17.9.2007 | 15:51
Stenst salan á hlut ríkisins í HS hf lög?
Fátt er meira rætt þessa dagana en hlutafélagavæðing OR og sala á hlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf, til Geysis Green Energy. Þar með hafi opnast leið fyrir erlend stórfyrirtæki og einkaaðila að náttúruauðlindum þjóðarinnar og einkarétti á nýtingu á þeim eftir atvikum. Hvernig gerðist þetta spyrja menn? Stenst þetta lög?
Ferlið hefur verið þannig að opinberar veitur í eigu sveitarfélaga hafa haft einkarétt á nýtingu náttúruauðlinda til hagsmuna fyrir almenning. Þeim er síðan breytt í hlutafélög og oft gefið leyfi til framsals einkaréttarins til hlutafélagsins. Þegar aðrir aðilar kaupa sig síðan inn í hlutafélagið virðist nú gengið út frá að þeir eignast einkaréttinn sem upphaflega var veittur á þeim forsendum að hann væri í höndum opinberra aðila í almannaþjónustu.
Þetta er eðlilegt, segja þeir sem alltaf vildu markaðsvæða grunnþjónustuna, Hitaveita Suðurnesja hf er eins og hvert annað hlutafélag. Nýjir hluthafa kaupa hlut í því sem fyrirtækið hefur upp á að bjóða, þó svo að í þessu tilfelli sé um að ræða náttúruauðlindir þjóðarinnar. Þetta er óeðlilegt, segja þeir sem telja ekki rétt að náttúruauðlindir gangi kaupum og sölum. Allra síst fyrir þá sök að skammsýnir (eða framsýnir?) áhugamenn um hlutafélagaform í fyrri ríkisstjórnum, klæddu opinber orkufyrirtæki í þann búning undir formerkjum "liprari stjórnunarhátta" og náttúruauðlindirnar virðast hafa slæðst með í kaupunum, eins og fyrir tilviljun.
Það er ljóst að hugsunin var alltaf sú í gildandi lögum um hitaveitur að sveitarfélögin færu með einkaréttinn og í þeim tilfellum sem mátti framselja hann, var það háð skilyrðum. Um framsal einkaréttar á hitaveitu segir t.d. í orkulögum að hann megi aðeins framselja tímabundið. (Einkaleyfi það, sem um ræðir í 27. gr.,2) getur sveitarfélag, með samþykki ráðherra, framselt einstaklingum eða félögum að einhverju eða öllu leyti um ákveðið tímabil í senn með þeim skilyrðum og kvöðum, sem ástæður þykja til.) Því er spurt; til hvers langs tíma keypti Geysir Green Energy (GGE) sig inn í Hitaveitu Suðurnesja? Fylgdu einhverjar kvaðir sölunni? Er salan lögum samkvæmt?
Í lögum um HS hf frá 2001 var sérstaklega tekið fram að ríkissjóður mætti leggja hlut sinn inn í fyrirtækið; ekki var vikið orði að því að ríkissjóður mætti selja sinn hlut með þeim tilmælum einkavæðingarnefndar að allir mættu kaupa nema opinberir aðilar! Er salan til GGE samkvæmt anda laganna? Í lögum um HS er talað um að einkaleyfið sé veitt Hitaveitu Suðurnesja hf. til starfrækslu hita- og rafveitu innan sveitarfélaga, sem aðild eiga að fyrirtækinu.. Hvergi er ræddur möguleikinn á að einkaaðilar gætu öðlast þennan einkarétt með kaupum á hlutabréfum í HS hf.
Er ekki augljóst að hér er verið að fara á svig við ætlun löggjafans, nema það hafi alltaf verið ætlunin eins og VG og aðrir hafa löngum varað við, að með hlutafélagavæðingu sé verið að setja hið opinbera fyrirtæki á markað? Hlutafélagalögin blífi og ekkert tillit verði tekið til heitstrenginga um annað? Er furða nema menn spyrji hvað verði um OR hf, ef sú gerð fær samþykki borgarstjórnar?
Það virðist alla vega ljóst að ríkisstjórn sem ákveður að selja hlut sinn í HS hf og gerir að skilyrði að hann verði aðeins seldur einkaaðilum, skákar í skálkaskjóli hlutafélagalaganna og ekki verður betur séð en hún fari á svig við gildandi lög, orkulög og sérlög um SH hf.
14.9.2007 | 17:46
Hvernig má tryggja almannahagsmuni og náttúrunnar?
Hvað þarf að gera ef að tryggja skal að almannahagsmunir og hagsmunir náttúrunnar njóti forgangs í kapphlaupinu um orkulindir þjóðarinnar?
A: Náttúruauðlindir í þjóðareign
1. Í fyrsta lagi þarf að setja lög um að náttúruauðlindir séu í þjóðareign. Nýtingarréttur á þeim verði háður auðlindagjaldi sem skiptist í tvennt. Annars vegar þarf sá sem ætlar að nýta sér auðlindina, að greiða þeim landeiganda sem á vatnið, heitt eða kalt, til raforkuframleiðslu eða annars, ákveðið afnotagjald. Það afnotagjald er hins vegar reiknað sem ákveðið hlutfall af heildarauðlindagjaldi fyrir leyfi þjóðarinnar til að nýta sér auðlindina. Auðlindagjaldið rennur í sameiginlega auðlindasjóð þjóðarinnar sem m.a. sér um varðveislu auðlindarinnar og náttúrunnar. Þannig verður gjald t.d. fyrir vatnsréttindi því tvenns konar. Fyrst er reiknað hversu mikils þau eru metin í fjármunum, sem er heildarauðlindagjaldið. Ákveðið hlutfall af því rennur til landeiganda, en bróurparturinn til þjóðarinnar.
2. Breyta þarf vatnalögum til samræmis, afnotaréttur tryggður en ekki eignarréttur. Vatnalög falli undir umhverfisráðherra en ekki iðnaðarráðherra.
3. Breyta þarf lögum um auðlindir í jörðu á sama hátt. Þegar veittur er afnotaréttur er tryggilega gengið frá endurskoðunar- og uppsagnarákvæðum ef leyfishafi stendur ekki við gerða samninga.
B. Almannaveitur í höndum almennings
Sett verði lög um að almannaþjónusta sem byggir á náttúruauðlindum heitu og köldu vatni, þ.e. rafveitur, hitaveitur og vatnsveitur séu í höndum hins opinbera. Því þarf að endurskoða lög um vatnsveitur, hitaveitur og sérlög um orkuveitur. Tvennt kemur m.a. til skoðunar: Annars vegar að opinberum veitufyrirtækjum verði breytt á nýjan leik, úr hlutafélögum í opinber fyrirtæki. Að einkarétturinn fylgi aðeins opinberum fyrirtækjum og að þau hafi ekki heimild til framsals á honum til einkaaðila. Það hafi sér stoð, m.a. í lögum um náttúruauðlindir í þjóðareign. Hér má einnig minna á yfirlýsingu 14 félagasamtaka, nánast allra verkalýðsfélaga, umhverfissamtaka, þjóðkirkjunnar og fleiri þar sem skilmerkilega eru settir fram áhersluatriði sem þessi samtök telja mikilvæg í umgengni við vatn. Í yfirlýsingunni Vatn fyrir alla segir m.a. að ekki beri að meðhöndla vatn sem hverja aðra verslunarvöru og að vatnsveitur skuli reknar á félagslegum grunni. (Sjá: http://www.bsrb.is//page.asp?id=688 )
Ef að rekstrarform opinberra fyrirtækja þykir of svifaseint þá er hægt að bæta úr því með að setja sérstök lög um opinber hlutafélög, sem eru öflugri og lýðræðislegri en þau lög sem nú eru í gildi um opinber hlutafélög. Slíkt hlutafélag hefur lögvarinn einkarétt til að reka opinbera almannaþjónustu og getur um leið tekið þátt í útrás í formi dótturfélaga. Reynsla og þekking er það sem menn hafa með sér í farteskinu til útlanda, ekki vatn í pípum eða rafmagn í leiðslum. Ef að það félag veitir ekki tekjum af einkaleyfisrekstri inn í útrásarfyrirtækið er ekkert því til fyrirstöðu að þetta tvennt fari saman. Ekki þarf að óttast ESA eða ESB þess vegna.
C. Opinber fyrirtæki í einkarekstri?
Ferlið hefur verið þannig að opinberar veitur hafa haft einkarétt á nýtingu náttúruauðlinda til hagsmuna fyrir almenning. Þeim er síðan breytt í hlutafélög og oft gefið leyfi til framsals einkaréttarins til hlutafélagsins. Þegar aðrir aðilar kaupa sig síðan inn í hlutafélagið eignast þeir einkaréttinn sem upphaflega var veittur á þeim forsendum að hann væri í höndum opinberra aðila í almannaþjónustu. Greitt er fyrir áratuga uppbyggingu reynslu og kunnáttu og framtíðararð með eingreiðslu.
Nú er ég ekki einn þeirra sem álíta að um leið og glittir í einhvern aur eða möguleika á að starfsemi hins opinbera geti verið arðsöm, að þá eigi hið opinbera með hið sama að afsala sér þeim tekjum, sem nýta má til uppbyggingar velferðarsamfélagsins, í hendur einkafyrirtækja og valinna gulldrengja. Ég tel eðlilegt að hið opinbera sem hefur byggt upp þekkinguna í orkugeiranum og hefur reynsluna, tækin og tólin, njóti þess, enda eru það eldri og yngri kynslóðir almennings, sem hafa greitt fyrir þessa þekkingu og uppbyggingu með sköttum sínum, sem munu þá njóta þess. En ef að hið opinbera fer í slíkan rekstur, sem kann að vera utan hefðbundins rekstrarsviðs þess, að þá á auðvitað að nýta þá kosti sem opinber rekstur hefur umfram einkarekstur og öll stjórnsýsla og framvinda á að vera opin og almenningi ljós. Ég er hér að tala um verkefni eins og djúpboranirnar, jarðhitaverkefni OR í gegnum Enex o.s.frv. Samstarf hins opinbera við einkafyrirtæki í slíkum verkefnum þarf að ræða, ábyrgð og ákvarðanataka að vera skýr og ljóst að ekki komi til hagsmunaárekstra á öðrum sviðum.
Þessa dagana er rætt um það sem lausn á yfirstandandi vanda að skilja að grunnþjónustu og samkeppnisþjónustu. Þá er verið að tala um raforkuna, rétt eins og það sé orðið náttúrulögmál að hún sé samkeppnisþjónusta, en ekki eins og hart hafi verið tekist á um málið í Evrópu og að reynslan sýni að markaðskerfi fyrir raforku gangi ekki upp. Vatnsveitur og hitaveitur eigi hins vegar að vera í höndum almennings. Hér hefur verið sýnt fram á að það er ekki tryggt nema að núgildandi lögum sé breytt, sem sjálfsagt er að gera.
Hvað raforkuna varðar og útrásarfyrirtæki opinberra aðila varðar þá er sagt að skilja eigi það frá opinberum rekstri og selja til einkaaðila. Rafveita er almannaþjónusta ekki síður en vatnsveita. Við búum síðan við þá staðreynd að sameiginlegt raforkukerfi landsmanna hefur verið notað til að selja orku til erlendra álvera. Ekki er ástæða til að selja þann hluta raforkukerfisins.
Dótturfélög OR (og annarra) ætla síðan í útrás með áhættufé almennings í formi hlutafélaga og í slagtogi með einkafyrirtækjum. Ekkert er því til fyrirstöðu að almenningur eigi áfram hlut í slíkum fyrirtækjum. En ef að hið opinbera fer í slíkan rekstur, sem kann að vera utan hefðbundins rekstrarsviðs þess, að þá á auðvitað að nýta þá kosti sem opinber rekstur hefur umfram einkarekstur og öll stjórnsýsla og framvinda á að vera opin og almenningi ljós. Ég er hér að tala um verkefni eins og djúpboranirnar, jarðhitaverkefni OR í gegnum Enex o.s.frv. Samstarf hins opinbera við einkafyrirtæki í slíkum verkefnum þarf að ræða, ábyrgð og ákvarðanataka að vera skýr og ljóst að ekki komi til hagsmunaárekstra á öðrum sviðum.Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2007 | 17:28
Skipulagður glundroði í orkumálum
Svo virðist sem algjör glundroði ríki nú í vatns- og orkumálum, á örskömmu tíma hafa opinberar veitustofnanir efnt til samsláttar með einkafyrirtækjum og stofnað fyrirtæki sem eiga að leggja heiminn að fótum sér þegar kemur að framleiðslu vistvænnar orku. Á sama tíma hefur Geysir Green Energy keypt hlut í Hitaveitu Suðurnesja hf og síðan hefur Goldman Sachs bankinn keypt sig inn í Geysi og er þar með kominn með tangarhald á íslenskum náttúruaðlindum, sem HS hf fer með einkarétt á að nýta.
Við stöndum nú aðeins hársbreidd frá því að náttúruauðlindir þjóðarinnar og sú almannaþjónusta sem á þeim byggja, rafmagnsveitur, hitaveitur og vatnsveitur lendi í höndum einkaaðilia sem vilja fá beinharða peninga fyrir sinn snúð. Spurningin er hvort markaðurinn mun taka hér öll völd og eignir af landsmönnum, eða hvort spyrnt verði við fótum.
En þessi glundroði er ekki eins tilviljanakenndur eins og mönnum gæti virst nú um stundir. Hér hefur Framsóknarflokkurinn með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar og Sjálfstæðisflokkur unnið markvisst að því að þessi staða komi upp. Öll áhersla hefur verið á hugmyndafræðilegri markaðsvæðingu, þörfum markaðarins og drottnunarvaldi eignarréttarins, en almannahagsmunir og nátturuvernd hafa mátt missa sín.
RaforkukerfiðFyrrverandi ríkisstjórn gekkst fyrir innleiðingu á raforkutilskipun ESB, (Raforkulög mars 2003) þrátt fyrir að þess væri ekki þörf og þrátt fyrir varnaðarorð fjölmargra aðila sem báru almannahagsmuni fyrir brjósti. Þessi varnaðarorð hafa því miður reynst sönn. Í kjölfarið var reynt að koma á markaðsfyrirkomulagi með raforku, sala og framleiðsla átti að vera frjáls og í samkeppni, dreifing skyldi háð sérleyfum og grunnetið sett í hendur fyrirtæki sem væri óháð aðilum í sölu og framleiðslu raforku. Hverjir eiga Landsnet í dag? Eigendur Landsnets hf. eru Landsvirkjun , Rafmagnsveitur ríkisins og Orkubú Vestfjarða, en þessir aðilar hafa lagt flutningsvirki sín inn sem hlutafé í fyrirtækið. Ekki er hægt að segja að þessir eigendur séu óháðir framleiðendum rafmagns eða söluaðilum þess! Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja hafa ákveðið að leggja flutningsvirki sín ekki inn í fyrirtækið og mun Landsnet hf því leigja flutningsvirki þessara aðila eins og kveðið er á um í raforkulögunum.
Hver er staðan varðandi hitaveitur?
Ráðherra er heimilt að veita sveitarfélögum eða samtökum þeirra einkaleyfi, með þeim skilyrðum, sem lög þessi ákveða, til þess að starfrækja hitaveitur, sem annist dreifingu eða sölu heits vatns eða gufu til almenningsþarfa á tilteknu veitusvæði, frá jarðhitastöðvum eða hitunarstöðvum með öðrum orkugjafa. Þeir aðilar, sem nú hafa einkaleyfi til að starfrækja hitaveitu, skulu halda þeim rétti.
1)L. 53/1985, 2. gr.
[31. gr.]1) Einkaleyfi það, sem um ræðir í 27. gr.,2) getur sveitarfélag, með samþykki ráðherra, framselt einstaklingum eða félögum að einhverju eða öllu leyti um ákveðið tímabil í senn með þeim skilyrðum og kvöðum, sem ástæður þykja til.
Hver er staðan varðandi vatnsveitur?
2004 nr. 32 7. maí. Sveitarfélag hefur einkarétt á rekstri vatnsveitu og sölu vatns sem hún getur fullnægt innan staðarmarka sveitarfélagsins, sbr. þó ákvæði 3. og 4. mgr. 1. gr. Sveitarstjórn er heimilt að fela stofnun eða félagi, sem að meiri hluta er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga, skyldur sínar og réttindi samkvæmt þessum lögum.
Við ráðstöfun skv. 1. mgr. skal, eftir því sem við á, kveðið á um eignarrétt á stofnkerfi vatnsveitu, verð til notenda veitunnar, innlausnarrétt sveitarfélagsins á stofnkerfi og fastafjármunum vatnsveitunnar í samningi aðila auk annarra atriða sem sveitarstjórn telur nauðsynleg.
Sérlög.
Þá hafa verið sett ýmis sérlög sem hafa snúið upp á kerfið. Þannig setti ríkisstjón Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sérlög um Hitaveitu Suðurnesja og breytti henni í hlutafélag 2001. HS hf tók við einkarétti HS og Rafveitu Hafnarfjarðar til starfsrækslu hita- og/eða rafveitu og heimild var fyrir að önnur sveitarfélög gætu gengið í púkkið. Aldrei var nefndur sá möguleiki að einkafyrirtæki, hvað þá erlendir bankar gætu öðlast hlutdeild í einkaréttinum með þátttöku í hlutafélaginu.
Lög um Hitaveitu Suðurnesja 2001Heimilt er að sameina Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar og stofna hlutafélag um reksturinn er nefnist Hitaveita Suðurnesja hf. Ríkisstjórninni er heimilt að leggja hlutafélaginu til hlut ríkissjóðs í Hitaveitu Suðurnesja. 8. gr. Hitaveita Suðurnesja hf. tekur við einkarétti Hitaveitu Suðurnesja og Rafveitu Hafnarfjarðar til starfrækslu hita- og/eða rafveitu.
Iðnaðarráðherra veitir Hitaveitu Suðurnesja hf. einkaleyfi til starfrækslu hita- og rafveitu innan sveitarfélaga, sem aðild eiga að fyrirtækinu, eftir því sem um semst við einstök sveitarfélög og ríkissjóð um yfirtöku á veitukerfi þeirra. Stjórn hlutafélagsins setur gjaldskrá um verð á seldri orku til notenda þar sem m.a. skal gætt almennra arðsemissjónarmiða. Gjaldskrá öðlast eigi gildi fyrr en hún hefur verið staðfest af iðnaðarráðherra og birt í Stjórnartíðindum.
Þá hafa verið áttök á milli ráðuneyta þar sem Iðnaðarráðuneytið, undir forystu Valgerður, hefur með beitingu sérlaga lagt undir sig lögsögu með vatnsveitum, sem lögum samkvæmt heyrðu undir félagsmálaráðuneyti, enda heyra þær undir sveitarstjórnir (eða hafa gert það hingað til). Þannig setti Valgerður árið 2002, t.d. sérlög um Norðurorku hf. sem m.a. sá um vatnsveitu og færði undir iðnaðarráðuneytið. Norðurorka hf. tók við einkarétti Akureyrarbæjar og Norðurorku til starfrækslu hita- og rafveitu og yfirtók skyldu Akureyrarbæjar til starfrækslu vatnsveitu á Akureyri. Norðurorka hf. yfirtekur samninga sem Norðurorka hefur gert um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum. En svo virðist sem Valgerði hafi ekki nægilega gengið á hlut félagsmálaráðuneytisins, heldur setti hún inn í þessi sérlög ákvæði um sveitarfélög sérstaklega: Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Norðurorku hf. leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það. Hér er sveitarfélögum veitt sérstök heimild til að framselja veitur sínar til Norðurorku, þó svo að á þessum tíma hefðu þau enga heimild til slíks samkvæmt gildandi lögum um vatnsveitur! Síðan var hinu klassíska stílbragði beitt þegar kom að því að breyta lögum um vatnsveitur og staðhæft að þau lög væru ekki í samræmi við önnur lög á þessu sviði jafnvel þó svo að sérlögin um Norðurorku hefðu gengið í berhögg við gildandi lög. Svipaðri taktík var svo beitt í rökfærslum fyrir nauðsyn á að breyta Vatnalögunum frá 1923.
( Lög nr. 159 20. desember 2002. Lög um stofnun hlutafélags um Norðurorku. 1. gr. Heimilt er Akureyrarbæ að stofna hlutafélag um rekstur Norðurorku, er nefnist Norðurorka hf. Ákvæði 2. mgr. 14. gr., 1. mgr. 20. gr. og 2. tölul. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um innborgun hlutafjár og fjölda hluthafa í Norðurorku hf. Ákvæði 6. og 7. gr. laga nr. 2/1995 eiga ekki við um greiðslu hlutafjár.2. gr. Heimili Norðurorku hf. og varnarþing skulu vera á Akureyri, en heimilt skal vera að starfrækja útibú á öðrum stöðum. 3. gr. Tilgangur Norðurorku hf. er orkurannsóknir, vinnsla og framleiðsla raforku, varma og vatns og hvers konar annarra auðlinda, dreifing og sala afurða fyrirtækisins ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu eða búnað fyrirtækisins, sem og iðnþróun og nýsköpun af hverju tagi, ásamt annarri viðskipta- og fjármálastarfsemi samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni.
Norðurorku hf. er heimilt að standa að stofnun og gerast eignaraðili að öðrum félögum og fyrirtækjum. Tilgangi félagsins og verkefnum skal nánar lýst í samþykktum þess. Samþykktum félagsins má breyta á hluthafafundum samkvæmt almennum reglum.4. gr. Norðurorka hf. tekur við einkarétti Akureyrarbæjar og Norðurorku til starfrækslu hita- og rafveitu og yfirtekur skyldu Akureyrarbæjar til starfrækslu vatnsveitu á Akureyri. Norðurorka hf. yfirtekur samninga sem Norðurorka hefur gert um vatnssölu eða rekstur vatnsveitu í öðrum sveitarfélögum.
Heimilt er öðrum sveitarfélögum að framselja Norðurorku hf. leyfi og réttindi til reksturs veitna og dreifikerfa sinna ef samningar takast um það.
Aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Norðurorku hf. við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum.5. gr. Stjórn Norðurorku hf. setur gjaldskrár um verð á seldri orku og vatni til notenda. Gjaldskrár fyrir sölu á rafmagni og heitu vatni öðlast eigi gildi fyrr en þær hafa verið staðfestar af iðnaðarráðherra og birtar í Stjórnartíðindum. Gætt skal almennra arðsemissjónarmiða við setningu gjaldskrár.
Lög um Orkubú Vestfjarða 2001
Ríkisstjórninni er heimilt að standa að stofnun hlutafélags um rekstur Orkubús Vestfjarða, og að leggja til hlutafélagsins hlut ríkisins í sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða.
Orkubú Vestfjarða hf. heldur einkarétti þeim sem iðnaðarráðherra veitti sameignarfélaginu Orkubú Vestfjarða á grundvelli 6. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, sbr. þó 2. og 3. mgr. þessarar greinar.
Iðnaðarráðherra er heimilt, að fengnu áliti stjórnar Orkubús Vestfjarða hf., að ákveða að rekstur einstakra orkumannvirkja skuli vera undanþeginn einkarétti félagsins, svo sem bygging og rekstur mannvirkja til raforkudreifingar, jarðvarmaveitna og fjarvarmaveitna með kyndistöðvum innan þeirra sveitarfélaga sem þess óska.
Þeir aðrir sem reka orkumannvirki á starfssvæði Orkubús Vestfjarða hf. við gildistöku laga þessara skulu halda þeim rétti sínum
Auðlindir í jörðu 1998
Í lögum um auðlindir í jörðu frá 1998 segir: II. kafli. Eignarréttur að auðlindum.
3. gr. Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins,1) nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.
Með auðlindum er í lögum þessum átt við hvers konar frumefni, efnasambönd og orku sem vinna má úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunna að finnast við. Þetta þýðir að landeigandi, Jón bóndi í Hvammi, OR eða Goldman Sachs á einkaeignarrétt á grunnvatni, jarðhita eða málmum eða öðru, svo langt sem niður má ná. (Leiða þessi lög hjá sér m.a. þann augljósa vanda sem við blasir þegar heitt svæði er undir tveimur aðliggjandi jörðum, en borhola aðeins á öðru landinu.)
VatniðVatnalögum frá 1923 var breytt og ný lög taka að óbreyttu gildi 1. nóvember. Meginmálið var að afnotarétti landeiganda til nýtingar á vatni sem rennur á hans landareign þá stundina, var breytt í afdráttarlausan eignarrétt landeiganda á vatninu. Annars vegar var því haldið fram að þetta væri formsatriði og hins vegar var því haldið fram að þetta væri gert til að samræmis við önnur lög.
Lög um auðlindir í þjóðareign náðu einhverra hluta vegna ekki í gegn.
Þannig að það er engin tilviljun að þessi staða er komin upp. Spurningin er hins vegar sú hvort þjóðin sé sátt við þessa stöðu. Hér hafa skarast réttindi sem veitt eru úr tveimur áttum, réttindi er snúa að rétti fyrirtækja og eignarrétti sem notið hafa forgangs og svo réttinda sem eru veitt og snúa að hagsmunum almennings og nátturunnar sem hafa verið látin sitja á hakanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.9.2007 | 11:44
Hver ber ábyrgð á og áhættuna af djúpborunarverkefninu?
Ég velti því fyrir mér í síðustu færslu hvort djúpboranaverkefnið hefði farið í útboð innan EES. Nú hef ég það fyrir satt frá æðstu stöðum, "straight from the horses mouth" eins og sagt er ef menn vilja sletta, að svo hafi verið. Eitt tilboð mun hafa borist. Þá hefur því formsatriði verið fullnægt og er það vel.
Eftir standa hins vegar veigameiri spurningar um ákvarðanatöku og ábyrgðir. Ætla orkuveiturnar þrjár, Alcoa og aðrir meðreiðarsveinar að stofna sameiginlegt fyrirtæki um djúpboranirnar? Þar sem Landsvirkjun sér um framkvæmdina og gerir samninga f.h. hinna að því virðist, tekur það fyrirtæki á sig skellinn ef illa fer? Það er viðurkennt að hér eru um sérstaklega áhættumikið fyrirtæki að ræða, þ.e. líkurnar á að það mistakist og fjármunir fari í súginn eru mjög miklar. Hvernig er samningum milli þessara opinberu fyrirtækja og einkafyrirtækja eiginlega háttað? Það kunna að vera við þessum spurningum einföld svör og er þá væntanlega einfalt að fá þau fram.
Og þá stendur spurningin: Stóð stjórn Landsvirkjun og Orkuveitunnar að þessum samningum eða voru það bara forstjórarnir? Hefði kannski verið eðlilegt að alþingi og borgarstjórn hefðu fjallað um málið? Nú mun iðnaðarráðherra, í sínu fyrra lífi sem óbreyttur þingmaður, hafa borið fram þingsályktunartillögu fyrir einhverjum misserum um djúpboranir og er því sannanlega áhugamaður fyrir sinn eiginn hatt um slíkar framkvæmdir. Þarna er því gamall draumur hans hugsanlega að rætast, en spurningin er eftir sem áður; hver veitti Landsvirkjun og OR heimild til þessa áhættureksturs?
Nú er ég ekki einn þeirra sem álíta að um leið og glittir í einhvern aur eða möguleika á að starfsemi hins opinbera geti verið arðsöm, að þá eigi hið opinbera með hið sama að afsala sér þeim tekjum, sem nýta má til uppbyggingar velferðarsamfélagsins, í hendur einkafyrirtækja og valinna gulldrengja. Ég tel eðlilegt að hið opinbera sem hefur byggt upp þekkinguna í orkugeiranum og hefur reynsluna, tækin og tólin, njóti þess, enda eru það eldri og yngri kynslóðir almennings, sem hafa greitt fyrir þessa þekkingu og uppbyggingu með sköttum sínum, sem munu þá njóta þess.
En ef að hið opinbera fer í slíkan rekstur, sem kann að vera utan hefðbundins rekstrarsviðs þess, að þá á auðvitað að nýta þá kosti sem opinber rekstur hefur umfram einkarekstur og öll stjórnsýsla og framvinda á að vera opin og almenningi ljós. Ég er hér að tala um verkefni eins og djúpboranirnar, jarðhitaverkefni OR í gegnum Enex o.s.frv. Samstarf hins opinbera við einkafyrirtæki í slíkum verkefnum þarf að ræða, ábyrgð og ákvarðanataka að vera skýr og ljóst að ekki komi til hagsmunaárekstra á öðrum sviðum.
Og þá hljóta landsmenn að spyrja sig að því hversu eðlilegt það er að Landsvirkjun og Alcoa spyrði saman fjárhagslega hagsmuni sína með þessum hætti? Það kann að vera að forráðamenn LV og Alcoa séu orðnir meira en málkunnugir og telji sig hafa sameiginlega hagsmuni hvað varðar sölu og kaup á rafmagni og lukkulegan rekstur á álverinu, en þá er spurningin hvort að það sé á þann vinskap og sameiginlega hagsmunasýn bætandi. Þarf hugsanlega að herða eftirlit með stjórnun fyrirtækisins með almannahagsmuni í huga?
Þegar kemur hins vegar að rekstri almenningsveitna, hvort sem er hitaveitna, vatnsveitna eða rafmagsveitna, þá sýna raunveruleg dæmi utan úr heimi, að þær eru best komnar í höndum opinberra aðila. Og þá er verið að horfa til raunverulegra hluta eins og rekstrarkostnaðar, afhendingaröryggis og kostnaðar fyrir notendur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í opnugrein í Morgunblaðinu í dag 12. september er fjallað í upptendruðum stíl um möguleika djúpborana. Íslendingar eru í algjörum fararbroddi, segir félagi Össur innblásinn af áhuga sessunauta sinna á blaðamannafundinum, en það voru forsvarsmenn Landsvirkjunar, OR, Hitaveitu Suðurnesja, auk þess sem fyrirtækið Alcoa hafði náð að skjóta sér inn fyrir þröskuldinn. Þessir aðilar ætla í sameiningu að leggja opinbert fé í það sem eini maðurinn sem veit eitthvað um hvaða ævintýri er verið að leggja út í, Guðmundur Ómar Friðleifsson, jarðvísindamaður og formaður djúprýnihóps, segir vera gríðarlegt áhættufjármagn sem sett er í verkefnið og rétt að fólk átti sig á því. Meira um það síðar.
En það var annað atriði í fréttinni sem vakti hjá mér spurningar. Þar segir að það sé Landsvirkjun sem sjái um framkvæmdina, en fyrirtækið sé um þessar mundir að ljúka við gerð samnings við Jarðboranir hf. um borunina, auk þess sem efni til framkvæmda hefur verið pantað. Jarðboranir hf. sem eitt sinn voru í eigu ríkisins, eru nú í eigu Geysis Green Energy.
Spurningin sem vaknaði og ég varpa fram hér er hvort verksamningar Landsvirkjunar vegna borananna og innkaupa á efni hafi verið boðnir út á Evrópska efnahagssvæðinu eins og skylt er skv. lögum nr. 84 30. mars 2007 um Opinber innkaup, ef að upphæð samningsins er hærri en 10 milljónir? Ekki tókst mér að finna neinar upplýsingar um það útboð á vef LV , þar sem slíkar upplýsingar eiga að liggja frammi. En kannski hefur mér yfirsést?
Landvirkjun og Alcoa í einni sæng hagsmunaárekstur?
Eða eru þessir aðilar búnir að stofna nýtt fyrirtæki um djúpboranaverkefnið, þar sem saman fara þá hagsmunir íslenskra orkufyrirtækja og Alcoa? Ef svo er breytir það í fyrsta lagi einhverju um að allir verksamningar og innkaup falla undir opinber innkaup, þar sem meirihluti fyrirtækjanna eru opinberir aðilar skv. skilgreiningu laganna og hins vegar, leiðir ekki af stofnun slíks sameiginlegs fyrirtækis þessara aðila um djúpboranir beinn hagsmunaárekstur Landsvirkjunar og Alcoa þegar kemur að raforkusölusamningum vegna álvera á Íslandi?
Hafi boranirnar ekki verið boðnar út skv. lögum um opinber innkaup, er það ekki eitthvað sem ríkisstjórnin, Ríkisendurskoðun, eftirlitsstofnun EFTA, ESA og blaðamenn ættu að skoða? Það ætti alla vega að vera nóg til að fá Guðmund Þóroddson hjá OR til að staldra við. Ekki vill hann ganga á skjön við ESA, eða hvað?Og enn má spyrja: Ef að Landsvirkjun sér um framkvæmdina, tekur það fyrirtæki á sig skellinn ef illa fer? Stóð stjórn Landsvirkjun og Orkuveitunnar að þessum samningum eða voru það bara forstjórarnir? Hefði kannski verið eðilegt að alþingi og borgarstjórn hefðu fjallað um málið? En um þessi atriði og mörg önnur hjóta íslenskir blaðamenn auðvitað að spyrja áður en dagur rennur.
Nokkur atriði úr lögum um opinber innkaup:
3.gr. Opinberir aðilar sem lögin taka til.Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2.mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefurverið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemisem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þessskal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:a. Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirraeða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnaðríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnunnemur meira en 50% af árlegum rekstrarkostnaði.b. Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.c. Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberiraðilar skipa að meiri hluta.Lög þessi taka til skriflegra samninga um fjárhagslegt endurgjald sem einn eða fleiri kaupendur skv. 3. gr. gera við eitt eða fleiri fyrirtæki og hafa að markmiði framkvæmd verks, sölu vara eða veitingu þjónustu í skilningi laganna.
20. gr. Viðmiðunarfjárhæðir.
Öll innkaup á vörum yfir 5.000.000 kr. og kaup á þjónustu og verkum yfir 10.000.000 kr. skal bjóða út eða gera í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í V. kafla.
Gæta skal jafnræðis og gagnsæis við opinber innkaup. Óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2007 | 17:06
Peningana eða lífið? Valkostir OR í útrásinni.
Reykjavik Energy Invest, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hefur lýst sig reiðubúið að leggja fram fimmtíu þúsund milljónir króna til útrásarverkefna út í hinum stóra heimi. (http://www.visir.is/article/20070911/FRETTIR01/70911075) Þar af ætlar Orkuveita Reykjavíkur að leggja til 40% eða 20 milljarða króna sem kjölfestufjárfestir. Þetta eru ekki litlir fjármunir sem Guðmundur Þóroddsson ætlar að draga upp úr sameiginlegum sjóðum Reykjvíkinga og gæti borgarstjórn Reykjavíkur með Villa borgarstjóra og Binga í fararbroddi væntanlega nýtt einhvern hluta af þeim til að hækka laun ummönnunarstétta á launaskrá sinni. Og þar með mannað barnaheimilin þannig að foreldrar barna komist í vinnuna, starfsfólk fái mannsæmandi laun og börnin góða umönnun. Eða kannski Guðmundur hafi hugsað sér að Orkuveitan taki þetta að láni og væri þá fróðlegt að fá að vita hvað breytingin á OR úr sameignarfélagi í hlutafélag mun kosta okkur eigendur OR og Reykjavik Energy Invest vegna hækkaðra lántökugjalda hlutafélagsins?
Þrátt fyrir tal um umhverfisvæna útrás, mannkyninu til góða, þá er þetta allt gert til þess að græða á því. Bjarni Ármannsson, Guðmundur Þóroddsson, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Bingi ganga nú um blindaðir af dollaraglampanum í augunum. Það má benda þeim félögum á aðra útrásarmöguleika fyrir Orkuveitu Reykjavíkur sem liggja beint við OR og spyrja hvort stjórn OR væri ekki hugsanlega tilbúin til að leggja samsvarandi fjármuni í það verkefni? Hér er um að ræða nýtt verkefni á vegum Sameinuðu þjóðanna og miðar að því að ná settum þúsaldarmarkmiðum S.þ. sem ríkisstjórn Íslands hefur m.a. skuldbundið sig til að vinna að. Verkefnið er að reyna að leysa vatnsvanda milljarðs karla, kvenna og barna og gengur einfaldlega út á að öflugar og ríkar opinberar vatnsveitur, eins og Orkuveita Reykjavíkur eða Hitaveita Suðurnesja, efli samstarf við veikburða opinberar vatnsveitur annars staðar í heiminum. Hér er um að ræða samstarf og aðstoð á sviði tæknilegrar aðstoðar, skipulagningar og fjármagns ef vill. Það má ýmislegt gera fyrir 20 milljarða, hvað þá 50 milljarða. En það heldur ekki að kosta miklu til.
Þetta verkefni Sameinuðu þjóðanna er í burðarliðnum og er vistað hjá stofnunni UN-HABTAT. (sjá: http://www.bsrb.is/news.asp?id=682&news_ID=1271&type=one ) Það kallast Global Water Operators Partneship og byggir á þeirri staðreynd að 90% vatnsveitna er í opinberri eigu. Ef hægt er að bæta rekstur og skilvirkni hluta þeirra sem starfa við þröngan kost í hinum fátækari löndum, þá meta Sameinuðu þjóðirnar það nú sem einn helsta valkost við að leysa vatnsvanda heimsins. Sá vonarneisti sem það myndi kveikja í augum milljóna er mun fallegri en dollaraglampinn í augum núverandi ráðamanna OR og samstarfsfélaga þeirra úr fjármálastétt. Daglega deyja þúsundir vegna þess að aðgang að hreinu og ódýru vatni skortir.
Spurningin er því: Hvað kýs meirihlutinn í borgarstjórn og forystumenn OR: Peningana eða lífið?
P.S. Einkafyrirtæki eru boðin velkomin í þetta verkefni en með þeim skilyrðum þó að þau taki þátt án þess að að gera kröfur um gróða. Það hefur nefnilega komið í ljós að einkafyrirtæki eru alls ófær um að leysa vatnsvandann. Þau sinna nefnilega bara þeim sem geta borgað. Hitt fólkið þjónusta þau ekki.
Bjarni Ármannsson stjórnarformaður Reykjavik Energy Invest | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.9.2007 | 00:09
Síðasta kvöldmáltíðin
Jesú kom þreyttur heim að kvöldi, eftir erfiðan dag, fundastúss og ýmsa kraftaverkavinnu. Bjóst hann við að hitta postulana í svipuðum gír, maulandi fátæklegar brauðskorpur og áhyggjufulla yfir flóknu ástandi heimsmálanna. Þess vegna rak hann upp stór augu þegar hann gekk inn um dyrnar og sá að þeir voru allir hinir kátustu og snæddu heimsendan Kínamat. Sneri hann sér að Mattheusi sem næstur sat og spurði furðu lostinn hvað gengi eiginlega á? Það kom fát á Mattheus þegar hann sá framan í meistarann, en loks stamaði hann rjóður í framan: "Ja, ég veit nú ekki alveg, en það virðist sem að Júdas hafi einhvers staðar komist yfir einhverja aura!"
Þennan á Billy Connally. En snúningur Jóns Gnarr er alveg ágætur líka...er þetta ekki líka alveg í takt við kristilegan áhuga hans? Hvað skyldi Síminn annars hafa borgað honum? Svona alveg í gríni sagt...
Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.9.2007 kl. 17:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.9.2007 | 16:44
Draumur Valgerðar að verða að veruleika?
Það er margt sem veldur heilabrotum vegna hlutafélagavæðingar OR. Meginrökin sem hafa verið færð fram eru eftirfarandi: Borgarsjóður losnar undan ábyrgð lána. Minni skattur greiddur af OR sem hlutafélagi (18%) en þegar það er sameignarfélag (26%). Auðveldara sé að OR sé hlutafélag þar sem fyrirtækið ætli sér í útrás á samkeppnismarkaði. Loks er nefnd væntanleg eða öllu heldur hugsanleg kæra eftirlitsstofnunar EFTA vegna þess að fyrirtækið njóti ábyrgðar eiganda sinna á lánum sem leiði til ójafnrar samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.
Það er ósköp eðlilegt að opinberir aðilar, hvort sem er ríki eða sveitarfélög eða stofnanir og fyrirtæki þeirra, njóti betri kjara á lánum hjá lánastofnunum, enda eru slík lán mun tryggari en lán sem einkafyrirtæki taka. Þessara kjara njóta allir íbúar samfélagsins í raun í formi lægri tilkostnaðar samfélagsins. Þessi staðreynd er hins vegar einkafyrirtækjum mikill þyrnir í augum og kæra þau iðulega til eftirlitsstofnana. Þessir átakapunktar eru hins vegar ein birtingarmynd helstu átaka sem eiga sér stað í nútímanum, viljum við samfélag með velferðarþjónustu þar sem opinberar stofnanir og fyrirtæki hafa frelsi á við það sem einkaðilar krefjast, til að veita samborgurunum góða þjónustu, eða viljum búa á markaði þar sem lög og reglur fjármagnins eru þær einu sem gilda? Og opinber þjónusta er sett í spennitreyju sem spunnin er af kröfum markaðins? Um það verður ekki fjallað frekar að sinni, en minnt á að þær reglur sem eftirlitsstofnanir starfa eftir eru alls ekki óumdeilanlegar.
Ef hærra skatthlutfall á sameignarfélögum en hlutafélögum er talið óeðlilegt má taka það til skoðunar undir skattalögum. Það er ekki sjálfstætt tilefni til að breyta OR í hlutafélag. Á hinn bóginn er það jákvætt ef fyrirtæki í eigu samfélagsins getur greitt í sameiginlega sjóði í formi skatta og ekki sérstakt keppikefli út frá sjónarhóli Reykvíkinga að OR borgi minna í samneysluna.
Röksemdin um að nauðsyn sé á að breyta OR í hlutafélag vegna þess að fyrirtækið ætli í útrás, gefur hins vegar tilefni til bollaleggina, þó svo henni sé einnig fljótsvarað: Það er ekkert í núverandi rekstrarformi OR sem hamlar útrás fyrirtækisins, enda er því heimilt að stofna og rekur í dag dótturfélög sem eru bæði í útrás og eru hlutafélög.
Guðlaugur Þór Þórðarson þáverandi stjórnarformaður OR lýsti því yfir í mars við stofnun Reykjavík Energy Invest, dótturfélags OR, að það útrásarfélag skyldi vera hlutafélag. (http://www.or.is/Forsida/Frettastofan/Nanar/1026 ) Þá fellur niður röksemdafærslan um að OR þurfi að vera hlutafélag til að geta tekið þátt í útrásinni með frjálsum hætti. Enda ekkert því til fyrirstöðu að dótturfélög OR séu hlutafélög í dag, sbr. Enex hf.
Hins vegar segir í reglugerð um OR að Við rekstur Orkuveitu Reykjavíkur skal þess gætt að samkeppnisrekstur sé ekki niðurgreiddur af einkaréttarstarfsemi eða verndaðri starfsemi. OR má sem sagt ekki notfæra sér einkarétt sinn á rafmagni, heitu og köldu vatni, til að efla útrásarstarfsemi dótturhlutafélags síns.
Hvers vegna er þá verið að breyta OR í hlutafélag? Til þess að selja fyrirtækið? Til þess að selja það að hluta til einkafyrirtæka? Í dag má OR bara sameinast sambærilegum rekstri sveitarfélags: Heimilt er að sameina Orkuveitu Reykjavíkur við sambærilega starfsemi annarra sveitarfélaga eða annarra opinberra aðila eða félaga í þeirra eigu. Fullyrðing Vilhjálms Egilsonar framkvæmdastjóra SA á RÚV í gær, (3. september) um að það mætti selja allan skrattann og þar með talið OR þó hún sé í formi sameignarfélags, er því misvísandi, það er mun auðveldara að selja OR eða hluta fyrirtækisins þegar það er orðið að hlutafélagi.
Og hvað verður þá um einkarétt OR færist hann án frekari umræðu yfir á einkafyrirtækin? (Sjá 5. gr. reglugerðar OR hér að neðan.) Þarf eigandinn, sem að stærstum hluta er Reykjavíkurborg, ekki að taka sjálfstæða ákvörðun um það meginatriði, að undangenginni ítarlegri umræðu í þjóðfélaginu?
Hefur einkarétturinn verið verðlagður í 300 milljarða ágiskun Hauks Leóssonar stjórnarformanns OR á virði fyrirtækisins, eða er bara verið að slá á fasteignir, veitukerfið, virkjanir, hús, viðskiptavild o.þ.h.? Eða er þetta útspil stjórnarformannins bara ætlað til að færa umræðuna til í huga almennings, að venja fólk við tilhugsunina um að OR verði seld og spila um leið á hversu mikill ágóði það yrði fyrir Reykvíkinga að fá þessa fjármuni, (sem þeir eiga sjálfir í dag,) í vasann. Það verða hins vegar aðrir sem munu stinga öllum framtíðararði af sölu á vatni, rafmagni og hita til fyrrum eiganda, okkar Reykvíkinga, í eigin vasa. Hverjir verða það? Það eru ekki neinir smákarlar sem reiða fram 300 milljarða króna, þó svo Kbbanki, Björgúlfur Thor og fleiri séu orðnir sleipir í að ná sér í eignir með skuldsettri yfirtöku, þ.e. borga smáupphæð út en setja eignir fyrirtækisins síðan að veði fyrir afganginum.
Eða gengur plottið lengra, er hugsunin að ýta á að öll einkaleyfi/einkaréttur verði felld niður? Að til verði frjáls markaður með vatn, hita og rafmagn á Reykjavíkursvæðinu þar sem að OR verði sjálfstætt hlutafélag og risi miðað við samkeppnisaðila? Og af því leiði síðan að fyrirtækinu OR hf verði frjálst að leggja til þá fjármuni sem sprottnir eru úr sameiginlegum sjóðum Reykvíkinga, í dótturfélag sitt Reykjavík Energy Invest, til að gambla með þá fjármuni að vild úti í hinum stóra heimi?
Það á að fara burt með pólitík út þessum rekstri OR, þar eiga bara að gilda rekstrarlegar forsendur, sagði Vilhjálmur Egilsson í sama spjalli í síðdegisútvarpi RÚV og áður var vitnað til. Pólitískar forsendur hafa hingað til þýtt að allir hafa átt rétt á heitu vatni til húshitunar, hreinu vatni til drykkjar og hreinlætis og rafmagns á viðráðanlegu verði. Og Orkuveitu Reykjavíkur hefur tekist mjög vel upp í rekstri sínum að uppfylla þessar grunnþarfir íbúanna og mannréttindi. Að taka tillit til rekstrarlegra forsendna þýðir hins vegar einfaldlega að það eru aðeins þeir sem borga uppsett gjald sem fá, hinir verða að éta það sem úti frýs.
Það er nefnilega grundvallarmunur á því hvort fyrirtæki er rekið í almannaþágu eða í ágóðaskyni fyrir hlutahafa sína. En hér virðumst við hins vegar vera að nálgast þá martröð að draumur Valgerðar um samkeppni á grunnþarfamarkaði sé að verða að veruleika.
Ítarefni:
Reglugerð um Orkuveitu Reykjavíkur 2006: Úr 5. gr.
Orkuveita Reykjavíkur hefur einkaleyfi til starfrækslu hitaveitu á eftirtöldum svæðum: Reykjavík, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Álftanes, Akranes, Borgarnes, Þorlákshöfn, Hveragerði, Stykkishólmur og Grundarfjörður.
Orkuveita Reykjavíkur hefur einkarétt til sölu og dreifingar rafmagns á eftirtöldum svæðum: Reykjavík, Mosfellsbær, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær norðan Hraunholtslækjar og Akranes.
Orkuveita Reykjavíkur ber skyldur Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Álftaness, Stykkishólms og Grundarfjarðar, til starfrækslu vatnsveitna í sveitarfélögunum og yfirtekur þá samninga sem sveitarfélögin hafa gert um vatnssölu til annarra sveitarfélaga. Ennfremur ber Orkuveita Reykjavíkur skyldur Borgarbyggðar til starfrækslu vatnsveitna í Borgarnesi og á Bifröst.
Orkuveita Reykjavíkur ber skyldur Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar vegna Borgarness, Bifrastar og Varmalands og Borgarfjarðarsveitar vegna Hvanneyrar og Reykholts til starfsrækslu fráveitna samkvæmt sérstöku samkomulagi við hvert sveitarfélag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2007 | 13:19
Gufubaðinu breytt í peningauppsprettu
Gufubaðið á Laugarvatni er einstakt í sinni röð og hefur alla tíð skipað sérstakan sess í mínum huga. Sjarmi þess er sérstæður og felst m.a. í þeirri sögu, menningu og hugsjón sem byggingin ber vott um. Hér var ekki byggt af stórum efnum né til þess að græða. Hér var fremur byggt til að efla samfélagsþjónustuna í sveitinni, samkenndina, til að efla heilbrigði og auka ánægju allra þeirra sem vildu nýta sér aðstöðuna. Sá einfaldleiki sem einkenndi gufubaðið á Laugavatni heillaði.
En nú er þessi saga og sérstaki andi að gufa upp. Peningamenn hafa tekið yfir og ný hugsun er ráðandi. Núverandi mannvirki verða rifin og byggð mun stærri aðstaða með tengingu við Laugarvatn. Þannig verður með góðu móti hægt að taka á móti ríflega hundrað gestum í einu, segir í fréttinni.
Einhvern veginn hefði mér fundist sjáfgefið að gufubaðið á Laugarvatni nyti verndar sem menningarleg og söguleg bygging. Ekki þekki ég söguna nógu vel til að vita hvort það hafi verið tekist á um það, en á því virðist ekki örla í dag. Nú á bara rífa allt heila gillið. Til þess að það megi taka á móti ríflega hundrað gestum! Hverjum finnst akkur í því? Það hefur oft verið þröngt setinn bekkurinn í gufubaðinu en aldrei hef ég orðið var við að einhver hafi þurft frá að hverfa, þegar ég hef átt þar leið um. Og þröngt mega sáttir sitja. En að sjálfsögðu líta peningamenn öðrum augum á málið. Þeirra hagur er að geta rukkað sem flesta um sem mest.
Bláa lónið hefur tekið yfir reksturinn þannig að landsmenn sem hafa notið hins einfalda, litla og fallega gufubaðs, mega nú eiga von á að peningamenn aki þangað erlendum túristum í rútuvís til að njóta nýju "heilsulindarinnar". Það passar inn í hefðbundna peningaplokkshringinn, Bláa lónið, Gullfoss og Geysir. Gufubaðið á að verða peningauppspretta. Og það verð ég að segja að eigi Bláa lónið að vera fyrirmyndin eru það slæm skipti. Þar mun aldrei nást að myndast nein saga, aldrei nein stemmning. Þar er bara hugsað um að reka túrista hratt í gegn og rýja þá eins og hverja aðra sauði. Það kann að vera að gufubaðið á Laugarvatni hafi verið orðið hrörlegt. En það var aldrei "skítugt".
Mér finnst þetta vera synd og skömm.
Framkvæmdir við heilsulind á Laugarvatni hefjast í ágúst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2007 | 11:14
Sjóriða utanríkisráðherra
Féagi Einar Ólafsson er byrjaður að tjá sig í bloggheimum og er af því góður fengur. Hvet ég hina dyggu lesendur þessarar síðu til að bæta bloggi Einars yfir skyldulesningu dagsins. (sjá http://einarolafsson.blog.is/blog/einarolafsson/entry/231555/)
Þar skrifar hann m.a. um svör utanríkisráðherra Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur um heimildir, sem fyrri ríkisstjórn veitti til að bandarísk stjórnvöld mættu nýta íslenska lögsögu, lofthelgi og flugvelli til flutninga vegna innrásarstríðsins í Írak, hvort þær hefðu verið teknar aftur eða til stæði að afturkalla þær.
Svar utanríkisráðherra var svohljóðandi: Eftir því sem mér er best kunnugt voru þessar heimildir veittar þegar Íslendingar studdu innrásina í Írak og voru þá í gildi um ákveðinn tíma en slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur. Það eru auðvitað breyttar aðstæður líka í Keflavík eftir að herinn hvarf af landi brott og nú mun það vera til sérstakrar skoðunar hvernig slíkum heimildum verði háttað í framtíðinni.
Um þetta svar ISG lét ég eftirfarandi orð falla á síðu Einars:
Eitthvað finnst manni þetta furðulegt orðaval hjá yfirmanni utanríkismála - "Eftir því sem mér er best kunnugt...." Gæti þetta kannski verið misskilningur hjá henni, á annað eftir að koma í ljós við nánari eftirgrennslan? Seinni hluti setningarinnar hljómar hins vegar afdráttarlaus og ber að fagna: "...en slíkar heimildir eru ekki í gildi lengur."
Hins vegar fær Ingibjörg Sólrún aftur sjóriðu þegar í næstu setningu. "....mun það vera til sérstakrar skoðunar hvernig slíkum heimildum verði háttað í framtíðinni." Bíðum við, - til skoðunar hjá hverjum? Er hún sem utanríkisráðherra ekki þátttakandi í þeirri skoðun? "Mun það vera til skoðunar..." Er það heldur ekki alveg fullvíst? Hverjir eru það sem véla um þær heimildir? Geir Haarde og Bandaríkjamenn, eða hvað?
Sá vandræðagangur sem er á Samfylkingunni út af Íraksstríðinu birtist í þessu svari - þó auðvitað beri að fagna því að við veitum ekki Bandaríkjamönnum lengur heimild til að flytja tól til drápa í Írak um Keflavík - þ.e.a.s. ef það er þá alveg fullvíst!