aftur er komið á kreik árlegt frumvarp um sölu áfengis í almennum matvöruverslunum, ættað frá ungmennadeild Sjálfstæðisflokksins þar sem núverandi heilbrigðismálaráðherra Guðlaugur Þór hefur í áravís verið fyrsti flutningsmaður. Eitthvað þótti það lítt við hæfi að heilbrigðisráðherra gengi með þessum hætti í berhögg við stefnu Lýðheilsustofnunar og var því Sigurður Kári fenginn til að halda glasinu á lofti.

Guðlaugur Þór hefur engu að síður tekið persónuleg áhugamál fram yfir skyldur sínar sem ráðherra og lýst stuðningi við frumvarpið og þar með sett undirmenn sína, eins og Þórólf Þórlindsson, forstjóra Lýðheilsstofnunar og undirmann ráðherra í klemmu. Það mátti glöggt sjá í Kastljósþætti Sjónvarpsins um daginn. Þar sagðist Þórólfur persónulega vera á móti frumvarpinu en þorði sem (nýráðinn) forstjóri Lýðheilsustofnunar greinilega ekki að ganga gegn því (og yfirlýstum vilja heilbrigðisráðherra) og lét þar af leiðandi stefnu stofnunarinnar liggja óbætta hjá garði.

Fyrir það hefur hann verið réttilega gagnrýndur og hvort sem það er fyrir tilverknað Þórólfs eða að öðrum orsökum, mætti fulltrúi Lýðheilsustofnunar í morgunútvarpið í morgun. Þar rakti Rafn M. Jónsson verkefnisstjóri áfengis- og vímuvarna hjá Lýðheilsustofnun stefnu stofnunarinnar í málinu og rökin fyrir henni. Lýðheilsustofnun er alfarið á móti sölu áfengis í matvörubúðum og taldi Rafn upp margar neikvæðar afleiðingar af auknu aðgengi að áfengi.

Þar kom fram m.a. að aukið aðgengi og lægra verð leiðir fyrst og fremst til aukinnar neyslu meðal ungmenna og þeirra sem höllum fæti standa. Um 200 þúsund manns deyja árlega innan Evrópusambandins vegna misnotkunar áfengis. Í ljósi þessa fara hægindarök eins og að það sé „sjálfsagt og geta tekið rauðvínsflösku með um leið og maður kaupir ostinn“ að hljóma ansi sjálfhverf og kaldhæðin.

Engu að síður brást spyrjandi Rafns ekki og spurði hinnar klassísku spurningar þeirra sem vilja kalla stefnumótun yfirvalda í heilbrigðismálum forræðishyggju: „Á ekki að treysta fullorðnu fólki að taka ábyrgð á eigin lífi?“ Svar Rafns og viðtalið í heild má heyra hér (http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4304628 ) en við það vil ég bæta einni lítilli hugleiðingu frá eigin brjósti.

Sjónvarpið hefur að undaförnu sýnt áhugaverða þætti frá BBC um mataræði fólks og fjallaði þar m.a. um tengsl neyslu og skammtastærðar. Sýnt var hvernig ungir krakkar gengu södd og ánægð frá matarborði eftir að hafa fengið hæfilegan skammt eins og ráðlagt var af sérfræðingi. Tveimur vikum síðar var sama barnahópi gefinn tvöfaldur skammtur á diskinn og reyndust þau þá hikstalaust borða milli 60 til 70% meira. Niðurstaðan var sem sagt sú að „aukið aðgengi“, þ.e. stærri skammtar leiða af sér óheilbrigða og óþarfa neyslu og þar af leiðandi offituvanda og meðfylgjandi sjúkdóma og kvilla. Þetta orsakasamhengi er þekkt og gildir fyrir fullorðna líka, þó svo að margir þeirra séu meðvitaðir um hættuna og reyni að forðast freistinguna. Spurningin er hvort ekki gildi nákvæmlega sömu lögmál um sambandið milli aukins aðgengis og neyslu áfengis?  

Það ætti alla vega að vera kominn tími fyrir heilbrigðisráðherra þjóðarinnar að íhuga málin í þessu samhengi, fremur en að hanga eins og hundur á roði á gamalli stefnu Heimdellinga um blessun hömlulauss verslunarfrelsis og skaðsemi forræðishyggju stjórnvalda.


Hvað á ný borgarstjórn að gera í orkumálum?

Ný borgarstjórn gæti verið í burðarliðnum. Hvað ætti nýr borgarstjórnarmeirihluti að gera í málefnum OR? Hann á að tryggja númer eitt að hlutur OR í HS fari ekki yfir til REI og leiði þar með til fullkominnnar einkavæðingar HS. Samrunasamninginn á að taka upp og endurskoða með hagsmuni almennings fyrir augum. Um hann þarf að fara fram opin umræða sem og hver sé tilgangurinn með útrás OR. Hætta á við áform um að hlutafélagavæða OR. Stefnan á að vera að almannaþjónustan verði í eigu hins opinbera og náttúruauðlindirnar í eigu þjóðarinnar. Þetta er bara byrjunin. Ef svo færi....


Hverjir eru eiginlega eigendur HS í dag??

"Boðað hefur verið til fundar hjá eigendum HS á mánudag og á Lúðvík von á málin muni þá enn frekar skýrast," segir í frétt Mbl. í dag.  Bíðum við, er það ekki álitamál hverjir eru eiginlegir eigendur HS í dag? OR var skráður eigandi að 16,6% hlut í HS fyrir hinn fræga fund þar sem REI og GGE voru sameinuð. Með þeim samningi færði OR hlut sinn í HS yfir til REI. Þessi fundur og þar með þeir gerningar sem á honum voru framdir hefur verið kærður sem ólöglegur og hefur sú kæra fulltrúa VG fengið flýtimeðferð hjá dómstólum.

Ef að dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að til fundarins hafi verið ólöglega boðað þá er samrunasamningur REI og GGE væntanlega ekki lengur í gildi, eða hvað? Þar fyrir utan þá hefur Umboðsmaður Alþingis beðið um svör við spurningum sem lúta nákvæmlega að þessu sama atriði, þannig að ekki er þetta honum ljóst. Björn Ingi hefur velt því upp hvort ekki eigi að endurtaka eigandafundinn. Þannig að hverjir verða það sem mæta fyrir hönd REI/GGE á fund eigenda á HS á mánudaginn? Við hverja ætlar Lúðvik að fara að semja? Það er stóra spurningin!


mbl.is Lúðvík Geirsson: Styttist í ákvörðun um HS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpur og refsing

Í gær sat ég á pöllum borgarstjórnar á sérstökum aukafundi um orkumál þar sem efni fundarins var umræða um sameiningu REI og GGE.  Í stuttu máli sagt varð ég fyrir vonbrigðum með umræðuna sem komst aldrei lengra inn í andyri völundarhússins. Gagnrýni Dags og Svandísar fjallaði einvörðungu um aðdragandann að glæpnum en ekki glæpinn sjálfann, ef svo má að orði komast. Gagnrýnin beindist réttilega að þverbrotnum stjórnsýslureglum og eiginhagsmunapoti í formi kaupréttarsamninga. Því, þegar menn voru samtímis að hygla hvor að öðrum og gera hvorn annan samsekan í glæpnum og ákveða svo að skella á fundi með engum fyrirvara til að minnihlutinn geti ekki gripið til mótaðgerða. Slíkt kallast ýmist samsæri eða ráðbrugg og beinist fyrst og síðast gegn lýðræðinu. Það var aðdragandinn að glæpnum sem að er sjálfur samningurinn um samruna REI við Geysi Green Energy.

Átti REI að kaupa fyrirtæki og selja?

Nú kann það út fyrir sig að koma til greina að þessi fyrirtæki sameinist enda tilgangur og tilurð samnings um það þá skýr og greinilegur að fenginni lýðræðislegri umræðu. Og tilgangurinn væri þá að efla notkun vistvænnar orku í samvinnu við sveitarstjórnir og yfirvöld annars staðar í heiminum. Tilgangurinn á ekki að vera sá sem Gísli Marteinn sagði í morgunútvarpi RÚV að ætti að vera tilgangur REI, þ.e. „að kaupa upp fyrirtæki, sprengja það upp, reka fólk og selja það aftur.“  Vissi fólk annars að Sjálfstæðisflokkurinn taldi það vera tilgang REI þegar fyrirtækið var stofnað?

Sjálfstæðisflokkurinn að einkavæða almannaþjónustu og auðlindir

Það sem er ískyggilegt í þessum samningi, glæpurinn sjálfur, er að hlutur OR í Hitaveitu Suðurnesja, er yfirfærður til REI áður en að REI er sameinað GGE. Af hverju er það glæpur í þessu samhengi? Af því, rétt eins og Vilhjálmur borgarstjóri las sjálfur upp á borgarstjórnarfundinum í gær, þá var REI stofnað til að vera í útrás, eignir þess samanstóðu einvörðungu að útrásarfyrirtækjum OR sem voru sameinuð í REI og leggja átti með fyrirtækinu tvo milljarða. Það hefur aldrei komið til umræðu að aðrar eignir OR yrðu færðar inn í fyrirtækið REI, enda hefði það ekki verið í takt við tilgang eða tilurð fyrirtækisins. Það er í raun jafn órökrétt að leggja hlut OR í HS inn í REI eins og það hefði verið að leggja aðrar eignir OR hér á landi í fyrirtækið hvort sem það hefði verið höfuðstöðvar OR eða Ljósavatnsvirkjun. Með þessum gerningi var stjórn OR undir forystu borgarstjóra Reykjavíkur, án undangenginnar umræðu, að tryggja einkavæðingu Hitaveitu Suðurnesja. Þar með var almannaþjónustufyrirtæki með grunnþjónustu og náttúruauðlindir komið í hendur fjármálabraskara. Það er því rökrétt að spyrja hvort það hafi komið um það krafa frá GGE að hlutur OR í HS fylgdi með í kaupunum og ef svo er, af hverju í ósköpunum var látið undan þeirri kröfu? Eða fann Vilhjálmur upp á þessu sjálfur? Eða Bjarni Ármannsson?

Fjölmiðlar sofandi?

Fyrir samrunasamning REI og GGE, átti GGE 32% í HS og OR 16%. Það er stórfurðulegt að fjölmiðlar skulu ekki hafa kveikt betur á þessum vendipunkti og spurt hvernig á þessu standi og hver vélaði þar um? Það ætti að auðvelda þeim spurningarnar að þessi gerningur stjórnar OR er þvert á þá stefnu sem borgarstjóri segist fylgja um að ekki eigi að einkavæða OR! Talandi um tvískinnung! Framhjá þessum punkti hefur borgarstjórinn og Bingi komið sér í umræðunni og um hann var ekki rætt sem meginefni máls, þann einn og hálfan tíma sem ég sat borgarstjórnarfundinn í gær. Og fjölmiðlar virðast hafa gleypt fréttatilkynninguna um samruna REI og GGE þar sem stendur að þessir aðilar eigi 48% í HS, án þess að spyrja spurninga.

Samrunasamninginn upp á borðið!

Hitt er svo annað mál, sem hefur verið blandað inn í umræðuna í fjölmiðlum með þeim hætti að ég held að almenningur hætti alveg að skilja hver er hvað og hvað er hvurs, að hugsanlega stendur til að Hafnarfjarðarbær selji sinn hlut í HS upp á 15,4%. Þar hefur OR sýnt áhuga á kaupunum og til marks um hversu mikilvægt það er að samningurinn um samruna REI og GGE verði gerður opinber, er að Guðmundur Þóroddson segir að samkvæmt þeim samningi ætti þau kaup OR á hlut Hafnarfjarðar að renna beint inn í REI, sem hækkaði þá hlut GGE/REI í HS upp í 64% af hlutafé! Á hinn bóginn staðhæfir Vilhjálmur borgarstjóri að alls ekki standi til, kaupi OR hlut Hafnarfjarðar, að sá hlutur gangi inn í REI/GGE! Er þetta gagnsæ opinber stjórnsýsla?! Krafan er því að samningurinn um samruna REI og GGE verði lagður á borðið, sem hluta af þeim gögnum máls sem Vilhjálmur borgarstjóri lýsti sig reiðubúinn að veita aðgang að!

Samningurinn verði ógiltur!

Viðbrögð Lúðvíks Geirssonar bæjarstjóra í Hafnarfirði hafa hins vegar jákvæð og skynsöm. Hann vill hugsa um almannahagsmuni í bráð og lengd og er því alls ekki áfjáður í að selja hlut Hafnarfjarðar í HS. Hann á að sjálfsögðu að gera þá kröfu að samrunasamningi REI og GGE verði hnekkt, á þeirri forsendu að þar hafi forkaupsréttur Hafnarfjarðar á hlutum í HS, (sbr. 9.gr. samþykkta HS), verið sniðgenginn. Það mun þá leggjast við kröfu Svandísar Svavarsdóttur um að fundurinn verði dæmdur ómerkur og samningurinn þar með, sem nú er á leið fyrir dómstóla. Meira að segja Björn Ingi hefur ljáð máls á því að kannski væri rétt að endurtaka þennan eigandafund! Er furða þó að umboðsmaður Alþingis krefjist þess að þessi gerð verði útskýrð!

Prinsipp Sjálfstæðisflokkins?

Af fundinum í borgarstjórn er það helst annað að segja að ræða Vilhjálms borgarstjóra var pínleg áheyrnar. Hvernig má annað vera, þegar maðurinn heldur því fram með réttu að OR hafi í áravís stundað útrás í samvinnu við einkaaðila með góðum árangri og í góðri sátt allra og verður síðan í sömu setningu að halda því fram að slík útrás í samvinnu einkaaðila sé á móti meginprinsippum Sjálfstæðisflokksins og því verði að selja REI hið snarasta?!! Enda benti Björn Ingi vendilega á það í sinni ræðu að slík útrás OR í samvinnu við einkaaðila hefði átt sér stað með blessun Sjálfstæðisflokksins og ekki væri ástæða til að hnika af þeirri braut.

Sjálfstæðisflokkurinn axli sína pólitísku ábyrgð!

Borgarstjóri sagðist hafa axlað pólitíska ábyrgð – gagnvart borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins! Ég segi eins og Svandís – er hann þá bara borgarstjóri Sjálfstæðisflokkins, en ekki allra Reykvíkinga? Það er ljóst að staða Vilhjálms og Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn veiktist enn frekar á fundinum í gær og var hún þó ekki beisin. Það er kominn tími til að flokkurinn axli sína pólitísku ábyrgð fyrir öllum Reykvíkingum og feli öðrum stjórn borgarinnar. Kannski það muni gerast hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur frumkvæði að því eður ei og þá fyrr en seinna! Fyrir valdapólitíkusana í Sjálfstæðisflokknum væri það refsing við hæfi.

  
mbl.is Orkulindir í samfélagslegri eigu verða það áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Logið að almenningi!

Í fréttatilkynningu um sameiningu Reykjavík Energy Invest og Geysir Green Energy frá 3.10.2007 sem lesa má m.a. á heimasíðu OR er áhugaverður listi yfir sameiginlegar eignir þessara fyrirtækja. Það sem vekur langmesta athygli er eftirfarandi eign: “48% eignarhlutur í Hitaveitu Suðurnesja, sem er samanlagður hlutur beggja félaganna.“

Þetta hafa fjölmiðlar síðan tekið sem gefna staðreynd og lagt út af þetta sé í fyrsta sinn sem einkaaðilar eignist svona stóran hlut í almannaveitu og auðlindafyrirtæki. Sem að er auðvitað stórfrétt út af fyrir sig, svo stór að hún virðist hafa skyggt á enn eitt plottið sem er eitt það alvarlegasta í sögunni allri:

Aldrei hefur verið fyrr vikið orði að því að REI eignist hlut OR í Hitaveitu Suðurnesja! Engu að síður stendur greinilega til að færa eignarhlut OR í Hitaveitu Suðurnesja í hendur Reykjavík Energy Invest og þar með til Geysis Green Energy, ef Sjálfstæðismenn fá sínu framgengt með söluna.Þar með er ráðandi hlutur í almannaþjónustufyrirtæki og auðlindafyrirtæki kominn í hendur fjárfestingafyrirtækja eins FL Group og Atorku og banka, þ.e. Glitnis.

Allar yfirlýsingar um tilurð, stöðu og tilgang REI frá því stofnun fyrirtækisins var kynnt í mars sl. hafa sagt að hér er um útrásarfyrirtæki að ræða og eignir þess samanstandi af starfandi útrásarfyrirtækjum OR. (Skráðar eignir REI eins og þær eru kynntar á heimasíður REI er hér að neðan.) Ef litið er á heimasíðu Hitaveitu Suðurnesja yfir eigendur er Orkuveita Reykjavíkur skráður eigandi að 16,6% hlutabréfa. GGE er skráð fyrir 32% eða samtals 48%.

Þrátt fyrir þessa upplýsingagjöf til almennings hefur stjórn OR greinilega veitt heimild fyrir afhendingu eignarhlutar fyrirtækisins yfir til GGE. Vissu fulltrúar VG og Samfylkingar af þessu? Því trúi ég ekki fyrr en ég tek á, en tel að með þessum aðgerðum hafi stjórnendur OR og fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar endanlega glatað öllu trausti almennings.

Og af hverju hafa fulltrúar þessara flokka ekki skýrt frá því að þeir hafa veitt Geysi Green forkaupsrétt að hlut REI, komi til sölu á hlutum REI?? Þetta er með hreinum ólíkindum og hreinn skandall.

Spurningin er hvernig ætlar Vilhjálmur Vilhjálmsson og Björn Ingi og forsvarsmenn OR að axla sína ábyrgð í málinu? Hvernig mun lýðræðið virka þegar oddvitar meirihlutans eru berir að fara með sannleikann eins og þeim hentar fyrir almenningi?

Af heimasíður Hitaveitu Suðurnesja:

Eignarhlutir í HS skiptast á eftirfarandi hátt:

 Hlutfall (%) Reykjanesbær  34,74831% Geysir Green Energy 32,00000% Orkuveita Reykjavíkur 16,58220% Hafnarfjarðarbær 15,41780% Grindavíkurbær  0,50903% Sandgerðisbær  0,32298% Garður 0,32004% Vogar 0,09964%

Samtals 7.454.816.000 kr  - 100,0000%

Af heimasíðu REI um eignir:  Key equity shareholdings include:

Enex hf 1969 A vertically integrated geothermal and hydro-energy development firm owned by REI, Geysir Green Energy, state-owned Landsvirkjun and several smaller investors. Enex Kína ehf (Enex China ehf) 2002 A joint venture of several parties including a Chinese corporation. Enex China ehf is building a significant district heating system in a large city in central China. Galantaterm Ltd 1995 A district heating system operator in the city of Galanta in Slovakia. Iceland America Energy, Inc. 2007 A geothermal energy exploitation and development company focusing on opportunities in the United States. PNOC-EDC 2007 The Philippines’ largest producer of geothermal power. The company is now undergoing privatization with the initial step taken in mid-year 2007 VistOrka – Hydrogen 2007 Icelandic consortium for applying hydrogen for transportation. Metan Ltd. 2007 Markets and distributes energy in the form of raw gas (landfill gas) and upgraded methane. Metan Ltd. is a member of the European Natural Gas Vehicle Association (ENGVA).


mbl.is Orkulindirnar ekki endilega andlag einkavæðingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaða Sjálfstæðimenn úr öskunni í eldinn?

Hættan er núna sú að flumbruganginum verði haldið áfram og vaðið úr öskunni í eldinn. Heyrst hefur að Sjálfstæðismenn muni leggja það til að OR selji hlut sinn í REI og að OR  hætti öllum áhætturekstri, sem svo er kallaður. Það jákvæða við þessa þróun síðustu daga er að menn eru almennt búnir að átta sig á að halda þurfi almannaþjónustunni í opinberri eigu og að tryggja þurfi að náttúruauðlindirnar verði í eigu þjóðarinnar, en eftir stendur spurningin um annað hlutverk OR. Það er spurning sem þarf frekari ígrundunar við og meiri almennrar umræðu en að leiðtogalausir sjálfstæðismenn í borgarstjórn ákveði slíkt í taugaæsingi og hasti.

Svo dæmi sé tekið þá hafa Sameinuðu þjóðirnar verið að reyna að koma á legg samvinnu opinberra vatnsveitna, þar sem skipst er á reynslu, upplýsingum og þekkingu, til að bæta rekstur þeirra sem standa höllum fæti og líta á að það sé ein helsta vonin til að ná megi þeim þúsaldarmarkmiðum sem sett voru í sambandi við vatnið og stórbæta aðgang almennings að vatni og góðu frárennsliskerfi. Einhver ótímabær samþykkt um að OR einbeiti sér að „kjarnaverkefnum“ héðan í frá, má ekki koma í veg fyrir slíka samvinnu sem gagnast OR, nýtir og eykur þekkingu starfsmanna þar á bæ um leið og lífskjör eru bætt hjá almenningi, þó svo sá almenningur kunni að búa á Filippseyjum eða Indónesíu.

 
mbl.is Átti að vaða yfir okkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband