Vatn fyrir alla

Eg minni á að 14 félagasamtök skrifuðu undir sameiginlega yfirlýsingu um hvernig umgangast eigi vatnið. Þessi yfirlýsing ætti að vera grundvöllur frekari lagasmíða um vatn á Íslandi. Undir yfirlýsinguna skrifuðu m.a. Þjóðkirkjan, helstu verkalýðsfélögin í landiinu, náttúruverndarsamtökin, ÖBÍ og fleiri. Það væri ótrulegt ef Alþingi samþykkir ekki í dag afnám vatnalaganna sem Sjálfstæðisflokkur og Framsókn samþykktu á sínum tíma.
Yfirlýsingin Vatn fyrir alla var síðan send stjórnarskrárnefnd, enda er þess krafist í yfirlýsingunni að sérákvæði um vatn verði sett í stjórnarskrána. Höldum kröfunni á lofti!

B.t. stjórnarskrárnefndar, c/o Páll Þórhallsson, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg 150 Reykjavík
Reykjavík, á Alþjóðlega vatnsdeginum 22. mars, 2006

Vatn fyrir alla

Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.
Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.
Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds.
Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.
Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.
Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.
Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.
Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.
Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.

ASÍ , BSRB, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Kennarasamband Íslands, Landvernd, Mannréttindaskrifstofa Íslands , MFÍK, Náttúruverndarsamtök Íslands, Landssamband eldri borgara, SÍB, Ungmennafélag Íslands, Unifem á Íslandi, Þjóðkirkjan, Öryrkjabandalag Íslands.


Vonirnar og VG

Það voru vissulega miklar vonir bundnar við að nýr tónn yrði sleginn í íslenskum stjórnmálum með síðbúinni innkomu VG á leiksviðið. Að VG tæki nú að sér að leiða til betri vegar hina tvístígandi Samfylkingu sem nýkomin var úr slæmum félagsskap og að úr yrði vinstri stjórn sem stæði undir nafni. Að stefnan yrði tekin á að verja velferðarsamfélagið og að gengið yrði þannig fra hnútunum að allar forsendur væru fyrir hendi að hægt yrði að hefja uppbyggingu hinnar opinberu almannaþjónustu strax að ólgusiglingu lokinni. Að opinber almannaþjónusta yrði efld og unnið að nýsköpun innan hennar á hennar eigin forsendum. Að undið yrði ofan af einkavæðingarhugsun Sjálfstæðisflokks og Framsóknar,að lært yrði af reynslunni og að það væri því sjálfsagt og jákvætt að bankar yrðu aftur færðir undir hið opinbera. Að hugmyndum um einkavæðingu vatns yrði endanlega hafnað og byggt yrði á hugmyndum um að vatn væri eign þjóðarinnar. Sem og aðrar auðlindir. Að það yrði hætt við allt tal um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins. Að siðferði stjórnmálanna efldist og að umræðan þar, sem og í stjórnkerfinu, yrði bæði opin og gagnrýnin. Í sem stystu máli að þá myndi VG leiða þjóðina út úr þeim vanda sem ofinn var úr blindri trú á yfirburði markaðarins.

Til þess virtist VG hafa flesta burði. Flokkurinn hafði ekki tekið þátt í dansinum í kringum gullkálfinn heldur þvert á móti barist með málefnalegum hætti og tillöguflutningi gegn þeirri vá sem íslenskt þjóðfélag hefur nú lent í. Gallar frjálshyggjuþjóðfélagsins hafa sjaldan eða aldrei verið almenningi ljósari og hljómgrunnur fyrir málstað VG því betri nú en í annan tíma. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking voru í sárum eftir að forysta þeirra og pólitík hafði brugðist og fólkið á götunni i baráttuhug eftir að hafa hrakið ríkisstjórn þeirra frá völdum.

Málalisti vonbrigða

Því miður hefur þessi von enn ekki ræst. Ríkisstjórnina hefur átakanlega skort skýra pólitíska sýn og hinn pólitíski kompás virðist hafa verið lagður til hliðar í hamagangi "björgunaraðgerðanna". Menn leyfðu skammsýnni krísustjórnun að taka völdin og hefur í þeim efnum ekki verið stór sjáanlegur munur á stjórnarháttum núverandi ríkisstjórnar og fyrrverandi ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Á meðan hafa önnur málefni setið á hakanum.

Bara svo nokkur handahófskennd dæmi séu tekin af stórum málum sem smáum:
-Hvernig stendur á því að helsti höfundur vatnalaga Valgerðar Sverrisdóttur um einkavæðingu vatns, Karl Axelsson hrl er látinn leiða nefnd sem skilar tillögum um hvað gera skal við vatnið, bæði hið heita og kalda? Og hvað ætlar vinstri stjórnin að gera við tillögur þeirrar nefndar, einkavæða vatnið de facto eins og nefndin leggur til og fella lagaheimildir til þess undir lög um auðlindir í jörðu, sem eru ein verstu lög hinna síðari tíma?
-Hvað er að gerast með orkumálin? Af hverju er erlendum fyrirtækjum hleypt í auðlindirnar, sem nota auk þess afar vafasamar krókaleiðir beint fyrir framan nefið á fólki? Af hverju er ekki búið ad betrumbæta þá gölluðu löggjöf sem nú er i gildi?
-Hvernig stendur á því að fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokks, sem hefur haft beina hagsmuni af einkavæðingu almannaþjónustunnar og lagt fram ítrekaðar þingsályktunartillögur í þeim efnum, er gerður að yfirmanni rannsóknarstofnunar við HÍ sem á að gera tillögur um framtíð almannaþjónustunnar?
-Og hvernig stendur á því að VG í ríkisstjórn skrifar upp á svokallaðan "stöðugleikasáttmála", sem diktaður var upp undir forystu SA og ASÍ með það fyrir augum að koma Íslandi í ESB, (eins og lesa má um í skjölum ASÍ), að efla stóriðju, að einkavæða bankana á ný og sjá til þess að afleiðingarnar af hruninu verði frekar í formi niðurskurðar á velferðarkerfinu en hækkandi skatta?
-Og hvernig má það vera að VG sem stjórnmálaflokkur hafi látið það gott heita að skrifa undir fyrstu drög að IceSave samkomulaginu í andstöðu við marga þingmenn og án þess að bera það undir flokksmenn og aðra landsmenn og að forystan hafi svo leyft sér að bera út þá sem voru því verklagi andvígir?
-Getur verið að sömu pukurvinnubrögð sé uppi nú þegar AGS veitir okkur loks náð og samþykkir að afhenda löngu umsamin lán? Spyrja má um hvaða kröfur ASG hafi gert til að svo mætti verða? Ef að líkum lætur er þar að finna kröfur um frekari markaðsvæðingu á sem flestum sviðum. Gætu þannig verið gerðar kröfur um að Íbúðalánasjóði verði ekki komið til bjargar af hinu opinbera, heldur verði að opna hann fyrir markaðsöflunum? Getur verið að Steingrímur J. skrifi upp á slíka hluti í reykfylltu bakherbergi, án gagngerrar og opinnar umræðu í flokknum og samfélaginu almennt?
-Og er ekki dagljóst að ef skrifað er upp á slíka almenna pólitíska skuldbindingu í samningi við ASG að það hefur bein og heftandi áhrif á getu okkar til að ná ásættanlegum samningum við ESB, ekki síst hvað varðar almannaþjónustuna?

Þörf að efla VG?

Ég tel víst að það sé ekki aðeins meirihluti VG sem er óánægður með þessa þróun, heldur sé meirihluti þjóðarinnar óánægður. Ein skýring gæti verið sú að flokksforysta VG hafi misst sjónar á hver markmið vinstri stjórnar ættu að vera. Önnur skýring er auðvitað sú að Steingrím og samráðherra hans úr eigin flokki hafi skort styrk til að koma þessum pólitísku áherslum, sem flestar eru í samræmi við samþykktir landsfunda VG, í gegnum ríkisstjórnarflokk Samfylkingar.
Hvort sem er, þá þarf að stórefla hinar hefðbundnu áherslur VG innan ríkisstjórnarinnar. Til þess þarf Steingrímur greinilega aðstoð og í þeim efnum blasir einfaldasta lausnin við sem er að taka Ögmund Jónasson inn í ríkisstjórn og gera það af fullum heilindum og góðum hug. Hann er fremsti fulltrúi þess meirihluta VG sem er óánægður með ofangreindar áherslur ríkisstjórnarflokks VG. Um leið þarf að fara fram gegnheil umræða innan VG um stöðu flokksins og stefnu þar sem hinir almennu félagar hafa orðið og geta komið skoðunum sínum á framfæri.

Með því slær Steingrímur fleiri en eina flugu í höggi; hann styrkir stöðu VG gagnvart Samfylkingunni innan ríkisstjórnar og hann styrkir stöðu VG almennt í samfélaginu, enda nýtur Ögmundur mikils traust hjá almenningi. Steingrímur sýnir þannig að hann lætur málefnastöðu ráða umfram þá persónulegu mæðu sem honum kann að finnast að opin andstaða Ögmundar og fleiri við stefnuna í IceSave og almenn vinnubrögð flokksforystunnar, hafi skapað sér. Hann yrði því maður að meiri og styrkir eigin stöðu. Hann lægir vonandi um leið þær óánægjuöldur sem risið hafa í flokknum, enda er fátt mikilvægara en að hafa samhentan flokk á bak við sig. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur í þeim efnum.

Það dugar VG ekki að berja sér á brjóst og benda á að flokkurinn sé sá eini sem ekki beri ábyrgð skv. skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Flokksforystunni væri nær að lesa skýrsluna með sjálfsgagnrýni í huga. Þar er að finna ýmsar ábendingar um vinnubrögð sem hægt væri að læra af.
Vonirnar mega ekki bara geta af ser vonbrigði.

Greinin birtist a Smugunni 24.05.2010 http://www.smugan.is/pistlar/adsendar-greinar/nr/3370


Fyllri upplýsingar um fyrirvara við og sögu þjónustutilskipunarinnar

Þjónustutilskipunin er ein umdeildasta tilskipun ESB og sú sem hefur valdið mestum deilum og áttökum. Hér á landi hefur BSRB í samvinnu við evrópsku verkalýðshreyfinguna unnið gegn upphaflegu tilskipuninni sem samþykkt var með breytingum 2006. Miklu skiptir með hvaða hætti tilskipunin verður innleidd, en hér má lesa frétt af vef stjórnarráðsins um samþykkt tilskipunarinnar. 

Þjónustutilskipun ESB: Samþykkt með skýrum fyrirvara

26/5/2009

Þjónustutilskipun ESB verður innleidd hér á landi með skýrum fyrirvara um að Íslendingar afsali sér ekki lýðræðislegu valdi yfir almannaþjónustunni. Þetta álit Ögmundar Jónssonar, heilbrigðisráðherra, samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun.

Ráðherra taldi afar brýnt að setja skýran fyrirvara í tengslum við samþykkt þjónustutilskipunarinnar, fyrirvara sem snýr sérstaklega að heilbrigðisþjónustunni og almannaþjónustu almennt. Ennfremur telur heilbrigðisráðherra brýnt að við innleiðingu tilskipunarinnar hafi það ráðuneyti sem stýri innleiðingarferlinu hliðsjón af þessum áherslum ríkisstjórnarinnar og að tilskipunin verði því innleidd með þeim hætti sem skapi mest svigrúm íslenskra stjórnvalda til að hafa bein áhrif á ákvarðanir í málum sem ráðherra telur vera grundvöll velferðarþjónustunnar í landinu.

„Því miður hefur það viljað brenna við í tímans rás, að tilskipanir frá Brussel væru samþykktar í ríkisstjórn án fyrirvara og, að því er mér hefur stundum virst, jafnvel án athugunar og ígrundunar. Nú hefur verið innleitt nýtt vinnulag hvað þetta varðar og er það stórt skref fram á við. Hvað þjónustutilskipunina varðar þá hef ég komið að henni í langan tíma á vettvangi evrópskrar verkalýðshreyfingar. Þar tókst að koma fram lagfæringum frá upphaflegu útgáfunni. Með fyrirvara Íslands á að vera girt fyrir ágang markaðsaflanna að heilbrigðisþjónustunni. Þess vegna stend ég ekki lengur í vegi fyrir innleiðingu hennar enda hefði slíkt í för með sér að þjónustusamningar við öll EES ríkin væru í uppnámi samkvæmt túlkun á EES samkomulaginu“, segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra.  

Þjónustutilskipun ESB hefur valdið miklum deilum allt frá því að hún kom fram árið 2004. Deilt var um ákvæði sem lutu að  vinnurétti og þá ekki síður að hvaða marki almannaþjónusta – þ.m.t. heilbrigðisþjónustan – yrði færð undir markaðsskilmála. Norðmenn settu skýra skilmála hvað þetta snertir og verður þjónustutilskipunin innleidd hér á landi með samsvarandi skilyrðum.

Heilbrigðisráðherra lagði fram minnisblað er varða þessa skilmála á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og var samþykkt að tilskipunin yrði samþykkt af Íslands hálfu þannig að hvergi yrði skertur réttur lýðræðislega kjörinna yfirvalda til að skipuleggja almannaþjónustuna að eigin vild.

Í minnisblaði eða greinargerð ráðherra sem hann lagði fram á fundi ríkisstjórnar í morgun segir: „Þjónustutilskipunin sá fyrst dagsins ljós 2004 og var þá sett fram sem hluti af Lissabon- áætlun Evrópusambandsins frá árinu 2000 sem miðaði að því að gera ESB að samkeppnishæfasta efnahagsvæði heimsins 2010. Hugmyndin var að fjarlægja „viðskiptalegar“ hindranir sem væru í vegi fyrir þjónustuviðskiptum fyrirtækja milli landa, hvort sem þær voru af lagalegum eða stjórnsýslulegum toga. Jafnframt átti að tryggja lagalegar undirstöður tveggja þátta fjórfrelsis svokallaða, þ.e. réttarins til að veita þjónustu og réttarins til að stofna fyrirtæki í öðru landi.

Efnistök þjónustutilskipunarinnar eru byltingarkennd meðal tilskipana ESB, að því leyti að hún tekur ekki til afmarkaðra sviða eða atvinnugreina, heldur nær til allrar þjónustu. Öll þjónusta fellur undir tilskipunina, nema hún sé sérstaklega undanþegin. Hér er í raun og veru verið að setja í framkvæmd einn hinna fjögurra hornsteina ESB, frelsi til að veita þjónustu. Um leið takmarkar þetta „þjónustufrelsi“ frelsi aðildarríkjanna til að skipa sínum málum eftir eigin höfði.

Almennt virðist stjórnvöldum vera óheimilt að hamla aðgangi að þjónustu erlendra aðila sem og framboði þeirra á þjónustu, nema að uppfylltum skilyrðum með vísan til afgerandi ástæðna tengdum almannahagsmunum (eða “overriding reasons relating to the public interest” ). Hér er því verið að flokka hagsmuni „efnahagslífsins“ og reglur og kröfur „innri markaðar“ Evrópusambandsins skör hærra, en ýmis félagsleg, menningarleg og umhverfisleg gildi, sem kjörin stjórnvöld vildu hefja til vegs en kynnu að stangast á við „frelsi“ þjónustuaðila. Þau þarf að réttlæta með tilvísun í undantekningarákvæði, meðan hagsmunir þjónustuveitenda og réttindi eru í öndvegi.

Höfundar þjónustutilskipunarinnar höfðu sem yfirlýstan megintilgang að koma á „fjórfrelsinu“ á innri markaðinum, með því að fjarlæga „hindranir“ og koma á samkeppni. Því miður lögðu þeir ekki sömu áherslu á hin tvö helstu markmið Lissabon-áætlunarinnar, sem voru að ná fram fullri atvinnu og styrkja efnahagslega og félagslega samþættingu, með sjálfbærri þróun. Þvert á móti þá lentu þau lög og reglur sem eiga að tryggja fulla atvinnu, efnahagslega og félagslega samþættingu, svo sem miðlægir kjarasamningar, sértæk hjálp til ákveðinna hópa, landsvæða eða atvinnugreina o.s.frv. á lista þjónustutilskipunarinnar um hugsanlegar „viðskiptahindranir“. 

Deilan sem tilskipunin skóp snerist því ekki síst um rétt aðildarríkja til að grípa til svokallaðra sértækra ráðstafana, en þó engu síður um rétt þeirra til að skipuleggja og fjármagna opinbera almannaþjónustu eftir eigin höfði og eftir vilja kjósenda í hverju landi.

Á sama tíma var gert ráð fyrir að mikilvæg almannaþjónusta heyrði undir tilskipunina, heilbrigðisþjónusta og félagsþjónusta t.d. og að hún hefði því verið markaðsvædd í framhaldinu. Loks má nefna afleiðingar tilskipunarinnar á vinnumarkaðinn, en upprunalandsreglan svokallaða gerði ráð fyrir að lög og kjarasamningar upprunalandsins, þ.e. þess lands sem þjónustuveitandi átti lögheimili í, giltu, en ekki reglur gistilandsins.

Þegar tilskipunin var svo loks samþykkt í lok árs 2006 hafði tekist að sníða af henni verstu agnúana, en þó voru menn langt í frá sáttir. Verkalýðshreyfingin í Noregi  krafðist þess að Noregur beiti neitunarvaldi gegn innleiðingu hennar þar í landi.  Stjórnvöld hikuðu við, enda er EES-samningurinn nú túlkaður þannig að neitun myndi þýða að réttindi Noregs á sviði þjónustuviðskipta á innri markaði ESB féllu niður, sem og réttur hinna ríkjanna sem eru aðilar að samningnum. Er það öfugt við það sem Gro Harlem Brundtland og fleiri norskir stjórnmálamenn sögðu þegar Noregur gekk í EES, það er að landið hefði að sjálfsögðu neitunarvald gagnvart þeim þáttum sem ekki voru taldir hagkvæmir.

LO í Noregi féll að lokum frá kröfum um að stjórnvöld beittu neitunarvaldi gagnvart þjónustutilskipuninni, eftir að stjórnvöld höfðu lofað að reyna að veita tryggingar fyrir því m.a. að almannaþjónustan fengi að þróast áfram og stjórnvöld hefðu enn ábyrgð og stjórn á mikilvægum sviðum samfélagsins og ákveðin verkefni á þess vegum yrðu leyst á vegum opinberrar almannaþjónustu. Hér eru upptalin m.a. heilbrigðisþjónusta, félagsþjónusta, skólar, samgöngur og framleiðsla raforku.

Af hálfu heilbrigðisráðherra er m.a. staðnæmst við þá skilgreiningu sem stuðst er við varðandi heilbrigðisgeirann og afleiðingar hennar. Þegar ákvæði 2. (f) í þjónustutilskipuninni er skoðað má ætla að það hafi tekist að fullu að undanskilja heilbrigðisþjónustuna ákvæðum tilskipunarinnar. (gr 2. Scope. (f) healthcare services whether or not they are provided via healthcare facilities, and regardless of the ways in which they are organised and financed at national level or whether they are public or private;) En þegar grein 22 í formála er hins vegar lesin sést við hvaða skilgreiningu á heilbrigðisþjónustu sem undanskilin er þjónustutilskipuninni, er átt. Aðeins er átt við þær heilbrigðisstéttir sem hafa fagbundið leyfi til starfa í því landi sem þjónustan er veitt (a regulated health profession). Það á væntanlega við um stéttir eins og lækna og hjúkrunarfræðinga og aðrar lögverndaðar stéttir.

Aðrar stéttir innan heilbrigðisgeirans eru ekki undanskildar ákvæðum þjónustutilskipunarinnar. Það þýddi til dæmis að opinn samkeppnismarkaður ríkti í störfum í heilbrigðisgeiranum sem unnin eru af þeim sem ekki eru í lögvernduðu starfi. Og samkvæmt handbók the Directorate-General for Internal Market and Services um innleiðingu þjónustutilskipunarinnar er hér aðeins átt við þjónustu þessara stétta við sjúklingana sjálfa. Öll þjónusta önnur í heilbrigðiskerfinu sem viðkemur öðrum þáttum en sjúklingunum beint, svo sem bókhaldsþjónusta, ræstingar, stjórnsýsla, viðhald búnaðar og húsa og starfsemi rannsóknarstöðva fellur hins vegar undir þjónustutilskipunina. Sama á við endurhæfingarstöðvar og aðrar stöðvar sem stuðla að fyrirbyggjandi aðgerðum, líkamsræktarstöðvar, sundlaugar o.fl. Þessi þjónusta á eingöngu að vera a markaði skv. þjónustutilskipuninni.

Þá má einnig nefna þær efasemdir sem uppi eru og varða það háttarlag að láta fjármuni hins opinbera vera eyrnamerkta notenda, þ.e. að sjúkrahús fái fjárveitingar í samræmi við fjölda sjúklinga o.s.frv. Efasemdirnar snúa að því að þetta fyrirkomulag opni dyrnar fyrir einkaaðila á sama þjónustusviði að krefjast sömu fjárveitinga pr. „viðskiptavin“ og hið opinbera hefur tilgreint. Almannaþjónustan sé í þessu tilfelli ekki veitt á almennum grunni, sem sé eitt af skilyrðum þess að hún falli ekki undir markaðslöggjöf.

Heilbrigðisráðherra telur því brýnt að setja skýra fyrirvara í tengslum við samþykkt þjónustutilskipunarinnar sem varða hagsmuni heilbrigðisþjónustunnar sérstaklega og hagsmuni almannaþjónustunnar almennt.

Er hér ástæða til að fylgja fordæmi norsku ríkisstjórnarinnar með skýrum fyrirvörum. Heilbrigðisráðuneytið telur að eftirfarandi texti, byggður á yfirlýsingu norsku ríkisstjórnarinnar eigi að gilda að lágmarki, en hér hefur verið skerpt á hugtakinu „National authorities“ svo það nái tvímælalaust til ríkis og sveitarfélaga: „Upon the incorporation of the Service Directive (2006/123/EC) into the EEA Agreemnent, Iceland recalls that the Directive does not affect inter alia terms and conditions of employment, the relations between social partners, the right to negotiate and conclude collective agreemnts, and fundamental rights such as the right to strike and to take industrial action. The Services Directive does not affect labour law nor tripartite cooperation between labour, employeras and the government.

Thus Iceland emphasises that there is no contradiction between the Services Directive and a strong national commitment to develop action- plans and apply appropriate measures aimed at protecting domestic and posted workers´ rights and maintaining high standards in the workplace. Such measures may include inter alia an effective system for general application of collective agreements, and introduction of joint responsibility and liability for contractors and sub-contractors in order to ensure enforcement of workers´rights.

Iceland underlines the continued competence of national authorities – at all levels, government and municipal – to decide to what extent services shall be provided by the public sector, how they should be organised and financed, as well as what specific obilgations such public services should be subject to.“

Ennfremur telur heilbrigðisráðherra brýnt að við innleiðingu tilskipunarinnar hafi það ráðuneyti sem stýri innleiðingarferlinu hliðsjón af þessum áherslum ríkisstjórnarinnar og að tilskipunin verði því innleidd með þeim hætti sem skapi mest svigrúm stjórnvalda til ákvarðana. Á það einnig við um hlutverk eftirlitsstofnana af ýmsu tagi. Er vakin athygli á því að handbók the Directorate-General for Internal Market and Services er ekki lagalega bindandi heldur ráðgefandi. Telur heilbrigðisráðherra að ástæða sé til aukins samráðs og opinnar gagnrýnnar umræðu við innleiðingu tilskipunarinnar svo og um allar tímasetningar


mbl.is Tilskipun ESB innleidd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðgerðirnar vekja eftirfarandi spurningar:

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar vekja fleiri spurningar og athugasemdir, en þær veita svör. Hér eru nokkrar sem kvikna við fyrsta yfirlestur.

1. Stjórnvöld gera bankaráðum hinna nýju banka að setja sér skýrar viðmiðunarreglur um fyrirgreiðslu við fyrirtæki í landinu með það að markmiði að vernda störf og stuðla að áframhaldandi starfsemi lífvænlegra fyrirtækja. Reglurnar taki m.a. til lengingar lána, niðurfærslu skulda, breytingar lána í eigið fé og sameiningar fyrirtækja. Settar verði reglur sem tryggi gegnsæi í ákvarðanatöku bankanna og hlutlæga fyrirgreiðslu, þar sem hugað verði að samræmdum vinnubrögðum gagnvart fyrirtækjum. Innra eftirlit bankanna verði eflt.

Munu þessar samræmdu reglur verða enn í gildi þegar erlendum bönkum verður boðið að taka bankana upp í skuld? Hversu samræmd eiga vinnubrögðin að vera - verður til ein yfirbankastjórn fyrir alla bankanna undir forsæti "fulltrúa IMF", Mats Josefssonar?

 

2. Stofnuð verði sérstök eignaumsýslufélög á vegum bankanna sem hafi umsjón með eignar-hlutum í fyrirtækjum, þar sem ákveðið hefur verið að breyta skuldum í eigið fé. 

Hvernig verður farið með fyrrum opinbera sjóði og fyrirtæki sem lent hafa inn í bönkunum við einkavæðingu þeirra eða uppkaup? Stofnlánadeild landbúnaðarins og aðrir sjóðir atvinnuveganna - er ástæða til að endurvekja þá? Hvað með hlut Glitnis/ríkisins í HS o.s.frv.?

3. Skipaður verði óháður umboðsmaður viðskiptavina í hverjum banka. Skal hann m.a. hafa það hlutverk að gæta þess að viðkomandi banki mismuni ekki viðskiptavinum með óeðlilegum hætti, að ferli við endurskipulagningu fyrirtækja og aðrar mikilvægar ráðstafanir sé gagnsætt og skráð og að bankinn gæti að samkeppnissjónarmiðum. Bankaráð velji umboðsmann í hverjum banka og tryggi að hann geti sinnt eftirliti sínu.
Það að bankaráðið velji þennan umboðsmann hýtur að draga úr óhæði hans. Hann virðist eiga að vera umboðsmaður stórra kúnna og fyrirtækja, hvað með umboðsmann vanalegra sparifjáreiganda?

4. Við endurskipulagningu fyrirtækja verða valdar leiðir sem efla samkeppni eða hamla samkeppni minnst.  Á sama hátt verði svigrúm til að draga úr fákeppni eða markaðsráðandi stöðu nýtt sem kostur er. Þeim tilmælum er beint til bankaráða að hafa hliðsjón af þeim meginreglum um samkeppnissjónarmið sem koma fram í áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008.

Hvaða fyrirtæki er verið að ræða um hér? Eru bankarnir sjálfir undir hér? Á að skipta Baugsfyrirtækjum upp? Hvaða hugmyndafræði er að baki þessu?

5.Ríkisstjórnin mun liðka fyrir stofnun endurreisnarsjóðs, öflugs fjárfestingasjóðs atvinnulífsins með þátttöku lífeyrissjóða, banka og annarra fjárfesta, þar á meðal erlendra. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að beita sér fyrir lagasetningu sem rýmkar heimildir lífeyrissjóða til að taka þátt í slíkum fjárfestingum innanlands.

Hér er komið að mikilvægu atriði sem er breytingar á skilyrðum fyrir fjárfestingum lífeyrissjóða. Á nú að gera þeim kleift að fjárfesta út frá öðru en "hámarks hagnaðarvon"? Gæti orðið mjög jákvætt atriði.

6. Ríkisstjórnin hvetur til þess að í fjárfestingastefnu sinni taki endurreisnarsjóður m.a. tillit til sjónarmiða er lúta að góðum stjórnunarháttum og samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja, þar á meðal áherslu fyrirtækja á að viðhalda eða fjölga störfum. Auk þess verður lögð áhersla á launastefnu, jafnréttisstefnu, umhverfisstefnu, framlög til rannsókna og þróunar, mikilvægi starfsemi fyrir grunnþjónustu samfélagsins o.s.frv.

Þessa stefnu á að útvíkka til allra opinberra fyrirtækja, auk þeirra fyrirtækja sem fá fyrirgreiðslu úr sjóðnum.

7. Ríkisstjórnin lýsir yfir vilja til að greiða fyrir uppgjöri við erlenda kröfuhafa með því að bjóða þeim hlutafé í nýju bönkunum, m.a. í því skyni að tryggja endurfjármögnun bank-anna, fjölbreyttara bankaum¬hverfi og greiða fyrir eðlilegum lánaviðskiptum innlendra aðila og erlendra banka.

Nú á að bæta gráu ofan á svart með því að leyfa erlendum bönkum að taka þá íslensku upp í skuld, amk að hluta. Ekki er orð um kosti þess að halda bönkunum í ríkiseigu, öllum eða sumum. Væri ekki eðlilegra að þetta eigi bara við um"gömlu bankana"? Hvað varð um alla þá starfsemi - er strúkturinn amk ekki enn fyrir hendi? Er bara hægt að selja steypu, skrifborð og tölvur og annað handfast?

8. Fyrirtækjum sem uppfylla að öðru leyti skilyrði laga verður gert kleift að gera ársreikninga upp í erlendri mynt með lagasetningu sem gildi afturvirkt frá 1. janúar 2008.

Hvernig passar þetta við heildarstefnu landsins í myntmálum? Var ekki talið að þessi bakdyraleið, þ.e. að evruvæða þjóðfélagið með því að fyrirtækin gerðu það sjálf eftir eigin höfði með upptöku erlendrar uppgjörsmyntar, væri versta leiðin sem fær var? Er búið að ákveða að taka upp evruna?

9. Stjórnvöld greiði með lagasetningu fyrir langtímaeign lífeyrissjóða á fasteignum sem þeir hafa lánað fyrir. Þannig má bjóða einstaklingum og fyrirtækjum sem missa fasteignir sínar að búa eða starfa áfram í fasteigninni með því að leigja hana af lífeyrissjóðunum.

Verður sama gert gagnvart Íbúðalánasjóði?

10. Lögð verði sérstök áhersla á mannaflsfrekar atvinnuskapandi aðgerðir á vegum ríkisins Leitað verði eftir samstarfi við sveitarfélög um tímasetningu framkvæmda með það fyrir augum að standa vörð um atvinnu fólks og auka hagkvæmni.

Hvernig rímar þetta við skilyrði IMF? Eiga ríkið og sveitarfélög ekki að skera niður, skv þeirra kröfum?

11. Stjórnvöld munu beita sér fyrir endurskoðun á ákvæðum hlutafélagalaga, skattalaga og annarra laga í því skyni að auðvelda stjórnendum fyrirtækja að komast í gegnum tímabundna erfiðleika vegna efnahagsástandsins.

Munu sömu úrræði standa opinberum fyrirtækjum og stofnunum til boða?

12. Ríkisstjórnin mun í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins fara yfir nýsettar reglur um gjaldeyrishömlur sem ætlað er að styrkja gengi krónunnar til að takmarka neikvæð hliðaráhrif þeirra eins og kostur er."

 


mbl.is Bjarga á fyrirtækjunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umsókn Íslands gerir Norðmönnum grikk

Umsókn Íslands að ESB setur strik í innanlandsmál í Noregi og gerir annað tveggja: neyðir norsku þjóðina til samninga um inngöngu í ESB þvert á vilja meirihluta landsmanna, eða neyðir þá til að semja á ný með einhverjum hætti um aðgang að mörkuðum ESB. Og þá út frá verri samningsstöðu en var uppi þegar þeir sömdu í samfloti með öðrum þjóðum og út frá sterkri stöðu um EES-samninginn á sínum tíma. Þau kjör sem Íslendingar gangast að, verða á matseðlinum fyrir Noreg. Ekki er örgrannt um að mörgum Norðmanninum  þætti Íslendingar launa þeim hjálpsemina með sérkennilegum hætti, fari svo. Og spurning hvort Íslendingum dugi að vísa til frændsemi þjóðanna og aldagamallar vináttu, næst þegar við þurfum á greiðasemi þeirra að halda.

Sjá nánar: http://pallheha.blog.is/blog/pallheha/ 
mbl.is Íslendingar muna vinargreiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki rétti tíminn fyrir ESB-umsókn

Lausnarorðið á Íslandi þessa dagana virðist fyrir mörgum vera aðeins eitt; Evran. Það á jafnt við seka og saklausa, þá fáu sem orsökuðu hrunið og hina mörgu sem eru fórnarlömbin. Hinir seku kenna evruleysi landsins um ófarnir eigin fyrirtækja og fela eigin vanhæfni í leiðinni, hinir saklausu eru margir tilbúnir að grípa hvaða hálmstrá sem býðst ef það leiðir okkur út úr ógöngunum. Það virðist stafa af þessu lausnarorði ljómi sem birgir mönnum sýn á annað. Þar sem forsenda upptöku evrunnar er að Ísland gangi í Evrópusambandið þá virðist samkvæmt sömu nauðhyggju óhjákvæmilegt að sækja um inngöngu. Það auðveldar þeim lífið sem gera sér pólistískan mat úr þessu ástandi, ala á Evru-trúnni öllum stundum og hafa fram að þessu fitnað eins og púkinn á fjósbitanum.

Forsenda viðræðna er upplýst umræða

En látum liggja milli hluta hversu sérkennilegt það væri ef Ísland ætti eftir að ganga í ESB út af Evrumálinu  einu og sér, því vissulega er svo fjöldamargt annað sem fylgir ESB-aðild fyrir land og þjóð. Ef að landsmenn vilja ganga í ESB út frá þeim fjölbreyttu forsendum þarf mun víðsýnni, dýpri og efnismeiri umræðu en hingað til, svo hver og einn geti tekið upplýsta ákvörðun um aðild. Til þess þarf tíma sem þýðir að umsókn er ekki á dagskrá næstu mánuði eða ár.

ESB mun ekki bjóða upp á einhverjar millistigs könnunarviðræður,  sem gefa almenningu kost á að skoða hvað er í pokanum og ákveða síðan hvort við ætlum að hefja alvöruviðræður og sækja um af alvöru. Verði farið í viðræður á annað borð er það fyrir alvöru og valkostir almennings verða þeir einir að kjósa með eða á móti umsömdum  pakka. Og umræðan um almenna kosti og galla ESB hefur einfaldlega ekki farið fram enn þá. Því er allt tal um umsókn nú byggt á ósjálfráða viðbrögðum þess sem verður fyrir höggi. Fyrir utan þá auðvitað sem hafa inngöngu á pólitískri stefnuskrá sinni og nýta sér ástandið nú sjálfum sér í flokkspólitískum tilgangi.

Því er rétt að skoða hvort æskilegt er að sækja um inngöngu í ESB í dag eða næstu mánuðum, með upptöku Evrunnar sem helsta markmið.

Afleit samningsstaða

Ég tel umsókn nú ekki vera tímabæra og fyrir því eru eftirfarandi ástæður: Í fyrsta lagi er að nefna að Ísland er að semja úr afleitri stöðu og hefur nánast engin spil á hendi.  

ESB er búið að dusta Ísland við hjarn í Icesave-málinu og finnst eflaust að það hafi verið mátulegt á þessa sjálfsmiðuðu örþjóð. Ísland hafði ekki einu sinni burði til að láta reyna á löggjöf Evrópusambandsins sjálfs í deilunni. Í öllu falli má gefa sér að það mál hafi ekki aukið álit Íslendinga innan ESB né aukið á velvilja í okkar garð. Icesave-málið hefur því eitt og sér veikt samningsstöðu okkar sem er þó nógu slæm fyrir, með allt í kaldakoli hér heima hvort sem er í efnahagsmálum eða stjórnmálum.

Framkoma bankanna og íslenskra bissnissmanna í löndum eins og Danmörku og Bretlandi hefur heldur ekki orðið okkur til framdráttar í dag. Sendiferðir Ingibjargar Sólrúnar og Geirs (og Ólafs Ragnars forseta) á vegum íslenskra banka og viðskiptalífs, þar sem þau hafa haldið fram málflutningi sem augljóslega virðist kolrangur í dag, hafa heldur ekki aukið virðingu eða traust á þessum leiðtogum Íslands, sem sumir hverjir amk ætla sér að ná samningum við ESB um inngöngu. Erlendir ráðamenn og þar með leiðtogar ESB hljóta að draga þá ályktun að annað hvort hafi þetta fólk farið með visvítandi blekkingar eða verið ótrúlega illa upplýst um stöðu mála í eigin heimalandi.

Mannaskipti og kosningar nauðsynlegar

Þannig að það er augljóst að það væri afleikur í annars mjög slæmri samningsstöðu að tefla odddvitum stjórnarflokkanna, nú eða fjármálaráðherra eða bankamálaráðherra,  fram fyrir Íslands hönd. Geir færi þar að auki í samningaferlið tilneyddur og með hundshaus, meðan að Ingibjörg Sólrún verður með glýju í augum og gerir flest til að fá að vera með. Það er búið að gefa það út fyrirfram að "við" teljum inngöngu í ESB vera eina bjargráðið fyrir þjóðina í dag og því ljóst að ESB sér í hendi sér að ekki þurfa að borga innkomu Íslands neinu dýru verði. Evrópusambandið veit eins og er, að ef Ísland kemur nú með betliskjal í hendi og á ekki einu sinni inni fyrir því að geta litið í augun á viðsemjendum sínum sökum þrælsótta og sektarkenndar, að þá fær bandalagið allt það sem það hefur áhuga fyrir á silfurfati. Þar með talið hagstætt gengi á íslensku krónunni við gjaldmiðilsskiptin yfir í evruna.

Það er því ljóst að þó ekki væri nema til að skapa Íslandi lágmarkssamningsstöðu er, nauðsynlegt að kjósa sem fyrst og að stjórnmálamenn sem hafa umboð þjóðarinnar, ræði við ESB. Hafi þeir á annað borð áhuga á slíku.  

Noregur í húfi

Þar fyrir utan hefur alltaf verið ljóst, jafnvel þegar góðæri ríkti á Íslandi, að ESB þarf ekkert á Íslandi að halda - og ef að Ísland telur sig þurfa á ESB að halda, þá er augljóst hver hefur undirtökin frá upphafi. Ef að ESB vill semja við Ísland núna, þá gerir það af því að það telur sig hafa feitari gölt að flá annars staðar, nefnilega Noreg. Sú "velvild og áhugi" sem ESB sýnir umsókn Íslands núna stafar ekki síst af því að sambandið veit að það getur fengið það sem það vill hvort sem er í fiskveiðimálum, orkumálum  eða hverju sem er. Og að það veikir samningsstöðu Noregs. Og fyrir því hefur ESB áhuga. Noregur mun standa mun veikar að vígi, bara við það eitt að Ísland sækir um. Það að Ísland mun ganga að hvaða afarkostum sem er, semji núverandi stjórnvöld við ESB, veikir stöðu þeirra enn frekar. Samningar landanna um Evrópska efnahagssvæðið er fyrir bí með Noreg og Lichtenstein ein eftir. Og því mun umsókn og innganga Íslands neyða Noreg til samninga við ESB.

Umsókn Íslands gerir Noregi grikk

Nú er það svo að Noregur hefur á undangengnum áratugum unnið heimavinnuna sína varðandi ESB mun betur en Ísland. Hagsmunasamtök eins og stórnvöld hafa haldið úti föstum nefndum og skrifstofum í Brussel og eru öllum hnútum mun kunnugri en Íslendingar. Þegar norskir ráðherrar mæta heim eftir að hafa setið EFTA-fundi eða fundi er tengjast ESB á einhvern hátt, er þeim mætt af norskum fjölmiðlum sem spyrja ítarlega um hvað hafi nú verið á seyði. Almenn umræða og þekking um ESB er því mun meiri meðal stjórnmálamanna, fjölmiðla og almennings í Noregi en nokkru sinni hér heima, þar sem umræðan hefur verið rykkjótt, klisjukennd og yfirborðsleg. Og þessi upplýsta umræða Norðmanna um ESB hefur skilað afdráttarlausri niðurstöðu; meirhlutinn er á móti inngöngu í ESB og fer andstaðan vaxandi. 

Umsókn Íslands að ESB setur strik í innanlandsmál í Noregi og gerir annað tveggja: neyðir norsku þjóðina til samninga um inngöngu í ESB þvert á vilja meirihluta landsmanna, eða neyðir þá til að semja á ný með einhverjum hætti um aðgang að mörkuðum ESB. Og þá út frá verri samningsstöðu en var uppi þegar þeir sömdu í samfloti með öðrum þjóðum og út frá sterkri stöðu um EES-samninginn á sínum tíma. Þau kjör sem Íslendingar gangast að, verða á matseðlinum fyrir Noreg. Ekki er örgrannt um að mörgum Norðmanninum  þætti Íslendingar launa þeim hjálpsemina með sérkennilegum hætti, fari svo. Og spurning hvort Íslendingum dugi að vísa til frændsemi þjóðanna og aldagamallar vináttu, næst þegar við þurfum á greiðasemi þeirra að halda.

Evran er sýnd veiði en ekki gefin

Bjargráðið evran er hvort sem utan seilingar amk næstu fjögur til fimm árin. Og það er skemmsti mögulegi tíminn sem það tekur að fá að gera evruna að íslenskum gjaldmiðli - að því gefnu að við uppfyllum þau skilyrði sem fyrir því eru sett. Og við erum sennilega fjarri þvi nú en nokkru sinni sl. 10 ár að uppfylla slík skilyrði. Fyrst yrðum við hvort sem er sett á "reynslutíma" í ERM II (European Exchange Rate Mechanism) þar sem gengi krónunnar fær svigrúm til að sveiflast 15% upp og niðurfyrir meðalgengi evrunnar. Takist okkur ekki að uppfylla öll skilyrði fyrir upptöku evrunnar, þá getum við verið í því limbói árum saman eða svo lengi sem þolinmæði ESB þrýtur ekki. Það má nefna að Bretland gekk inn í upphaflegt  ERM árið 1990 en hraktist út aftur 1992, eftir að spekúlantar á borð við Georg Soros gerðu áhlaup á breska pundið. Svo ekki er alveg víst hversu mikil vörn felst í því skjóli.

Þegar og ef Íslandi tekst loksins að uppfylla öll þau skilyrði sem krafist er fyrir upptöku evru, verður Ísland í allt annari stöðu efnahagslega en nú er og spurning hvort nokkur þörf sé á upptöku evrunnar. Íslendingum er það að sjálfsögðu í sjálfsvald sett að setja sjálfum sér þann ramma sem upptaka evrunnar krefst, ef að menn telja að það megi verða til bjargar í efnahagsmálunum. Og við getum auðvitað tengt krónuna evrunni og látið eins og við séum með hana, en það verður þá án frekara skjóls frá ESB. En við getum ekki tekið evruna upp einhliða eins og Svartfjallaland hefur gert, án þess að gera það í óþökk ESB.

Valdaafsal

Þá má ekki gleyma að forsenda upptöku Evrunnar er innganga í ESB og vegna þess hversu mikið valdaframsal er í því falið, krefst það breytinga á stjórnarskrá Íslands sem þarf að samþykkjast á tveimur þingum. Ætla mætti að landsmenn séu búnir að fá sig fullsadda af leyndarsamningum fyrir sína hönd. Þeim nauðarsamningi sem gerður var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, IMF, og Alþingi og landsmönnum var fyrst kynntur eftir að hann var undirritaður, fylgdu vissulega slæm kjör og valdaafsal. Þó er það valdaafsal aðeins til skemmri tíma, meðan að innganga í ESB þýðir valdaafsal til ófyrirséðar framtíðar. Forsenda umsóknar í ESB er því upplýst umræða.

Önum ekki úr öskunni í eldinn 

Íslendingum er því sennilega hollast að bíða með allar hugleiðingar um aðild að ESB að sinni. Það byggist á ofangreindum ástæðum, ekki á þeirri skoðun að Ísland eigi alla tíð að standa utan ESB. Hyggilegt er að ráða ráðum sínum með Noregi áður en lengra er haldið. Löndin eiga fleiri sameiginlega hagsmuni en þá sem sundra. Það er Noregi í hag að hafa Ísland með í ráðum og það verður ekki sagt um mörg önnur lönd í dag.

Hvort það sé Íslandi hollast að ganga inn í ESB síðar, er annað mál. Það þurfa landsmenn að ræða út frá fleiri forsendum en þeim að við eigum ekki annarra kosta völ. Mun fleiri álitamál þarf að skoða en evruna eina, fiskinn eða hið goðsagnakennda "evrópska matarverð". Til þess þarf tíma, opna umræðu meðal almennings, betri fjölmiðla og víðsýnni og upplýstari stjórnmálamenn.


Nauðsyn að OR haldi sjó

Nú ríður á að halda sjó í málefnum OR. Þrýstingurinn á að fallið verði í sama far og áður og að sameining REI og GGE verði látin standa, eykst greinilega dag frá degi. Þrýstingurinn kemur víða að frá aðilum sem allir hafa hagsmuna að gæta, persónulegra, pólitískra og peningalegra, eða blöndu af þessu þrennu. Sumir eru að reyna að bjarga andlitinu vegna fyrri synda, aðrir hugsa  til framtíðar. Hann kemur frá genginu sem upphaflega vélaði um málið af hálfu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og lagði línurnar um markaðsvæðingu vatns og orku á Íslandi, með lagasetningum, þvingaðri einkavæðingu á Hitaveitu Suðurnesja og sölu á hlut Landsvirkjunar á hlut fyrirtækisins í Enex. Sú sala leiddi til þess að Geysir Green Energy varð meirihlutaeigandi í Enex og samhliða því gerðist Landsvirkjun hluthafi í GGE. Þrýstingurinn kemur frá hægra liðinu í Samfylkingunni sem sér auknar einkaframkvæmir á vegum hins opinbera sem lausnarorð í anda Tony Blair, hann kemur frá þeim embættismönnum innan OR og HS sem lengi virðast hafa gengið með glýju í augum yfir markaðsvæðingu fyrirtækjanna sem þeim var treyst fyrir og ætluðu sér sumir að græða á henni duglega en þurfa nú að bjarga andlitinu. Hann kemur frá GGE og bönkum og fjármálafyrirtækjunum þar að baki, eins og Glitni og FLGroup, hann kemur frá hægri sinnuðum sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum og einstaklingum eins og Bjarna Ármannssyni. Og Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks og fulltrúi í einkavæðingarnefnd bættist í hópinn með greinarkorni í Mbl í morgun. Enginn af þessum aðilum tekur tillit til, hvað þá stýrist af, því sem kalla má almannahagsmuni.

Á móti stendur almenningur, sem skynjar að það er verið að hygla að gæðingum á hans kostnað, að verið er að ræna eignum í hans eigu, en hefur varla ráðrúm til að ná yfirsýn yfir atburðarásina.

Á móti stendur Morgunblaðið með nýuppgötvuð prinsipp sexmenninganna í borgarstjórnarflokki Sjálfsæðisflokksins að vopni og keyrir því á þeirri línu að ekki eigi að blanda saman hagsmunum hinnar opinberu almannaþjónustu og hagsmunum einkaaðila. Það er margt ágætt um þá línu að segja og óskandi að Morgunblaðið og Sjáfstæðisflokkurinn verði ekki búinn að gleyma henni þegar kemur að frekari einkavæðingu opinberrar almannaþjónustu og áformum um einkaframkvæmdir. Sem flokkurinn hefur lengi verið áhugasamur um og hefur nú fengið í lið með sér samstarfsflokk þar sem álíka hugmyndir eru í hávegum hafðar hjá vissu frammáfólki. En af þessari nýju stefnu Morgunblaðsins leiðir, hvað OR varðar, að frekari útrás fyrirtækisins er talin vera útilokuð.

Það er röng ályktun hjá Morgunblaðinu, en orsakast af því að blaðið gefur sér tvær forsendur fyrir útrás OR; annars vegar að hið opinbera geti ekki staðið fyrir slíkri útás fyrir eigin hatt en hljóti að gera það í slagtogi með einkaaðilum; hins vegar að hið opinbera fyrirtæki hljóti að vera leiksoppur sér slyngari peningamanna og því hljóti illa að fara. Báðar þessar forsendur eru rangar. Í fyrsta lagi getur hið opinbera staðið eitt að útrás, hvort sem er til að standa að fjárfestingum og rekstri með arðsemi í huga, - það sýnir útrásarstarfsemi OR í gegnum Enex. En það á ekki síður við þegar útrásin er gerð til uppfyllingar ákveðnum markmiðum sem ekki hafa fastar arðsemiskröfur af útlögðu fé eða mannviti sem forsendu. Þar má miða að því að uppfylla ákveðin loforð eða vilyrði stjórnvalda um þróunaraðstoð eða einfaldlega gagnkvæmt samstarf opinberra fyrirtækja á svipuðu starfssviði. Slík útrás er ekki án ávinnings fyrir hið opinbera fyrirtæki eða stjórnvöld.  Tengslanet eflist, þekking eykst, kunnátta og geta verður meiri. Fyrirtækið eflist, rétt eins og reynsla undangenginna ára sýnir, úrásin í gegnum Enex, samstarf um Jarðhitaskóla Sþ o.fl. í þeim dúr. Þar með eykst verðmæt fyrirtækisins og geta þess til að afla sér tekna, því að sjálfsögðu er það rétt hjá Morgunblaðinu að það er ekkert þvi til fyrirstöðu að Orkuveitan selji einkaaðilum sem öðrum, þjónustu byggða á kunnáttu, tengslum og orðspori sem fyrirtækið hefur skapað innan sinna veggja.

Hvað seinni forsenduna sem blaðið gefur sér áhrærir, þ.e.að opinber fyrirtæki hljóti að verða leiksoppur peningamanna ef reitum er slegið saman, er því auðvitað ekki að neita að sú hætta er vissulega fyrir hendi. Eins og í öllum viðskiptum. Hættan að opinber fyrirtæki fari illa út úr viðskiptum við óprúttna einkaaðila er ekki önnur en þegar einkafyrirtæki standa gagnvart samskonar aðilum. Það er alltaf sú hætta fyrir hendi að stjórnendur fyrirtækis, opinbers eða einkafyrirtækis, láti t.d. persónulega hagsmuni sína ganga fyrir heildarhagsmunum fyrirtækisins eða umbjóðenda þess. Fyrir slíkt eru stjórnendur yfirleitt látnir svara. Sú aukna hætta sem má segja að opinber fyrirtæki standa frammi fyrir er kannski tvenns konar; annars vegar að freista má stjórnenda þeirra með gylliboðum frá einkaaðilum sem hafa meira frjálsræði til að bjóða þeim hærri laun og bónusa og hins vegar eru einkaaðilar hugsanlega enn óprúttnari þegar kemur að viðskiptum við hið opinbera og líta á fyrirtækið sem auðvelt skotmark sem má mjólka.

Við þessu á hið opinbera aðeins eitt svar sem er bætt stjórnsýsla. Bætt stjórnsýsla sem er gegnsæ og opin og ekki síður stjórnsýsla sem byggir á skýrri stefnumörkun á siðferðilegum grunni sem miðast við almannahagsmuni. Þegar einkaaðilar vilja síðan nálgast OR með samstarf í huga, þá kynni þeir sér stefnuna og gera sér ljóst að samstarfið mun ekki hnika frá þeim grunnprinsippum. Ef einkaaðilar telja síðan að gallarnir við að ákvarðanir séu teknar á lýðræðisgrundvelli og að opin og gegnsæ stjórnsýsla sé viðhöfð, séu meiri en sá ágóði sem þeir telja sig geta fengið út úr samstarfinu, þá hverfa þeir einfaldlega frá.

Á móti stendur VG í borginni undir forystu Svandísar Svarvarsdóttur og þarf að standa af sér þennan þrýsting. Stjórnsýsluútekt og ný stefnumörkun fyrir OR var eðlilegt skref að taka og að mörgu leyti forsenda fyrir skynsamlegri ákvörðun til framtíðar. Vandinn er að þrýstingurinn eykst og taka þarf afdrífaríkar ákvarðanir fyrr en búast má við niðurstöðu úttekta og stefnumörkunar. Enn eitt vandamálið er að þær ákvarðanir sem nú er verið að þrýsta á um að verði teknar, munu eflaust hafa áhrif á niðurstöður stefnumörkunarinnar og stjórnsýsluathugunarinnar. Það er kannski ekki síst þess vegna sem nú er þrýst svo á. Hvað ber þá að gera í stöðunni? Um það verður fjallað nánar í næsta bloggi, en hér aðeins eitt lagt til á þessu stigi máls: Ekki láta undan þrýstingnum sem er settur á til að þvinga fram ákveðna niðurstöðu; sú niðurstaða snýst ekki fyrst og fremst um hvort OR á að vera í útrás eða ekki. Hún snýst um hvort við viljum markaðsvæða orkugeirann og vatnið. Hvað verður um hlutina í HS? Áður en tekin er ákvörðun um hvert skal sigla skipinu, þá þarf að sjá til þess að það reki ekki af stað á ný. Því þarf að varpa akkerum með OR í óbreyttu formi, óskiptri með REI sem sjálfstæðu dótturfélagi OR.

  

Er nú í lagi að virkja Þjórsá?

Félagi Össur sér, skv. tilvitnaðri frétt hér að neðan, ekkert nema jákvætt við að virkja skuli Þjórsá til að hún gagnist svokölluðum netþjónabúum en ekki álverum. Eftir stendur að virkja skal Þjórsá og eyðileggja vatnsmesta foss landsins. Sú aðgerð verður í sjálfu sér hvorki önnur né hætishótinu betri vegna þess að stinga á innstunginni í samband við Yahoo en ekki Alcoa eða annað álver.

Það er sennilega skömminni skárra út frá afleiddum umhverfisáhrifum virkjunarinnar að það skuli ekki eiga nota hana til að reka stórmengandi álver heldur leiða orkuna í minna mengandi stóriðju - en það breytir engu um að virkjun Þjórsár mun hafa sömu áhrif á lönd bænda, búrekstur þeirra, fjölskyldur og menningarlegt landslag Árnessýslu ekki síður en sýnilegt. Það mun hafa áhrif á alla Íslendinga og hvernig þeir upplifa land sitt og frumburðarrétt sinn.

Hafi maður yfirleitt snefil af tilfinningu fyrir landinu og virðingu fyrir rétti þeirra ábúanda sem nýjasta sjoppa Landsvirkjunar mun troða á, þá getur maður ekki verið þeirrar skoðunar að það sé ekkert nema jákvætt við þessa ákvörðun Landsvirkjunar. Fólk er ekki fífl, félagi Össur.

Á hinn bóginn er það umhugsunarefni af hverju Landsvirkjun lét sér ekki detta í hug fyrr að virkja mætti fyrir annað en álver. Eða að það væri bæði ákveðin skynsemi og réttlæti gagnvart komandi kynslóðum að halda aftur af virkjunum? Af hverju það lá svo á að nota alla orku landsins í stjórnartíð Friðriks Sophussonar? Af hverju Landsvirkjun, sem áhrifamesti aðili í landinu um hvernig nýta eigi orku landsmanna, skuli ekki hafa haft ögn sophistekeraðri skilning á takmörkum virkjanlegrar orku og ögn meiri samfélagslegan og mannlegan skilning á hvernig mætti nýta hana best í þágu þjóðarinnar og komandi kynslóða. Réði persónulegur metnaður stjórnenda Landsvirkjunar um að "standa sig vel í starfi" meiru en heilbrigð langtímasjónarmið? Sjónarmið sem virkilega hæfir stjórnendur virkjanaframkvæmda á Íslandi hefðu átt að hafa í huga? Spyr sá sem ekki veit...


mbl.is Össur: Ekkert nema jákvætt við ákvörðun Landsvirkjunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KBBanki sannar nauðsyn Íbúðalánasjóðs

Kaupþing Banki hefur nú staðfest að gagnrýni þeirra sem óttuðust afleiðingar þess að bankarnir yfirtækju húsnæðislánamarkaðinn og hrektu Íbúðalánasjóð út í horn. KBBanki hefur sýnt fram á að bönkunum er ekki treystandi fyrir þessum markaði.

 Í frétt RÚV í kvöld segir: "Fasteignakaupendur á næstu mánaðamótum ekki yfirtekið húsnæðislán frá Kaupþing banka nema greiða mun hærri vexti en þegar lánið var tekið. ... Óttast er að hinir bankarnir fylgi í kjölfarið." Málið er sem sagt þannig vaxið að hafi ég glapst til að taka lán hjá KBBanka á þeim lágu gylliboðavöxtum sem þeir buðu í upphafi, og vil selja íbúðina mína, þá má kaupandi hennar ekki yfirtaka lánið á þeim sömu vöxtum og ég tók það á. Þeir verða að gjöra svo vel að yfirtaka lánið á hærri vöxtum, þeim vöxtum sem bankinn hefur ákveðið að gildi í dag.

Lánið sem ég tók og ber skylda til að greiða af skv. umsömdum skilmálum og verða gerður upptækur ella, er ekki lengur mitt þegar ég vil selja íbúðina mína. Nei, þá áskilur bankinn sér rétt til að ganga í milli og gera þeim sem vill taka lánið yfir að greiða nýja og allt aðra vexti af láninu.

Það ber að þakka þeim stjórnmálamönnum sem stóðu vörð um Íbúðalánasjóð og vöruðu við afleiðingum þess hvað kynni að gerast ef bankarnir tækju markaðinn yfir, eins og þeir hafa gert ítrekaða kröfu um. Og bankarnir hafa ekki dregið dul á að íbúðalánasjóður er þeim mikill þyrnir í augum. Nú skiljum við enn betur af hverju. Eina ráðið er að styrkja Íbúðalánasjóð og eiga ekki viðskipti við banka sem hefur aðeins áhuga á eigin gróða.


mbl.is Breytt kjör við yfirtöku íbúðalána Kaupþings banka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hringavitleysa eða djúphygli?

Einn af þeim þáttum sem merkilegir eru í OR/REI/GGE málinu en hefur hlotið litla umfjöllun, er sala Landsvirkjunar á hlut sínum í Enex til GGE, sem greiðist að hluta til með hlutabréfum í GGE þannig að Landsvirkjun er orðinn hluthafi í GGE! Bíðum við!? Hver tekur ákvörðun um að selja GGE þessi bréf á þessum tímapunkti? Friðrik Sóphusson með samþykki ríkisstjórnarinnar? (LV er enn í eigu ríkisins, þið munið!?) Hver tekur ákvörðun um að Landsvirkjun verði hluthafi í GGE? Var ekki Reykjavíkurborg skikkuð til að selja hlut sinn í LV, svo að hagsmunir borgarinnar rækjust ekki á vegna samkeppni OR og LV? Og nú er LV orðin hluthafi í GGE og gerir fyrirtækið greinilega ráð fyrir því við kaupin, að GGE muni sameinast REI, sbr frétt af vef LV hér að neðan. Þar með væru „samkeppnisaðilarnir“ OR og LV orðnir sameiginlegir hluthafar í orkufyrirtæki sem þar að auki átti að gleypa Hitaveitu Suðurnesja! Þetta minnir á þegar Laddi söng um árið: „Ég er afi minn....!“

Er þetta hringavitleysa af ofurstærð eða liður í áformum um að einkavæða opinber fyrirtæki með þeim hætti að blanda saman hagsmunum og eigum þeirra við einkageirann þannig að Bakkabræður vita ekki lengur hvaða fótur er hvurs? En alls staðar glittir í Sjálfsstæðismenn og svo stöku framsóknarmann. Nú er bara að draga fram stafinn og sjá hvort að fleiri eigi ekki eftir að kippa að sér fótunum, þannig að greiðist úr flækunni.

Geysir Green Energy kaupir hlut Landsvirkjunar í Enex
 
Föstudagur 12. október 2007
Geysir Green Energy (GGE) og Landsvirkjun hafa undirritað samkomulag um kaup þess fyrrnefnda á 24,35% hlut Landsvirkjunar í Enex. Enex er leiðandi fyrirtæki í þróun jarðvarmaverkefna og vinnur nú að byggingu jarðvarmavirkjana í Evrópu, Bandaríkjunum, Mið Ameríku og Kína. Eftir kaupin á GGE um 70% í Enex og eftir fyrirhugaðan samruna Reykjavik Energy Invest (REI) og GGE mun sameinað félag ráða yfir um 97% hlutafjár í Enex. Stefnt er að því að samþætta starfsemi Enex við sameinað félag GGE og REI.Kaupverð hlutar Landsvirkjunar er 996 milljónir króna og að helmingshlut greiddur í reiðufé og helmingur með hlutafé í Geysi Green Energy. Við fyrirhugaðan samruna GEE og REI mun Landsvirkjun eignast hlut í REI á genginu 2,77, sem jafngildir helming af kaupverðinu. Landsvirkjun hefur síðan rétt til að selja bréf sín í REI eftir sex mánuði á sama gengi. Eins og áður hefur verið tilkynnt er sá samruni háður ákveðnum skilyrðum, m.a. samþykki samkeppnisyfirvalda. Ef skilyrði samrunans eru ekki uppfyllt munu seljendur fá söluverðið greitt að fullu í reiðufé.Þá hefur GGE einnig keypt 2% hlut Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen í félaginu.

mbl.is Björn Ingi segir að forsætisráðherra hafi vitað um samruna REI og GGE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband