Eigum við að gefa vatnið frá okkur?

Rétt stjórnsýsla er að sjálfsögðu feikilega mikilvæg, en varast ber að láta þá sem misbeittu valdi sínu varðandi fundarsköp komast á sama tíma upp með að gera þá umræðu að aðalatriði í þeirri atburðarás sem nú á sér stað. Aðalatriðin snúa að hverjir eiga náttúruauðlindindirnar, hvert skal rekstrarform almannaþjónustunnar vera og hver er almannahagur í þessu máli. Um það verður bloggað hér síðar í dag. En í millitíðinni vil ég draga athygli lesanda að einum grundvallarþætti í málinu og þá hvaða skoðun 14 félagasamtök; bróðurpartur verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, þjóðkirkjan, Öryrkjabandalagið, helstu náttúruverndarsamtök á Íslandi og fleiri, hafa á hvernig líta beri á vatn. Þar kemur vilji þjóðarinnar sennilega einna skýrast fram á einu höfuðatriðinu í yfirstandandi atburðarrás. Gefið ykkur því fimm mínútur til að lesa yfirlýsinguna Vatn fyrir alla!

 Vatn fyrir alla.

Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.

Vatn er takmörkuð auðlind og almannagæði sem er undirstaða alls lífs og heilbrigðis. Vatn er frábrugðið öðrum efnum að því leyti að það finnst náttúrulega í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn.

Undirrituð samtök telja að aðgangur að vatni sé grundvallarmannréttindi, eins og kveðið er á um í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur undirgengist. Sérhver maður á því rétt á aðgengi að hreinu drykkjarvatni og vatni til hreinlætis og heimilishalds.

Líta ber á vatn sem félagsleg, menningarleg og vistfræðileg gæði sem ekki má fara með eins og hverja aðra verslunarvöru.

Nýting vatns skal vera sjálfbær og aðgengi að því tryggt með lögum fyrir núlifandi kynslóð og kynslóðir framtíðarinnar. Það er skylda stjórnvalda að tryggja þegnum sínum þennan rétt án mismununar.

Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja verndun vatns sem náttúruverðmæta sem og að tryggja hollustu og dreifingu vatns til allra þjóðfélagsþegna með fjárfestingu í mannvirkjum og mengunarvörnum. Vatnsveitur verði því reknar á félagslegum grunni, taki mið af almannahagsmunum og tryggi rétt einstaklinga til nægilegs hreins vatns til drykkjar og hreinlætis á viðráðanlegu verði. Það er jafnframt hlutverk stjórnvalda að tryggja að við nýtingu vatns verði öðrum náttúruverðmætum ekki spillt.

Stjórnvöldum ber að tryggja almenningi aðgengi að öllum upplýsingum er varða verndun og nýtingu vatns og stuðla að aukinni virkni almennings og meðvitund um mikilvægi vatns, náttúru og réttrar umgengni við landið.

Vegna mikilvægis vatns fyrir íslenska þjóð og lífríki landsins telja undirrituð samtök nauðsynlegt að fest verði í stjórnarskrá Íslands ákvæði um skyldur og réttindi stjórnvalda og almennings hvað varðar réttindi, verndun og nýtingu vatns. Lög og reglugerðir um nýtingu vatns taki því mið af ákvæðum sem viðurkenna rétt einstaklinga til vatns sem og lögum er varða verndun vatns og náttúru.

Til að tryggja skilvirka verndun og nýtingu vatns ber stjórnvöldum að skipuleggja stjórnsýslu þannig að eðlilegt jafnvægi sé á milli þessara þátta og réttar einstaklinga til aðgengis að vatni.

BSRB, Kennarasamband Íslands, Landvernd, MFÍK, Náttúruverndarsamtök Íslands, SÍB, Þjóðkirkjan, Ungmennafélag Íslands, Unifem á Íslandi, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Öryrkjabandalag Íslands, Landssamband eldri borgara, ASÍ.


mbl.is Grundvöllur fyrir höfðun dómsmáls til ógildingar eigendafundar í OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vilji er allt sem þarf

Orkuveita Reykavíkur ætlar að leggja 20 milljarða sem kjölfestufjárfestir í Reykjavik Energy Invest. Fyrir 20 milljarða má hækka laun 500 starfsmanna hjá Leikskólum Reykjavikur um 238 þúsund krónur á mánuði næstu tíu árin! Fyrir sömu upphæð, 20 milljarða, má hækka ellilífeyri úr 24.831 krónu í 122.000 krónur fyrir eitt ár. Svona til að setja hlutina í samhengi.

Orkuveita Reykjavikur er fyrirtæki í eigu borgarinnar og undir stjórn hennar. Af hverju eiga oddvitar borgarstjórnarmeirihlutans, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Björn Ingi svona auðvelt að samþykkja 20 milljarða fjárfestingu OR í útlöndum, en geta ekki borgað umönnunarstéttum mannsæmandi laun?

 Er enginn sem kann að reikna arð af tryggu uppeldi barna á leikskólum, af ánægðu starfsfólki, af því að börn komist í leikskóla og foreldrar í vinnuna?


mbl.is Manneklu mætt með ráðningu eldri borgara í umönnunarstörf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Setjum hlutina í samhengi

Hvað má gera fyrir þá 20 milljarða króna sem Orkuveita Reykjavíkur ætlar að leggja sem kjölfestufjárfestir í dótturfyrirtæki sitt, Reykjavík Energy Invest, úr sameiginlegum sjóðum okkar Reykvíkinga? Þeirri spurningu velti ég fyrir mér hér á blogginu í byrjun september og var þá hugsað til launakjara umönnunarstétta og lífeyris eldri borgara. Skoðum þetta reikningsdæmi:

 Hjá Leikskólum Reykjavíkur starfa 611. Þar af eru leikskólakennarar 518 og 70% þeirra eru í 70-100% starfi. Leikskólastjórnendur eru 93 og allir í fullu starfi. Til einföldunar skulum við gefa okkur að þetta séu 500 manns sem fengju hækkun í krónutölu af 20 milljarða framlagi. Gefum okkur að launatengd gjöld séu 40% ofan á greidd laun.

Þá má hækka tekjur allra um 2.380.952 krónur á mánuði í heilt ár.

Eða það mætti hækka tekjur allra þessara leikskólakennara um 238.095 kr. á mánuði næstu 10 árin!

Ætla má að þó ekki færi nema hluti af þessum gríðarlegu fjármunum til leikskólakennara sæi strax fyrir endann á mönnunarvandamálum, betur menntað fólk leitaði að vinnu í leikskólunum, ummönnun barnanna okkar yrði jafnvel enn betri, börnin kæmust á leikskóla og foreldrar í vinnuna. Er ekki einhver reiknimeistari tilbúinn að reikna arðinn af þeirri fjárfestingu?

Lítum þá á ellilífeyrinn. Áætlað hefur verið að það kosti 500 m.kr. á ári að hækka grunnlífeyri elli- og örorkulífeyrisþega um 1000 kr. á mánuði. Lauslega áætlað er fjöldi ellilífeyrisþega um 27.500 manns, svo kostnaður vegna hækkunar til þeirra er 330.m.kr.

Þannig mætti hækka grunnlífeyri ellilífeyrisþega úr 24.831 krónu, sem hann er nú og upp í rúmlega 85 þúsund krónur á mánuði og er þá ekki tekið tillit til tekjuskatta af þeirri hækkun upphæðar.  Þannig fengju allir ellilífeyrisþegar yfir 60 þúsund króna hækkun lífeyris á mánuði fyrir skatta. Beinir skattar á þessa tekjuaukningu eru 21.700 kr, svo hækkun lífeyris á mánuði eftir skatta er 37.867 kr.

Ef tekið er tillitit til skatttekna ríkisins af þessari aðgerð má sjá að hækka má ellilífeyri um 97 þúsund krónur á mánuði fyrir þessa 20 milljarða. Þannig yrði ellilífeyrir ekki 24.831 kr. heldur tæpar 122.000 krónur á mánuði. Hækkun á ráðstöfunartekjum ellilífeyrisþega yrði yfir 60.000 kr á mánuði.

Hraðar hendur

Það gengur hratt fyrir sig samrunferlið hjá samkeppnisaðilunum hér á landi – og mun hraðar en í Evrópu!  

Hafa ber í huga hugmyndafræðina sem Sjálfstæðismenn (og Framsóknarmenn) hafa brúkað um að þessum fyrirtækjum sé nauðsyn á að hafa „grunn“ heima fyrir til að geta sótt út í heim. Þ.e. að þau hafi hér aðgang að orkulindum og væntanlega vatnveitum, hitaveitum og eftir atvikum raforku, til þess að geta „fast land undir fótum“ út í hinum stóra hála heimi samkeppninnar.

Kenningin er að þessi grunnur sé þeim nauðsynlegur til að þróa rannsóknir og tækni... væntanlega eigum við  sem sagt að vera nokkurs konar tilraunadýr fyrir útrásina og sparibaukur sem þeir geta gengið í hér heima til að fjármagna hana.

En hver er staðan núna? Unnið er að því að breyta Orkuveitu Reykjavíkur í hlutafélag. Borgarfyrirtækið er búið að slá öllum útrásarverkefnum sínum saman undir einn hatt í hlutafélaginu Reykjavík Energy Invest, þar á meðal hlut þess í Enex hf, sem það á með Geysi Green Energy ef mig misminnir ekki. Og nú renna saman hlutir okkar Reykvíkinga í OR via REI og gulldrengjanna í Goldman Sachs og FL-group sem og Glitnis.

Þannig er búið að hræra vendilega í einn graut saman hagsmunum sameignarfélagsins í eigu okkar og einkaframtaksins. Og líklegt er að um leið og meirihlutinn í borginni er búinn að samþykkja hlutafélagavæðingu OR þá mun samruninn halda áfram og áður en nokkur maður veit erum við farinn að borga rafmagns, hita og vatnsreikninga til Hannesar, Ólafs Jóhanns, Bjarna Ármannssonar og félaga. Og það mun gerast áður en að félagi Össur verður búinn að setja óskapnaðnum nokkrar hömlur, áður en nokkur umræða hefur í raun farið fram um hver eigi að eiga náttúruauðlindirnar sem nú eru t.d. í höndum OR og okkar Reykvíkinga.

Sé Samfylkingunni því alvara með að vernda náttúruauðlindirnar og halda þeim í þjóðareign og setja á auðlindagjald, þá þarf greinilega að grípa í taumana ekki seinna en strax. Annars verður farið með þá gömlu vísu að þessir aðilar hafi verið orðnir eigendur að náttúruauðlindum áður en lög kváðu á um annað og ekki hægt að breyta því nema að greiða þeim skaðabætur fyrir!

Skaðabætur fyrir að þeim hafi tekist að sigla fram fyrir lýðræðislega ákvarðanatöku alþingis með liðsinni Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar í borgarstjórn. Mun það verða raunin? Varla fór Samfylkingin í ríkisstjórn til að láta einkaframtakið hirða orkuveiturnar og náttúruauðlindirnar?


mbl.is Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Invest að sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öfgahugsun

Á sínum tíma þegar hægri frjálshyggjuöfgamennirnir eins og Milton Friedman og Heyek hófu upp raust sína um að markaðurinn ætti að sjá um þjóðfélagið og afnema ætti hið hræðilega ríkisvald, var almenningur á því að hér færu geggjaðir menn. Hver átti að vera sjálfum sér næstur og afleggja skyldi alla samstarfs- og samhjálparhugsun sem birtist í nafni hins opinbera; sjúkrahús, skólar, fangelsi, lögregla skyldi fara á markaðstorgið.  Margrét Thatcher orðaði þessa grunnhugsun snyrtilega þegar hún sagði: "Það er ekkert til sem heitir fjölskylda" og átti þá við að eina fyrirbærið sem gilti væri einstaklingurinn á markaðstorginu. Eiturlyf átt að selja á frjálsum markaði - allt tal um annað var forræðishyggja. Þetta var heimsmynd sem fólki fannst og finnst ógeðfelld.

En þessir öfgamenn áttu sér öfluga talsmenn og fjárhagslega bakhjarla á alþjóðavísu sem sáu sér hag í því að fá þessa "fræðimenn" í lið með sér og söguna þekkjum við síðan. Hannes Hólmsteinn var settur í trúboðið og Davíð, Frikki Soph og Björn Bjarnason settust í valdastóla undir slagorðinu "Báknið burt". Smám saman hefur verið sótt að almannaþjónustunni og beitt hinum ýmsu röksemdum eftir sem hæfa þykir. Allt átti að vera betra í höndum einkaaðila, meiri skilvirkni, betri þjónusta o.s.frv. - það þurfti ekkert að ræða það frekar né færa fyrir því haldbær rök. Reynslan hefur hins vegar sýnt að almannaþjónustunni er síst betur komið í höndum einkaaðilanna. Þeir hafa önnur markmið en almannaþjónusta hins opinbera - einkaaðilar vilja græða á rekstrinum. Þeim hefur mistekist með vatnið, þeim hefur mistekist með rafmagnið, þeim hefur mistekist með heilbrigðisgeirann, það er nóg að líta til Bandaríkjanna til að átta sig á því.

En það hafa líka verið fleiri rök fyrir því að almannaþjónustan sé í höndum hins opinbera en að það sé efnahagslega besti kosturinn sem veiti almenningi bestu þjónustuna. Ein slíkra raka hafa að gera með vald og beitingu þess. Þar hefur ríkið haft "einkarétt" til valdbeitingar. Fangelsi eru hluti af því kerfi - ríkið framfylgir dómum sem svipta menn frelsinu. Það er ekki verslunarvara. Það hefur ríkt samstaða um að fangelsun manna og afdrif þeirra á þeim tíma sé allt annað business. En Björn Bjarnason hangir greinilega enn í gamalli öfgahugsun. Hann vill kannski setja eiturlyfin á frjálsan markað líka?


mbl.is Spurning hvort einkaaðilar eigi að koma að rekstri fangelsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræðið í hendur dómstólanna

Hér á greinilega að leggja spurningar er varða grundarvallarmál og á að leysa með lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku, þ.e. hverjir eiga vatnið, þjóðin eða einkaaðilar, í hendur dómstólanna. Þetta er öfugþróun sem víða má sjá merki út í hinum stóra heimi og er til vitnis um hvernig sífellt löggjafinn og framkvæmdavaldið hafa gengið erinda peningavaldins á kostnað hagsmuna alþýðu manna og um leið grafið undan lýðræðinu sem þessir aðilar eiga að vera fulltrúar fyrir!  
mbl.is Ágreiningi um verðmæti vatnsréttinda skotið til dómstóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á Sæbrautinni á sextíu

Á hverjum morgni ek ég Sæbrautina – á sextíu. Og það er ekki af því ég þykist öðrum borgurum löghlýðnari og fylgi því í blindni merkingum um 60 km hámarkshraða. Nei, ástæðan er einfaldlega sú að aki ég hraðar lendi ég á rauðu ljósi á næstu gatnamótum, á sextíu sigli ég í rólegheitum hiklaust á grænu alla leið. Ég er því farinn að líta hámarkshraðaskiltin þar nýjum augum – þau eru ekki lengur merki um boð og bann sem eins gott er að fylgja því annars vofa yfir sektir. Nú horfi ég á þau sem leiðbeiningu um hvernig ég kemst greiðast leiðar minnar – sem virkar. Það sem meira er að á síðasta ári hef ég orðið var við að aðrir bílstjórar eru búnir að átta sig á þessu sama og framúrakstur er því sífellt fátíðari. Ég skora því á lögreglu og borgaryfirvöld að tryggja fleiri slíkar greiðar aksturlínur og auglýsa þær rækilega.

Og yfirleitt bæta merkingar um hámarkshraða – ein af rótum þess að ökumenn halda sig ekki innan leyfilegs ökuhraða er að kerfið er alls ekki gagnsætt. Á stuttum kafla getur maður ekið um götur þar sem hámarkshraði er 30 km, 50 km, 60 km – án þess að það séu nein augljós merki þess að vænta megi breytilegs hámarkshraða, eins og þess að menn hafi flutt sig af smágötum yfir á vegi sem eru augljóslega gerðir fyrir hraðari umferð. Þegar fólk kemst að því að það getur notað götumerki um hámarkshraða sem leiðbeiningu um hvernig það kemst hraðast yfir – þá er ekki lengur ástæða til að þenja bílinn upp í hundraðið á milli ljósa. Hafi það nokkru sinni verið raunin.


„Allt sem einu sinni hefur verið leyft má ekki banna – nema að greiddar séu fyrir skaðabætur.“

Hugtakið frelsi er eitt af höfuðhugtökum nútímans. Það birtist í ýmsum útgáfum og í nafni þess eru framin góð verk jafnt sem hræðileg. Hægri menn vildu meina að vinstra liðið vildi banna allt sem ekki væri sérstaklega leyft. Þeir hefðu sjálfir fallegri sýn, allt ætti að vera leyft sem ekki væri sérstaklega bannað. Nú í seinni tíð virðist ný útgáfa vera að skjóta rótum: „Allt sem einu sinni hefur verið leyft má ekki banna – nema að greiddar séu fyrir skaðabætur.“

Er þetta enn eitt dæmið um breytt gildi í þjóðfélaginu, þar sem allt er lagt á mælistiku peninganna og lýðræðið neyðist til að aðlaga sig þörfum nýrra valdhafa í þjóðfélaginu? Er þetta ekki undarlegur snúningur á lýðræðinu?

 


Laugardagsþátturinn - In memoriam

Þá er genginn einn albesti þátturinn á öldum ljósvakans - Laugardagsþáttur RÚV. Þar fengu ýmis brennandi samtímamál góða umfjöllun og ítarlega. Mál sem ættu að vera mun fyrirferðarmeiri í fjölmiðlum, ef allt væri með felldu, en fá því miður litla sem enga umfjöllun. Þar hefur einn besti en um leið hógværasti fréttamaður RÚV, Þorvaldur Friðriksson, farið í broddi fylkingar. Blaðamannafélag Íslands hlýtur að taka framlag hans sterklega til skoðunar næst þegar kemur að úthlutun blaðamannaverðlauna. Ákvörðun Sigrúnar Stefánsdóttur um að leggja þáttinn niður er með öllu óskiljanleg og væri fróðlegt að heyra hana gera grein fyrir þeirri ákvörðun.

Að vísu kemur ágætis útvarpsmaður í skarðið, Hjálmar Sveinsson með þátt sinn Krossgötur og er vonandi að honum takist að fylla í fótspor Þorvalds og félaga. En það er skrítið að ekki skuli vera til pláss í dagskrá RÚV fyrir báða þessa þætti. Dagskrá RÚV hefði verið betri fyrir vikið.


Formsatriði fullnægt?

Hér hefur verið velt vöngum yfir hvað þurfi að gera eigi að koma í veg fyrir að einkafyrirtæki, innlend eða erlend fari með einokun á sölu á grunnþjónustu til almennings, drykkjarvatni, heitu vatni og rafmagni og/eða að náttúruauðlindum sé úthlutað til þeirra á silfurfati. Hér er sú þula endurtekin stuttlega, en í meginmáli  farið yfir af hverju varasamt er að láta vatnsveitur, hitaveitur og rafmagnsveitur vera á hlutafélagaformi.

 

Til að svo megi verða verður að gera eftirfarandi: Setja lög um náttúruauðlindir í eigu þjóðarinnar. Reiknað auðlindagjald renni að stærstum hluta til þjóðarinnar í sérstakan sjóð en sómasamlegur hluti þess renni til landeiganda fyrir afnot af vatni, heitu, köldu eða til rafmagnsframleiðslu. Tryggja að ríki eða sveitarfélög fari ein með einkarétt á heitu og köldu vatni og rafmagni sem selt er og dreift til almennings. Það þýðir að breyta verður lögum um hitaveitur, vatnsveitur og rafmagnsveitur. Afnema verður hlutafélagaform vatnsveitna og hitaveitna og þær verði reknar sem opinber fyrirtæki. Undið verði ofan af raforkulögum frá 2003 og kostir lárétts samruna fái að njóta sín. Óháð eftirlit verður hins vegar stóreflt og viðmiðunarkröfur með hliðsjón af almenningshagsmunum og náttúruvernd gerðar skýrari. Fylgja þarf settum lögum um náttúrvernd og tryggt að náttúran og almannahagsmunir njóti forgangs.

 

Það er til önnur mun lakari leið, sem kann engu að síður virðast álitlegur kostur við fyrstu sýn. Hlutafélagaformið verður látið standa með skilyrðum og því sagt sem svo: „Ef hlutafélagaformið á að standa, þannig að einkaaðilar geti keypt sig inn í hin opinberu veitufyrirtæki, þá verði hinni hlutafélagavæddu veitustofnun aðeins veitt tímabundið sérleyfi til rekstrar. Þjóðin (ríkið/sveitarfélögin) lætur aldrei frá sér eignarréttinn á náttúruauðlindinni. „

Formsatriðum er þá fullnægt, eða hvað?

 

Af hverju er þessi leið ekki í góðu lagi, svona með hliðsjón af sölu hluta í SH hf? Hægt er að stafhæfa að þessi leið sé ekki góð vegna þess að reynslan sýnir það.

 

Í fyrsta lagi hafa veitur í eigu hins opinbera annan tilgang en séu þær í eigu einkaaðila. Annars vegar eru þær reknar með almannahagsmuni fyrir augum, hins vegar til að skila hluthöfum sínum ágóða. Jafnvel þó svo að í upphafi séu sett skilyrði um að einkafyrirtæki verði að gæta almenningshagsmuna, þá sýnir reynslan að þau leggja ekki út í kostnað nema að tryggt sé að þau fái greitt fyrir þannig að krónan þeirra skili lágmarksávöxtun. Þetta þýðir að þeir tekjuminnstu lenda út undan, þeir sem búa á jaðarsvæðum lenda út undan. Og eftir að einkafyrirtækið hefur komið sér fyrir í innviðum hins opinbera fyrirtækis, þá fer það að gera kröfur um endurskoðun samninga. Það geti ekki haldið úti þjónustu fyrir þessa aðila, það sé því of dýrt. Og hver fær þá að hlaupa undir bagga og bera kostnaðinn af dýrasta hluta veitukerfisins? Ríkið og sveitarfélög að sjálfsögðu. Eftir situr þá einkafyrirtækið sem alls ekki sinnir almannahagsmunum, heldur fleytir rjómann ofan af.

 

Í öðru lagi liggur fyrir að þó svo hlutafélagi yrði veitt tímabundið sérleyfi, þá yrði gerð krafa um leyfi svo áratugum nemur. Þar sem nýja fyrirtækið er byggt á grunni hins opinbera fyrirtækis og yfirtekur starfsmenn, uppsafnaða reynslu og þekkingu, viðskiptasambönd, tæki og tól og fasta fjármuni að þá er ekki lengur öðru fyrirtæki til að dreifa á starfssvæðinu. Tímabundið sérleyfi yrði því aðeins nafnið eitt, í reynd er fyrirtækið komið með nánast óafturkræft einkaleyfi.

 

En áhugamenn um einkavæðingu hafa haft tilhneigingu til að líta fram hjá svona smáatriðum og segja að tímabundið sérleyfi yrði ekki veitt nema með ströngum skilmálum um afturköllun leyfis, standist kröfur ríkisins/sveitarfélagsins til fyrirtækisins um almannaþjónustu ekki. Og hver ætlar að setja svo skýrar kröfur um þau efni að dýrir lögfræðingar geti ekki um þau deilt? Og hvaða eftirlitsstofnun mun verða það öflug og sjálfstæð að hún muni afnema einkaleyfi „Orkuveitu Reykjavíkur Geysis Goldmann Inc“ á sölu á heitu og köldu vatni af því að verðið er orðið hærra en í upphafi var ætlað eða að einhverjir sem ekki eru borgunarmenn séu aftengdir kerfinu? Og eins og áðan var bent á, hver á að hlaupa í skarðið? Fyrirtækið mun hafa á að skipa öllum fyrri starfsmönnum OR og ekki liggur annað fyrirtæki á lager sveitarfélagsins tilbúið að taka við?

 

Ef menn væru hins vegar harðákveðnir að ná aftur í hið opinbera fyrirtæki úr höndum hins ótæka einkafyrirtækis, þá má búast við að það gerði kröfur um skaðabætur fyrir tap á væntanlegum ágóða sem það hugðist ná inn á eftirstandandi samningstímabili. Mörg dæmi eru um slík málaferli og halda einkafyrirtæki þeim úti í áravís fyrir alþjóðlegum viðskiptadómstólum ef því er að skipta.

 

Hlutafélagavæðing og markaðsvæðing opinberra veitufyrirtækja er því ekki raunhæfur kostur fyrir almenning. En einkavæðing og yfirtaka opinberra veitufyrirtækja er hins mjög áhugaverður fjárfestingarkostur fjáraflamanna. Þeir hafa neytendur sem komast hvergi, þeir hafa tryggingaraðila í formi hins opinbera ef þeir skyldu klúðra málinu. Sem á eiginlega ekki að vera hægt á Íslandi þar sem almenningur hefur þegar greitt fyrir og byggt upp frábærar veitur sem allir njóta. Eina sem fjármálamennirnir þurfa að passa sig á er að ganga ekki fram af þjóðinni í að rukka inn gróðann. Reynslan hefur hins vegar sýnt að íslenskir neytendur eru seinþreyttir til vandræða og ef það heyrist kurr úr horni, má alltaf fjölga sértilboðum þangað til að kerfið er orðið gjörsamlega ógagnsætt. Við höfum þegar reynslu af slíku.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband